• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
Fréttir

Fréttir

16
Feb

Samræmd launastefna meitluð í legstein

Það var svartur dagur í gær þegar félagið þurfti að taka ákvörðun um að draga verkfallsboðun sína í Síldarbræðslunni á Akranesi til baka. Ástæðan fyrir því var sú að Afl - stéttarfélag á Austurlandi og Drífandi í Vestmannaeyjum höfðu tekið ákvörðun um að afturkalla verkfallsheimild sína. Þegar það lá orðið ljóst fyrir þá var staða Verkalýðsfélags Akraness fyrir boðuðu verkfalli orðin að engu.

Þetta er hálf grátbroslegt í ljósi þess að félaginu hafði borist bréf frá Afli þar sem þess var óskað, og reyndar krafist, að félagið myndi boða til samúðarverkfalls vegna þess að 8 verksmiðjur á Austurlandi og í Vestmannaeyjum væru búnar að boða til verkfalls. Reyndar var formanni félagsins einnig greint frá því að hér myndi koma verkfallsvarsla að austan ef landað yrði í verksmiðjunni á Akranesi. Það hins vegar stóð aldrei til, það hefur alltaf verið stefna Verkalýðsfélags Akraness að standa með sínu fólki enda boðaði félagið til vinnustöðvunar með nákvæmlega sama hætti og áðurnefnd félög. Á þessari forsendu var það grátbroslegt að sjá hvernig Afl - stéttarfélag, undir forystu Sverris Mars Albertssonar, sem hafði krafist þess að Verkalýðsfélag Akraness myndi styðja þá í komandi verkfallsaðgerðum, lympaðist niður 5 mínútum fyrir verkfall.

Formaður gefur frekar lítið fyrir þær skýringar sem gefnar voru fyrir ástæðu þess að verkfallið var dregið til baka en það byggðist að langstærstum hluta á því að síldarbræðslan á Þórshöfn og í Helguvík væru starfræktar áfram. Vissulega harmar formaður það innilega að þessar verksmiðjur skuli ekki hafa ætlað að taka slaginn með félögum sínum en það lá alltaf fyrir, til dæmis með Þórshöfn, að þeir myndu einungis landa úr skipum í eigu fyrirtækisins en ekki öðrum skipum. Öðru máli gegnir um Helguvík sem er undir yfirráðasvæði Verkalýðs- og sjómannafélags Keflavíkur. Þar ræstu menn verksmiðjuna til að taka á móti afla og það er dapurlegt að einn af æðstu mönnum í verkalýðshreyfingunni skuli ekki hafa stoppað það af í hvelli.

Meginástæðan fyrir því hvernig fór er þessi samræmda launastefna sem hefur verið meitluð í stein, og formaður vill kalla þetta hálfgerðan legstein. Það á að setja alla íslenska launþega upp í einn og sama láglaunavagninn og allir launþegar skulu fá sömu launahækkanir algjörlega óháð getu hverrar atvinnugreinar fyrir sig. Það er gríðarlega erfitt að vera í viðræðum og átökum við Samtök atvinnulífsins og vera síðan með forystu Alþýðusambands Íslands fyrir aftan sig í þeim átökum þar sem heykvíslirnar eru látnar vaða í bakið á samstarfsfélögum þeirra. Ástæðan fyrir þessari gríðarlegu stífni hjá Samtökum atvinnulífsins varðandi það að semja alls ekki við útflutningsfyrirtæki um neitt annað en það sem um mun semjast í samræmdri launastefnu, byggist á þeim gríðarlega stuðningi sem þeir fá frá forseta Alþýðusambands Íslands í þeim efnum.

