• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
Fréttir

Fréttir

06
Jun

Tveir sjómenn heiðraðir í gær

Í hátíðarguðsþjónustu í Akraneskirkju í gær voru heiðraðir tveir merkismenn í tilefni sjómannadagsins. Þeir sem heiðraðir voru eru þeir Ásgeir Samúelsson, fyrrverandi vélstjóri og Böðvar Jóhannesson, fyrrverandi stýrimaður.

Að heiðruninni lokinni var gengið fylktu liði að minnismerki sjómanna á Akratorgi þar sem Jóhann Matthíasson, formaður Sjómannadeildar Verkalýðsfélags Akraness, Tómas Rúnar Andrésson og Svavar Skarphéðinn Guðmundsson lögðu blómsveig að því eftir stutta athöfn.

Það er Verkalýðsfélag Akraness sem stendur að þessari athöfn er lýtur að heiðrun sjómanna, minningarathöfninni um týnda sjómenn og athöfninni sem fram fer á Akratorgi þar sem blómsveigur er lagður að minnisvarða um látna sjómenn.

Akraneskaupstaður bauð síðan þeim sem heiðraðir voru og mökum þeirra til kvöldverðar á Galito og ber að þakka fyrir það.

Verkalýðsfélag Akraness óskar áðurnefndum aðilum innilega til hamingju með heiðrunina.

03
Jun

Verkalýðsfélag Akraness gefur öllum leikskólabörnum harðfisk

Í morgun fengu leikskólabörn á Akranesi glaðning frá Verkalýðsfélagi Akranesi í tilefni sjómannadagsins sem er á sunnudaginn.  Stjórnarmennirnir þeir Svavar Skarphéðinn Guðmundsson og Tómas Rúnar Andrésson  færðu yfir 400 börnum á öllum leikskólum bæjarins harðfisk.

Börnin á Teigaseli gerðu sér glaðan dag í tilefni dagsins og hittu þeir félagar börnin á hafnarsvæðinu þar sem þau skemmtu sér við pokahlaup og ýmsa aðra leiki tengda sjómannadeginum. Einnig komu þeir færandi hendi á Vallarsel, Garðasel og Akrasel.

03
Jun

Nokkrar staðreyndir vegna umfjöllunar um endurskoðun á fjárreiðum Starfsgreinasambands Íslands og starfsloka framkvæmdastjóra

Vegna þeirra orða sem féllu í blaðagrein í Morgunblaðinu laugardaginn 28. maí 2011 þykir undirrituðum rétt að eftirfarandi komi fram.

Í lengstu lög höfum við viljað forðast opinbera umræðu um þau málefni sem rakin eru í umræddri blaðagrein, en nú er svo komið að við sjáum okkur ekki annað fært en svara þeirri kröfu sem þar kemur fram. Ljóst má vera að margir munu reyna allt til að gera undirrituð ótrúverðug í augum þeirra sem ekki þora að takast á við sannleikann í málinu.

Á framkvæmdastjórnarfundi Starfsgreinasambands Íslands (SGS) sem haldinn var fimmtudaginn 24. mars 2011 var lögð fram „Bókun vegna skoðunar reikninga SGS“ af þeim Finnboga Sveinbjörnssyni, sviðsstjóra þjónustusviðs SGS, Halldóru S. Sveinsdóttur, sviðsstjóra matvælasviðs SGS og Vilhjálmi Birgissyni, framkvæmdastjórnarmanni þar sem þess var farið á leit við framkvæmdarstjórn að undirrituð fengju heimild til að fá löggilta endurskoðendur til að fara yfir bókhald sambandsins 4 ár aftur í tímann.

Slíkt gekk ekki greiðlega en á fundinum fékkst samþykkt að nefnd, skipuð formanni SGS Birni Snæbjörnssyni, varaformanni SGS Hjördísi Þóru Sigurþórsdóttur og undirrituðum, ásamt endurskoðanda sambandsins, óháðum endurskoðanda og óháðum lögmanni myndi skoða bókhald ársins 2010. Nefndinni var falið að meta og taka ákvörðun um hvort ástæða væri til að rannsaka reikninga sambandsins 4 ár aftur í tímann.

