• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
Fréttir

Fréttir

18
Oct

Mikilvægi stóriðjunnar

Í gær tilkynnti Alcoa að þeir hefðu hætt við áform um að reisa álver á Bakka við Húsavík. Formaður VLFA skilur vel þá gremju og reiði sem nú ríkir hjá Húsvíkingum en nú hafa þeir beðið eftir atvinnuuppbyggingu á þessu svæði um alllanga hríð og bundu miklar vonir við áform Alcoa um stórt og öflugt álver á þeirra atvinnusvæði.

Við Akurnesingar þekkjum mætavel hversu gríðarlega mikilvæg stóriðja er fyrir hvert atvinnusvæði. En formaður myndi ekki vilja hugsa þá hugsun til enda ef stóriðjunnar á Grundartanga, þ.e.a.s. Elkem Ísland og Norðurál, nyti ekki við á okkar atvinnusvæði. En hjá Norðuráli starfa um 530 starfsmenn og yfir 200 manns starfa hjá Elkem Ísland. Með afleiddum störfum starfa um 3.000 manns tengt stóriðjunni á Grundartanga. Atvinnuástandið á Akranesi væri með öðrum orðum skelfilegt ef stóriðjunnar á Grundartanga nyti ekki við og búsetuskilyrði á svæðinu væru þar af leiðandi ekki vænleg.

Það er gríðarlega mikilvægt að stóriðjan bjóði upp á bestu mögulegu launakjör og það er eitt af því sem Verkalýðsfélag Akraness hefur verið að berjast fyrir um alllanga hríð. Í síðustu samningalotu sem nú er nýlokið var stigið skref í jákvæða átt hvað varðar launakjör Norðuráls á Grundartanga, en baráttu fyrir bættum kjörum félagsmanna mun að sjálfsögðu aldrei ljúka. Rétt er að geta þess að í dag er verkamaður á vöktum með 5 ára starfsaldur hjá Norðuráli með yfir 500.000 kr. í heildarlaun á mánuði fyrir 182 klst vinnu. Iðnaðarmaður er með um 650.000 kr. á vöktum fyrir sama vinnustundafjölda.

Launakjör í Norðurál hækka á þessu ári sem nemur 14,1% sem klárlega skilar sér til samfélagsins með einum eða öðrum hætti og þessar launahækkanir sýna sterka stöðu þessara fyrirtækja og mikilvægi þeirra hér á landi. Eins og áður sagði þá starfa t.a.m. 530 manns hjá Norðuráli á Grundartanga og það er ljóst að sveitarfélögin njóta góðs af þessari starfsemi bæði í formi fasteignagjalda, útsvars og annarra greiðslna til ríkis og sveitarfélaga.

Formaður hefur oft og tíðum undrað sig á þeim fordómum sem ríkja í garð stóriðju hér á landi í ljósi þeirra staðreynda hversu mikilvæg hún er íslensku samfélagi og síðast en ekki síst hverju því atvinnusvæði sem hún tilheyrir. Það þýðir ekki lengur fyrir þá sem gagnrýna stóriðju hér á landi að segja að það verði bara eitthvað annað að koma í staðinn. Þá verða þessir sömu aðilar að benda á hvað annað eigi að koma, því formaður fullyrðir það að ef stóriðjunnar nyti ekki við á Akranesi þá væru búsetuskilyrði hér vægast sagt skelfileg.

14
Oct

Gríðarleg vonbrigði - tillaga um afnám verðtryggingar felld á þingi SGS

Eins og fram hefur komið hér á heimasíðu félagsins þá lagði formaður Verkalýðsfélags Akraness fram tvær ályktanir á þingi Starfsgreinasambands Íslands sem haldið var dagana 13. og 14. október og lauk rétt í þessu.

Það er óhætt að segja að þessar ályktanir hafi vakið verðskuldaða athygli á þinginu enda sköpuðust miklar umræður um þær báðar. Það er skemmst frá því að segja að einungis önnur ályktunin náði fram að ganga en það var ályktun um leiðréttingu á þeim gríðarlega forsendubresti sem varð í kjölfar efnahagshrunsins. Það ber að þakka fyrir þann stuðning sem þessi ályktun fékk á þinginu, en hún fór í gegn með örlitlum orðalagsbreytingum.

Hins vegar veldur það undrun og hryggð formanns VLFA að ályktun um afnám verðtryggingar skyldi hafa verið felld bæði í nefndarstarfi sem og í allsherjarkosningu á þinginu. Það er með ólíkindum í ljósi þess að verðtryggingin hefur leikið skuldsett heimili skelfilega á liðnum árum og áratugum. Hvernig má það vera að verkalýðshreyfingin skuli ekki vera í sama takti og hinn almenni félagsmaður hvað þetta brýna hagsmunamál varðar? Enda var niðurstaða könnunar, sem Hagsmunasamtök heimilanna létu Capacent Gallup gera fyrir sig um vilja til afnáms verðtryggingar, sú að 80% þátttakenda vildu afnema verðtrygginguna af 1600 manns sem spurðir voru.