Nú er komið að ögurstundu hjá starfsmönnum í útflutningsfyrirtækjum að sýna með afgerandi hætti að þetta ofbeldi af hálfu SA og ASÍ verði ekki liðið öllu lengur. Það eru engir nema starfsmenn útflutningsfyrirtækja sem geta brotið á bak aftur þessa samræmdu launastefnu. Hví í ósköpunum eiga starfsmenn til dæmis í Norðuráli, Elkem Ísland, Síldarbræðslunni og öðrum útflutningsfyrirtækjum að þurfa að sætta sig við það að geta ekki fengið leiðréttingu á þeirri kaupmáttarskerðingu sem þeir hafa orðið fyrir frá janúar 2008 vegna þess að fyrirtæki í byggingariðnaði og honum tengdum eigi undir högg að sækja? Þetta eru fyrirtæki sem hafa hagnast gríðarlega vegna gengisfalls íslensku krónunnar og því til viðbótar hefur afurðaverð þessara fyrirtækja  hækkað umtalsvert á liðnum misserum. Nægir að nefna í því samhengi að mjöl hefur hækkað um 141%, lýsi um 114%, álverð er í sögulegu hámarki eða 2.500 dollurum og kísiljárn sem Elkem Ísland selur hefur hækkað um 58% á liðnum misserum. Samtök atvinnulífsins segja nei, þessi fyrirtæki skulu verða sett upp í sömu samræmdu launastefnuna þar sem allir fá lítið sem ekki neitt og þar nýtur SA fulls stuðnings Alþýðusambands Íslands. Hafi þessi hagsmunasamtök launafólks, ef hagsmunasamtök skyldi kalla, skömm fyrir hvernig þau hafa hagað sér á undanförnum vikum og mánuðum þar sem hagsmunir starfsmanna í útflutningsfyrirtækjum hafa verið fótum troðnir.

Formaður VLFA hefur ætíð sagt að það sé sjálfsagt mál að sýna fyrirtækjum sem eru í vandræðum skilning en að sjálfsögðu þurfa þeir aðilar samt sem áður að fá einhverjar kjarabætur. En að neita starfsmönnum í útflutningsfyrirtækjum að sækja meira vegna erfiðleika í öðrum greinum er til skammar og verður ekki liðið.

15
Feb

Tilboð sem hljóðaði upp á nánast ekki neitt

Fundað var í húsakynnum ríkissáttasemjara í tæpa 11 klukkutíma í gær vegna kjaradeilu félagsins við Samtök atvinnulífsins vegna Síldarbræðslunnar á Akranesi. Eins og fram hefur komið hér á heimasíðunni þá hefur félagið rétt fram sáttarhönd sem felst meðal annars í því að framlengja núverandi samning til 1. maí gegn eingreiðslu en kostnaður vegna þessa tilboðs er einungis um 2 milljónir króna. Einnig hefur félagið slegið verulega af upprunalegum launakröfum eða sem nemur 52% en allt kemur fyrir ekki, engan sáttavilja er að finna af hálfu Samtaka atvinnulífsins.

Á fundinum í gær óskuðu Samtök atvinnulífsins eftir því að fulltrúar stéttarfélagana myndu ekki fara úr húsakynnum ríkissáttasemjara vegna þess að þeir ætluðu að leggja fram tilboð til handa stéttarfélögunum en það verður að segjast alveg eins og er að það tilboð sem barst á tíunda tímanum í gærkvöldi hafi verið grátbroslegt. Tilboðið gekk út á það að skerða neysluhlé starfsmanna um 15 mínútur gegn greiðslu. Þetta hefði þýtt að starfsmenn Síldarbræðslunnar á Akranesi hefðu fengið launahækkun sem næmi í kringum 24 þúsund krónur á ársgrundvelli. Síðan buðu þeir að starfsmenn Síldarbræðslunnar myndu fá sambærilegar hækkanir og annað fiskvinnslufólk á hinum almenna vinnumarkaði. En á þessari stundu er algjörlega óvíst hvað um semst í þeim efnum. Þannig að það sem var boðið í gær til að bjarga hér 10 milljarða aflaverðmætum var nánast ekki neitt.

