• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
Fréttir

Fréttir

19
Sep

Hver þarf að eiga óvini þegar hann á svona vini?

Það  er þyngra en tárum taki að verða vitni að því hvernig svokallaðar vinaþjóðir koma fram við smáþjóð eins og okkur Íslendinga.  Í kjölfar bankahrunsins settu Bretar á okkur hryðjuverkalög sem hafa að öllum líkindum kostað þjóðina tugi milljarða króna og því til viðbótar liggur fyrir að orðspor þjóðarinnar hefur beðið verulegan skaða af á alþjóðavettvangi vegna þessarar ákvörðunar breskra stjórnvalda.

Áfram halda þessar svokölluðu vinaþjóðir að höggva í sama knérunn en Bandaríkjaforseti tilkynnti fyrir nokkrum dögum að gripið yrði til diplómatískra aðgerða gegn Íslandi vegna hvalveiða Íslendinga.

Formaður félagsins spyr, hvað eru bandarísk stjórnvöld að skipta sér af hvalveiðum Íslendinga í ljósi þeirra staðreynda að hvalveiðar Íslendinga eru löglegar og alþjóðleg viðskipti með hvalaafurðir eru í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar.

Að fá slíka hótun frá stórveldi eins og Bandaríkjamönnum er grafalvarlegt í ljósi þeirra staðreynda að það liggur fyrir að veiðar Íslendinga á hrefnu og langreyðum eru byggðar á löglegum og traustum vísindalegum grunni og það er skylda íslenskra stjórnvalda að mótmæla svona ofbeldi af fullri hörku.

Það er stórmál ef stórþjóðir eins og Bandaríkin ætla að skipta sér af því hvernig við nýtum  okkar sjávarauðlindir sem eru nýttar samkvæmt útgefnum kvótum að fenginni ráðgjöf frá Hafrannsóknarstofnun.

Það vita allir að afkoma okkar Íslendinga byggist að stórum hluta á sjávarfangi en um 50% gjaldeyristekna þjóðarinnar kemur frá sjávarútvegnum. Því eru svona hótanir ekkert annað en aðför að velferð okkar Íslendinga. Formaður VLFA spyr hvar mun þessi vitleysa  enda og getum við átt von á því að gerð verði krafa um að veiðum verði hætt á öðrum fiskistofnum eins og t.d. þorski.

Það er morgunljóst að hvalveiðar skipta þjóðarbúið máli svo ekki sé talað um samfélagið hér á Akranesi en um 200 manns störfuðu við veiðar og vinnslu á vertíðinni 2010 og sem dæmi voru meðallaun yfir 700.000 kr. á mánuði. Þó er rétt að geta þess að mikið vinnuframlag lá að baki slíkum launum.

Því miður þurfti Kristján Loftsson hjá Hval hf. að hætta við hvalveiðar á þessari vertíð vegna náttúruhamfaranna sem riðu yfir Japan, en það er einlæg von mín úr rætist á næsta ári þannig að hægt verði að hefja veiðar á langreyðum strax í júní á næsta ári.

Formaðurinn skorar á íslensk stjórnvöld að mótmæla harðlega þessum aðgerðum Bandaríkjamanna sem eru eins og áður sagði ógn við velferð og sjálfstæði okkar Íslendinga til að nýta okkar sjávarauðlindir.

Hver þarf að eiga óvini þegar hann á svona vini eins og Breta og Bandaríkjamenn?

16
Sep

Góður samstöðufundur í Bíóhöllinni í gær

Verkalýðsfélag Akraness stóð fyrir fundi í Bíóhöllinni í gær með starfsmönnum Norðuráls vegna kjaradeilu sem félagið á í við Norðurál en eins og margoft hefur komið fram hér á heimasíðunni þá rann launaliður kjarasamningsins út 1. janúar síðastliðinn. Ágætis mæting var á fundinn en um 170 manns mættu en þetta er þriðji kynningar- og samstöðufundurinn sem félagið heldur á liðnum mánuðum þar sem farið er yfir stöðu mála.