Á framkvæmdastjórnarfundi þriðjudaginn 10. maí 2011 var lögð fram frá óháðum endurskoðanda sem fenginn var til verksins (Deloitte) „Skýrsla um könnun á bókhaldi Starfsgreinasambands Íslands 2010“ og „Minnisblað“ frá óháðum lögmanni, Páli Arnóri Pálssyni hrl.

Í skýrslu Deloitte eru meðal annars gerðar athugasemdir við óútskýrðan erlendan ferðakostnað sem stofnað var til af Skúla Thoroddsen framkvæmdastjóra SGS á árinu 2010. Þar koma fram ófullnægjandi skýringar á gjaldfærðum kostnaði að upphæð samtals kr. 779.285. Þess skal getið að í skýrslu Deloitte kemur fram að dagpeningagreiðslur til framkvæmdastjóra erlendis fyrir árið 2010 námu kr. 1.064.364 þrátt fyrir að kostnaður vegna ferðanna væri þar til viðbótar í mörgum tilfellum einnig greiddur.

Einnig bendir Deloitte á að ökutækjastyrkur framkvæmdastjóra innanlands nam samtals kr. 1.570.791 fyrir árið 2010. Þess ber að geta að framkvæmdastjóri fær að auki fastan bílastyrk kr.62.400 á mánuði á núvirði ( 600 km X 104 ) eða kr. 748.000 á ársgrundvelli. Í skýrslunni er vakin athygli á að framkvæmdastjóri miðar aksturs greiðslur ávallt við heimili sitt þrátt fyrir að ráðningastaður sé í Reykjavík og hann fái fastan bílastyrk miðað við það eins og áður hefur komið fram. Bílastyrkur til framkvæmdastjóra fyrir árið 2010 nam því um 2,3 miljónum króna.

Einnig er vakin á því athygli að ásamt risnu fékk framkvæmdastjóri greiddar kr. 422.745 í dagpeninga vegna ársins 2010 á ferðalögum framkvæmdastjóra innanlands. Bent er á að auk þess að greiddir séu dagpeningar innanlands að hálfu SGS var einnig greitt fyrir fæði og gistingu. Þá eru ótaldar beinar peningaúttektir af korti SGS á ferðum erlendis þar sem engir reikningar hafi verið lagðir fram til skýringa.

Gera má ráð fyrir að upphæðir úttekta með ófullnægjandi skýringum af hálfu framkvæmdastjóra yrðu umtalsvert hærri ef haldlitlar útskýringar hans í skýrslutöku hefðu ekki fallið honum í hag. Voru þar ferðir og kostnaður bæði erlendis og innanlands sem nam tugum ef ekki hundruðum þúsunda sem mikill vafi lék á hvort SGS ætti að bera kostnað af. Endurskoðendur leituðu ekki staðfestingar á því að ferðir innanlands og erlendis hafi verið farnar í embættiserindum.

Áríðandi er í þessu tilefni að geta þess að fjármunir SGS eru tilkomnir með greiðslum af félagsgjöldum félagsmanna frá verkalýðsfélögum hringinn í kringum landið sem þau greiða fyrir aðild sína að sambandinu. Rétt er einnig að geta þess að á árinu 2010 fóru um 89% af tekjum SGS í laun og utanlandsferðir, en sá mikli kostnaður var kveikjan að þeirri rannsókn sem undirrituð vildu að færi fram á bókhaldi SGS.

Í niðurstöðu lögfræðisviðs Deloitte kemur eftir farandi fram

Lögfræðisvið Deloitte sendi einnig viðauka með endurskoðunarskýrslunni en þar kemur fram að hafi SGS verið ætlað að greiða fyrir ýmis persónuleg útgjöld starfsmanna sinna á ferðalögum innanlands eða erlendis, umfram það sem dagpeningar eiga að standa straum af, ásamt því að greiða ferðkostnað maka framkvæmdastjóra, formanns eða annarra starfsmanna SGS. Lögfræðingar Deloitte telja að skilgreina þurfi slíkt sérstaklega í starfsreglum eða lögum SGS. Risnukostnaður sem verður til með þessum hætti og greiddur er til starfsmanna SGS eru skattskyldar tekjur sem SGS ber að skila staðgreiðslu af.

