• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
Fréttir

Fréttir

29
Feb

17 manns hafa misst vinnuna hjá Elkem Ísland síðustu 6 mánuði

Það er óhætt að segja að sorgartíðindi hafi borist þegar tilkynnt var í dag að 4-5 starfsmönnum hjá Elkem Ísland hafi verið sagt upp störfum sökum þess að verið er að hætta með framleiðsluna á FSM í verksmiðjunni, en þessi framleiðsla hefur nú verið flutt til Noregs. Á síðustu 6 mánuðum hafa hvorki fleiri né færri en 17 manns misst vinnuna hjá Elkem Ísland á Grundartanga, sem verða að teljast skelfileg tíðindi vegns þess atvinnuástands sem nú ríkir á íslenskum vinnumarkaði.

Það er þyngra en tárum taki þegar fjölskyldumenn missa vinnuna við þær aðstæður sem nú ríkja eins og áður sagði, því ekki er um auðugan garð að gresja hvað atvinnu varðar um þessar mundir.

Í ljósi þessara staðreynda að hér hafa 17 manns misst vinnuna á síðustu 6 mánuðum þá hafa starfsmenn haft samband við Verkalýðsfélag Akraness og kvartað sáran yfir því að verktakar séu látnir vinna störf sem tilheyra svokallaðri kjarnastarfsemi innan fyrirtækisins. Félagið hefur margoft gert athugasemdir við þessa starfsemi verktakanna enda telur félagið að þeir séu að ganga í störf sem tilheyra svokallaðri kjarastarfsemi.

Það er ljóst að á þessu máli verður tekið núna og á það látið reyna, því það er grundvallaratriði á milli samningsaðila að báðir virði gildandi samninga. Mun félagið því verða við þeirri þungu undiröldu starfsmanna að fara í málið af fullum þunga og leita lausna hvað þetta varðar.

28
Feb

Fá leiðréttingu sem nemur 800-1200 þúsund krónum

Jaðarsbakkalaug á AkranesiJaðarsbakkalaug á AkranesiFundur Verkalýðsfélags Akraness með fulltrúum Akraneskaupstaðar vegna starfsmatsniðurstaðna fyrir sundlaugarverði II með vakstjórn var haldinn í morgun. Á fundinum var tilkynnt að þeir sem gegna áðurnefndum störfum skulu hækka vegna starfsmats sem fram fór árið 2007 úr 329 stigum í 364 stig sem þýðir að viðkomandi starfsmenn færast úr launaflokki 121 í launaflokk 125 eða sem nemur fjórum launaflokkum.

Stéttarfélögin sem eiga aðild að kjarasamningi við Akraneskaupstað skiluðu inn á sínum tíma athugasemdum vegna áðurnefndra starfa en einhverra hluta vegna láðist Launanefnd sveitafélaga eða Akraneskaupstað að afgreiða þessi starfsmöt og á þeirri forsendu eru þeir starfsmenn sem um ræðir að fá leiðréttingu allt til ársins 2006. Leiðréttingin nemur um það bil frá 800 þúsund krónum og til allt að 1200 þúsund krónum hjá þeim starfsmönnum sem gegnt hafa þessum störfum.

Það var afar ánægjulegt að þessi niðurstaða skuli hafa fengist enda er um umtalsverða kjarabót að ræða fyrir vaktstjóra í sundlaugunum en um er að ræða fimm einstaklinga. Endurgreiðslan mun að öllum líkindum eiga sér stað um þarnæstu mánaðarmót þegar endanlegur útreikningur á leiðréttingunni hefur átt sér stað hjá launadeild Akraneskaupstaðar.

27
Feb

Sjóðsfélagar, fjölmennum á fundinn á miðvikudaginn!

Næstkomandi miðvikudag kl. 18:00 verður haldinn fundur á Gamla Kaupfélaginu þar sem Gylfi Jónasson, framkvæmdastjóri Festu Lífeyrissjóðs mun gera grein fyrir úttektarskýrslu sem Landssamband Lífeyrissjóðanna lét gera.

Skýrslan var viðamikil og bendir á margt sem betur hefði mátt fara í starfsemi lífeyrissjóðanna, en heildartap lífeyrissjóðakerfisins nam tæpum 500 milljörðum króna og tap lífeyrissjóðs Festu, sem er sá lífeyrissjóður sem tilheyrir Verkalýðsfélagi Akraness, nam tæpum 20 milljörðum eða sem nemur 35% af heildareignum sjóðsins.

Formaður hvetur sjóðsfélaga í lífeyrissjóði Festu að fjölmenna á fundinn því það er gríðarlega mikilvægt að hinn almenni sjóðsfélagi fylgist vel með því sem er að gerast í starfsemi lífeyrissjóðanna og á þessum fundi mun sjóðsfélögum gefast kostur á að spyrja framkvæmdastjórann hinna ýmsu spurninga.