Í gær fór formaður ítarlega yfir tilboð sem forsvarsmenn fyrirtækisins lögðu fram 22. ágúst síðastliðinn og kom skýrt fram hjá fundarmönnum að það tilboð sé óásættanlegt með öllu. Krafa starfsmanna er skýr en hún er sú að laun starfsmanna Norðuráls séu með sambærilegum hætti og gerist í öðrum iðnfyrirtækjum í sambærilegum iðnaði. Formaður fór yfir stöðuna og kallaði eftir hugmyndum frá starfsmönnum um hvaða leið best væri að fara og það var afar ánægjulegt að finna þá miklu samstöðu og einhug sem ríkir hjá starfsmönnum í þessari kjaradeilu en það er morgunljóst að það þarf að fara að ganga frá launalið kjarasamningsins sem allra fyrst.

Fundurinn samþykkti viss markmið sem formanni var falið að vinna eftir og það er ljóst að það er umtalsverð vinna framundan við að ná þessum markmiðum en með samstöðuna að vopni er æði margt hægt að gera. Formaður hefur átt óformlega fundi með Ragnari Guðmundssyni, forstjóra Norðuráls, þar sem leitað hefur verið leiða til að finna lausn á þessari deilu og vonandi munu samningsaðilar ná saman en það mun ekki takast nema að jöfnuður við fyrirtæki í sambærilegum iðnaði nái fram að ganga. Formaður hefur greint forstjóra Norðuráls frá niðurstöðum frá þessum fundi í gærkvöldi og er hann nú með málið til skoðunar hjá sér og er það einlæg von formanns félagsins að hægt verði að ná niðurstöðu í þetta mál því það er óþolandi með öllu að starfsmenn séu búnir að vera án launahækkana í rúma 9 mánuði.

En það liggur einnig fyrir að það eru fleiri álfyrirtæki sem eru í harðri kjarabaráttu um þessar mundir en eins og flestir vita þá felldu starfsmenn Alcan í Straumsvík kjarasamning sinn með 70% atkvæða fyrir skemmstu og að sjálfsögðu fylgjast starfsmenn Norðuráls og Verkalýðsfélag Akraness vel með hvernig því máli mun lykta. En formaður ítrekar þá ósk sína að hægt verði að ganga frá launalið samningsins sem fyrst því það gengur ekki upp fyrir fólk að fá skefjalausar verðlagshækkanir á öllum sviðum á sig á sama tíma og launahækkanir láta á sér standa.

15
Sep

Fundur í kvöld kl. 20:30 fyrir starfsmenn Norðuráls

Mætum öll í kvöld!Félagið vill enn og aftur minna á gríðarlega mikilvægan samstöðu- og kynningarfund fyrir starfsmenn Norðuráls sem haldinn verður í Bíóhöllinni í kvöld kl. 20:30.

Mjög mikilvægt er að allir starfsmenn sem ekki eru á vakt á þessum tíma mæti á fundinn.

13
Sep

Kynningar- og samstöðufundur fyrir starfsmenn Norðuráls

Kynningar- og samstöðufundur verður haldinn fyrir starfsmenn Norðuráls næstkomandi fimmtudag, 15. september. Fundurinn fer fram í Bíóhöllinni og hefst kl. 20:30. Á fundinum mun formaður félagsins fara yfir stöðu mála en launaliður starfsmanna hefur verið laus frá áramótum. Einnig verður farið yfir hvað hægt sé að gera og ekki síst hvað starfsmenn vilja gera í þessari erfiðu stöðu. Því er gríðarlega mikilvægt að allir sem mögulega geta mæti á fundinn og sýni þannig samstöðu í verki.  

12
Sep

Ferð "eldri deildar" Verkalýðsfélags Akraness vel heppnuð

Síðastliðinn föstudag héldu eldri félagsmenn Verkalýðsfélags Akraness ásamt mökum í sína árlegu dagsferð á vegum félagsins. Þátttakendur voru um 100 talsins auk fulltrúa frá félaginu. Þessi ferð er árlegur liður í starfsemi félagsins og að þessu sinni var ferðinni heitið til Reykjavíkur undir dyggri leiðsögn Björns Inga Finsen.

Ekið var í tveimur rútum sem leið lá norður fyrir Akrafjall að Grundartanga þar sem ekki var áð, en aðeins keyrt um þetta svæði þar sem mikil uppbygging hefur átt sér stað síðustu ár með tilheyrandi nýbyggingum og nýjum fyrirtækjum sem hafa hafið þar starfsemi sína.