Í niðurstöðum lögfræðisviðs Deloitte er bent á að meiri líkur en minni eru á því að bæði framkvæmdastjóri og fyrrverandi formaður SGS hafi farið út fyrir umboð sitt. Það hafi verið gert með því að gjaldfæra hjá SGS ýmsan ferðakostnað sem ekki voru heimildir fyrir samkvæmt starfsreglum eða lögum SGS. Þá eru einnig talda líkur á að framkvæmdastjóri og formaður SGS hafi farið út fyrir umboð sitt hjá félaginu. Leiddar eru að því líkur að þeir hafi jafnvel dregið að sér fjármuni sem ekki teljast eðlilegur risnu eða ferðakostnaður hjá SGS. Líkur eru á að slíkt teljist varða við lög.

Í áliti frá óháðum lögmanni SGS, Páli Arnóri Pálssyni hrl.  kemur eftir farandi fram

Lögmaður SGS telur að vel hafi tekist til hjá Deloitte þegar kemur að samantekt og útskýringum á úrlausnar- og ágreiningsefni sem takast þarf á við. Slík samantekt og niðurstaða myndi væntanlega auðvelda ákvarðanatöku framkvæmdastjórnar SGS. Telur hann skýrsluna og viðaukann gefa glögga mynd af miklum ferðakostnaði framkvæmdastjóra, einkum og sér í lagi erlendis. Ennig er í skýrslunni skýr mynd af kostnaði fyrrverandi formanns og annarra framkvæmdastjórnarmanna SGS, sem ekki er mikill. Þá telur hann skýrsluna sýna ákveðna veikleika í reglum SGS varðandi kostnað og heimildir framkvæmdastjórans. Þá segir lögmaðurinn einnig ljóst að kostnaður sá er framkvæmdastjóri skapaði SGS fer fram úr því sem eðlilegt má teljast og er að því virðist heimildarlaus í þeim úttektum miðað við niðurstöður skýrslunnar.

Í niðurstöðu lögmannsins kemur fram að hann sé sammála flestu því sem skýrslan varpar ljósi á. Einnig tiltekur hann að í áliti lögfræðisviðs Deloitte komi fram ábendingar um ólögmæti úttekta og kostnaðarfærslna hjá framkvæmdastjóra SGS,  og telji lögmaðurinn skýringar framkvæmdastjórans ekki duga til að útiloka brot gagnvart SGS.

Niðurstaða lögmanns SGS er áþekk niðurstöðu lögfræðisviðs Deloitte þ.e. að kostnaður sá sem framkvæmdastjóri hefur látið SGS greiða fyrir virðist hafa farið langt fram úr því sem eðlilegt má teljast. Hægt er að færa rök fyrir því að um fjárdrátt og umboðssvik hafi verið að ræða.

Niðurstöður Deloitte og Páls A. Pálssonar eru alveg skýrar. Fjárdráttur og umboðssvik er grafalvarlegt mál sem ekki verður við unað. Þarna var framið lögbrot sem við teljum okkur ekki geta varið. 

 

Á vinnuréttarvef ASÍ kemur eftirfarandi fram:

“Telja verður að atvinnurekandi hafi til þess fulla heimild að víkja manni úr starfi ef hann verður uppvís af refsiverðri háttsemi í starfi og þurfi ekki sérstaka áminningu. Gjaldkeri dregur sér fé, afgreiðslumaður hnuplar úr verslun. Sakir verða þá að liggja ljósar fyrir við brottrekstur og ber atvinnurekanda að sýna fram á þær.”

Undirrituð líta á þetta mál sem trúnaðarbrot og umboðssvik þar sem farið er langt fram yfir heimildir og þar með brot á starfsskyldum og ráðningarsamingi og lögðu því fram eftirfarandi tillögu við framkvæmdastjórn SGS.

Tillaga um starfslok framkvæmdastjóra

„Að ráðningarsamningi við framkvæmdarstjórann verið rift vegna brota á starfsskyldum, er varða fjárdrátt og umboðssvik. Að auki verði þess krafist að framkvæmdastjóri greiði til baka óheimilar úttektir vegna ársins 2010. Framkvæmdarstjórn ber skylda til að kæra málið til lögreglu enda um saknæmt athæfi að ræða samkvæmt áliti tilkvaddra endurskoðenda og lögfræðinga.“

Á fundinum óskuðu undirrituð eftir því að fá bókað í fundargerð af hverju framkvæmdarstjórn teldi ekki fært að fylgja málinu eftir eins og kemur fram í tillögu okkar. Sömuleiðis var óskað eftir að rökstuðningi fyrir því að framkvæmdastjóri yrði ekki sóttur til saka fyrir umrædd brot yrði bókaður í fundargerð.  Okkur til mikilla vonbrigða var ekki fallist á slíkar bókanir þar sem efnisleg umræða hefði þegar farið fram um tillögur fundarins.

