• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
11
Jul

Enn níðst á atvinnulausum í hlutastörfum

Í byrjun mars benti formaður VLFA forstjóra Vinnumálastofnunar Gissuri Péturssyni og Guðbjarti Hannessyni velferðarráðherra á það miskunnarlausa óréttlæti sem felst í því að þeir einstaklingar sem fá hlutastarf geta lent í því að fá minna fyrir að stunda hlutastarf heldur en að vera á 100%  atvinnuleysisbótum. Þekkt eru dæmi þar sem einstaklingur lækkaði um 20 þúsund krónur við það eitt að þiggja 50% hlutastarf í ræstingu í stað þess að vera á 100% atvinnuleysisbótum.

Þetta gerist vegna breytinga sem urðu um áramótin hjá Vinnumálastofnun.  Það hlýtur þó að vera hagur Vinnumálastofnunar og samfélagsins í heild sinni að sem flestir fái vinnu, hversu lítil sem hún er og að sem fæstir þurfi að sækja um atvinnuleysisbætur. Það stenst ekki nokkra skoðun að Vinnumálastofnun geti krafist  þess að einstaklingur sem er í atvinnuleit taki hlutastarf sem leiðir til þess að ráðstöfunartekjur lækki jafnvel um tugi þúsunda á mánuði og ef atvinnuleitandinn neitar að taka hlutastarfinu er honum refsað illilega í formi bótamissis tímabundið.

Á meðan þessi galli er á kerfinu er ekki um neinn hvata að ræða heldur er fólki refsað illilega í formi tekjutaps fyrir að taka hlutastarfi. Slíkt kerfi getur aldrei gengið upp.  Forstjóri Vinnumálastofnunar og velferðarráðherra voru algerlega sammála að þessu yrði að kippa í lag og töluðu báðir um það í fréttum 7. apríl að þeir vonuðust eftir að þetta yrði komið í lag strax eftir páska.  Í viðtali í apríl sagði m.a forstjóri VMST orðrétt : „Það er reglugerðarvinna í gangi þessa dagana og ég á von á því að þessu verði breytt strax eftir páska með nýrri reglugerð.“  Gissur sagðist hafa séð tillögur að nýrri reglugerð og átti von á að hún tæki gildi fyrir næstu útgreiðslu atvinnuleysisbóta  Forstjórinn sagði einnig „Þetta snertir sérstaklega þá sem eru að taka lægst launuðu störfin,  og það eru auðvitað þeir sem eiga ekki að þurfa að bera þessa byrði.“  Í ljósi þessara ummæla spyr formaður Verkalýðsfélags Akraness forstjóra Vinnumálastofnunar af hverju er þessu ekki kippt í lag?

Velferðarráðherra sagði í fréttum einnig í apríl að unnið væri að því að fyrirbyggja að þeir sem væru á atvinnuleysisskrá en væru í hlutastörfum ættu á hættu að vera með lægri tekjur en þeir sem ekkert vinna. Einnig sagði ráðherrann í þessu viðtali að reynt yrði að leiðrétta skekkjuna sem allra fyrst.

 Það er skemmst frá því að segja að nú, tæpum fjórum mánuðum frá því formaður VLFA kom þessari ábendingu á framfæri virðist lítið sem ekkert hafa gerst og þetta miskunnarlausa óréttlæti heldur áfram af fullum þunga og það þrátt fyrir fögur fyrirheit velferðarráðherra og forstjóra Vinnumálastofnunar í apríl um að lagfæra þetta án tafar.

Formaður félagsins neitar að trúa því að ríkisstjórn sem kennir sig við félagshyggju, jöfnuð og réttlæti láti það viðgangast stundinni lengur að höggva í þá sem síst skyldi, þá sem eru án atvinnu og eru að reyna að koma sér aftur út á vinnumarkaðinn. En það er morgunljóst að þessi breyting sem varð um áramótin gerir það að verkum að það er ekki nokkur hvati fyrir slíka einstaklinga að þiggja hlutastörf í ljósi þeirrar bláköldu staðreyndar að umræddir einstaklingar geta verið með þúsundum ef ekki tugþúsundum lægri tekjur við að taka hlutastarfi í stað þess að vera á 100% atvinnuleysisbótum.

Það er þyngra en tárum taki að horfa upp á hvernig íslensk stjórnsýsla vinnur og það er alls ekkert skrýtið þótt almenningur beri afar takmarkað traust til stjórnsýslunnar þegar vinnubrögðin eru með þessum hætti og það gagnvart þeim sem hvað höllustum fæti standa í íslensku samfélagi.

Formaður Verkalýðsfélags Akraness skorar á Vinnumálastofnun og velferðarráðuneytið enn og aftur að fara að  vinna nú eins og menn og afgreiða þetta mál án tafar og leiðrétta þann skaða sem umræddir einstaklingar hafa orðið fyrir aftur til áramóta, eða frá þeim tíma sem umræddum vinnureglum var breytt hjá Vinnumálastofnun og það með skelfilegum afleiðingum fyrir umrædda einstaklinga.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image