• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
30
Dec

Stóriðjuskóli Norðuráls hefst í janúar

Eitt af áralöngu baráttumáli Verkalýðsfélags Akraness náðist í gegn í síðustu kjaraviðræðum við forsvarsmenn Norðuráls en það er svokallaður stóriðjuskóli. Það er afar ánægjulegt til þess að vita að núna mun stóriðjuskólinn hefja starfsemi sína 6. janúar næstkomandi en skólasetning verður hins vegar 5. janúar. Stóriðjuskólinn er eins og áður sagði búinn að vera mikið baráttumál og núna var sameiginlegur skilningur samningsaðila að miklivægt væri að koma þessum skóla á laggirnar.

Mikill áhugi var hjá starfsmönnum Norðuráls fyrir þessum skóla en 32 einstaklingar geta farið í skólann í fyrstu atrennu en það voru hvorki fleiri né færri en 79 manns sem sóttu um að komast í skólann í þessari törn. Námið er þrjár annir og munu fyrstu nemendurnir útskrifast í apríl 2013. Kennt verður einn dag í viku frá kl. 7:45-16 og er hver önn um sig í kringum 14 vikur. Í náminu mun fyrirtækið leggja til helming námstímans eða með öðrum orðum þá fá starfsmenn frí til að stunda námið á launum og hinn helmingurinn er í frítíma starfsmannsins. Að afloknu námi mun starfsmaðurinn fá 5% launahækkun sem getur þýtt á milli 20 og 30 þúsund króna launahækkun en það fer eftir starfsaldri viðkomandi starfsmanns. Námið verður kennt í húsakynnum Norðuráls á Grundartanga og munu kennarar koma frá Fjölbrautaskóla Vesturlands og einhver námskeið verða á vegum Símenntunarmiðstöðvar Vesturlands.

Síðan mun starfsmönnum standa til boða þegar þeir hafa lokið þessu grunnnámi stóriðjuskólans að fara í framhaldsnám stóriðjuskólans og þegar þeir hafa lokið þeim áfanga fá þeir 4% launahækkun til viðbótar.

Verkalýðsfélag Akraness fagnar því innilega að þetta baráttumál um stóriðjuskólann hafi náðst í síðustu samningum og eins og áður sagði er afar ánægjulegt að sjá að nú er námið að fara á fulla ferð strax í janúar eins og stefnt var að en það mun taka umtalsverðan tíma að ná að koma öllum starfsmönnunum í gegnum skólann enda eru þeir yfir 500 talsins.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image