Formaður spyr sig á hvaða vegferð er íslensk verkalýðshreyfing þegar hún gengur slag í slag þvert gegn vilja hins almenna félagsmanns, eins og áðurnefnd könnun sannar, og þarna er kannski komin skýringin á þeirri gríðarlegu gjá sem er á milli forystu verkalýðshreyfingarinnar og hins almenna félagsmanns um þessar mundir.

Formaður færði ítarleg rök fyrir þessari ályktun sem felld var á þinginu og kom m.a. fram í máli hans að almenningur hefur verið að mótmæla á Austurvelli m.a. verðtryggingunni og í þessu samhengi er rétt að minna á að þegar stóru mótmælin voru þegar upp undir 10.000 manns mættu 1. október 2010 voru verðtryggð íbúðarlán heimilanna 1.236 milljarðar og hafa hækkað vegna 5,7% verðbólgu á síðustu 12 mánuðum um 70 milljarða. En formanni reiknast til að frá 1. janúar 2008 hafi verðtryggðar skuldir heimilanna hækkað hvorki um meira né minna en 350 milljarða króna. Því er það þyngra en tárum taki að ályktun um að eyða þessum skaðvaldi sem verðtryggingin er, hafi verið felld á þessu þingi með 54,5% atkvæða. Þarna var kjörið tækifæri til að standa með alþýðu þessa lands gegn því miskunnarlausa óréttlæti sem birtist í formi verðtryggingar. Óréttlæti sem birtist í því að fjármagnseigendur og fjármálastofnanir bólgna út á kostnað skuldsettra heimila.

Formaður sagði á þinginu að stéttarfélög innan ASÍ hafi fengið gríðarlegar upphæðir í formi vaxta og verðbóta frá hruni og mætti alveg segja að þetta séu hálfgerðir blóðpeningar enda koma þeir frá skuldsettum heimilum. Hrunið virkaði eins og lottó-vinningur fyrir fjármagnseigendur sem voru með sína fjármuni verðtryggða.

Formaður kom einnig inn á það þegar Jóhanna Sigurðardóttir skipaði nefnd í október 2008 til að meta áhrif þess að taka neysluvísitöluna tímabundið úr sambandi. Formaður þeirrar nefndar var Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, og það var með ólíkindum að hann skuli hafa lagst alfarið gegn því að taka neysluvísitöluna úr sambandi tímabundið og dreifa með því byrðum hrunsins jafnt milli fjármagnseigenda og skuldsettra heimila . Rök forseta ASÍ voru þau að þetta myndi kosta fjármagnseigendur 180 milljarða, en skítt með skuldsett heimili. Ég hef áður skorað á forseta ASÍ að segja af sér vegna þessarar afstöðu sem hann tók gegn skuldsettum heimilum og ég geri það aftur nú.

Eins og áður sagði vakti þessi niðurstaða undrun formanns, enda er hún ekki í neinum takti við það sem alþýða þessa lands hefur verið að berjast fyrir á síðustu misserum. En þetta er engin nýlunda fyrir formann Verkalýðsfélags Akraness að lenda í slíkum átökum þegar um forystu verkalýðshreyfingarinnar er að ræða en eins og frægt var lagði Verkalýðsfélag Akraness fram tillögu um stóraukið lýðræði við stjórnarval í lífeyrissjóðunum þar sem sjóðsfélagarnir myndu kjósa alla sína stjórnarmenn og hætt yrði með helmingaskipti verkalýðshreyfingarinnar og atvinnurekenda eins og nú tíðkast. Sú tillaga var felld með 80% atkvæða á ársfundinum, en félagið lét Capacent Gallup gera könnun fyrir sig um sama efni og það er skemmst frá því að segja að þar voru um 80% sem vildu auka við lýðræði í stjórnum lífeyrissjóðanna.

Þetta sýnir svo ekki verður um villst þá gríðarlegu gjá sem er á milli hins almenna félagsmanns og æðstu stjórnenda verkalýðshreyfingarinnar svo ekki verður um villst.

13
Oct

Formaður VLFA mun leggja fram tvær ályktanir á þingi SGS

Þing Starfsgreinasambands Íslands, sem er eitt stærsta landssamband innan ASÍ, mun hefjast í dag kl. 11. Þingið mun hefjast á því að velferðarráðherra, Guðbjartur Hannesson, mun flytja ávarp ásamt forseta Alþýðusambands Íslands.

Það er alveg ljóst að fjölmörg mál er lúta að hagsmunum félagsmanna SGS munu verða til umfjöllunar á þessu þingi. Formaður Verkalýðsfélags Akraness hefur samið tvær ályktanir sem hann mun leggja fram á þinginu. Önnur ályktunin lýtur að afnámi verðtryggingar enda er hér um að ræða samfélagslegt mein sem hefur leikið íslensk heimili skelfilega á liðnum árum og áratugum.