Lokaorð

Sem formenn stéttarfélaga hafa undirrituð þurft að leiðbeina félagsmönnum okkar sem hafa orðið uppvísir af ýmsum brotum gegn atvinnurekanda sínum. Þetta eru vandasöm og viðkvæm mál sem varða réttindi félagsmannsins og hvort mögulegt sé að verja hann í slíkri stöðu.

Verði starfsmaður uppvís af þjófnaði er málið nær undantekningalaust kært til lögreglu af vinnuveitanda og starfsmanninum vikið úr starfi. Lögfræðingar stéttarfélaga benda á að verði menn uppvísir að slíkum brotum hafi þeir fyrirgert rétti sínum til uppsagnarfrests og megi vísa fyrirvaralaust úr starfi.

Staðreyndir skýrslunnar blasa við, framkvæmdastjóri og fyrrverandi formaður SGS fóru óvarlega með fjármuni SGS, niðurstöður skýrslunnar og álit lögfræðinga staðfesta að svo sé. Lausleg könnun okkar hefur því miður einnig leitt í ljós að árið 2010 var engin undantekning þegar kemur að meðferð framkvæmdarstjóra og fyrrverandi formanns á fjármunum SGS. Má í því samhengi benda á greiðslur fyrir viðgerð á bíl fyrrverandi formanns SGS, Kristjáns Gunnarsonar og gjafabréf til framkvæmdastjóra án nokkurrar heimildar framkvæmdastjórnar en það eru meðal annars atriði sem koma fram í bókaldi SGS fyrir árið 2009 eftir lauslega yfirferð þess.

Þrátt fyrir þessar niðurstöður endurskoðenda og lögmanna og ofangreinda tillögu undirritaðra,samþykkti meirihluti framkvæmdastjórnar SGS að ljúka málinu með starfslokasamningi við framkvæmdastjóra þar sem honum yrðu greidd laun og önnur réttindi í uppsagnarfresti. Honum yrði eingöngu gert að greiða til baka kr. 526.889. Hvorki var tekin ákvörðun um að skoða málefni fyrrverandi formanns sambandsins, Kristjáns Gunnarssonar, né fleiri ár aftur í tímann þrátt fyrir að lausleg skoðun á bókhaldi fyrri ára gæfi fullt tilefni til.

Nú er svo komið innan framkvæmdastjórnar SGS og verkalýðshreyfingarinnar að þau brot sem liggja fyrir í skýrslu Deloitte og í minnisblaði óháðs lögmanns SGS, skipta minnstu máli í umræðunni, verknaðurinn sjálfur er orðinn aukaatriði. Á meðan gengur rógsherferð gegn þeim sem hófu rannsóknina sem virðist eingöngu til þess fallin að gera okkur ótrúverðug og málstað okkar veikan.

Allt frá því rannsókn málsins hófst hafa undirrituð mátt þola að vera rægð fyrir það eitt að vilja koma sannleikanum á framfæri. Hart hefur verið vegið að æru okkar innan verkalýðshreyfingarinnar og lítið gert til að leiðrétta þær rangfærslur sem komið hefur verið af stað, en niðurstöður rannsóknarinnar tala sínu máli.

Virðingarfyllst,

Finnbogi Sveinbjörnsson, sviðsstjóri þjónustusviðs SGS og formaður Verkalýðsfélags Vestfirðinga, Halldóra S. Sveinsdóttir, sviðsstjóri matvælasviðs SGS og formaður Bárunnar-stéttarfélags Vilhjálmur Birgisson fulltrúi í framkvæmdastjórn SGS og formaður Verkalýðsfélags Akraness.

03
Jun

Samið við ríkið

Miðvikudaginn 1. júní var skrifað undir nýjan kjarasamning við ríkið en innihald þessa kjarasamnings er með svipuðum hætti og kjarasamningurinn á hinum almenna vinnumarkaði sem undirritaður var 5. maí sl. 

