• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
Fréttir

Fréttir

30
Mar

Verðlagsmál á sjávarafurðum verði rannsökuð opinberlega

Það er óhætt að segja að umfjöllun Kastljóss undanfarin kvöld um verðlagningu og verðmyndun á sjávarafurðum hafi vakið verðskuldaða athygli, enda komu þar fram alvarlegar ásakanir og athugasemdir um hvernig á þessum málum er haldið í íslenskum sjávarútvegi.

Formaður Sjómannasambandsins sagði m.a í þessari umfjöllun að verðmyndun á sjávarafurðum væri í molum, aðkoma sjómanna að verðmyndun væri engin og Verðlagsstofa skiptaverðs sem sér um að ákveða verð á botnfiski væri liðónýt og eftirlitið væri nánast ekkert.

Nú liggur fyrir að stór hluti þess sjávarafla sem veiddur er við Íslandsstrendur er á sömu hendi það er að segja veiðar, vinnsla og sala og það kom fram í umfjöllun Kastljóssins að útgerðin er að færa hagnaðinn af skipunum inn í vinnsluna til að koma sér hjá því að þurfa að greiða sjómönnunum hlutaskiptin. Þetta eru grafalvarlegar ásakanir sem þarna komu fram á hendur útgerðafyrirtækjum og þetta snýst alls ekki bara um að sjómenn séu ekki að fá rétt uppgert, heldur er hér um að ræða ef rétt reynist hagsmuni þjóðarinnar í heild sinni.

Allt á sömu hendi

Hvað þýðir það ef útgerðarfyrirtækin sem eru með veiðar, vinnslu og sölu á sömu hendi eins og t.d í uppsjávarveiðunum færa hagnaðinn í auknum mæli  inn í vinnsluna og greiða sjómönnum lægra fiskverð en þeim í raun ber? Jú, tekjur sjómanna verða lægri sem þýðir að ríkissjóður verður af tekjuskatti, sveitafélögin fá minni útsvarstekjur og hafnargjöld og síðan hefur þetta áhrif á auðlindagjaldið enda reiknast það út frá aflaverðmæti skipanna.

En eru útgerðafyrirtækin að færa hagnaðinn af skipunum inn í vinnsluna?  Já, það er æði margt sem bendir til þess að svo sé.  Ef litið er á nýlokna loðnuvertíð þá kemur í ljós að útgerðarmenn og framkvæmdastjóri LÍÚ tala um að vertíðin hafi skilað um 30 milljörðum í útflutningstekjur af tæplega 600 þúsund tonna loðnukvóta sem veiddur var á yfirstaðinni vertíð.  Einnig kom fram í viðtali á RUV við  Ingimund Ingimundarson hjá HB Granda að þumalputtareglan sé sú að 50 krónur fáist fyrir loðnukílóið að meðaltali og samtals hafi því loðnuvertíðin gefið um þrjátíu milljarða.

Þetta er afar athyglisvert því að þegar skoðað er hvað útgerðin var að borga skipunum fyrir hvert kíló þá kemur í ljós að það er að meðaltali í kringum 26 krónur að teknu tilliti til þess sem fer í bræðslu, frystingu og hrognatöku.  Þetta þýðir að aflaverðmæti skipana af 581 þúsund tonna veiði er 15,1 milljarður, en loðnuvertíðin gaf útgerðinni sem bæði á skipin og vinnsluna rúma 29 milljarða.  Með öðrum orðum þá er vinnslan að skila útgerðinni 14 milljörðum sem er álíka mikið og aflaverðmæti skipanna var. Formaður spyr, getur þetta staðist einhverja skoðun?  Hvernig má það vera að verðið til sjómanna sé einungis 26 krónur á kíló á meðan þeir geta selt það að jafnaði á 50 krónur. 

Formaður félagsins gerir sér algerlega grein fyrir því að það þarf að vera framlegð í vinnslunni en að vinnslan sé að skila nánast jafn miklu og aflaverðmæti skipanna stenst ekki nokkra skoðun að mínu áliti.

Formaður getur ekki séð annað en að útgerðin sé að færa hagnaðinn inní vinnsluna af skipunum til að komast hjá því að greiða hærri laun til sjómanna, sveitafélögum hærri hafnargjöld, ríkinu hærra auðlindagjald og þessu til viðbótar verða ríki og sveitarfélög af skattatekjum vegna þess að laun sjómanna verða lægri fyrir vikið.