Hin ályktunin mun lúta að því að ríkisstjórnin beiti sér fyrir því af fullum þunga að sá gríðarlegi forsendurbrestur sem varðar skuldir heimilanna verði leiðréttur með afgerandi hætti í eitt skipti fyrir öll. Formaður trúir ekki öðru en að þessi mikilvægu hagsmunamál okkar félagsmanna fái brautargengi á þinginu.  

12
Oct

Þing SGS hlýtur að krefjast afnáms verðtryggingar

Þing Starfsgreinasambands Íslands mun hefjast á morgun á Hótel Loftleiðum og stendur þingið yfir í tvo daga. Það er ljóst að fjölmörg mál munu verða í brennidepli á þessu þingi, meðal annars atvinnu- og kjaramál og síðast en ekki síst málefni skuldsettra heimila.

Það er alveg ljóst að málefni um skuldavanda heimilanna mun ugglaust verða talsvert rædd á þinginu sem og það miskunnarlausa óréttlæti sem heimilin hafa mátt þola á liðnum árum. Heimilin hafa þurft að taka á sig stóran hluta af þeim forsendubresti sem varð vegna efnahagshrunsins á sama tíma og slegin hefur verið skjaldborg í kringum erlenda kröfuhafa og vogunarsjóði. Krafan hlýtur að vera sú að bankastofnanir skili þeim afslætti sem þær fengu úr gömlu bönkunum yfir í þá nýju til sinna viðskiptavina með afgerandi hætti. En það er alveg ljóst að samkvæmt gögnum frá Seðlabankanum þá er nægt svigrúm hjá bönkunum til leiðréttinga á skuldum heimilanna.

Einnig hlýtur það að verða skýr krafa á þinginu að ríkisstjórnin afnemi verðtrygginguna án tafar enda er hér um samfélagslegt mein að ræða sem hefur leikið skuldsett heimili skelfilega á liðnum árum og það er undarlegt að ríkisstjórn sem kennir sig meðal annars við réttlæti skuli láta það óréttlæti viðgangast að skuldsett heimili taki á sig alla ábyrgð er lítur að verðtryggingunni á sama tíma og fjármálastofnanir eru tryggðar upp í rjáfur. Við þetta óréttlæti getur almenningur í þessu landi ekki sætt sig stundinni lengur.

11
Oct

Stjórnarkjör VLFA

Samkvæmt 29. gr. laga Verkalýðsfélags Akraness ber að viðhafa allsherjaratkvæðagreiðslu um kjör stjórnar.

Framboðslistum til stjórnarkjörs í Verkalýðsfélagi Akraness árið 2011, ásamt meðmælendum skv. reglugerð ASÍ um allsherjaratkvæðagreiðslur, ber að merkja kjörstjórn og skila á skrifstofu félagsins, Sunnubraut 13 fyrir kl. 12:00 þann 25. október nk.Hvert það framboð er gilt sem fram kemur innan þess tíma og hefur skriflegt samþykki þeirra sem framboðslistann skipa.

Stjórn og trúnaðarráð Verkalýðsfélags Akraness hefur lagt fram framboðslista til stjórnar. Listann er hægt að skoða með því að smella hér.

Berist kjörstjórn ekki aðrir listar telst framboðslisti stjórnar og trúnaðarráðs sjálfkjörinn til næstu tveggja ára.

06
Oct

Verja þarf heilbrigðiskerfið með kjafti og klóm

Heilbrigðisstofnun Vesturlands á AkranesiHeilbrigðisstofnun Vesturlands á AkranesiNú hefur fjárlagafrumvarpið fyrir árið 2012 litið dagsins ljós og ljóst að verulegar blikur eru nú á lofti hvað varðar heilbrigðisþjónustu vítt og breitt um landið. Samkvæmt fjárlagafrumvarpinu þarf Heilbrigðisstofnun Vesturlands (HVE) að skera niður á næsta ári sem nemur 95 milljónum króna, en rétt er að geta þess að rekstrarhalli á stofnuninni fyrir þetta ár stefnir í að verða á bilinu 50-100 milljónir sem þýðir að skera þarf niður um allt að 200 milljónir á næsta ári hjá Heilbrigðisstofnun Vesturlands.

Frá árinu 2009 nemur heildarniðurskurður hjá stofnuninni uppundir 500 milljónum króna, en þessum niðurskurði hefur meðal annars verið mætt með skerðingu á starfshlutfalli og lækkun launa starfsmanna. En launakostnaður HVE hefur lækkað frá 5% upp í allt að 25%.

Það er morgunljóst að búið er að hagræða öllu sem hægt er að hagræða innan stofnunarinnar og því ljóst að ef áform um frekari niðurskurð verða að veruleika mun það klárlega þýða umtalsverða skerðingu á þjónustu sem m.a. mun birtast í formi uppsagna starfsmanna. Það er spurning hvort ekki megi fara að spyrja sig að því hvort þessi gríðarlegi niðurskurður í heilbrigðiskerfinu fari ekki að nálgast þau mörk að öryggi sjúklinga sé ógnað.