Þetta eru aðeins helstu atriði samningsins, hann verður nánar kynntur síðar.
Eftir samþykkt samningsins greiðist eingreiðsla 50.000 kr. miðað við fullt starf tímabilið mars 2011 til apríl 2011. Þeir sem eru í hlutastarfi og/eða hafa starfað skemur skulu fá hlutfallslega greiðslu.
 
Launahækkanir:
1.6. 2011:    4,25% eða 12.000 kr. að lágmarki.
1.3. 2012:    3,50% eða 11.000 kr. að lágmarki.
1.3. 2013:    3,25% eða 11.000 kr. að lágmarki.
1.3. 2014:    Eingreiðsla 38.000 kr. miðað við þá sem eru í fullu starfi í janúar 2014. Þeir sem eru í hlutastarfi og/eða hafa starfað hluta úr mánuði skulu fá hlutfallslega greiðslu.  
 
Félagsmenn í  SGS sem vinna eftir þessum samningi fá kynningar- og kjörgögn send eftir helgi. Þetta verður sameiginleg atkvæðagreiðsla og henni á að ljúka 20. júní. 
 
Það voru trúnaðarmennirnir Ragnhildur Bjarnadóttir og Anna Signý Árnadóttir sem sátu í samningnanefndinni fyrir hönd félagsins en þær starfa á Sjúkrahúsi Akraness. Þar starfa einmitt langflestir félagsmenn Verkalýðsfélags Akraness sem taka laun eftir þessum samningi.
30
May

Fundað um ríkissamninginn

Núna sitja fulltrúar Verkalýðsfélags Akraness, þær Anna Signý Árnadóttir og Ragnhildur Bjarnadóttir, trúnaðarmenn á Sjúkrahúsi Akraness, á samningafundi vegna ríkissamningsins. Þessa stundina er æði margt sem bendir til þess að gengið verði frá samningi í dag en samkvæmt upplýsingum sem skrifstofan hefur fengið er sá samningur í anda þess sem gengið hefur verið frá á hinum almenna vinnumarkaði. Þess má geta að ófaglærðir starfsmenn á Sjúkrahúsi Akraness taka allir laun eftir þessum samningi.

Greint verður ítarlegar frá innihaldi samningsins þegar niðurstaða liggur fyrir.  

26
May

Kjarasamningar samþykktir á Akranesi

Talningu er nú lokið í atkvæðagreiðslu þeirra tveggja samningar sem undirritaðir voru í maí. Annars vegar er um að ræða kjarasamning vegna iðnaðarmanna (Samiðn) sem undirritaður var 5. maí sl. og hins vegar kjarasamning vegna starfa á almennum vinnumarkaði sem undirritaður var 13. maí sl.

Niðurstöður liggja fyrir og eru báðir samningar samþykktir á meðal félagsmanna Verkalýðsfélags Akraness.

 

Iðnsveinar:

Kosningaþátttaka var 17,6%

Já sögðu 66,7%

Nei sögðu 33,3%

 

Almenni:

Kosningaþátttaka var 4,1%

Já sögðu 92,3%

Nei sögðu 7,7%

25
May

Atkvæðagreiðslu lýkur á morgun

Klukkan 12:00 á morgun lýkur atkvæðagreiðslu um kjarasamninga Verkalýðsfélags Akraness við Samtök atvinnulífsins annars vegar vegna starfa á almennum vinnumarkaði (Almenn deild og Matvæladeild) og hins vegar vegna iðnaðarmanna (Iðnsveinadeild).

Kjarasamningar og kynningargögn liggja frammi á skrifstofu félagsins þar sem opinn kjörfundur fer fram. Einnig er hægt að skoða upplýsingar um almenna samninginn með því að smella hér og samning iðnaðarmanna hér.

25
May

Forsvarsmenn Norðuráls bera fyrir sig bókun

Á mánudaginn var fundað vegna launaliðar Norðuráls í húsakynnum ríkissáttasemjara. Það er skemmst frá því að segja að árangurinn af þessum fundi var akkúrat enginn. Það sem forsvarsmenn fyrirtækisins bjóða starfsmönnum er sá samningur sem samið var um á hinum almenna vinnumarkaði eða sem nemur 11,4% til þriggja ára.

