• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
Fréttir

Fréttir

20
Mar

Bónuskerfi Elkem Ísland svínvirkar

Verksmiðja Elkem Ísland á Grundartanga19. apríl í fyrra gekk Verkalýðsfélag Akraness frá kjarasamningi við Elkem Ísland en þetta var einn fyrsti samningurinn sem undirritaður var á hinum almenna vinnumarkaði á síðasta ári. Í þessum nýja samningi var tekið upp nýtt bónuskerfi sem hefur svo sannarlega verið að skila sínu en hámarksbónusinn var hækkaður úr 10% í 13,5%. Gamli bónusinn var að gefa að meðaltali 7,32% sem er um 73% af því sem hann gat gefið en þessi nýji er hinsvegar að gefa núna 11,39% eða sem nemur 84% af hámarkinu. Rétt er að geta þess að bónusinn leggst ofan á öll greidd laun að undanskildum orlofs- og desemberuppbótum.

Starfsmaður með 10 ára starfsaldur hjá Elkem Ísland er nú með í grunnlaun tæpar 240 þúsund krónur en heildarlaun með bónus og orlofs- og desemberuppbótum nema nú um 440 þúsund krónum. Rétt er að geta þess að vinnuskylda í stóriðjunum miðast við 156 klukkustundir en ekki 173,33 eins og gerist á hinum almenna vinnumarkaði en hér munar rúmum 17 klukkustundum. Það er afar ánægjulegt að sjá að þetta nýja bónuskerfi skuli virka jafn vel og nú hefur komið í ljós enda hafa bæði eigendur Elkem sem og starfsmenn mikla hagsmuni af því að bónuskerfið virki sem skyldi.  

15
Mar

Bjartara yfir atvinnulífinu á Akranesi

Iðnaðarsvæðið á Grundartanga heldur áfram að stækka þessi misserin en þónokkur fyrirtæki hafa nú bæst við þá starfsemi sem þar er en eins og flestir vita þá eru Norðurál og Elkem Ísland langstærstu fyrirtækin á þessu svæði um þessar mundir. Á liðnum misserum hafa fyrirtæki eins og Lífland, Hamar, Stálsmiðjan og Héðinn hafið starfsemi á Grundartangasvæðinu.

Núna er stálendurvinnslufyrirtækið GMR nýbyrjað uppbyggingu og er að koma sér fyrir á svæðinu og einnig eru fleiri fyrirtæki í startholunum með að hefja starfsemi á Grundartangasvæðinu. Það eru viss forréttindi fyrir okkur Skagamenn að hafa þetta svæði og þó vissulega sé atvinnuleysi á Akranesi of mikið þá er það mat formanns VLFA að atvinnuástandið á Akranesi sé mun betra en víðast hvar, þökk sé stóriðjusvæðinu á Grundartanga. Samkvæmt Gísla Gíslasyni, forstjóra Faxaflóahafna, þá hafa fjárfestingar á Grundartangasvæðinu frá árinu 2007 verið allt að 20 milljarðar króna sem sýnir svo ekki verður um villst þá miklu uppbyggingu sem nú á sér stað á svæðinu.

Það eru fleiri jákvæð tíðindi sem berast frá atvinnulífinu á Akranesi en skemmst er frá því að segja að fyrirtækið Skaginn gerði milljarða samning við færeyskt fyrirtæki sem mun skapa tugum manna störf til viðbótar. Einnig kom tilkynning um að SS verktakar hafi keypt vélar af þrotabúi vegna trésmiðjunnar TH ehf og hyggist endurvekja starfsemina í fyrra húsnæði fyrirtækisins. Væntanlega mun þetta skapa á annan tug nýrra starfa í þessu fyrirtæki. 

Og ekki má gleyma þeirri gríðarlegu loðnuvertíð sem nú er senn á enda en unnið hefur verið sleitulaust á vöktum við hrognatöku sem og við bræðslu en tugir manna hafa gegnt þessum störfum á liðnum vikum og er um umtalsvert uppgrip að ræða hjá þeim sem við þetta starfa.  

12
Mar

Framtalsaðstoð í fullum gangi

Frá árinu 2004 hefur félagsmönnum Verkalýðsfélags Akraness boðist ókeypis aðstoð við gerð einfaldra skattframtala á skrifstofu félagsins. Það er Björg Bjarnadóttir sem sér um þessa þjónustu.

Framtalsaðstoðin hófst í síðustu viku og verður í boði eins lengi og þörf er á, en síðasti dagur til að skila framtali er 22. mars. Þeir sem þurfa frest þurfa að sækja um hann á www.skattur.is og getur hann lengstur orðið til 27. mars.