Það er dapurlegt að verða vitni að því hvernig hoggið hefur verið í grunnstoðir okkar velferðarkerfis, en flestum ber saman um að heilbrigðiskerfið sé einn af hornsteinum okkar samfélags og þá þjónustu verðum við Íslendingar að verja með kjafti og klóm og spyrja okkur hvernig við viljum forgangsraða þegar kemur að niðurskurði hjá hinu opinbera.

Að mati formanns er sú forgangsröðun sem nú á sér stað við niðurskurð í fjárlögum röng. Það hlýtur að vera hægt að skera meira niður t.d. hjá utanríkisþjónustunni en kostnaður þess ráðuneytis vegna sendiráða erlendis nemur 2,6 milljörðum. Einnig má spyrja sig að því í ljósi þess gríðarlega niðurskurðar sem orðið hefur víða á okkar grunnstoðum hvort aðildarviðræður við ESB séu réttlætanlegar á þessum tímapunkti í ljósi þess gríðarlega kostnaðar sem Ríkissjóður verður fyrir vegna aðildarumsóknarinnar. Einnig hefur verið til umræðu sá mikli kostnaður er snýr að Sinfoníuhljómsveit Íslands en samkvæmt fjárlögum nemur sá kostnaður um 800 milljónum á næsta ári, Íslenska óperan er með rúmar 100 milljónir og Þjóðleikhúsið rúmar 600 milljónir.

Það eru svona atriði sem Íslendingar þurfa að vega og meta þegar kemur að niðurskurði hjá hinu opinbera. Því það verður ekki bæði haldið og sleppt þegar fjárhagsstaða Ríkissjóðs er jafn slæm og raunin er. En það er alveg ljóst að með þessum niðurskurði í heilbrigðiskerfinu þá mun það þýða verulega skerðingu á þjónustu við landsmenn en heilsan hlýtur að vera það dýrmætasta sem hvert mannsbarn býr yfir.

Formaður spyr sig einnig að því hví í ósköpunum séreignarlífeyrisgreiðslur eru ekki skattlagðar strax eins og formaður hefur reyndar áður bent á að gæti verið ágætis lausn til að mæta hinum mikla rekstrarvanda Ríkissjóðs, en með slíkri ráðstöfun gæti Ríkissjóður náð sér í upp undir 100 milljarða án þess að almenningur yrði svo mikið sem var við það. Með þessum fjármunum væri hægt að verja þessar grunnstoðir okkar sem eru m.a. heilbrigðiskerfið, löggæsla og menntakerfið.

Nú kennir ríkisstjórnin sig við norræna velferð, en það getur vart talist til velferðar að höggva jafnmikið í eina mikilvægustu þjónustu sem hver þjóð þarf að bjóða upp á sem er heilbrigðisþjónusta. Eins og fram hefur komið í fréttum þá hefur forstjóri Landsspítalans látið hafa það eftir sér að ef þessi niðurskurður verði að veruleika þá stefni í að loka þurfi einhverjum deildum á spítalanum og ljóst að fleiri stofnanir munu þurfa að gera slíkt hið sama ef fjárlagafrumvarpið fær að standa óbreytt.

Er það þetta sem við Íslendingar viljum? Svar formanns á þeirri spurningu er: nei.

03
Oct

Launaliður samnings Norðuráls samþykktur með tæplega 70% greiddra atkvæða

Samningur vegna launaliðar kjarasamnings Norðuráls var samþykkturSamningur vegna launaliðar kjarasamnings Norðuráls var samþykkturRétt í þessu var að ljúka talningu úr kosningu vegna launaliðar Norðuráls sem undirritaður var 23. september síðastliðinn. Samningurinn var samþykktur með tæplega 70% greiddra atkvæða.

Á kjörskrá voru 580 manns með sumarafleysingafólki en 422 greiddu atkvæði sem er 72,7% þátttaka.

Já sögðu 287 eða 68%

Nei sögðu 129 eða 30,5%

Auðir og ógildir seðlar voru 6 eða 1,5%.

Það er alveg ljóst í huga formanns félagsins að hér er um nokkuð góðan samning að ræða þó vissulega sé það alltaf þannig að menn vilji meira. Þessi samningur er að skila starfsmönnum sem hafa náð þriggja ára starfsaldri 14,1% launahækkun á þessu ári og er mjög algengt að starfsmenn sem hafi náð 3 ára starfsaldri hafi hækkað um rúmar 60 þúsund á mánuði frá og með 1. desember næstkomandi. Iðnaðarmenn sem hafa starfað í 5 ár eða lengur eru að hækka um allt að 81 þúsund krónur í heildarlaun á mánuði.

Samningurinn gefur á samningstímanum 21,4% og sem dæmi þá er 5 ára starfsmaður á vöktum í kerskála kominn með heildarlaun upp á tæpar 502 þúsund krónur og iðnaðarmaður á vöktum er kominn í 650 þúsund krónur í heildarlaun. Það voru fleiri jákvæð atriði sem náðust út úr þessum samningi eins og til dæmis stóriðjuskólinn sem hefur verið eitt af baráttumálum félagsins um alllanga hríð. Stefnt er að því að starfsemi skólans hefjist í janúar á næsta ári ef allt gengur upp. Það munu 32 starfsmenn komast í skólann í upphafi og munu þeir þá útskrifast um vorið 2013 en skólinn mun veita starfsmönnum 5% launahækkun. Einnig verður boðið upp á framhaldsnám í stóriðjuskólanum og að afloknu framhaldsnámi munu starfsmenn fá 4% launahækkun og samtals mun stóriðjuskólinn því gefa um 9% launahækkun.

