• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
Reiði og gremja á fundi um öldrunarmál í gær Hluti fundargesta á fundi um öldrunarmál í gærkvöldi. Mynd af vef Skessuhorns.
13
Jan

Reiði og gremja á fundi um öldrunarmál í gær

Það ríkti umtalsverð gremja og reiði á meðal fundarmanna á fundi sem haldinn var í gærkvöldi vegna þess mikla niðurskurðar sem Heilbrigðisstofnun Vesturlands hefur mátt þola á undanförnum árum. Eins og fram hefur komið í fjölmiðlum þá hefur verið tekin ákvörðun um að loka öldurnardeild sjúkrahússins með þeim afleiðingum að um 26 starfsmenn munu missa vinnuna.

Guðbjartur Hannesson, velferðarráðherra, flutti ávarp og fór yfir ástæður fyrir þessum niðurskurði. Einnig voru bæjarfulltrúarnir Sveinn Kristinsson og Gunnar Sigurðsson með ávörp á fundinum en fundurinn var boðaður af hálfu Sjúkraliðafélags Íslands en langflestir þeirra sem fengu uppsögn vegna þessarar lokunar eru frá Sjúkraliðafélaginu. Þingmönnum Norðvesturkjördæmis var boðið á fundinn og þeir sem mættu voru Ásmundur Daði Einarsson, Gunnar Bragi Sveinsson, Ásbjörn Óttarsson og Einar K. Guðfinnsson.

Fundarmenn kölluðu eftir því í hverju þessi sparnaður væri fólginn því það lægi fyrir að alltaf þarf að þjónusta þetta fólk sem dvalið hefur á öldrunardeildinni. Fram kom hjá aðstandendum sem sátu fundinn að frábær þjónusta hafi verið veitt á þessari tilteknu deild og það væri sárt að sjá á eftir því góða starfsfólki sem þar starfar.

Formaður Verkalýðsfélags Akraness, sem jafnframt var fundarstjóri á þessum fundi, gagnrýndi harðlega þá forgangsröðun sem hefur verið hjá stjórnvöldum og nefndi hann sem dæmi að verið væri að styrkja Sinfónínuhljómsveit Íslands um 800 milljónir ásamt fjölmörgum öðrum atriðum sem klárlega hefði mátt skera frekar niður heldur en þá grunnstoð sem heilbrigðiskerfið okkar er. Fram kom í máli Guðbjarts að búið er að skera fjárveitingar til Heilbrigðisstofnunar Vesturlands niður um 550 milljónir króna á ári á liðnum árum. Það sér það hver maður að svona blóðugur niðurskurður mun klárlega fara að stefna öryggi þeirra sem þurfa að sækja þá þjónustu sem þar er veitt í hættu. Það er kaldhæðnislegt til þess að vita að fjárveitingar til fjármálaeftirlitsins voru auknar um 550 milljónir á síðasta ári á sama tíma og búið er að skera niður um sömu krónutölu á Heilbrigðisstofnun Vesturlands. Þetta er forgangsröðun sem meðal annars formaður félagsins skilur alls ekki.

Formaður félagsins sagði einnig á fundinum að það er ekki það eina að þessir 26 einstaklingar séu að missa vinnuna heldur hafi tugir starfsmanna verið lækkaðir í starfshlutfalli og því var grátbroslegt að sjá í fréttum að seðlabankastjórinn Már Guðmundsson hefur stefnt bankanum sem hann stýrir vegna brota á ráðningarsamningi og krefst hann launahækkunar sem nemur 300 þúsund krónum á mánuði. Veruleikafirring þessara manna er algjör í ljósi þeirra hamfara sem nú ganga yfir starfskjör heilbrigðisstarfsmanna þar sem starfsfólki er sagt upp, launakjör lækkuð og þess krafist að fólk leggi mun meiri vinnu á sig sökum fækkunar á hinum ýmsu stofnunum. Það var greinilega enginn vilji til þess að endurskoða þessa ákvörðun ef marka má orð ráðherrans á fundinum.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image