Frá Grundartanga var ekið um Hvalfjarðargöng að Kjalarnesi. Hringur var ekinn um Grundarhverfi áður en haldið var áfram suður Vesturlandsveg í gegnum Mosfellsbæ og að Korpúlfsstöðum, framhjá Egilshöll og áfram upp í Grafarholt þaðan sem frábært útsýni er í allar áttir og ekki síst að Esju og upp á Akranes.

Fyrsti áningarstaður ferðarinnar var í Morgunblaðshúsinu í Hádegismóum þar sem vel var tekið á móti okkur. Karl Blöndal aðstoðarritstjóri ræddi við hópinn og svaraði fyrirspurnum og síðan tók Svanhvít starfsmannastjóri við hópnum og leiddi hann í skoðunarferð um prentsmiðjuna.

Frá Hádegismóum var ekið rakleiðis að Árbæjarsafni þar sem leiðsögumennirnir Hjördís og Karl skiptu hópnum á milli sín og leiddu um safnið. Góður rómur var gerður að kynningu þeirra og hefðu margir vilja dvelja lengur á safninu enda könnuðust sumir vel við að hafa búið í húsum keimlíkum þeim sem tilheyra sýningunni á Árbæjarsafni.

Næsti viðkomustaður var Höfði þar sem ferðafólk teygði úr sér í góða veðrinu og skoðaði þetta virðulega og sögulega hús, en búið er að setja upplýsingaskilti við húsið sem fróðlegt er að skoða.

Þegar hér var komið sögu var ferðfólk farið að svengja enda sól að nálgast hádegisstað. Hádegisverður var snæddur á veitingastaðnum Munnhörpunni sem staðsettur í hinu nýja tónlistarhúsi Hörpu. Eftir matinn gat fólk gengið um Hörpu og skoðað húsið.

Frá Hörpu var ekið að Þjóðarbókhlöðu þar sem hópurinn fékk hlýjar móttökur. Í kynningu sem hópurinn fékk var sérstaklega tekið fram hversu ánægjulegt það væri að fá að kynna þjónustu bókhlöðunnar fyrir þessum aldurshópi þar sem yfirleitt væru notendur safnsins í yngri kantinum og aukinn fjölbreytileiki í þeim efnum væri af hinu góða.

Eftir að hafa blaðað aðeins í tímaritum og bókum á Þjóðarbókhlöðu lá leiðin á Austurvöll þar sem Guðbjartur Hannesson, velferðarráðherra, tók á móti hópnum og fylgdi um Alþingishúsið ásamt starfsmönnum Alþingis. Hópurinn fékk góða og fróðlega leiðsögn um húsið og gott spjall við ráðherrann. Vegna stærðar hópsins þurfti að tvískipta honum og fór sá hópur sem var utanþings í Ráðhús Reykjavíkur þar sem sumir skoðuðu upphleypta Íslandskortið á meðan aðrir gengu að Tjörninni og gáfu öndunum brauð.

Á heimleiðinni var komið við í Perlunni þar sem félagið bauð upp á síðdegishressingu.

Þykir ferðin í ár hafa heppnast einstaklega vel og kann félagið öllum þeim sem komu að undirbúningi og framkvæmd hennar bestu þakkir fyrir. Sérstakar þakkir fær Björn Finsen leiðsögumaður sem kann, að því er virðist, áhugaverða sögu um hvern stein og hvert götuhorn sem á vegi hans verður, samferðafólki hans til fræðslu og yndisauka.

Hægt er að skoða myndir úr ferðinni með því að smella hér.

08
Sep

Fundur með starfsmönnum Norðuráls fimmtudaginn 15. september

Nú er liðinn 251 dagur frá því launaliður kjarasamnings Norðuráls rann út og hafa formlegir samningafundir ekki borið árangur til þessa. Krafa Verkalýðsfélags Akraness í þessum viðræðum er jöfnuður við verksmiðjur í sambærilegum iðnaði en því miður hafa launakjör hjá Norðuráli verið töluvert lakari en gerist í öðrum sambærilegum verksmiðjum.