Eins og fram hefur komið hér á heimasíðunni þá gildir samningurinn frá 1. janúar 2011 og munu starfsmenn fá laun leiðrétt aftur til þess tíma og er stefnt að því að sú leiðrétting verði greidd í sérstakri útborgun í lok þessa mánaðar.

01
Oct

Formaður Verkalýðfélags Akraness flutti ræðu á Austurvelli í dag

Formaður Verkalýðsfélags Akraness flutti ræðu á samstöðufundinum sem haldinn var Austurvelli í dag.  Óhætt er að segja að góður rómur hafi verið gerður af ræðu formannsins.  Hér kemur ræðan í heild sinni:

 
Ágætu fundarmenn,
 
ég var ekki lengi að svara þegar skipuleggjendur þessa fundar höfðu samband og óskuðu eftir því að ég myndi halda ræðu hér í dag. Og ég er innilega þakklátur fyrir að geta lagt mitt á vogarskálarnar í baráttunni við það óréttlæti sem nú dynur á íslenskum almenningi.
 
En, ég vil að það komi skýrt fram að sá sem hér stendur tilheyrir ekki neinum stjórnmálaflokki, enda er það mín skoðun að forystumenn í verkalýðshreyfingunni eigi ekki undir nokkrum kringumstæðum að vera eyrnamerktir einhverjum einum ákveðnum stjórnmálaflokki, heldur styðja öll góð málefni algerlega óháð því frá hvaða flokki eða hagsmunasamtökum slík mál koma.
 
Á þeirri forsendu er ég stoltur af því að berjast með Hagsmunasamtökum Heimilanna gegn því miskunnarlausa óréttlæti sem beitt er gegn íslenskum heimilum í formi verðtryggingar. En það er ekki bara óréttlætið í kringum verðtrygginguna sem alþýðu þessa lands ofbýður algerlega, heldur einnig þeirri bláköldu staðreynd að stjórnvöld og fjármálastofnanir ætla með góðu eða illu að láta heimilin taka allan forsendubrestinn á sig.  Með öðrum orðum, skjaldborgin sem átti að slá utan um íslensk heimili reyndist vera skjaldborg í kringum kröfuhafa og erlenda vogunarsjóði.
 
Vegna hrunsins eru skuldsett heimili blóði drifin, ekki bara vegna hækkunar á verðtryggðum og stökkbreyttum skuldum heimilanna, heldur einnig vegna þess að allir - ríki, sveitarfélög, verslunareigendur, bankar, tryggingarfélög og svo framvegis hafa varpað sínum vanda grímulaust yfir á almenning í þessu landi. Nú er svo komið að íslensk heimili eru í öðru sæti á lista yfir skuldsettustu heimili í heimi. Aðeins írsk heimili eru skuldsettari samkvæmt upplýsingum Seðlabankans.
 
Ágætu fundarmenn,
 
4. október í fyrra skulfu ráðamenn þessarar þjóðar eins hríslur í vindi þegar um 10.000 manns mættu hingað á Austurvöll til að mótmæla þessu óréttlæti og aðgerðaleysi stjórnvalda gagnvart heimilunum. Í skelfingunni sem greip forsætisráðherra þennan dag, skipaði hún sérfræðihóp til að fara yfir skuldavanda heimilanna og koma með tillögur. 
 
Þær tillögur litu dagsins ljós 3. desember í fyrra og þá var skrifað undir viljayfirlýsingu af hálfu stjórnvalda, bankanna og lífeyrissjóðanna um aðgerðir vegna skuldavanda heimilanna. Því miður voru þessar aðgerðir sem fram komu í viljayfirlýsingunni hvorki fugl né fiskur, enda var ekki verið að leiðrétta þann gríðarlega forsendubrest sem varð á skuldum almennings.  Meginefni samkomulagsins laut að svokallaðri 110% leið þar sem lántökum var boðið að fá niðurfærslu á yfirveðsettum eignum niður að 110%.  Forsætisráðherra sagði að með þessum aðgerðum væri búið að fullnýta allt svigrúm sem til væri. Það er alrangt að mínu mati og mun ég koma að því síðar.
 
Bankanir voru fyrst og fremst að hugsa um eigin hag þegar 110% leiðin var ákveðin enda lá fyrir að stór hluti af þeim sem þyrftu að nýta sér þá leið voru komnir í slíkar ógöngur að bankarnir hefðu hvort eð er þurft að afskrifa umtalsvert hjá þeim. Einnig hefur núna komið í ljós að þeir sem fengu niðurfærslu í 110% leiðinni eru jafnvel komnir aftur upp í 120 – 130% yfirveðsetningu.
 