Á fundinum verður boðið upp á kaffi og kleinur.

Hægt er að nálgast skýrslu úttektarnefndarinnar hér, en kaflinn um Festu lífeyrissjóð er númer 10 og byrjar á bls. 81.

24
Feb

Fulltrúar Hagsmunasamtaka heimilanna í heimsókn á skrifstofu félagsins

Formaður átti fund með fulltrúum Hagsmunasamtaka heimilanna í morgun, þeim Andreu Ólafsdóttur, formanni samtakanna, Þórði Sigurðssyni og Ragnari Þór Ingólfssyni, stjórnarmanni í VR. Málefni fundarins voru hagsmunir heimilanna og hinar ýmsu hugmyndir er lúta að stéttarfélagsbaráttu fyrir almenning í þessu landi.

Það er afar ánægjulegt að sjá hversu gríðarlega öflug Hagsmunasamtök heimilanna hafa verið á undanförnum árum við að gæta að hag íslenskra heimila og hafa samtökin hvergi hvikað frá hinum ýmsu réttindamálum er lúta að íslenskum heimilum. Hagsmunasamtök heimilanna hafa áhuga á að útvíkka starfsemi samtakanna, meðal annars er lítur að stéttarfélagsaðkomu og nægir að nefna í því samhengi grein sem forsvarsmenn samtakanna skrifuðu ekki alls fyrir löngu um stéttabaráttu á 21. öldinni. Verkalýðsfélag Akraness hefur ávallt stutt Hagsmunasamtök heimilanna í sinni baráttu og meðal annars studdi félagið HH með fjárstuðningi fyrir 2 árum síðan og hefur samstarf VLFA við HH ávallt verið mjög gott.

23
Feb

Öskudagur 2012

Í gær streymdu fulltrúar allra starfsstétta á skrifstofu Verkalýðsfélags Akraness og létu í sér heyra. Um var að ræða flugfreyjur, viðskiptajöfra, pappakassa, prinsessur, uppvakninga, bardagalistamenn, fótboltahetjur og ótal fleiri furðuverur sem allar fengu úrlausn sinna mála hjá starfsfólki skrifstofu.

Að sjálfsögðu var þarna um að ræða uppáklædd börn sem sungu og tóku jafnvel dansspor fyrir starfsfólk skrifstofu í tilefni öskudagsins. Þeim var auðvitað vel launað fyrir vikið og fengu sætindi í pokann sinn.

Hægt er að sjá nokkrar myndir frá Öskudegi hér.

22
Feb

Aðalfundur deilda haldinn í gærkvöldi

Í gærkvöldi var aðalfundur deilda Verkalýðsfélags Akraness haldinn á Gamla Kaupfélaginu. Fundurinn var með hefðbundnu sniði, en formaður fór yfir starfsemi félagsins á síðasta ári og kom þar víða við enda var nýliðið ár einstaklega viðburðaríkt, óvenju margir kjarasamninga gerðir og mikill fjöldi mála sem þurfti að sinna.

Málefni lífeyrissjóðanna bar einnig á góma, en nú hafa allir sjóðsfélagar Festu verið boðaðir á kynningarfund um málefni sjóðsins miðvikudaginn 29. febrúar nk. kl. 18:00 á Gamla Kaupfélaginu þar sem m.a. verða kynntar niðurstöður úttektarnefndar á starfsemi íslensku lífeyrissjóðanna.

Á aðalfundinum í gær urðu nokkrar mannabreytingar í stjórnum deilda. Í iðnsveinadeild hafa látið af störfum þeir Gísli Björnsson og Snorri Guðmundsson. Í þeirra stað taka sæti í stjórn Þórarinn Ægir Jónsson og Páll Gísli Jónsson. Í stóriðjudeild tekur Bjarni Ólafsson sæti í stað Sigurðar Gunnarssonar, en Bjarni hefur setið í stjórn sjúkrasjóðs um árabil. Þeir Þórarinn, Páll og Bjarni taka nú sæti í stjórnum sinna deilda og eiga þar með einnig sæti í trúnaðarráði.

20
Feb

Enn fjölgar samstarfsaðilum VLFA!

Enn fjölgar í hópi þeirra fyrirtækja og þjónustuaðila sem bjóða félagsmönnum Verkalýðsfélags Akraness afslætti og sérkjör gegn framvísun félagsskírteinis.

