• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
30
Nov

VLFA skorar á HB Granda að greiða starfsmönnum sínum álíka uppbót og Samherjamenn

Það er óhætt að segja að starfsmenn Samherja geti glaðst um þessar mundir í ljósi þess að fyrirtækið hefur nú tilkynnt starfsmönnum að það ætli enn eitt árið að greiða þeim jólaumbun sem nemur tæpum 400.000 krónum. Samherji hefur verið iðinn við að láta starfsmenn sína njóta góðrar afkomu fyrirtækisins á liðnum árum og hefur fyrirtækið nú greitt hverjum starfsmanni 810.000 krónur umfram þá kjarasamninga sem undirritaðir voru í maí í fyrra. Á síðustu 4 árum hefur fyrirtækið greitt hverjum starfsmanni upp undir 1,5 milljón umfram gildandi kjarasamninga.

Samherji er ekki eina fyrirtækið sem hefur látið starfsmenn sína njóta góðrar afkomu í sjávarútvegi, en fyrirtæki eins og Eskja, Vinnslustöðin, Brim og fleiri hafa gert slíkt hið sama. En því miður hefur eitt stærsta sjávarútvegsfyrirtækið hér á landi, HB Grandi sem er m.a. með starfsstöð hér á Akranesi, ekki séð sér fært að greiða starfsmönnum sínum slíkar greiðslar þrátt fyrir afar góða afkomu undanfarin ár vegna hagstæðs gengis útflutningsfyrirtækja. Fyrirtækið hefur skilað milljörðum í hagnað og greitt hundruði milljóna í arðgreiðslur til eigenda. Á þeirri forsendu er það þyngra en tárum taki að fyrirtækið hafi hingað til ekki verið tilbúið til að umbuna sínum starfsmönnum líkt og Samherji hefur gert ár eftir ár.

Hins vegar er sorglegt til þess að vita að þegar kjarasamningar voru lausir í fyrra þá barðist Verkalýðsfélag Akraness hart fyrir því að laun fiskvinnslufólks yrðu lagfærð og leiðrétt í ljósi þeirrar bláköldu staðreyndar að staða sjávarútvegsfyrirtækja er gríðarlega sterk um þessar mundir sökum hagstæðra ytri skilyrða, en  Alþýðusamband Íslands og Samtök atvinnulífsins komu í veg fyrir að þessi leiðrétting á launum fiskvinnslufólks yrði að veruleika. Enda gengu þeir frá kjarasamningum sem kváðu á um samræmda launastefnu þar sem ekki mátti taka tillit til sterkrar stöðu útflutningsfyrirtækja, þ.e.a.s. sjávarútvegsfyrirtækja. Rök Verkalýðsfélags Akranses voru ætíð þau að staða þessara fyrirtækja væri sterk og láta ætti fiskvinnslufólk njóta góðs af þessari sterku stöðu. Enda hefur það nú verið staðfest svo ekki verður um villst þegar horft er á þessar glæsilegu umframgreiðslur Samherja og annarra sterkra sjávarútvegsfyrirtækja. Þess vegna er það ömurlegt til þess að vita að svona sterk fyriræki eins og HB Grandi skuli skýla sér á bak við þennan kjarasamning sem gerður var í maí 2011 og láta ekki sína starfsmenn njóta góðs af góðri afkomu.

Verkalýðsfélag Akraness eygir þá von að forsvarsmenn og eigendur HB Granda fylgi nú þessu frábæra fordæmi Samherjamanna og greiði sínum starfsmönnum álíka upphæð. Formaður félagsins skrifaði í dag bréf til yfirstjórnar HB Granda og fór þess á leit við fyrirtækið að það myndi fylgja áðurnefndu fordæmi Samherjamanna og umbuna sínu góða starfsfólki fyrir góð störf í gegnum árin með álíka eingreiðslu og Samherjamenn hafa greitt sínu starfsfólki. Vonandi munu forsvarsmenn HB Granda taka jákvætt í þetta erindi, en þegar þessi orð eru skrifuð hefur ekkert svar borist við þessari beiðni.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image