Hægt er að bóka tíma í síma 430 9900.

09
Mar

Tekist hefur að tryggja starfsemi trésmiðjunnar á Akranesi á ný

Trésmiðjan TH ehf., sem var með höfuðstöðvar á Ísafirði og útibú á Akranesi, var tekin til gjaldþrotaskipta seint á síðasta ári og lagðist um leið af starfsemi fyrirtækisins. Trésmiðja Hnífsdals keypti fyrir nokkrum árum eignir þrotabús Trésmiðju Þráins Gíslasonar ehf. á Akranesi, en sú trésmiðja hafði m.a. tækjakost á landsvísu til innréttingasmíði.

Skiptastjóri þrotabús TH ehf. er Tryggvi Guðmundsson hdl. hjá PACTA lögmönnum á Ísafirði en honum til aðstoðar við ráðstöfun eigna þrotabúsins hefur verið Jón Haukur Hauksson lögmaður hjá PACTA á Akranesi. Eftir flókið söluferli og samningaviðræður hafa nú tekist samningar um sölu á vélum og tækjum þrotabúsins á Akranesi, eignum sem áður tilheyrðu Trésmiðju Þráins. Starfsemi mun því hefjast að nýju í húsunum á næstu dögum með fjölda starfsmanna.

Kaupandinn er félag í tengslum við SS verktaka ehf. en það fyrirtæki hefur töluvert starfað á Akranesi, byggði meðal annars Akraneshöllina, verslunarmiðstöðina við Þjóðbraut 1 og verslunar- og fjölbýlishúsið við Kirkjubraut 12. Að sögn skiptastjóra mun kaupandinn, auk þess að kaupa vélar og tæki, ganga frá leigu á verkstæðishúsi við Hafnarbraut og Vesturgötu af Byggðastofnun, með möguleika á kaupum í framtíðinni.

„Það er afar ánægjulegt að í þessu söluferli hefur með samvinnu þrotabúsins og veðhafa, m.a. Byggðastofnunar og Íslandsbanka f.h. Ergo fjármögnunar, tekist að tryggja áframhaldandi starfsemi trésmiðjunnar á Akranesi. Áður seldi þrotabú TH vélar og tæki í trésmiðjunni á Ísafirði, þar sem fyrrum starfsmenn keyptu og hafa þegar hafið starfsemi,“ segir Jón Haukur Hauksson lögfræðingur í samtali við Skessuhorn.

08
Mar

Galið kerfi: Meiri vinna - lægri ráðstöfunartekjur

Í vikunni leitaði félagsmaður til skrifstofu félagsins og sagði farir sínar ekki sléttar. Félagsmaðurinn vinnur við ræstingar í hlutastarfi og fær atvinnuleysisbætur á móti. Hún lýsti því þannig að í raun hefði hún minna á milli handanna núna en þegar hún var á fullum atvinnuleysisbótum. Við nánari skoðun hefur nú komið í ljós að vegna breytinga á vinnureglum Vinnumálastofnunar nú um áramótin hefur myndast stór galli í kerfinu sem gerir einmitt þetta að verkum. Þessi kona, sem reynir hvað hún getur að bæta lífsgæði sín með því að vinna hlutastarf eins og henni býðst, hefur lægri mánaðartekjur en sá sem er á fullum atvinnuleysisbótum.

Um áramótin breyttust vinnureglur Vinnumálastofnunar þannig að sá sem er í hlutastarfi og fær greiddar atvinnuleysisbætur á móti má aðeins þéna að hámarki kr. 59.047 í sínu hlutastarfi óháð því hvert starfshlutfallið er. Séu vinnulaun hærri en sem nemur þessu frítekjumarki skerðst bætur um 50% af þeirri upphæð sem umfram er.

Til að setja þetta í samhengi má setja upp dæmi um einstakling sem verið hefur á fullum atvinnuleysisbótum tekur tilboði um 50% hlutastarf:

-Laun fyrir 100% starf á vinnustað hans er kr. 196.000 á mánuði, 50% starfið gerir því kr. 98.000 á mánuði.

-Fullar atvinnuleysisbætur eru kr. 167.176 á mánuði, upphæð 50% atvinnuleysisbóta er því kr. 83.588.

-Laun þessa einstaklings fyrir 50% vinnu eru 38.953 kr. yfir frítekjumarki. Atvinnuleysisbætur skerðast um 50% þeirrar upphæðar eða um kr. 19.476.

-Eftir mánuðinn hefur þessi einstaklingur því 98.000 kr. í vinnulaun og 64.112 kr. í atvinnuleysisbætur eða samtals 162.112 kr. sem er rúmum 5.000 krónum lægri upphæð en sem nemur fullum atvinnuleysisbótum.

