• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
09
Feb

Vantar 742 milljarða til að lífeyrissjóðskerfið geti staðið við sínar skuldbindingar

Formaður félagsins hefur verið að skoða tryggingafræðilega stöðu allra lífeyrissjóða á landinu samkvæmt rannsóknarskýrslunni sem gerð var á dögunum. Í þeirri samantekt kemur fram  að lífeyrissjóðina vantar tæpa 742 milljarða til að geta staðið við sínar skuldbindingar. Tryggingafræðileg úttekt á sjóðunum er framkvæmd á hverju ári og eru annars vegar reiknaðar út áfallnar skuldbindingar sjóðanna miðað við áunninn rétt sjóðsfélaga og hins vegar heildarskuldbindingar miðað við að virkir sjóðsfélagar greiði áfram iðgjöld til sjóðsins þar til þeir hefja töku lífeyrisins. Og í þessum tryggingafræðilegu úttektum er jafnan miðað við að ávöxtun sjóðanna á næstu áratugum verði 3,5% umfram hækkun vísitölu neysluverðs. Rétt er hins vegar að vekja sérstaka athygli á að meðalraunávöxtun lífeyrissjóða innan ASÍ síðustu 10 ára er 0,9%. Þannig að það vantar 2,6% upp á að 3,5% markmiðið náist. Það er ekki hægt að segja að þetta sé glæsilegur árangur hjá þessum snillingum. Það er líka rétt að geta þess að þessum 480 milljörðum sem lífeyrissjóðskerfið tapaði þá töpuðu lífeyrissjóðirnir innan ASÍ rúmum 273 milljörðum og margt bendir til þess að ekki nokkur maður ætli að axla ábyrgð á þessu miskunnarlausa tapi.

Það er með ólíkindum að menn skuli síðan tala um að þetta sé eitt af bestu lífeyriskerfum í heimi í ljósi þeirrar bláköldu staðreyndar að kerfið vantar eins og áður sagði uppundir 742 milljarða til að geta staðið við sínar skuldbindingar samkvæmt hinum áðurnefndu tryggingafræðilegu úttektum.

Þeir níu lífeyrissjóðir sem tilheyra Alþýðusambandi Íslands eru með neikvæða tryggingastöðu sem nemur tæpum 200 milljörðum króna og morgunljóst að ef staða sjóðanna mun ekki taka stökkbreytingum þá mun koma til umtalsverðra skerðinga á lífeyri launafólks.

 

 

Öðru máli gegnir um skelfilega stöðu lífeyrissjóðs opinberra starfsmanna, LSR, en sá sjóður er með bakábyrgð ríkisins á B deild sjóðsins og sjóð hjúkrunarfræðinga. En neikvæð staða LSR samkvæmt skýrslunni frá árinu 2009 er um 444 milljarðar. Það morgunljóst að það muni koma í hlut skattgreiðenda að sjá til þess að hægt verði að standa við þær skuldbindingar sem fram koma hjá lífeyrissjóði opinberra starfsmanna.  Rétt er að vekja athygli á því að Lífeyrissjóður LSR tapaði 100 milljörðum í hruninu, en þessir menn sem þar stjórna telja sig ekki bera neina ábyrgð á slíku ofurtapi enda verður þessu tapi væntanlega varpað miskunnarlaust yfir á íslenska skattgreiðendur.

 

 

Það sama gildir um lífeyrissjóði starfsmanna sveitarfélaga sem eru með bakábyrgð með sambærilegum hætti og B deild opinberra starfsmanna hjá ríkinu er með, en neikvæð tryggingafræðileg staða þessara sjóða nemur tæpum 50 milljörðum króna. Það eru ekkert ýkja mörg ár þar til fer að reyna á bakábyrgð sveitarfélaganna og meðal annars er neikvæð staða á lífeyrissjóði starfsmanna Akraneskaupstaðar tæpir 4,5 milljarðar og sagt er í skýrslunni að það muni reyna á bakábyrgðina á árinu 2026. Með öðrum orðum, þá mun það koma í hlut skattgreiðenda í þessum sveitarfélögum að standa við skuldbindingar þessara sjóða.

 

 

Mat formanns er einfalt. Þetta kerfi er nánast að hruni komið í ljósi þeirrar bláköldu staðreyndar að það vantar uppundir 750 milljarða inn í kerfið til að það geti staðið við sínar skuldbindingar og það er nöturlegt til þess að vita að umtalsverðar líkur eru á að til skerðinga komi hjá lífeyrisþegum á hinum almenna vinnumarkaði á sama tíma og skattgreiðendur munu þurfa að baktryggja þann 500 milljarða halla sem er hjá ríki og lífeyrissjóði starfsmanna sveitarfélaga. En rétt er að geta þess að þessum lífeyrissjóðum starfsmanna sveitarfélaga var lokað fyrir nýjum sjóðsfélögum árið 1998.

Það verður að endurskoða þetta kerfi algjörlega frá grunni í ljósi þessara staðreynda og það verður að vera hlutverk Alþingis Íslendinga að fara ofan í kerfið, rannsaka það ofan í kjölinn og koma með vitrænar úrbætur með hagsmuni allra lífeyrisþega að leiðarljósi en ekki fárra eins og kerfið er uppbyggt núna.  Einnig þarf að skoða og koma með úrbætur á því miskunnalausa óréttlæti sem ríkir varðandi tekjutengingar á milli Tryggingastofnunar og greiðslna út úr lífeyrissjóðunum en eins og staðan er núna er sáralítill ávinningur fyrir sjóðsfélaga að greiða inn í sjóðina. Enda skerðir Tryggingastofnun krónu á móti krónu greiðslu sem kemur út frá lífeyrissjóði upp að 70 þúsund krónum á mánuði. Á þessum forsendum verður Alþingi að standa við fyrri samþykkt sína sem samþykkt var 63-0 um að hefja rannsókn á lífeyrissjóðunum og koma með tillögur að úrlausn til hagsbóta fyrir alla landsmenn.

Það er ekki boðlegt að hlusta á þann málflutning forsvarsmanna lífeyrissjóðanna sem keppast nú við að segja að læra verði af því sem miður fór og í raun og veru sé kerfið mjög gott og hafi staðið þessi áföll af sér. Það liggur fyrir að það er umtalsverð froða ennþá í kerfinu og nægir að nefna í því samhengi að erlendar eignir lífeyrissjóðanna tvöfölduðust vegna falls íslensku krónunnar og á þeirri forsendu verða menn að búa sig undir það að þegar og ef krónan styrkist munu erlendu eignirnar rýrna umtalsvert. Það er einnig rétt að rifja upp að lífeyrissjóðirnir tóku þátt í skuldabréfaútboði á Símanum upp á 15 milljarða sem er bókfært núna í tæpum 24 milljörðum og kemur á gjalddaga á árinu 2014, en það eru ekki miklar líkur á að lífeyrissjóðirnir muni fá greiðslu miðað við stöðu Símans í dag. Einnig liggur fyrir að gjaldmiðlavarnarsamningarnir eru óuppgerðir, eins og fram kemur í skýrslunni, upp á tugi milljarða króna. Bara hjá Lífeyrissjóði Festu eru hér hagsmunir upp á rúman 2,1 milljarð að ræða sem ekki liggur fyrir hvort tapist eða ekki.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image