Formaður hefur verið í sambandi við forstjóra HB Granda með von um að hægt sé að leysa þessa deilu áður en til verkfalls kemur og hefur ítrekað ósk sína um fyrri tilboð. Æði margt bendir til þess að Samtök atvinnulífsins ætli sér að semja hér um samræmda launastefnu algjörlega óháð getu útflutningsfyrirtækja. Eins og margoft hefur komið fram hér þá hefur afurðaverð á mjöli og lýsi hækkað gríðarlega á síðustu árum eða sem nemur á annað hundrað prósent. Á þeirri forsendu eru ekki nokkrar ástæður til þess að þessir starfsmenn þurfi að lúta valdi Samtaka atvinnulífsins og Alþýðusambands Íslands um samræmda launastefnu. Verkalýðsfélag Akraness mun ekki taka þátt í slíkri samræmdri launastefnu.

14
Feb

Beðið eftir útspili SA hjá ríkissáttasemjara

Húsakynni ríkissáttasemjaraEins og fram kom hér á heimasíðunni fyrr í dag þá hófst fundur hjá ríkissáttasemjara vegna kjaradeilu í síldarbræðslunum klukkan 13. Þegar þetta er skrifað er klukkan að ganga 19 og er nú beðið eftir einhvers konar útspili frá Samtökum atvinnulífsins til lausnar á þessari deilu og mun það væntanlega berast á næstu mínútum. Formaður félagsins er ekki ýkja bjartsýnn á að það sem fram muni koma muni leysa deiluna en að sjálfsögðu halda menn í vonina um að hægt verði að leysa þessa deilu áður en til verkfalls kemur. 

14
Feb

Óskiljanleg hagfræði

Nú þegar rétt rúmur sólarhingur er í verkfall í Síldarbræðslunum þá hefur ríkissáttasemjari boðað til fundar í húsakynnum sínum klukkan 13 í dag. Eins og fram hefur komið hér á heimasíðunni þá hefur Verkalýðsfélag Akraness lagt fram tillögur að lausn á deilunni, meðal annars með því að bjóða framlengingu á núverandi sérkjarasamningi til 1. maí næstkomandi gegn eingreiðslu til handa hverjum starfsmanni en heildarkostnaður af þessu tilboði er á milli 2-3 milljónir króna. Á þessari forsendu er alveg með ólíkindum að hlusta á málflutning útgerðarmanna sem tala um að allt að 10 milljarðar séu í húfi ef til verkfalls kemur en hafna tilboði stéttarfélagsins upp á 2-3 milljónir þar sem loðnuvertíðinni yrði alfarið bjargað ef að því yrði gengið. Þetta er hagfræði sem formaður Verkalýðsfélags Akraness skilur á engan hátt.

Það er ekki bara að þetta tilboð hafi verið lagt fram á síðasta fundi sem haldinn var fyrir helgi. Félagið sló verulega af fyrri kröfu sinni eða yfir 50% og gerir nú kröfu um að launataxtar hækki um 13,5%. Sú krafa miðast við að þeirri kaupmáttarskerðingu sem starfsmenn hafa orðið fyrir verði skilað að fullu til baka. Það er rétt að geta þess líka að afkoma bræðslufyrirtækja er mjög góð um þessar mundir, ekki bara vegna gengisfalls íslensku krónunnar heldur hefur afurðaverð líka hækkað yfir 100% á síðustu tveimur árum.

Nú eru loðnuskipin byrjuð að streyma inn til hafnar og er nú þegar búið að binda Faxa RE og Ingunni AK hér við Akraneshöfn. Ábyrgð Samtaka atvinnulífsins er gríðarleg, að ætla að stefna þessari kjaradeilu í hörð átök þar sem 10 milljarðar eru í húfi, einvörðungu vegna þeirrar stefnu að neita að taka tillit til góðrar stöðu útflutningsfyrirtækja og gera kröfu um að allir íslenskir launþegar skuli fá sömu launahækkun. Það er morgunljóst að slíkt ofbeldi munu starfsmenn í útflutningsfyrirtækjum ekki sætta sig við enda engar forsendur fyrir því að þeim mikla ávinningi sem útflutningsfyrirtæki hafa fengið frá efnahagshruninu sé ekki skilað að einhverju leyti til starfsmanna.