Formaður hefur átt óformlega fundi með forsvarsmönnum Norðuráls að undanförnu þar sem leitað er leiða til að finna lausn á þeim ágreiningi sem er á milli samningsaðila. Hefur það ekki borið árangur til þessa en þessum óformlegu viðræðum verður haldið áfram. Nú liggur fyrir að kjarasamningur Alcan í Straumsvík sem undirritaður var fyrir skemmstu var kolfelldur í atkvæðagreiðslu á meðal starfsmanna en ein af kröfum starfsmanna Norðuráls er einmitt jöfnuður meðal annars við Alcan í Straumsvík.

Verkalýðsfélag Akraness hefur ákveðið að halda fund með starfsmönnum Norðuráls sem haldinn verður í Bíóhöllinni fimmtudaginn 15. september næstkomandi en þar mun formaður fara yfir þá möguleika sem eru í stöðunni og kalla eftir viðbrögðum frá starfsmönnum um hvað gera skuli. Félagið leggur mikla áherslu á það að upplýsa starfsmenn eins vel og kostur er um þá möguleika sem í stöðunni eru en eins og áður sagði er það morgunljóst að félagið mun ekki hvika frá þeirri sanngjörnu kröfu að launakjör í Norðuráli verði með sambærilegum hætti og í sambærilegum verksmiðjum hér á landi. Það liggur fyrir að baráttumál eins og upptaka á stóriðjuskóla, sem mun skila starfsmönnum ávinningi að loknu námi, virðist vera að nást í þessum viðræðum, eina sem útaf stendur er hversu mikill sá ávinnungur verður og hvenær skólinn á að hefjast. En formaður er vongóður um að niðurstaða muni nást í þessu máli sem ætti að geta verið ásættanleg fyrir starfsmenn.

Eins og áður sagði er 251 dagur liðinn frá því að launaliðurinn rann út og því er mjög mikilvægt að niðurstaða fari að komast í þessar viðræður því það er ekki hægt að bjóða starfsmönnum upp á að vera án kjarasamningsbundinna launahækkana í eina 9 mánuði eins og raunin er nú orðin.

06
Sep

Kjarasamningur VLFA við sveitarfélögin

Kjarasamningur Verkalýðsfélags Akraness við Samband íslenskra sveitarfélaga sem undirritaður var þann 7. júlí síðastliðinn hefur nú verið prentaður. Þeir félagsmenn sem starfa fyrir sveitarfélögin geta nálgast innbundið eintak af samningnum á skrifstofu félagsins að Sunnubraut 13. Hægt er að nálgast vefútgáfu af samningnum hér og einnig má nálgast kauptaxtana hér.

02
Sep

Nýi sumarbústaðurinn klár til útleigu 16. september

Eins og fram hefur komið hér á heimasíðunni þá festi Verkalýðsfélag Akraness nýverið kaup á sumarbústað að Berjabraut 10 í Kjós í Hvalfirði sem er einungis í 25 mínútna akstursfjarlægð frá Akranesi. Þetta er 83 fm bústaður sem byggður var 2005 og er allur hinn glæsilegasti. Nú hafa iðnaðarmenn verið að störfum við að stækka pall og aðlaga bústaðinn að þörfum félagsmanna og er áætlað að bústaðurinn verði klár til útleigu föstudaginn 16. september. Hins vegar verður nokkurra vikna bið á því að hægt verði að taka í notkun heitan pott vegna þess að nokkurra vikna afhendingatími er á þeim potti sem pantaður hefur verið.

Starfsmenn hafa verið að kaupa inn húsbúnað og annað innbú og er ljóst að bústaðurinn verður allur hinn glæsilegasti þegar hann verður tilbúinn til útleigu fyrir félagsmenn. Vonandi munu félagsmenn nýta sér þennan valmöguleika vel enda er bústaðurinn staðsettur á gríðarlega fallegum stað í Hvalfirði. Hægt er að panta bústaðinn nú þegar, en eins og áður sagði hefst útleigan föstudaginn 16. september.

26
Aug

Fundur með starfsmönnum Norðuráls í Bíóhöllinni

Það er ekki hægt að segja að útlitið sé ýkja bjart hvað varðar lausn á kjaradeilu Verkalýðsfélags Akraness við forsvarsmenn Norðuráls. Eins og fram hefur komið hér á heimasíðunni þá ber himin og haf á milli deiluaðila, miðað við það tilboð sem forsvarsmenn Norðuráls lögðu fram samningafundinum á mánudaginn var.