Nýir samstarfsaðilar eru:

  • Trésmiðjan Akur - 7% afsláttur af vinnu
  • Tannlæknastofa Jónasar Geirssonar - 10% afsláttur af vinnu
  • Pípulagningafélag Lýðveldisins - 5% afsláttur af vinnu og 10% afsláttur af efni
  • LH Bókhald - Lilja Halldórsdóttir viðurkenndur bókari býður 15% afslátt af vinnu við bókhald og gerð skattframtala

Þessir aðilar eru boðnir innilega velkomnir í sístækkandi hóp samstarfsaðila VLFA.

Aðrir sem bjóða sérkjör og afslætti til félagsmanna eru:

Apótek Vesturlands: 10% afsláttur af vörum í búð (ekki lyfjum)

Bifreiðaverkstæðið Brautin: 7% afsláttur af vinnu

Bílar og dekk: 10% afsláttur af dekkjum

Galleri Ozone: 10% afsláttur

Grand Hótel Reykjavík: Afsláttarkjör Gullklúbbsins bjóðast félagsmönnum VLFA

Omnis 15% afsláttur af skólavörum, skrifstofuvörum og bleki, 5% afsláttur af tölvum og öðrum vörum - 12 mánaða vaxtalaus lán á kreditkort (GMS símar undanskildir)

Model: Blóm og blómaskreytingar 10%, hljómtæki/sjónvörp 5-10%, heimilistæki 10%, skartgripir 10%, gjafavara 5-10%, flísar og önnur gólfefni 10%

N1: Umtalsverður afsláttur á eldsneyti, vörum og þjónustu

Olís: Umtalsverður afsláttur á eldsneyti, vörum og þjónustu

Rafþjónusta Sigurdórs: 5% afsláttur af vinnu og 10% afsláttur af efni

Snyrtistofan Dekur: 10% afsláttur

Tryggingafélagið VÍS: 5% afsláttur af iðgjöldum óháð öðrum afsláttarkjörum sem félagsmenn kunna að hafa

17
Feb

Fundað var í gær um starfsemi lífeyrissjóðanna í grasrótarmiðstöðinni

Formanni félagsins var boðið að sitja fund um lífeyrissjóðina í grasrótamiðstöðinni í Reykjavík í gær en fundurinn var haldinn á vegum Hreyfingarinnar.  Þeir sem voru í pallborði voru Eygló Harðardóttir, þingmaður Framsóknarflokksins og Benedikt Sigurðsson frá Akureyri, sem hefur látið mikið til sín taka í málefnum lífeyrissjóðanna og verðtryggingarinnar. Einnig var Margrét Tryggvadóttir, þingmaður Hreyfingarinnar í pallborði sem og Ragnar Þór Ingólfsson, stjórnarmaður í VR.

Þetta var mjög skemmtilegur fundur og stóð hann í rúma tvo klukkutíma en auk framsagna hjá Eygló Harðardóttur og Benedikt Sigurðssyni voru fjölmargar fyrirspurnir úr sal um starfsemi lífeyrissjóðanna og nýútkomna skýrslu þar sem fram kemur að tap lífeyrissjóðanna nam tæpum 500 milljörðum króna. Eygló fór yfir frumvarp sem hún ásamt fleiri þingmönnum eru að leggja fram um rannsókn á lífeyrissjóðunum en rétt er að geta þess að þess konar rannsókn var frestað á sínum tíma vegna þess að lífeyrissjóðirnir sjálfir tóku ákvörðun um að hefja rannsókn á starfsemi lífeyrissjóðanna. Í máli Eyglóar kom fram að Alþingi hafi þá verið búið að samþykkja 63-0 að skipa rannsóknarnefnd um starfsemi lífeyrissjóðanna og hefði sú rannsókn átt að ná allt aftur til 1997. Það kom einnig fram í hennar máli að þessi rannsókn sem lífeyrissjóðirnir stóðu fyrir ætti ekki að verða þess valdandi að Alþingi ætti að hætta við að rannsaka sjóðina eins og búið var að samþykkja. Á þeirri forsendu ætlar hún að leggja áðurnefnt frumvarp fram á Alþingi. Benedikt hélt erindi um það að fækka og breyta lífeyrissjóðunum niður í einn og var þetta afar athyglisvert erindi hjá honum og ljóst að þessar hugmyndir hans er vert að skoða nánar.