 
Kæru félagar,
 
öll höfum við séð hvernig höfuðstóll á fasteignaskuldum okkar hefur stökkbreyst á síðustu árum en 20 milljóna verðtryggt húsnæðislán hefur hækkað um tæpar 8 milljónir frá 1. janúar 2008 og það bara vegna verðtryggingarinnar.
 
Sama dag og mótmælin voru hér á Austurvelli 4. október í fyrra námu verðtryggð húsnæðislán heimilanna 1.236 milljörðum. Verðbólga síðustu 12 mánaða mælist nú 5,7% sem þýðir að verðtryggðar fasteignaskuldir hafa hækkað um rúma 70 milljarða frá því að við stóðum hér fyrir ári síðan og kölluðum eftir réttlæti fyrir skuldsett heimili. Já, kæru félagar, húsnæðislánin okkar hafa hækkað um 70 milljarða frá því við stóðum í baráttunni hér fyrir ári síðan. Og mér reiknast til að verðtryggðar skuldir heimilanna hafi hækkað frá 1. janúar 2008 upp undir 350 milljarða. Og það bara vegna verðtryggingarinnar.
 
Það er þessi forsendubrestur sem almenningur krefst að verði leiðréttur.
 
Hvergi á byggðu bóli þekkist verðtrygging með þeim hætti sem íslensk heimili þurfa að búa við. Hvað vitglóra er í því að verðtryggðar skuldir íslenskra heimila geti jafnvel hækkað við uppskerubrest í Brasilíu eða ef einhver harðstjóri í Miðausturlöndum fer vitlaust framúr rúmi að morgni.  Þennan skaðvald sem verðtryggingin er þarf að afnema tafarlaust því það stenst enga skoðun að ábyrgðin liggi öll hjá almenningi á meðan að lánveitendur eru tryggðir í bak og fyrir.
 
Það er þyngra en tárum taki að horfa á og verða vitni að því hvernig komið hefur verið fram við almenning í þessu landi og hinar ýmsu aðgerðir stjórnvalda hafa oft á tíðum unnið algerlega gegn hagsmunum heimilanna.  Þessar aðgerðir stjórnvalda virðast ætíð hafa beinst að því að verja fjármálakerfið og kröfuhafa.  
 
Nægir að nefna í þessu samhengi þann starfshóp sem Jóhanna Sigurðardóttir, núverandi forsætisráðherra og fyrrverandi félags- og tryggingamálaráðherra, skipaði í október 2008. Þessum starfshópi, undir forystu og formennsku Gylfa Arnbjörnssonar forseta ASÍ, var ætlað að skoða hvaða leiðir væru færar til að bregðast meðal annars við vanda heimilanna vegna verðtryggingarinnar og meta fjárhagsleg áhrif þess að fella tímabundið niður verðtryggingu á lánsfé og sparifé.
 
Það tók forseta ASÍ og starfshópinn örfáa daga að komast að niðurstöðu og í minnisblaði frá starfshópnum segir m.a. að gagnvart lánveitendum séu á því alvarleg formerki að afnema verðtrygginguna og það kom einnig fram í þessu minnisblaði frá október 2008 að ef verðtrygging á fasteignalánum til heimila yrði felld niður tímabundið myndi það kosta lánveitendur 180 milljarða.
 
Hvernig má það eiga sér stað að forseti ASÍ sem var formaður þessa starfshóps hafi beitt sér fyrir því að verðtrygging legðist af fullum þunga á íslensk heimili á meðan fjármagnseigendur og kröfuhafar voru tryggðir í bak og fyrir. Þarna var kjörið tækifæri strax í kjölfar hrunsins að deila byrðunum jafnt á milli fjármagnseigenda og skuldsettra heimila með því að taka neysluvísitöluna tímabundið úr sambandi. En niðurstaða starfshópsins og ríkisstjórnarinnar var: Skítt með heimilin, þeim má fórna á altari verðtryggingarinnar.
 
Hvernig má það líka vera að manneskja eins og Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra, sem lagði fram 3 frumvörp á Alþingi um afnám verðtryggingarinnar þegar hún var í stjórnarandstöðu, skuli ekki hafa tekið stöðu með skuldsettum heimilum loksins þegar hún hafði og hefur tækifæri til að afnema þetta samfélagslega mein sem verðtryggingin er.
 
Ágætu fundarmenn,
 
hverjir eru það sem berjast með kjafti og klóm fyrir því að verðtryggingin verði ekki afnumin -  Jú það eru fjármálastofnanir, fjárfestar og síðast en ekki síst lífeyrissjóðselítan.  Lífeyrissjóðirnir hafa hagnast vegna verðbóta á  verðtryggðum fasteignalánum heimilanna um rúma 140 milljarða frá 1. janúar 2008.
 
