• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
27
Apr

Þeir hafa kallað eftir stríði og þeir fá stríð

Nú er orðið morgunljóst að ekki muni nást kjarasamningar við Samtök atvinnulífsins á hinum almenna vinnumarkaði með góðu. Á þeirri forsendu mun formaður félagsins um eða eftir helgi boða samninganefnd Verkalýðsfélags Akraness til fundar þar sem verkfallsaðgerðir verða ákveðnar. Formaður mun leggja til við samninganefnd félagsins að hafin verði undirbúningur að verkfalli í öllum fiskvinnslufyrirtækjum á félagssvæði félagsins en þau eru þónokkur. Formaður hefur haft samband við forsvarsmenn nokkurra fiskvinnslufyrirtækja til að greina þeim frá þeirri grafalvarlegu stöðu sem upp er komin á íslenskum vinnumarkaði og fann formaður fyrir miklum vilja frá fulltrúum þeirra fyrirtækja sem hann ræddi við um að leysa þessa kjaradeilu án þess að til átaka kæmi.

Nú eru liðnir 6 mánuðir frá því að kjarasamningar á hinum almenna vinnumarkaði runnu út en íslenskir launþegar hafa orðið fyrir gríðarlegri kaupmáttarskerðingu frá janúar 2008. Á þeirri forsendu verða kjarabætur til handa íslensku verkafólki sóttar af fullum þunga á næstu vikum. Félagið hefur sagt að fyrirtækjum sem starfandi eru í útflutningi og hafa hagnast umtalsvert vegna gengisfalls íslensku krónunnar verði ekki hlíft við að skila þeirri kaupmáttarskerðingu sem starfsmenn þeirra hafa orðið fyrir.

Það er nöturlegt og í raun og veru sorglegt að verða vitni að því að stórt og öflugt sjávarútvegsfyrirtæki eins og til dæmis HB Grandi sjái sér fært að greiða út tæplega 400 milljóna króna arð til hluthafa á sama tíma og fiskvinnslufólk hefur verið án launahækkana í 6 mánuði og um leið orðið fyrir skefja- og miskunnarlausum hækkunum á öllum sviðum. En eins og margoft hefur komið fram hér á heimasíðunni hafa allir varpað sínum vanda viðstöðulaust yfir á íslenska launþega eins og til að mynda ríki, sveitarfélög, verslunareigendur og aðrir þjónustuaðilar.   

Að sjálfsögðu mun félagið leita leiða með þeim fyrirtækjum sem eru á félagssvæði þess til að leysa þessa kjaradeilu án átaka en eins og staðan er í dag er ofbeldi Samtaka atvinnulífsins þvílíkt að ekki verður lengur við unað. Þeir hafa kallað eftir stríði og þeir fá stríð.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image