Fram kom í máli formanns VLFA að mjög mikilvægt sé að þessi rannsókn verði samþykkt á Alþingi því það er fjölmargt sem enn á eftir að rannsaka til hlítar er lítur að fjárfestingum sjóðanna, boðsferðum og öðru slíku og það kom fram hjá formanni að hann hafi orðið fyrir miklum vonbrigðum í gær þegar hann fylgdist með Alþingi en þá var að heyra á nokkrum þingmönnum að þeir teldu litla ástæðu til þess að fara í slíka rannsókn. Það er mjög mikilvægt að klára þetta mál með afgerandi hætti þar sem kafað verður ofan í starfsemi lífeyrissjóðanna af fullum þunga því þeirri tortryggni og því vantrausti sem nú ríkir gagnvart lífeyrissjóðunum verður að eyða í eitt skipti fyrir öll og mikilvægt er að þessi nefnd sem til stendur að skipa komi með tillögur til úrlausnar á sjóðunum.

Það er undarlegt að sjá og heyra að lífeyrissjóðirnir kappkosta að segja almenningi að lífeyrissjóðirnir eigi 2000 milljarða í eignum en á sama tíma greina þeir ekki frá því að þá vantar samkvæmt ársreikningum 2010 uppundir 700 milljarða til að geta staðið við sínar skuldbindingar. Lífeyrissjóði innan ASÍ vantaði 195 milljarða árið 2009 til að geta staðið við sínar skuldbindingar en eftir að hafa verið búnir að skerða réttindaávinnslu og áunnin réttindi þá náðu þeir að laga tryggingafræðilega stöðu sína niður í tæpa 120 milljarða. Með öðrum orðum, það vantar 120 milljarða til að lífeyrissjóðir innan ASÍ geti staðið við sínar skuldbindingar.

Það er svo náttúrulega alveg kapítuli útaf fyrir sig varðandi opinberu sjóðina en þar vantar hjá LSR rúma 440 milljarða til að þeir geti staðið við sínar skuldbindingar en A deildinni vantar rúma 47 milljarða, B deildinni 351 milljarð og lífeyrissjóð hjúkrunarfræðinga 42 milljarða króna.

Þessu til viðbótar er staða lífeyrissjóða sveitarfélaga og er þá ekki verið að tala um LSS heldur lífeyrissjóði sem voru lokaðir 1998 og virka eins og B deild LSR en þar vantar uppundir 50 milljarða til að þeir geti staðið við sínar skuldbindingar. Það er morgunljóst að þessi gríðarlegi halli á opinberu sjóðunum mun skella af fullum þunga á skattgreiðendum áður en langt um líður. Því verður að taka á þessu kerfi og endurstilla það í eitt skipti fyrir öll og þetta þarf að vera eitt af þeim verkefnum sem þessi rannsóknarnefnd þarf að skoða og koma með tillögur um.

15
Feb

Bæjarstjóri Akraness heimsækir skrifstofu félagsins

Árni Múli Jónasson, bæjarstjóri AkranessÁrni Múli Jónasson, bæjarstjóri AkranessÍ morgun komu þeir Árni Múli Jónasson bæjarstjóri og Guðjón Steinsdórsson, verkefnisstjóri nýsköpunar og atvinnumála hjá Akraneskaupstað, í heimsókn á skrifstofu félagsins.

Það er afar ánægjulegt hversu gott samstarf er á milli Verkalýðsfélags Akraness og bæjaryfirvalda í hinum ýmsu málum og þá sérstaklega í atvinnumálum. En í þessari heimsókn var farið yfir hina ýmsu þætti er lúta að atvinnumálum og sóknartækifærum okkar í hinum ýmsu atvinnugreinum. Það liggur fyrir að töluverð uppbygging er á Grundartanga um þessar mundir og væntanlega munu skapast störf þar innan tíðar. Það er afar ánægjulegt að sjá hversu vel bæjaryfirvöld fylgjast með þróun atvinnulífsins á okkar atvinnusvæði.

Formaður telur það mikilvægt að Verkalýðsfélag Akraness sé í góðum tengslum við bæjaryfirvöld enda liggja hagsmunir félagsmanna VLFA og bæjaryfirvalda æði oft saman.

15
Feb

Aðalfundir deilda

Sameiginlegur aðalfundur allra deilda Verkalýðsfélags Akraness, nema sjómannadeildar, verður haldinn á Gamla Kaupfélaginu þriðjudaginn 21. febrúar kl. 18:00. Sjómannadeildin hélt sinn aðalfund þann 28. desember sl.

Á aðalfund eru boðaðir allir félagsmenn eftirtalinna deilda:

  • Almennrar deildar
  • Stóriðjudeildar
  • Opinberrar deildar
  • Iðnsveinadeildar
  • Matvæladeildar

Dagskrá aðalfundar er svohljóðandi:

  1.  Venjuleg aðalfundarstörf 
  2. Formaður gerir grein fyrir helstu málum á líðandi ári
  3. Önnur mál

Að afloknum fundi verður fundargestum boðið upp á súpu og brauð. Félagsmenn eru eindregið hvattir til að fjölmenna!

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image