12
Feb

Einhugur og samstaða

Ríkissáttasemjari hefur boðað til fundar í kjaradeilu Verkalýðsfélags Akraness við Samtök atvinnulífsins vegna Elkem Ísland og Klafa ehf. á miðvikudaginn nk.

Samninganefnd félagsins átti fund með SA á fimmtudaginn sl. en þar var nánast öllum kröfum samninganefndar Verkalýðsfélags Akraness hafnað og kom skýrt fram í máli samningamanna Samtaka atvinnulífsins að ekki verði samið um neitt umfram það sem samið verður um í anda samræmdar launastefnu við forystu ASÍ. Það kom einnig skýrt fram hjá SA að þeir ætla að semja til þriggja ára og þeir ætla að semja um eins launahækkanir til handa öllum félagsmönnum ASÍ, algjörlega óháð getu einstakra atvinnugreina.

Á grundvelli þessa viðhorfs hjá Samtökum atvinnulífsins er mjög líklegt að bókaður verði árangurslaus fundur hjá ríkissáttasemjara á miðvikudaginn kemur og ef svo verður er fátt sem getur komið í veg fyrir að kosið verði um vinnustöðvun í Elkem og Klafa.  Til að hægt verði að forða frá kosningu um vinnustöðvun þarf að verða alger viðhorfsbreyting hjá SA.

Rétt er að geta þess að afurðaverð hefur hækkað umtalsvert á kísiljárni á liðnum misserum og einnig hefur gengisfall íslensku krónunnar bætt rekstrarskilyrði útflutningsfyrirtækja gríðarlega. Það er einnig rétt að geta þess að hlutfall launa af heildarveltu Elkem er um eða rétt yfir 10% og því til viðbótar fá stóriðjufyrirtækin raforku á afar hagstæðu verði ef tekið er t.d mið af raforkuverði í Noregi.

Það eru því engar forsendur fyrir því að stóriðjufyrirtæki eða önnur útflutningsfyrirtæki fái einhvern verulegan afslátt í komandi kjarasamningum. Það er afar ánægjulegt að það ríkir gríðarlegur einhugur og samstaða á meðal starfsmanna í þessari baráttu sem framundan er. 

11
Feb

Sameinaðir stöndum vér, sundraðir föllum vér

Verkalýðsfélag Akraness undirbýr nú opinn fund þar sem grafalvarleg staða er nú komin upp og æði margt sem bendir til þess að alvarleg átök séu framundan á félagssvæði félagsins. Félagið reiknar með að þessi fundur verði haldinn um miðja næstu viku, á miðvikudag eða fimmtudag, og er gríðarlega mikilvægt að allir starfsmenn Norðuráls, Elkem Ísland og Klafa ehf fjölmenni á fundinn því oft hefur verið þörf en nú er algjör nauðsyn á gríðarlegri samstöðu launafólks.

Spurningin er einfaldlega: Ætla menn að láta þetta ofbeldi yfir sig ganga, láta troða ofan í kokið á sér samræmdri launastefnu þar sem kveðið er á um 2,5% launahækkun á ári og samning til þriggja ára þar sem ekkert tillit verður tekið til gríðarlega góðrar stöðu útflutningsfyrirtækja? Formaður segir, stöndum nú saman öll sem eitt, því orðatiltækið sameinaðir stöndum vér, sundraðir föllum vér, hefur aldrei átt betur við.

11
Feb

Við ætlum og þið skuluð!

Formaður átti einnig fund hjá ríkissáttasemjara í gær vegna kjaradeilu Elkem Ísland og Klafa ehf á Grundartanga. En það er æði margt sem bendir til þess að það stefni í alvarleg átök á þessu svæði því Samtök atvinnulífsins neita alfarið að taka neitt tillit til góðrar stöðu útflutningsfyrirtækja og vilja með öðrum orðum setja allar atvinnugreinar undir einn og sama hatt, algjörlega óháð getu hverrar greinar fyrir sig.