Samningaviðræður hvað?

Í Kastljósþættinum var Friðrik J. Arngrímsson framkvæmdastjóri LÍÚ spurður hví Norðmenn gætu greitt rúmar 40 krónur fyrir loðnukílóið á meðan útgerðin hér á landi greiddi sínum skipum 26 krónur og einnig var Friðrik spyrður hvers vegna vinnslan hér væri að greiða erlendu skipunum langtum hærra verð en íslensku skipunum svo tugum prósenta munar.  Friðrik sagði að ástæðan fyrir hærra verði í Noregi væri sú að þar eru veiðar og vinnsla ekki á sömu hendi og því væri það verkefni útgerðarinnar að semja við sjómenn um verðið á hverjum tíma fyrir sig.  Málið er einfalt - í langflestum tilfellum fara engar samningaviðræður fram um verð heldur ákveður útgerðin þetta algerlega einhliða.

Það kemur skeyti um borð í skipin frá útgerðinni sem kveður á um verð. Þetta vita allir sem eru á þessum skipum en eðli málsins samkvæmt þora sjómenn ekki að andmæla þessu á nokkurn hátt af ótta við að vera sagt upp plássinu. Það er rétt að geta þess að þetta sama á við um makríl og síldveiðar á uppsjávarskipunum, ekki bara loðnuveiðarnar.  Það er morgunljóst í mínum huga að þessu fyrirkomulagi verður að breyta tafarlaust og það eiga að vera stéttarfélögin sem semja við útgerðirnar fyrir hönd sinna félagsmanna um fiskverð. Það er alla vega afar ójafn leikur að ætla sjómönnum að semja um fiskverð við sinn vinnuveitenda, því ef þeir eru óánægðir þá eiga þeir svo sannarlega á hættu á að verða reknir.

Formaður félagsins vil taka það skýrt fram að laun sjómanna eru mjög góð núna vegna stöðu íslensku krónunnar en þau hafa alls ekki alltaf verið það og nægir að fara aftur til ársins 2006 þegar gengi íslensku krónunnar var afar óhagstætt sjómönnum.

Þjóðarhagsmunir

Þetta snýst ekki eingöngu um laun sjómanna heldur þjóðarhagsmuni því með því að færa hagnaðinn frá skipunum yfir á vinnsluna er verið að hafa af samfélaginu öllu gríðarlegar upphæðir. Nú hefur verið lagt til á Alþingi að kannað verði hvaða áhrif fyrirhugað auðlindagjald hefur á bankakerfið. Í því samhengi telur formaður fulla ástæðu til að þessi verðlagsmál á sjávarafurðum verði rannsökuð opinberlega og það kannað hversu miklu þjóðarbúið tapar á því að útgerðin skuli færa hagnaðinn inn í vinnsluna til að koma sér hjá því að borga meira til þjóðarbúsins eins og áður hefur verið rakið.

28
Mar

Verðtryggingarvítisvélin að ganga af íslenskum heimilum dauðum

Í fréttum í fyrradag kom fram að ekki hafi náðst samstaða á Alþingi um að draga úr vægi verðtryggingarinnar á skuldsett heimili. Það er óhætt að segja að þetta séu sorgartíðindi, því það er alveg ljóst að verðtryggingarvítisvélin er að ganga af íslenskum heimilum dauðum. Nú síðast í morgun kom fram að verðbólgan hækkaði um 1,05% á milli mánaða og hefur verðbólgan á síðustu þremur mánuðum hækkað um 2,4%.

Í skýrslu Hagfræðistofnunar um skuldavanda heimilanna sem stjórnvöld létu gera á síðasta ári kom fram að heildar verðtryggðar skuldir heimilanna nema um 1.271 milljarði króna sem þýðir að þær hækkuðu á milli mánaða um 13,3 milljarða og frá áramótum hafa þær hækkað sem nemur 30,5 milljörðum, bara vegna verðtryggingarinnar.