Þetta tilboð er algjörlega óásættanlegt með öllu ef tilboð skyldi kalla. Sérstaklega í ljósi þess að hér er um gríðarlega sterkt útflutningsfyrirtæki að ræða sem hefur hagnast um 50-60 milljarða frá því það hóf starfsemi á Grundartanga árið 1998. Þessu til viðbótar hefur fyrirtækið hagnast verulega vegna gengis íslensku krónunnar sem og hækkandi afurðaverðs en nú er álverðið í 2.500 dollurum og hefur hækkað umtalsvert á liðnum misserum.

Það er einnig alveg með ólíkindum að Norðurál skuli ekki vilja fylgja í fótspor Elkem Ísland sem gekk frá kjarasamningi við sína starfsmenn ekki alls fyrir löngu, kjarasamningi sem gefur starfsmönnum 9,6% í beina launahækkun á þessu ári en heildarhækkunin nemur 26% á þremur árum að teknu tilliti til eingreiðslu sem um var samið.

Ragnar Guðmundsson, forstjóri Norðuráls, og Hannes Sigurðsson, aðstoðarframkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, margítrekuðu það á fundinum á mánudaginn að verkalýðshreyfingin að undanskildu Verkalýðsfélagi Akraness, væri búin að skuldbinda sig í bókun til að ganga frá kjarasamningi upp á 11,4% eins og samið var í nýgerðum kjarasamningi.   En þar segir m.a. um Sameiginlega launastefnu ASÍ og SA:

"Almennar launahækkanir verða samtals 11,40% á samningstímanum. Sérstök hækkun kauptaxta er láglaunaaðgerð sem hækkar launakostnað misjafnlega eftir því hve margir taka laun skv. kauptöxtum. Framangreind niðurstaða kjarasamninga felur í sér að mótuð hefur verið sameiginleg og samræmd launastefna gagnvart þeim fjölmörgu samningum sem enn eru ógerðir á samningssviði aðila. Samningsaðilar skuldbinda sig til þess að framfylgja framangreindri launastefnu í framhaldinu"

Formaður spyr sig hvaða heimild hefur verkalýðshreyfingin til að taka aðra ógerða kjarasamninga í slíka láglaunagíslingu og það t.d. gagnvart fyrirtæki sem malar gull og er með launakostnað í kringum 10% af heildarveltu.  Það er alveg ljóst að þessi vinnubrögð verkalýðshreyfingarinnar eru ekkert annað en stórfelld skemmdarverk enda hefur það svo sannarlega sannað sig þegar forstjóri Norðuráls ber fyrir sig þessa bókun.

Það er alveg hægt að segja að útlitið í þessum viðræðum sé afar dökkt og sér formaður VLFA alls enga ástæðu til að boða til annars fundar meðan þetta er afstaða fyrirtækisins enda mun félagið ekki skrifa undir slíkan samning gagnvart útflutningsfyrirtæki.  Rétt er að geta þess að fiskvinnslufyrirtækin eru að hækka laun um rúm 9% á þessu ári í nýjum samningi á hinum almenna vinnumarkaði og er það gert vegna sterkrar stöðu útflutningsfyrirtækja.  Í ljósi þess er þessi afstaða forsvarsmenna Norðuráls ótrúleg og í raun og veru dapurlegt að fyrirtækið skuli ekki leyfa starfsmönnum að njóta ávinnings af afar góðum rekstrarskilyrðum.

Eins og fram kom áðan þá er staðan ekki góð og mun formaður boða starfsmenn Norðuráls til fundar í Bíóhöllinni í næstu viku þar sem farið verður yfir þessa skelfilegu stöðu sem upp er komin.

20
May

Viðræðum slitið við Samtök atvinnulífsins vegna Klafa

Verksmiðjur Elkem Ísland og Norðuráls á GrundartangaVerksmiðjur Elkem Ísland og Norðuráls á GrundartangaSamningafundur var haldinn hjá ríkissáttasemjara í dag vegna kjaradeilu félagsins við Samtök atvinnulífsins vegna Klafa ehf. En Klafi er fyrirtæki sem sér um alla þjónustu á Grundartangahöfn, meðal annars upp- og útskipanir og er í eigu risanna tveggja á svæðinu, það er að segja Norðuráls og Elkem Ísland, til helminga. 