Það var nöturlegt og dapurlegt að hlusta á málflutning Samtaka atvinnulífsins á fundinum í gær en þar kom skýrt fram að þeir ætli að semja til þriggja ára og þeir ætli að láta alla launþega á íslenskum vinnumarkaði fara eftir samræmdri launastefnu. Og það má skilja á þeirra orðum að þeir séu að segja: "þið skuluð hlýða okkur í einu og öllu annars hafið þið verra af."

Þessi málflutningur er ekki boðlegur þegar kemur að útflutningsfyrirtækjum en eins og margoft hefur komið fram hér á heimasíðunni þá er Verkalýðsfélag Akraness algjörlega tilbúið til þess að taka tillit til atvinnugreina sem eiga undir högg að sækja vegna efnahagshrunsins. En á sömu forsendum gerir félagið þá skýlausu kröfu að kaupmáttarskerðingu starfsmanna í útflutningsfyrirtækjum verði skilað að fullu til baka.

Félagið rétti einnig út sáttarhönd í þessari deilu í gær með því að bjóða fyrirtækinu að framlengja samninginn til 1. maí gegn eingreiðslu til handa starfsmönnum til að forða frá átökum en þessu var algjörlega hafnað af hálfu Samtaka atvinnulífsins. Það er fátt sem mun geta komið í veg fyrir alvarleg átök á Grundartangasvæðinu ef ekki verður hugarfarsbreyting hjá Samtökum atvinnulífsins hvað þessi fyrirtæki varðar. Það þýðir ekki að varpa ábyrgðinni yfir á Verkalýðsfélag Akraness ef til átaka kemur því ábyrgðin liggur alfarið hjá SA enda hefur félagið sýnt að það er tilbúið til að leysa málið í sátt og samlyndi en ekki gegn handónýtri samræmdri launastefnu þar sem ekkert tillit á að taka til góðrar afkomu þessara fyrirtækja.

11
Feb

Fórna milljörðum fyrir 2-3 milljónir

Í gær fundaði formaður félagsins með Samtökum atvinnulífsins og fulltrúum fiskimjölsverksmiðja með ríkissáttasemjara vegna þeirrar grafalvarlegu stöðu sem upp er komin hjá deiluaðilum. Eins og flestir vita þá mun hefjast verkfall í fiskimjölsverksmiðjunni á Akranesi sem og í sjö öðrum verksmiðjum vítt og breitt um landið kl. 19:30 næstkomandi þriðjudag.

Formaður félagsins reyndi hvað hann gat í gær til að leysa þessa deilu þar sem gríðarlegir hagsmunir eru í húfi fyrir starfsmenn fiskimjölsverksmiðjanna sem og þjóðarbúið allt. Formaður lagði fram tilboð sem fól meðal annars í sér eingreiðslu til handa starfsmanna gegn því að samningurinn yrði framlengdur til 1. maí næstkomandi. Með þessu væri hægt að bjarga alfarið þeirri loðnuvertíð sem nú er að ná hámarki og þeim milljörðum sem í húfi eru.

Það er skemmst frá því að segja að samningsvilji af hálfu Samtaka atvinnulífsins er af afar skornum skammti og er það vægt til orða tekið. Það er ekki bara að félagið hafi lagt fram þessa lausn á málinu í formi framlengingar á samningnum gegn eingreiðslu heldur lagði félagið fram tillögu sem fól í sér rúmlega helmings lækkun á upprunalegu kröfunni. Hún var fólgin í því að þeirri kaupmáttarskerðingu sem starfsmenn fiskimjölsverksmiðjunnar hafa orðið fyrir verði skilað að fullu til baka. Krafan er með öðrum orðum komin niður úr 27,5% í 13,5%. Það virðist engu máli skipta hvað stéttarfélögin rétta oft út sáttarhönd, ávallt er slegið á hana af fullum þunga. Á þeirri forsendu er æði fátt sem getur komið í veg fyrir það að hér skelli á verkfall með umtalsverðu tjóni fyrir þjóðarbúið en ábyrgðin liggur alfarið hjá Samtökum atvinnulífsins hvað það varðar. Að hafna tilboði sem kostar viðkomandi fyrirtæki á bilinu 2-3 milljónir með fleytingu á samningnum til 1. maí og fórna þar af leiðandi milljörðum króna er eitthvað eins og áður sagði, alfarið á ábyrgð Samtaka atvinnulífsins.