Sé þetta dæmi skoðað nánar kemur í ljós að fái þessi einstaklingur starfshlutfallið aukið upp í 75% þá versnar hagur hans enn frekar því þá fengi hann 147.000 kr. í vinnulaun sem er 87.953 kr. yfir frítekjumarki. Upphæð 25% atvinnuleysisbóta er kr. 41.794 og skerðingin myndi þurrka þær alveg út og gott betur. Þessi einstaklingur hefði því 147.000 kr. í brúttótekjur á mánuði fyrir 75% starf. Það er 15.112 kr. minna á mánuði en meðan hann hafði 50% starf og 20.176 kr. minna en meðan hann var með 100% atvinnuleysisbætur.

Á þessu dæmi sést að eftir því sem starfsmaðurinn vinnur meira, minnka ráðstöfunartekjur hans milli mánaða. Það er ekki fyrr en hann fær 85% vinnu á þessum vinnustað að hann jafnar atvinnuleysisbæturnar og í raun hefur hann engan hag af því að taka að sér minna starfshlutfall en það. Hann tapar á því.

Í þessu dæmi er starfsmaðurinn á lágmarkslaunum. Séu launin eitthvað hærri, þá falla atvinnuleysisbætur niður miklu fyrr, sem ætti ekki að vera óeðlilegt í sjálfu sér, nema fyrir þær sakir að vegna þessa kerfisgalla þá gerist það svo harkalega og við svo lágt starfshlutfall að hvatinn til að taka hlutastarfi er enginn.

Það hlýtur þó að vera hagur Vinnumálastofnunar og samfélagsins í heild sinni að sem flestir fái vinnu, hversu lítil sem hún er og sem fæstir þurfi að sækja um atvinnuleysisbætur. Á meðan þessi galli er á kerfinu er ekki um hvata að ræða heldur er fólki refsað illilega í formi tekjutaps fyrir að taka hlutastarfi. Slíkt kerfi getur aldrei gengið upp.

Skrifstofa félagsins hefur vakið athygli á þessum galla og sent ábendingu á forstjóra Vinnumálastofnunar og Guðbjart Hannesson, velferðarráðherra. Þau svör fengust að málið yrði tekið upp hjá forstjóra og stjórn Vinnumálastofnunar.

06
Mar

Vertíðarstemmning hjá starfsmönnum HB Granda á Akranesi

Það er óhætt að segja að það sé líf og fjör hjá starfsmönnum HB Granda í síldarbræðslunni þessa dagana en núna stendur yfir ein stærsta loðnuvertíð sem hér hefur verið í áraraðir ef ekki áratugi en formaður VLFA fór í vinnustaðaheimsókn í síldarbræðsluna á Akranesi rétt í þessu. Heildarkvótinn á yfirstandandi vertíð er um 600.000 tonn og samkvæmt starfsmönnum bræðslunnar er búið að bræða núna uppundir 30.000 tonn sem er með því meira sem gerst hefur í áraraðir. Það skiptir gríðarlega miklu máli fyrir starfsmenn bræðslunnar að svona góð vertíð sé núna að eiga sér stað því launatekjur starfsmanna sem vinna í síldarbræðslum vítt og breitt um landið byggjast að stórum hluta upp á vöktum en unnið er eðli málsins samkvæmt á sólarhringsvöktum yfir vertíðina. Samkvæmt upplýsingum frá starfsmönnum þá áætluðu þeir að skip HB Granda ættu eftir um 20.000 tonn af úthlutuðum kvóta og nú er bara að vona að veðurfar verði hagstætt þannig að kvótinn náist að fullu.

Það er ekki bara að það sé líf og fjör í síldarbræðslunni, einnig er vertíðarstemmning við hrognatöku en tugir manna vinna nú á sólarhringsvöktum við hrognatöku hjá HB Granda hér á Akranesi þannig að með öðrum orðum þá er um umtalsvert uppgrip að ræða hjá þeim sem sinna þessum störfum.   

Það er gríðarlega mikilvægt fyrir almenning að átta sig á því að milli 50 og 60% af öllum útflutningstekjum þjóðarinnar koma frá sjávarútveginum og það eru þessir aðilar sem nú vinna myrkranna á milli við að skapa þessar gjaldeyristekjur. Það er ljóst að umtalsvert uppgrip er nú hjá sjómönnum á loðnuveiðum, bræðslufólki og einnig landverkafólki um þessar mundir og ættu tekjur þessa hóps að verða nokkuð góðar að aflokinni vertíð.

