• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
19
Jan

Formaður félagsins ætlar að leggja fram ályktun á formannafundi ASÍ á eftir

Klukkan 13 í dag hefst formannafundur Alþýðusambands Íslands þar sem farið verður yfir forsendur kjarasamninga og lagðar línurnar hvort segja eigi upp samningunum vegna vanefnda ríkisstjórnar Íslands á loforðum sem gerð voru samhliða kjarasamningum á hinum almenna vinnumarkaði 5. maí 2011.

Það liggur fyrir að laun eiga að hækka um næstu mánaðarmót og sem dæmi þá eiga taxtalaun að hækka um 11 þúsund krónur og hjá þeim sem ekki vinna eftir svokölluðu taxtakerfi eiga laun að hækka um 3,5%. Það liggur einnig fyrir að forsendur er lúta að Samtökum atvinnulífsins hafa staðist nokkurn veginn en öðru máli gegnir um forsendur er lúta að loforðum ríkisstjórnarinnar. Ef verkalýðshreyfingin ætlaði sér að segja upp samningum til að sækja meiri launabætur til handa launafólki þá er Verkalýðsfélag Akraness tilbúið til að fara í þá vegferð. Það liggur hins vegar fyrir að það stendur ekki til vegna þess að forsendur er lúta að Samtökum atvinnulífsins hafa staðist. Því telur stjórn og trúnaðarráð Verkalýðsfélags Akraness það ekki skynsamlegt að segja upp kjarasamningum og hafa af launafólki þær kjarabætur sem eiga að koma til framkvæmda 1. febrúar næstkomandi. Formanni er það minnisstætt þegar stöðugleikasáttmálinn var gerður 2009 og launahækkunum var frestað sem hafði þær afleiðingar að verkafólk varð af á annað hundrað þúsund krónum í launum.

Hins vegar er ekki hægt að horfa stundinni lengur á þau svik ríkisstjórnarinn er lúta að íslensku launafólki og þeim loforðum sem gerð hafa verið í gegnum tíðina en þau svik hafa gert það að verkum að ráðist er á þá sem minnst mega sín í íslensku samfélagi sem eru atvinnulausir, ellilífeyrisþegar og öryrkjar. Samkvæmt loforði Steingríms J. Sigfússonar og Jóhönnu Sigurðardóttur áttu atvinnuleysisbætur og elli- og örorkubætur að hækka um 11 þúsund krónur en það hefur verið svikið og áðurnefndar bætur munu einungis hækka um 5.500 kr. Ekki hefur heldur verið staðið við jöfnun lífeyrisréttinda heldur hefur verið tekin ákvörðun um að skattleggja lífeyrissjóðina á hinum almenna vinnumarkaði sem gerir ekkert annað en að auka á þann ójöfnuð sem nú er fyrir.

Formaður Verkalýðsfélags Akraness ætlar að leggja fram ályktun á formannafundinum og vonast hann eindregið til þess að sú ályktun verði samþykkt en hún hljóðar með eftirfarandi hætti:

Ályktun

 

 Formannafundur Alþýðusambands Íslands haldinn þann 19. janúar 2012 lýsir forundrun sinni á því að ríkisstjórn sem kennir sig við norræna velferð, félagshyggju, jöfnuð og réttlæti ætli enn og aftur að svíkja verkalýðshreyfinguna illilega þegar kemur að því að efna loforð sem gerð eru samhliða kjarasamningum á hinum almenna vinnumarkaði.

Aðildarfélög ASÍ geta ekki og ætla ekki að láta þessi síendurteknu svik stjórnvalda átölulaus stundinni lengur. Á þeirri forsendu krefst formannafundurinn þess að ríkisstjórn Íslands standi við þau loforð sem fram koma í yfirlýsingu sem ríkisstjórnin gerði við verkalýðshreyfinguna samhliða kjarasamningum 5. maí 2011. Að öðrum kosti sér formannafundurinn sig knúinn til að lýsa yfir vantrausti á ríkisstjórn Íslands vegna þessara síendurteknu svika.

___

Hér má svo sjá ályktun stjórnar og trúnaðarráðs Verkalýðsfélags Akraness sem samþykkt var 10. janúar 2012.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image