Nú er nýlokinni einni albestu loðnuvertíð sem verið hefur við Íslandsstrendur í áratugi, en áætlað er að heildaraflaverðmætið hafi numið 30 milljörðum. Þetta er jafnhá upphæð og verðtryggðar skuldir íslenskra heimila hafa hækkað um á síðustu 3 mánuðum. Á þessu sést hvernig verðtryggingin leikur íslensk heimili miskunnarlaust, því er það algjörlega óásættanlegt að Alþingi Íslendinga ætli ekki að taka á þessum grímulausa óréttlæti sem íslensk heimili mega þola vegna verðtryggingarvítisvélarinnar.

27
Mar

Trúnaðarmannanámskeiði lokið

Mikil ánægja ríkti með Trúnaðarmannanámskeiðið sem lauk á föstudaginn síðastliðinn. Bæði höfðu kennarar orð á því hversu gríðarlega sterkur og góður hópur þetta væri og einnig var að heyra á nemendum að þeir hafi ekki síður verið ánægðir með góða og uppörvandi fræðslu.

Sterkir trúnaðarmenn eru ómetanlegir í starfi stéttarfélaganna, og kjarni þeirra er alltaf að þéttast og verða virkari. Stefnt er að því að halda framhaldsnámskeið í haust til að halda áfram á þessari braut.

27
Mar

Þeim fjölgar sem nota Félagavefinn

Umsóknir um dvöl í orlofshúsum félagsins í sumar streyma nú inn til skráningar á skrifstofu félagsins, en síðasti dagur til að skila umsókn er föstudagurinn 13. apríl. Um helmingur umsóknanna hafa nú þegar borist í gegnum Félagavefinn. Þetta er fagnaðarefni, því það verður að teljast jákvætt að félagsmenn nýti þennan kost eins og hægt er. Þeir sem nýta Félagavefinn á þennan hátt hafa betri yfirsýn yfir umsóknarferlið, geta séð strax og úthlutun er lokið hvort einhver vika hafi fallið í þeirra skaut og jafnvel greitt strax með korti á vefnum.

Þegar báðum úthlutunum er lokið um hádegisbil 4. maí geta félagsmenn bókað þær vikur sem ekki ganga út og gildir þá reglan - Fyrstir koma, fyrstir fá. Þeir sem nota Félagavefinn hafa ákveðið forskot, því þeirra sýn á lausar vikur er nákvæmlega sú sama og starfsfólk skrifstofu hefur. Á Félagavefnum er því mögulega hægt að sitja í þægindum heima hjá sér, en samt verða fyrstur allra að næla sér í álitlega viku.

22
Mar

Trúnaðarmannanámskeið

Þessa dagana sitja 8 trúnaðarmenn trúnaðarmannanámskeið í fundarsal félagsins að Sunnubraut 13, en samkvæmt kjarasamningum er trúnaðarmönnum heimilt að sækja slík námskeið í eina viku á ári án skerðingar á dagvinnulaunum. 

Markmið slíkra námskeiða er að styrkja og efla trúnaðarmenn í sínum störfum. Það er Félagsmálaskóli Alþýðu sem sér um skipulagningu og kennslu á námskeiðinu. Meðal annars er farið yfir hlutverk stéttarfélaga, hlutverk trúnaðarmannsins, farið yfir lög og kjarasamninga og íslenskan vinnurétt.

21
Mar

Búið að opna fyrir umsóknir um dvöl í orlofshúsum sumarið 2012!

Í vikunni mun orlofshúsabæklingur vegna sumarúthlutunar 2012 berast inn um lúgur félagsmanna Verkalýðsfélags Akraness. Frestur til að skila umsóknum er til 12. apríl. Umsóknum er hægt að skila á skrifstofu félagsins, eða á Félagavefnum (undir orlofshús - umsókn)

Í sumar verður sem fyrr boðið upp á dvöl í orlofshúsum félagsins í Húsafelli, Svínadal, Hraunborgum, Ölfusborgum, í þremur íbúðum á Akureyri og nýja bústaðnum í Kjós. Að auki hefur félagið tekið á leigu íbúð á Flateyri, og einn bústað í Úthlíð í Biskupstungum.

Úthlutun fer þannig fram að allar umsóknir eru skráðar inn í tölvukerfi félagsins. Kerfið raðar öllum umsóknum í röð eftir punktastöðu, þ.e. þeir umsækjendur sem flesta hafa punktana eru fremstir í röðinni og svo koll af kolli. Ef punktar tveggja eru jafnir fær sá úthlutað sem fyrr sótti um. Kerfið vinnur sig síðan í gegnum umsóknirnar og úthlutar vikum eftir punktastöðu. Þeir sem ekki fá úthlutað í fyrri úthlutun lenda sjálfkrafa í endurúthlutun þar sem þeim vikum er úthlutað sem ekki voru greiddar á eindaga fyrri úthlutunar. Leyfilegt er að breyta umsóknum fyrir endurúthlutun.