05
Mar

Smábátasjómenn óskuðu eftir að fá að ganga í Verkalýðsfélag Akraness

Um 50 smábátasjómenn vítt og breitt um landið óskuðu eftir að funda með formanni Verkalýðsfélags Akraness vegna þeirrar staðreyndar að þeir hafa ekki notið þeirra sjálfsögðu mannréttinda að eiga kjarasamning. Það er þyngra en tárum taki að smábátasjómenn skuli ekki hafa í gildi kjarasamning þar sem laun og önnur réttindi eru tryggð eins og nánast allar aðrar starfsstéttir hér á landi búa við.

Að sjálfsögðu varð formaður við þessari beiðni og var haldinn fundur síðastliðinn föstudag á Gamla Kaupfélaginu þar sem eins og áður sagði uppundir 50 manns mættu. Var gríðarlega góð stemmning á meðal fundarmanna en á fundinum óskuðu allflestir sjómennirnir eftir að fá að ganga í Verkalýðsfélag Akraness og óskuðu jafnframt eftir því að félagið myndi gæta að þeirra hagsmunum við gerð nýs kjarasamnings. Það var auðsótt mál að taka við þessum smábátasjómönnum inn í félagið og í framhaldinu var kosin 10 manna samninganefnd sem mun móta kröfugerð sem lögð verður fyrir Landssamband smábátaeigenda fljótlega en nefndin mun funda næstkomandi miðvikudag þar sem farið verður yfir hin ýmsu hagsmunamál er lúta að réttindum smábátasjómanna. Hjá fundarmönnum kom einnig fram að fleiri hefðu í hyggju að skrá sig í Verkalýðsfélag Akraness. Á þeirri forsendu setjum við hér tengil inn á inntökubeiðni (efsta eyðublaðið) í Verkalýðsfélag Akraness.

01
Mar

Skorað á framkvæmdastjóra Festu að segja af sér vegna 20 milljarða króna taps

Í gær var haldinn fundur um lífeyrissjóðsmál er tengjast sjóðnum sem Verkalýðsfélag Akraness er aðili að sem er Festa. En samkvæmt úttektarskýrslunni sem rannsóknarnefndin gerði kemur fram að sjóðurinn hafi tapað tæpum 20 milljörðum eða um 36% af heildareignum sínum.

Gylfi Jónasson, framkvæmdastjóri sjóðsins, gerði grein fyrir úttektarskýrslunni og kom fram í hans máli að hann gerði ýmsar athugasemdir við aðferðafræði nefndarinnar og taldi tapið vera mun minna en fram kæmi í skýrslunni.

Formaður Verkalýðsfélags Akraness sagði að það væri bláköld staðreynd að tap lífeyrissjóðanna í heild hafi numið tæpum 500 milljörðum króna og það væri grátbroslegt að heyra forstjóra og framkvæmdastjóra lífeyrissjóðanna reyna að bera ætíð í bætifláka fyrir slíkt tap. Formaður gagnrýndi lífeyrissjóðskerfið harðlega því aðilar í lífeyrissjóðskerfinu töluðu ætíð um að hér væri besta lífeyrissjóðskerfið í heimi og spurði formaður í því samhengi hvernig stæði á því að lífeyrissjóðskerfið vantaði 700 milljarða króna til að geta staðið við sínar skuldbindingar samkvæmt ársreikningum 2010. Að eiga rúma 2000 milljarða en vanta 700 milljarða til að geta staðið við sínar skuldbindingar getur vart verið túlkað sem besta kerfi í heimi. Það liggur fyrir að neikvæð tryggingafræðileg staða lífeyirssjóðsins Festu nemi uppundir 10 milljörðum króna og hjá öllum lífeyrissjóðum innan ASÍ vantar uppundir 120 milljarða til að hægt sé að standa við sínar skuldbindingar.