Þessir snillingar sem stjórna lífeyrissjóðunum krefja sína eigin sjóðsfélaga um ofurvexti plús verðtyggingu og veðrými fasteignar má alls ekki vera meira en 65% þegar tekið er sjóðsfélagalán hjá lífeyrissjóðum.  Með öðrum orðum, lífeyrissjóðir níðast á sínum eigin sjóðsfélögum með þessum okurkjörum en verðtryggð fasteigna- og sjóðsfélagalán eru með tryggustu eignasöfnum lífeyrissjóðanna enda hafa afskriftir sjóðsfélagalána verið sáralitlar. 
 
Öðru máli gegnir um aðrar fjárfestingar sem þessir snillingar sem stjórna lífeyrissjóðunum ástunduðu fyrir hrun. En samkvæmt tölum Seðlabankans frá því í mars á síðasta ári nam tap lífeyrissjóðanna bara á skulda- og hlutabréfum í fyrirtækjum upp undir 500 milljörðum króna. Mörg þessara fyrirtækja sem lífeyrissjóðirnir fjárfestu í voru í eigu svokallaðra útrásarvíkinga og það er morgunljóst í mínum huga að stjórnendur lífeyrissjóðanna bera umtalsverða ábyrgð á því hvernig fór fyrir íslensku efnahagslífi.  Enda stigu stjórnendur lífeyrissjóðanna trylltan dans við kaup á hluta- og skuldabréfum í útblásnum félögum og fyrirtækjum í eigu útrásarvíkinganna þar sem litlar eða engar tryggingar lágu á bakvið aðrar en efnahagsreikningar viðkomandi félaga sem reyndust síðan vera innantóm froða.  
 
Lífeyrissjóðirnir eru eign sjóðsfélaga, enda er hér um að ræða kjarasamningsbundin réttindi sem sjóðsfélagar eiga. Á þeirri forsendu er óskiljanlegt að atvinnurekendur sitji í stjórnum sjóðanna og í mörgum tilfellum eru þeir ekki einu sinni sjóðsfélagar í þeim sjóði sem þeir stjórna.  Ég vil atvinnurekendur burt úr stjórnum lífeyrissjóðanna og ég vil að sjóðsfélagarnir sjálfir kjósi alla stjórnarmenn í sínum lífeyrissjóði.  Það er með ólíkindum að enginn stjórnandi lífeyrissjóðanna skuli hafa axlað ábyrgð á 500 milljarða tapi sjóðanna, á fjármunum sem við sjóðsfélagar eigum, þetta er jú okkar lífeyrir.
 
Ágætu fundarmenn,
ein af kröfum dagsins er að stökkbreyttar skuldir heimilanna verði leiðréttar, en eins og ég sagði áðan þá hélt forsætisráðherrann því fram 3. desember í fyrra að ekkert svigrúm væri til frekari leiðréttinga á skuldum heimilanna. Gögn sem hafa verið að birtast að undanförnu í fjölmiðlum og eru til staðar inná vef Seðlabanka Íslands sýna hins vegar það er alls ekki rétt.  
 
Það liggur fyrir að niðurfærsla á heildarlánasafni til heimilanna úr gömlu bönkunum yfir til þeirra nýju nam 447 milljörðum króna samkvæmt gögnum frá Seðlabankanum.  Samtök fjármálafyrirtækja hafa tilkynnt að það sé búið að afskrifa 144 milljarða til handa heimilunum.  Rétt er hinsvegar að geta þess að af þeirri upphæð eru 120 milljarðar vegna þess að gengistryggðu lánin voru dæmd ólögleg og því ekki um afskrift að ræða í mínum huga heldur leiðréttingu.
 
Á þessu sést að skuldir heimilanna voru færðar niður um 447 milljarða samkvæmt gögnum frá Seðlabankanum.  Búið er að afskrifa 144 milljarða að meðtöldum dómi Hæstaréttar vegna gengistryggðu lánanna. Þetta þýðir að bankanir þrír hafa svigrúm uppá 303 milljarða til að leiðrétta lán heimilanna. Þessar staðreyndir byggja á gögnum frá  Seðlabankanum og Samtökum fjármálafyrirtækja.
 
Að ráðamenn þessarar þjóðar og stjórnendur fjármálakerfisins skuli halda því fram við almenning að ekki sé svigrúm til leiðréttinga á stökkbreyttum skuldum heimilanna er með ólíkindum í ljósi þessara gagna. Það er ekkert skrýtið að nýju bankanir séu búnir að skila 163 milljörðum í hagnað frá stofnun, í ljósi þess að þeir eru ekki að skila þeim afskriftum sem þeir fengu frá gömlu bönkunum til sinna viðskiptavina nema að litlu leyti.
 
Mitt mat er einfalt. Nýju bankarnir fengu gríðarlegan afslátt af skuldum heimila og fyrirtækja en ætla hins vegar að blóðmjólka fyrirtæki og almenning í þágu sinna kröfuhafa þótt nægt svigrúm sé til staðar til leiðréttinga.
 