Krafa félagsins er að starfsmenn Klafa fái sömu launahækkanir og eingreiðslu og um var samið hjá Elkem Ísland enda eru starfsmenn Klafa fyrrverandi starfsmenn Elkem Ísland. Það fyrirkomulag að stofna nýtt félag utan um út- og uppskipanir var tekið upp fyrir nokkrum árum síðan en átti ekki að leiða til þess að kjör þeirra sem þar starfa myndu dragast aftur úr starfsmönnum Elkem Ísland.

Samtök atvinnulífsins buðu nákvæmlega sömu launahækkanir og um var samið á hinum almenna vinnumarkaði en því var snarlega hafnað með afgerandi hætti hjá ríkissáttasemjara í dag. Óskuðu formaður Verkalýðsfélags Akraness og trúnaðarmaður starfsmanna Klafa eftir að bókaður yrði árangurslaus fundur en það er skilyrði til þess að starfsmenn geti gripið til einhverra róttækra aðgerða til að knýja fram þá sanngjörnu kröfu að fá sömu launahækkanir og starfsfélagar þeirra hjá Elkem Ísland.

Þessari kröfu verður fylgt eftir af fullum þunga og mun formaður funda með starfsmönnum á þriðjudaginn þar sem aðgerðir verða skipulagðar en fátt virðist nú geta komið í veg fyrir alvarleg átök á Grundartangasvæðinu vegna þessarar deilu. En slík deila mun klárlega geta haft áhrif á bæði starfsemi Elkem Ísland sem og Norðuráls.

20
May

18,4% launamunur á milli fiskvinnslufyrirtækja á Akranesi

Bónusgreiðslur eru afar mismunandiBónusgreiðslur eru afar mismunandiKynningarfundur var haldinn í gær um nýgerðan kjarasamning á hinum almenna vinnumarkaði. Þar fór formaður yfir helstu atriði samningsins. Fram kom í máli fundarmanna að vissulega hefðu lágmarkslaunin þurft að hækka mun meira en um var samið en sem betur fer náðist þó að skila örlítið meiri ávinningi til fiskvinnslufólks heldur en margra annarra sem taka kjör eftir kjarasamningi á hinum almenna vinnumarkaði. Nægir að nefna í því samhengi að laun fiskvinnslufólks eru að hækka um rúm 11% á þessu ári að teknu tilliti til 50 þúsund króna eingreiðslu og 25 þúsund króna álags á orlofs- og desemberuppbætur. Samt sem áður kom fram í máli formanns að laun fiskvinnslufólks séu ekkert til að hrópa húrra yfir en það er verkefni verkalýðshreyfingarinnar að bæta kjör þessa fólks sem og annarra sem starfa á hinum almenna vinnumarkaði.

Einnig kynnti formaður samanburð sem hann gerði á bónusum fiskvinnslufyrirtækjanna á Akranesi. Þau fyrirtæki sem hann skoðaði voru HB Grandi, Norðanfiskur, hrognavinnsla Vignis G. Jónssonar, lifrabræðslan Akraborg og Laugafiskur. Það er skemmst frá því að segja að bónusgreiðslur til starfsmanna sem starfa í fiskvinnslu eru afar mismunandi. Hæsti meðaltalsbónusinn var hjá lifrarbræðslunni Akraborg en þar var meðaltalsbónusinn á síðustu 12 mánuðum 349 kr. sem gerir 60.492 kr. á mánuði og því hafði sérhæfður fiskvinnslumaður sem starfar hjá Akraborg 234.992 kr. í mánaðarlaun. Þessi starfsmaður mun hækka upp í 256.698 kr. sem er hækkun upp á tæp 22 þúsund. Það er skemmst frá því að segja að starfsmenn Akraborgar njóta rúmum 37 þúsund krónum hærri launagreiðslna eða sem nemur 18,4% heldur en það fiskvinnslufyrirtæki sem greiðir hvað minnstan bónus en hann var 152 kr.

Formaður fagnar því framtaki hjá Akraborg að taka upp nýtt bónuskerfi sem skilar bæði starfsmönnum og fyrirtækinu miklum ávinningi sem leiðir til þess að fyrirtækið er að greiða langhæsta bónusinn á meðal fiskvinnslufyrirtækja. Ef bónusinn heldur áfram að vera jafn lifandi og hann var á síðustu 12 mánuðum má áætla að meðaltalsbónusinn hjá starfsmönnum Akraborgar verði 405 kr.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image