Það kemur fram í rannsóknarskýrslunni að raunávöxtun lífeyrissjóðsins Festu síðustu 10 ár hafi einungis verið 0,1%. Formaður sagði á fundinum að framkvæmdastjóri sem stjórnaði lífeyrissjóði sem hefði tapað 20 milljörðum króna eða sem nemur 36% af heildareignum sjóðsins ætti skýlaust að segja af sér. En formaður ítrekaði það að það ætti alls ekki bara við framkvæmdastjóra Festu heldur alla aðra framkvæmdastjóra sem hefðu tapað stjarnfræðilegum upphæðum að undanförnu. Það kom einnig fram á fundinum að hugsanlega hefðu verið framin lögbrot er varða verðbréfaviðskipti og er lúta að innherjaupplýsingum. En eins og fram kemur í úttektarskýrslunni (sjá bls. 97) þá liggur fyrir að einn stjórnarmaður sat bæði í Sparisjóði Keflavíkur og einnig sem stjórnarmaður í lífeyrissjóði Festu. En lífeyrissjóðurinn Festa tapaði tæpum 2 milljörðum vegna Sparisjóðs Keflavíkur. Um þennan þátt er ítarlega fjallað í úttektarskýrslunni og ýjað sterklega að því að þarna hafi lög er lúta að innherjaupplýsingum verið brotin. Það kom fram hjá fundarmönnum að þetta mál þarf svo sannarlega að skoða nánar enda liggur fyrir að lífeyrissjóðurinn Festa fjárfesti í stofnfjárbréfum í Sparisjóði Keflavíkur fyrir tæpar 800 milljónir á árinu 2007 og það er því ólíðandi að hugsanlega hafi lög verið brotin hvað varðar verðbréfaviðskipti sem tengjast bæði Sparisjóði Keflavíkur og lífeyrissjóðnum Festu.

29
Feb

17 manns hafa misst vinnuna hjá Elkem Ísland síðustu 6 mánuði

Það er óhætt að segja að sorgartíðindi hafi borist þegar tilkynnt var í dag að 4-5 starfsmönnum hjá Elkem Ísland hafi verið sagt upp störfum sökum þess að verið er að hætta með framleiðsluna á FSM í verksmiðjunni, en þessi framleiðsla hefur nú verið flutt til Noregs. Á síðustu 6 mánuðum hafa hvorki fleiri né færri en 17 manns misst vinnuna hjá Elkem Ísland á Grundartanga, sem verða að teljast skelfileg tíðindi vegns þess atvinnuástands sem nú ríkir á íslenskum vinnumarkaði.

Það er þyngra en tárum taki þegar fjölskyldumenn missa vinnuna við þær aðstæður sem nú ríkja eins og áður sagði, því ekki er um auðugan garð að gresja hvað atvinnu varðar um þessar mundir.

Í ljósi þessara staðreynda að hér hafa 17 manns misst vinnuna á síðustu 6 mánuðum þá hafa starfsmenn haft samband við Verkalýðsfélag Akraness og kvartað sáran yfir því að verktakar séu látnir vinna störf sem tilheyra svokallaðri kjarnastarfsemi innan fyrirtækisins. Félagið hefur margoft gert athugasemdir við þessa starfsemi verktakanna enda telur félagið að þeir séu að ganga í störf sem tilheyra svokallaðri kjarastarfsemi.

Það er ljóst að á þessu máli verður tekið núna og á það látið reyna, því það er grundvallaratriði á milli samningsaðila að báðir virði gildandi samninga. Mun félagið því verða við þeirri þungu undiröldu starfsmanna að fara í málið af fullum þunga og leita lausna hvað þetta varðar.

28
Feb

Fá leiðréttingu sem nemur 800-1200 þúsund krónum

Jaðarsbakkalaug á AkranesiJaðarsbakkalaug á AkranesiFundur Verkalýðsfélags Akraness með fulltrúum Akraneskaupstaðar vegna starfsmatsniðurstaðna fyrir sundlaugarverði II með vakstjórn var haldinn í morgun. Á fundinum var tilkynnt að þeir sem gegna áðurnefndum störfum skulu hækka vegna starfsmats sem fram fór árið 2007 úr 329 stigum í 364 stig sem þýðir að viðkomandi starfsmenn færast úr launaflokki 121 í launaflokk 125 eða sem nemur fjórum launaflokkum.

Stéttarfélögin sem eiga aðild að kjarasamningi við Akraneskaupstað skiluðu inn á sínum tíma athugasemdum vegna áðurnefndra starfa en einhverra hluta vegna láðist Launanefnd sveitafélaga eða Akraneskaupstað að afgreiða þessi starfsmöt og á þeirri forsendu eru þeir starfsmenn sem um ræðir að fá leiðréttingu allt til ársins 2006. Leiðréttingin nemur um það bil frá 800 þúsund krónum og til allt að 1200 þúsund krónum hjá þeim starfsmönnum sem gegnt hafa þessum störfum.

Það var afar ánægjulegt að þessi niðurstaða skuli hafa fengist enda er um umtalsverða kjarabót að ræða fyrir vaktstjóra í sundlaugunum en um er að ræða fimm einstaklinga. Endurgreiðslan mun að öllum líkindum eiga sér stað um þarnæstu mánaðarmót þegar endanlegur útreikningur á leiðréttingunni hefur átt sér stað hjá launadeild Akraneskaupstaðar.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image