Nú sveima kröfuhafar eins og hrægammar yfir heimilum landsmanna og víla það ekki fyrir sér að læsa klónum í híbýli almennings ef fólk nær ekki að standa í skilum.  Það er í raun sorglegt að 56 þúsund manns hafi nú tekið út sinn séreignalífeyrissparnað og notað rúmlega 60 milljarða af sínum eigin lífeyri til þess eins að standa í skilum við kröfuhafa og erlenda vogunarsjóði. Þetta er sorglegt í ljósi þeirrar staðreyndar að þessir sömu kröfuhafar fengu gríðarlegan afslátt á skuldum heimilanna en ætla samt að rukka almenning uppí topp og það með góðu eða illu.
 
Að lokum kæru félagar,
 
ein af kröfum dagsins er að verðtryggingin verði afnumin tafarlaust enda er hún að ganga af íslenskum heimilum dauðum og hefur valdið stórfelldum eignabruna hjá stórum hluta þjóðarinnar.
 
Ég vil að það komi skýrt fram að almenningur í þessu landi  er ekki að biðja um neina ölmustu, einungis þá sanngjörnu kröfu að bankanir skili að fullu til heimilanna þeim afskriftum sem þeir fengu við flutninginn á milli gömlu og nýju bankanna og að forsendubrestur lána heimilanna verði leiðréttur í eitt skipti fyrir öll, við annað mun þjóðin ekki una.
 
Takk fyrir.
30
Sep

Formaður Verkalýðsfélags Akraness flytur ræðu á Austurvelli á morgun

Skipuleggjendur að samstöðumótmælum sem haldin verða kl. 10 í fyrramálið á Austurvelli hafa haft samband við formann Verkalýðsfélags Akraness og óskað eftir að hann flytji ræðu á fundinum. Að sjálfsögðu verður formaðurinn við þessari beiðni og ekki er ólíklegt að hann muni gera að umtalsefni í ræðu sinni þann skaðvald sem verðtryggingin er og hvernig hún hefur leikið íslensk heimili.

Einnig er ljóst að formaður mun koma inn á þá staðreynd að margt bendir til þess að bankarnir hafi ekki skilað afskriftum til sinna viðskiptavina í samræmi við þær gríðarlegu afskriftir sem þeir fengu við yfirfærsluna úr gömlu bönkunum yfir í þá nýju.

Andrea Ólafsdóttir, formaður Hagsmunasamtaka heimilanna, mun einnig flytja ávarp en til stendur að afhenda forsætisráðherra yfir 30 þúsund undirskriftir þar sem þess er krafist að verðtryggingin verði afnumin og að almennar og réttlátar leiðréttingar verði gerðar á skuldum heimilanna.

Á samstöðufundinum verður einnig boðið upp á tónlistaratriði samkvæmt auglýstri dagskrá en þar munu meðal annars mæta Fjallabræður ásamt Magnúsi Þór Sigmundssyni og Jónasi Sigurðssyni, Gunnar Þórðarsson, KK, Bjartmar Guðlaugsson, Gylfi Ægisson, Megas og Rúnar Þór Pétursson.

Formaður vonast til að sem flestir sjái sér fært að mæta og mótmæli með friðsamlegum hætti enda er morgunljóst að friðsæl mótmæli eiga alveg að geta skilað tilætluðum árangri.

30
Sep

Síðasti kynningarfundur VLFA um launalið Norðuráls var í gær

Í gær var haldinn síðasti kynningarfundurinn sem formaður VLFA hélt fyrir starfsmenn Norðuráls um efni nýgerðs samnings um launalið kjarasamnings Norðuráls en formaður hélt eina fimm kynningarfundi í þessari viku.

Fram kom í máli formanns að hann telur að þessi samningur sé mjög góður fyrir starfsmenn Norðuráls og sem dæmi þá mun verkamaður á vöktum vera kominn með í heildarlaun 1. desember næstkomandi um 502 þúsund krónur. Iðnaðarmaður á vöktum verður kominn með í heildarlaun um 650 þúsund krónur en á bak við þessi laun liggur vaktavinna og heildar vinnustundafjöldi á mánuði er 182 tímar. Mjög algengt er að vaktavinnufólk með 3 ára starfsreynslu eða meira sé að hækka í launum um eða yfir 60 þúsund krónur frá og með 1. desember. Hinsvegar eru iðnaðarmenn á vöktum að hækka um allt að 82 þúsund krónur á mánuði miðað við þau laun sem þeir hafa í dag ef samningurinn verður samþykktur.

Það náðist einnig í gegn í þessum samningi svokallaður stóriðjuskóli sem hefur verið baráttumál félagsins og starfsmanna um alllanga hríð en skólinn mun skila starfsmönnum að afloknu grunnnámi 5% hækkun á grunnlaun og að afloknu framhaldsnámi mun hækkunin vera 4% eða samtals 9% hækkun á grunnlaunum. Til stendur að láta stóriðjuskólann hefjast í byrjun janúar 2012 ef allt gengur upp og ef það tekst munu fyrstu starfsmenn Norðuráls útskrifast úr skólanum um vorið 2013.  

Hægt verður að kjósa um samninginn til kl. 12 á hádegi á mánudaginn en áætlað er að yfir 85% hafi nú þegar kosið. Niðurstaða talningar mun verða birt um leið og hún liggur fyrir.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image