• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
03
Feb

Mótframlag Norðuráls í séreignarsjóði starfsmanna verður áfram óbreytt

Eins og fram hefur komið í fjölmiðlum þá breytti ríkisstjórn Íslands tímabundið gildandi lögum um séreignarsjóði. Breytingin tók gildi 1. janúar 2012 og gildir til 31. desember 2014.

Samkvæmt nýjum lögum er framlag starfsmanns í séreignarsjóð er nú einungis skattfrjálst upp að 2%, en framlag umfram það er nú skattað. Þar er einnig kveðið á um að launagreiðendur eigi að setja alla launþega niður í 2ja% framlag og starfsmaðurinn sjálfur verði að óska sérstaklega eftir því, vilji hann greiða meira en 2%.

Vegna þessara laga ákvað Norðurál að senda starfsmönnum bréf þann 23. janúar sl. og tilkynnti að samhliða lækkun framlags starfsmanns í 2% myndi mótframlag fyrirtækisins lækka um 1% eða úr 6,5% niður í 5,5%.

Í kjarasamningum Norðuráls er kveðið á um að starfsmaður sem greiðir 1% fái 4,5% mótframlag frá fyrirtækinu og starfsmaður sem greiðir 2% fái 5,5%. Þeir starfsmenn sem kjósa að greiða 3% eða meira eiga að fá 6,5%. En eins og áður sagði þá kveða lögin á um að allir skuli settir niður í 2% og á þeirri forsendu ætlaði fyrirtækið að lækka starfsmenn um 1% eins og áður sagði.

Þessu mótmælti Verkalýðsfélag Akraness harðlega, sem og önnur stéttarfélög sem eiga aðild að kjarasamningi við Norðurál, á grundvelli þess að það var ekki skilningur laganna að þetta myndi skaða launafólk að óþörfu. Á þessi rök féllust forsvarsmenn Norðuráls í gær og þeir starfsmenn sem voru að greiða 3-4% fyrir gildistöku laganna munu áfram fá 6,5% mótframlag þótt þeirra eigin framlag hafi verið lækkað niður í 2%.

Þetta er mjög ánægjuleg niðurstaða, því hér getur verið um umtalsverða hagsmuni að ræða fyrir hvern starfsmann. 1% mótframlag atvinnurekenda í séreignasjóð þýðir um 60.000 kr. á ársgrundvelli. Á því sést að hér er um mikla hagsmuni að ræða fyrir þá starfsmenn sem um ræðir.

Það er hins vegar ámælisvert af hálfu ríkisstjórnarinnar að hafa ráðist á séreignarsparnað launafólks jafnillilega og gert var í þessum lögum því starfsmaður sem kýs að vera með framlag sitt umfram 2% mun lenda í tvískattlagningu og eðli málsins samkvæmt er ekki mikill hagur af slíkum sparnaði fyrir þann sem slíka ákvörðun tekur. Á þeirri forsendu er ekki annað hægt en að fordæma þessi vinnubrögð hjá ríkisstjórn sem kennir sig við félagshyggju.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image