• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
04
Jul

Eins og krabbameinsæxli sem stækkar og stækkar.

Það var afar forvitnilegur blaðamannafundur sem Fjármálaeftirlitið hélt í gær vegna stöðu lífeyriskerfisins og það fór ekkert á milli mála að FME hefur verulegar áhyggjur af lífeyrissjóðskerfinu. FME staðfesti á blaðamannafundinum í gær það sem að formaður VLFA sagði í pistli þann 18. maí að lífeyrissjóðskerfið vanti hvorki meira né minna en um 700 milljarða til að geta staðið við sínar framtíðarskuldbindingar. Já, takið eftir, lífeyrissjóðskerfið er með neikvæða tryggingafræðilega stöðu sem nemur 700 milljörðum króna.

FME benti á að mikilvægt væri að lagfæra þennan halla og nefndi dæmi um það sem hægt væri að gera. Ein lausnin væri sú að hækka iðgjöld launafólks, önnur að skerða réttindi þess og að lokum nefndu þeir þriðja möguleikann sem væri líka til staðar - að hækka lífeyrisaldurinn um 1-2 ár til að mæta þessum gríðarlega halla sem kerfið á við að etja um þessar mundir. Þetta sýnir svo ekki verður um villst þá grafalvarlegu stöðu sem lífeyrissjóðskerfið er nú í enda töpuðu sjóðirnir 500 milljörðum eftir að hafa stigið trylltan dans við fjárfestingar í fjármálakerfinu og fyrirtækjum tengdum útrásinni. Það kom einnig fram á þessum fundi að það er búið að skerða lífeyrisréttindi almenns launafólks um í það minnsta 130 milljarða frá hruni. Með öðrum orðum, hinn almenni sjóðsfélagi þarf að sæta því að horfa upp á lífeyri sinn stórskerðast vegna glæfralegra fjárfestinga stjórnenda lífeyrissjóðanna á undanförnum árum og misserum og enginn þessar stjórnenda sér neina ástæðu til að bera ábyrgð á þessum hamförum sem sjóðsfélagar þurfa nú að þola.

 

Lífeyrir ráðamanna skerðist ekki um krónu

Það undarlega í þessu öllu saman er að alþingismenn, ráðherrar, embættismenn og aðrir opinberir starfsmenn hafa ekki fengið skerðingu á sínum lífeyrisréttindum um eina einustu krónu þó svo að Lífeyrissjóður opinberra starfsmanna hafi tapað 100 milljörðum í hruninu og að þann sama sjóð vanti 447 milljarða til að geta staðið við sínar skuldbindingar. Réttlætið og jöfnuðurinn ríða ekki einteyming enda virðist réttlætið og jöfnuðurinn sem margir stjórnmálamenn vilja kenna sig við vera fólginn í því að skerða lífeyri launafólks á hinum almenna vinnumarkaði um 130 milljarða og að láta almennt launafólk baktryggja sín eigin lífeyrisréttindi.  Eins og áður sagði er LSR með neikvæða tryggingafræðilega stöðu upp á 447 milljarða. Það er morgunljóst að þessi reikningur mun falla af fullum þunga á skattgreiðendur á næstu árum og áratugum. Því spyr formaður félagsins: Hvað hyggjast alþingismenn og aðrir ráðamenn gera í ljósi þeirrar bláköldu staðreyndar að bakábyrgð Lífeyrissjóðs opinberra starfsmanna er eins krabbameinsæxli  sem stækkar og stækkar og getur stefnt lífsgæðum íslensks almennings í voða? Formaður spyr einnig: Er þetta réttlætið og jöfnuðurinn, að láta lífeyri almenns launafólks blæða út á meðan meðal annars alþingismenn og ráðamenn eru tryggðir í bak og fyrir gagnvart sínum ofurlífeyrir?

 

Réttlæti og jöfnuður

Það er orðið sorglegt að sjá hvernig alþýða þessa lands er barin sundur og saman þegar kemur að réttlæti og jöfnuði. Nægir að nefna í því samhengi að Ríkisendurskoðun sagði í skýrslu fyrir nokkrum dögum síðan að Seðlabankinn og Ríkið hafi sett 400 milljarða inn í fjármálakerfið frá hruni meðal annars til að verja fjármagnseigendur. Þessu til viðbótar er ríkisábyrgð á öllum innistæðum í bankakerfinu, allt á kostnað almennings en á sama tíma þegar talað er um að leiðrétta stökkbreyttar skuldir heimilanna vegna hrunsins og verðtryggingarvítisvélarinnar þá er ekkert hægt að gera. Nægir að nefna í því samhengi skýrslu sem Hagfræðistofnun gerði um skuldastöðu heimilanna en þar kom fram að það myndi kosta um 200 milljarða að leiðrétta stökkbreyttar verðtryggðar skuldir íslenskra heimila og í framhaldi af þeirri skýrslu komu ráðamenn fram og sögðu að lítið sem ekkert væri hægt að gera til að koma til móts við skuldsett heimili . Þegar kemur að því að ræða um skuldir heimilanna þá sprettur hver fræðingurinn fram á fætur öðrum og spyr hvar eigi að taka peningana. En eins og áður sagði þá vafðist ekki fyrir ráðamönnum þessarar þjóðar að dæla peningum inn í fjármálakerfið, til að slá skjaldborg utan um það og erlenda vogunarsjóði. Á meðan er íslenskum heimilum látið blæða hægt og rólega út. Að hugsa sér að einu raunverulegu leiðréttingarnar sem skuldsett heimili hafa fengið hafa verið í gegnum dómskerfið þar sem gengistryggðu lánin voru dæmd ólögleg, en þessi gengistryggðu lán voru afgreidd til almennings þótt fjármálastofnanir og fjölmargir aðrir vissu að það væri ólöglegt að afgreiða slík lán. Formaður heldur að það sé orðið morgunljóst að það hefur aldrei staðið til hjá stjórnvöldum að koma íslenskum skuldsettum heimilum til hjálpar vegna þess grímulausa forsendubrests sem hér varð í kjölfar efnahagshrunsins, sagan hefur svo sannarleg sannað það.

Slagorðið að slá skjaldborg utan um heimilin hefur reynst inntóm froða sem ekkert hefur verið að marka og hafa stjórnvöld kappkostað að slá frekar skjaldborg utan um fjármálakerfið, auðmenn og erlenda vogunarsjóði.

Formanni félagsins er algjörlega óskiljanleg sú þolinmæði sem alþýða þessa lands sýnir gagnvart þessu ofbeldi sem henni er sýnt slag í slag á meðan fjármagnseigendur og fjármálakerfið er varið með kjafti og klóm. Því segi ég við alþýðu þessa lands: Látum þetta ofbeldi ekki yfir okkur ganga stundinni lengur.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image