 

Helstu dagssetningar:

13. apríl - Frestur til að skila inn umsóknum um orlofshús

16. apríl - Fyrri úthlutun fer fram, allir umsækjendur fá svarbréf í pósti (einnig er hægt að sjá strax inni á félagavefnum)

02. maí  - Eindagi fyrri úthlutunar, þeim vikum sem ekki eru greiddar á eindaga er úthlutað aftur

04. maí  - Endurúthlutun fer fram, þeir sem fá úthlutað fá það staðfest með bréfi

04. maí - Kl. 12:00 - Fyrstir koma, fyrstir fá! Þeir sem fyrstir koma geta bókað lausar vikur (athugið að eftir eindaga endurúthlutunar getur lausum vikum fjölgað)

11. maí  - Eindagi endurúthlutunar 

Eins og áður verður hægt að kaupa Útilegukortið 2012, Veiðikortið 2012 og gistimiða á Hótel Eddu og Fosshótel með 50% afslætti á skrifstofu félagsins. Sala Veiðikortsins er þegar hafin, Útilegukortið er væntanlegt fljótlega, gistimiðar á Fosshótel eru fáanlegir allt árið um kring og gistimiðar á Edduhótel koma fljótlega.

20
Mar

Bónuskerfi Elkem Ísland svínvirkar

Verksmiðja Elkem Ísland á Grundartanga19. apríl í fyrra gekk Verkalýðsfélag Akraness frá kjarasamningi við Elkem Ísland en þetta var einn fyrsti samningurinn sem undirritaður var á hinum almenna vinnumarkaði á síðasta ári. Í þessum nýja samningi var tekið upp nýtt bónuskerfi sem hefur svo sannarlega verið að skila sínu en hámarksbónusinn var hækkaður úr 10% í 13,5%. Gamli bónusinn var að gefa að meðaltali 7,32% sem er um 73% af því sem hann gat gefið en þessi nýji er hinsvegar að gefa núna 11,39% eða sem nemur 84% af hámarkinu. Rétt er að geta þess að bónusinn leggst ofan á öll greidd laun að undanskildum orlofs- og desemberuppbótum.

Starfsmaður með 10 ára starfsaldur hjá Elkem Ísland er nú með í grunnlaun tæpar 240 þúsund krónur en heildarlaun með bónus og orlofs- og desemberuppbótum nema nú um 440 þúsund krónum. Rétt er að geta þess að vinnuskylda í stóriðjunum miðast við 156 klukkustundir en ekki 173,33 eins og gerist á hinum almenna vinnumarkaði en hér munar rúmum 17 klukkustundum. Það er afar ánægjulegt að sjá að þetta nýja bónuskerfi skuli virka jafn vel og nú hefur komið í ljós enda hafa bæði eigendur Elkem sem og starfsmenn mikla hagsmuni af því að bónuskerfið virki sem skyldi.  

15
Mar

Bjartara yfir atvinnulífinu á Akranesi

Iðnaðarsvæðið á Grundartanga heldur áfram að stækka þessi misserin en þónokkur fyrirtæki hafa nú bæst við þá starfsemi sem þar er en eins og flestir vita þá eru Norðurál og Elkem Ísland langstærstu fyrirtækin á þessu svæði um þessar mundir. Á liðnum misserum hafa fyrirtæki eins og Lífland, Hamar, Stálsmiðjan og Héðinn hafið starfsemi á Grundartangasvæðinu.

Núna er stálendurvinnslufyrirtækið GMR nýbyrjað uppbyggingu og er að koma sér fyrir á svæðinu og einnig eru fleiri fyrirtæki í startholunum með að hefja starfsemi á Grundartangasvæðinu. Það eru viss forréttindi fyrir okkur Skagamenn að hafa þetta svæði og þó vissulega sé atvinnuleysi á Akranesi of mikið þá er það mat formanns VLFA að atvinnuástandið á Akranesi sé mun betra en víðast hvar, þökk sé stóriðjusvæðinu á Grundartanga. Samkvæmt Gísla Gíslasyni, forstjóra Faxaflóahafna, þá hafa fjárfestingar á Grundartangasvæðinu frá árinu 2007 verið allt að 20 milljarðar króna sem sýnir svo ekki verður um villst þá miklu uppbyggingu sem nú á sér stað á svæðinu.