Krafa Verkalýðsfélags Akraness og starfsmanna er jöfnuður á við verksmiðjur í sambærilegri starfsgrein, en launamunur á milli Alcan, Fjarðaál og Elkem Ísland er sláandi eins og margoft hefur komið fram hér á heimasíðunni.  Í fyrradag gekk Alcan frá samningi við sína starfsmenn og er launamunur Norðuráls og Alcan eftir samninginn orðinn 12% og ef tekið er tillit til stóriðjuskólans sem Alcan býður sínu starfsfólki uppá er launamunurinn 23%. 

Launamunurinn á milli Elkem Ísland og Norðuráls er 11% en búið er að semja fyrir starfsmenn Elkem og síðan er launamunurinn á milli Fjarðaáls og Norðuráls á bilinu 15% og uppí allt að 30%

Á þessu sést að staðan er ekki ýkja björt og lausn á þessari erfiðu deilu ekki í sjónmáli og það er formanni Verkalýðsfélags Akraness algerlega hulin ráðgáta hví í ósköpunum forsvarsmenn og eigendur Norðuráls halda að þeir komist upp með að greiða langtum lægri laun en sæmbærilegar verksmiðjur hér á landi.  Ef eigendur Norðuráls halda að formaður VLFA og starfsmenn hafi þolinmæði til að sætta sig við að rekin sé einhver láglaunastefna ár eftir ár í Norðuráli þá er það mikill misskilningur vegna þess að þolinmæðin er gjörsamlega að þrotum komin.

Eins og áður sagði þá var gengið frá nýjum kjarasamningi við Alcan í fyrradag og mun atkvæðagreiðslu um þann samning ljúka 8. september og í beinu framhaldi af þeirri niðurstöðu mun formaður Verkalýðsfélags Akraness boða til fundar með starfsmönnum í Bíóhöllinni þar sem sem farið verður yfir þá grafalvarlegu stöðu sem upp er komin og það verða starfsmenn sjálfir sem munu taka ákvörðun um hvert framhaldið verður í þessum viðræðum.  En það hefur verið gríðarlega jákvætt að finna þá miklu samstöðu sem ríkir á meðal starfsmanna í þessari erfiðu deilu og greinilegt að starfsmenn Norðuráls sætta sig ekki við þessa mismunun stundinni lengur.

Rétt er að geta þess að sú bókun sem Verkalýðsfélag Akraness náði í gegn í síðasta samningi er gríðarlega mikilvæg í þessari erfiðu deilu.  En bókunin tryggir með afgerandi hætti að ávalt skuli launaliðir kjarasamnings Norðuráls gilda frá þeim tíma sem samningar renna út. Með öðrum orðum, starfsmenn eru tryggðir fyrir því að þótt samningar dragist á langinn þá munu þeir gilda frá þeim tíma sem fyrri samningur rann út.

Fundurinn í Bíóhöllinni verður auglýstur mjög vel þegar nákvæm dagsetning liggur fyrir.

25
Aug

Ferð eldri félagsmanna í undirbúningi

Á skrifstofu félagsins stendur nú sem hæst undirbúningur fyrir dagsferð eldri félagsmanna, en árlega býður félagið félagsmönnum sínum 70 ára og eldri ásamt mökum í slíka ferð. Þessi ferð hefur verið afskaplega vinsæl og venjulega taka yfir 100 manns þátt í henni. Síðustu ár hefur t.a.m. verið farið um Reykjanesið, Snæfellsnes, Suðurlandið og í fyrra var farið til Vestmannaeyja.

Verið er að leggja lokahönd á dagskrána, en í ár er dagsferðin fyrirhuguð föstudaginn 9. september og er ferðinni heitið til Reykjavíkur undir dyggri leiðsögn Björns Finsen. Áð verður á ýmsum stöðum og boðið upp á hádegisverð og síðdegishressingu.

Í næstu viku fá félagsmenn VLFA 70 ára og eldri sent boðsbréf þar sem nánari upplýsingar um ferðatilhögun og skráningu koma fram.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image