11
Feb

Laust í Húsafelli um helgina

Vegna forfalla er orlofshús félagsins í Húsafelli laust nú um helgina. Hægt er að bóka húsið á skrifstofu félagsins í s. 430-9900.

10
Feb

Ábyrgðarleysi Samtaka atvinnulífsins

Í dag fundar Verkalýðsfélag Akraness vegna þriggja kjarasamninga hjá ríkissáttasemjara. Kl. 15 í dag mun samninganefnd Verkalýðsfélags Akraness vegna Elkem Ísland og Klafa funda með Samtökum atvinnulífsins.

Eins og fram hefur komið hér á heimasíðunni þá hefur samninganefndin boðið forsvarsmönnum fyrirtækjanna og Samtökum atvinnulífsins að framlengja kjarasamning áðurnefndra fyrirtækja til 1. maí gegn eingreiðslu en því tilboði hafa Samtök atvinnulífsins alfarið hafnað. Það mun ekki standa á Verkalýðsfélags Akraness og samninganefnd félagsins að leita allra leiða til að ná sátt í þeirri alvarlegu deilu sem nú stefnir í á Grundartangasvæðinu. Það er hins vegar morgunljóst að hugmyndir Samtaka atvinnulífsins um að þvinga starfsmenn í útflutningsfyrirtækjum til að semja upp á 2,5% hækkun á ári eða sem nemur ca 8% í 3 ára samningi munu ekki koma til greina.

Ef Samtök atvinnulífsins munu standa fast á þessari kröfu þá er hvellskýrt að kosið verður um vinnustöðvun í áðurnefndum fyrirtækjum áður en langt um líður. Það er einnig hvellskýrt að lágmarkskrafa verði að áðurnefnd fyrirtæki skili þeirri kaupmáttarskerðingu sem starfsmenn þessara fyrirtækja hafa orðið fyrir frá ársbyrjun 2008 fram á daginn í dag, enda eru engar forsendur fyrir því að fyrirtæki í útflutningi komist hjá slíku.

Það er einlæg von samninganefndar Verkalýðsfélags Akraness að deiluaðiliar leysi þetta mál til að viðhalda þeim rótgróna stöðugleika sem ríkt hefur á Grundartangasvæðinu í áratugi. Á þeirri forsendu er ábyrgð Samtaka atvinnulífsins gríðarleg og krafa þeirra um að neita að ganga frá kjarasamningum við launþega, sem eru á engan hátt tengdir sjávarútvegsfyrirtækjum, fyrr en lausn finnst á ágreiningi LÍÚ við stjórnvöld er forkastanleg og verður ekki liðin. Formaður spyr sig: Hver var það sem boðaði til fundar með þingmönnum NV kjördæmis og ráðherra þegar til stóð að leggja orkuskatt á stóriðjufyrirtækin, orkuskatt sem hefði þýtt milljarða í aukinn kostnað fyrir stóriðjufyrirtækin á Grundartanga? Jú, það var formaður Verkalýðsfélags Akraness sem stóð fyrir þeim fundi. En hvar voru Samtök atvinnulífsins þá? Núna taka þau kjarasamninga launafólks í herkví vegna fiskveiðistjórnunarkerfisins og stefna eins og áður sagði stöðugleika á Grundartangasvæðinu í stórhættu.  

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image