Það eru fleiri jákvæð tíðindi sem berast frá atvinnulífinu á Akranesi en skemmst er frá því að segja að fyrirtækið Skaginn gerði milljarða samning við færeyskt fyrirtæki sem mun skapa tugum manna störf til viðbótar. Einnig kom tilkynning um að SS verktakar hafi keypt vélar af þrotabúi vegna trésmiðjunnar TH ehf og hyggist endurvekja starfsemina í fyrra húsnæði fyrirtækisins. Væntanlega mun þetta skapa á annan tug nýrra starfa í þessu fyrirtæki. 

Og ekki má gleyma þeirri gríðarlegu loðnuvertíð sem nú er senn á enda en unnið hefur verið sleitulaust á vöktum við hrognatöku sem og við bræðslu en tugir manna hafa gegnt þessum störfum á liðnum vikum og er um umtalsvert uppgrip að ræða hjá þeim sem við þetta starfa.  

12
Mar

Framtalsaðstoð í fullum gangi

Frá árinu 2004 hefur félagsmönnum Verkalýðsfélags Akraness boðist ókeypis aðstoð við gerð einfaldra skattframtala á skrifstofu félagsins. Það er Björg Bjarnadóttir sem sér um þessa þjónustu.

Framtalsaðstoðin hófst í síðustu viku og verður í boði eins lengi og þörf er á, en síðasti dagur til að skila framtali er 22. mars. Þeir sem þurfa frest þurfa að sækja um hann á www.skattur.is og getur hann lengstur orðið til 27. mars.

Hægt er að bóka tíma í síma 430 9900.

09
Mar

Tekist hefur að tryggja starfsemi trésmiðjunnar á Akranesi á ný

Trésmiðjan TH ehf., sem var með höfuðstöðvar á Ísafirði og útibú á Akranesi, var tekin til gjaldþrotaskipta seint á síðasta ári og lagðist um leið af starfsemi fyrirtækisins. Trésmiðja Hnífsdals keypti fyrir nokkrum árum eignir þrotabús Trésmiðju Þráins Gíslasonar ehf. á Akranesi, en sú trésmiðja hafði m.a. tækjakost á landsvísu til innréttingasmíði.

Skiptastjóri þrotabús TH ehf. er Tryggvi Guðmundsson hdl. hjá PACTA lögmönnum á Ísafirði en honum til aðstoðar við ráðstöfun eigna þrotabúsins hefur verið Jón Haukur Hauksson lögmaður hjá PACTA á Akranesi. Eftir flókið söluferli og samningaviðræður hafa nú tekist samningar um sölu á vélum og tækjum þrotabúsins á Akranesi, eignum sem áður tilheyrðu Trésmiðju Þráins. Starfsemi mun því hefjast að nýju í húsunum á næstu dögum með fjölda starfsmanna.

Kaupandinn er félag í tengslum við SS verktaka ehf. en það fyrirtæki hefur töluvert starfað á Akranesi, byggði meðal annars Akraneshöllina, verslunarmiðstöðina við Þjóðbraut 1 og verslunar- og fjölbýlishúsið við Kirkjubraut 12. Að sögn skiptastjóra mun kaupandinn, auk þess að kaupa vélar og tæki, ganga frá leigu á verkstæðishúsi við Hafnarbraut og Vesturgötu af Byggðastofnun, með möguleika á kaupum í framtíðinni.

„Það er afar ánægjulegt að í þessu söluferli hefur með samvinnu þrotabúsins og veðhafa, m.a. Byggðastofnunar og Íslandsbanka f.h. Ergo fjármögnunar, tekist að tryggja áframhaldandi starfsemi trésmiðjunnar á Akranesi. Áður seldi þrotabú TH vélar og tæki í trésmiðjunni á Ísafirði, þar sem fyrrum starfsmenn keyptu og hafa þegar hafið starfsemi,“ segir Jón Haukur Hauksson lögfræðingur í samtali við Skessuhorn.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image