• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
Fréttir

Fréttir

08
Mar

Aðalfundir deilda félagsins

Í kvöld verða aðalfundir opinberrar deildar, almennrar deildar, iðnsveinadeildar, stóriðjudeildar og matvæladeildar Verkalýðsfélags Akraness haldnir sameiginlega. Þessi sameiginlegi fundur verður haldinn í Gamla kaupfélaginu og hefst klukkan 18.

Dagskrá fundarins er eftirfarandi:

1. Venjubundin aðalfundarstörf

2. Staða kjaramála

3. Önnur mál

Að fundi loknum verður boðið upp á súpu og brauð.

07
Mar

Græðgisvæðingin að skjóta rótum á nýjan leik

Það er óhætt að fullyrða að íslenskri alþýðu þessa lands ofbauð þau ofurlaun sem æðstu stjórnendur fjármálageirans skömmtuðu sér fyrir bankahrunið.  Á þessum tíma horfði almenningur upp á þessa snillinga skammta sér ofurlaun sem námu frá fleiri milljónum á mánuði upp í tugi milljóna svo ekki sé nú talað um þegar fyrrverandi bankastjóri Glitnis, Lárus Welding, fékk 300 milljónir fyrir það eitt að hefja störf hjá nýjum banka.

Þegar verkalýðshreyfingin og fleiri aðilar gagnrýndu kaupréttarsamninga, bónusa og önnur ofurlaun hjá starfsmönnum fjármálastofnana á sínum tíma þá komu skýr svör frá þeim aðilum sem þáðu þessi ofurlaun:  ykkur grálúsuga almúganum kemur þetta ekkert við.

Í búsáhaldabyltingunni var þess krafist að tekin yrðu upp ný gildi og gildi er lúta að græðgi, sérhagsmunagæslu og hroka í garð almennings yrðu látin víkja fyrir nýjum gildum sem lúta að réttlæti, jöfnuði og virðingu.  Á þessum gildum vildi alþýða þessa lands sjá hið nýja Ísland byggt upp.

Núna þurfum við hins vegar að horfa upp á græðgisvæðinguna skjóta rótum í bankakerfinu á nýjan leik ef marka má fréttir af ofurlaunum bankastjóra Arion banka. Eins og fram hefur komið í fréttum þá hafa laun Höskuldar Ólafssonar núverandi bankastjóra Arion  hækkað um 145% frá árinu 2008 og nema nú 4,3 milljónum á mánuði.

Þessar hækkanir áttu sér stað á sama tíma og íslenskir launþegar voru þvingaðir til að fresta og afsala sér hluta af sínum launahækkunum samhliða stöðugleikasáttmálanum sáluga vegna efnahagshrunsins. Það er ekki bara að fréttir af þessum ofurlaunum birtist íslensku launafólki þessa dagana, heldur var fyrir örfáum dögum síðan kynnt vegleg hækkun til héraðs- og hæstaréttadómarar sem nam rúmum 100.000 kr. á mánuði. Núna gera Samtök atvinnulífsins þá kröfu á íslenska launþega að þeir gangi frá afar hófstilltum kjarasamningum til að mæta efnahagsvanda íslensks atvinnulífs. Gangi það eftir verða mánaðarlegar hækkanir um eða undir 10.000 kr. á mánuði. Með öðrum orðum, enn og aftur á það að vera íslenskt launafólk sem á að slá af sínum kröfum á meðan einstakir hópar geta skammtað ríflega sín launakjör svo nemur hundruðum þúsunda króna hækkun á mánuði.

Nú held ég að sé komið að algjörri ögurstundu hjá alþýðu þessa lands og nú þurfi hún að rísa aftur upp og það með afgerandi hætti. Því það er alveg ljóst að það er stefnt leynt og ljóst að því að taka að nýju upp gömlu gildin, gildin sem lutu að græðgi, sérhagsmunagæslu og hroka í garð almennings. Á þeirri forsendu er það alþýða þessa lands sem þarf að sjá til þess að græðgisvæðingin nái ekki aftur að skjóta rótum í okkar samfélagi, það er búið að níðast nóg á almenningi í þessu landi og við vitum hvað þarf til að stjórnvöld og bankastjórnendur hlusti á almenning í þessu landi. Nú þarf að dusta rykið af búsáhöldunum.

04
Mar

Verðtryggðar skuldir heimilanna hafa hækkað um tæpa 300 milljarða

Nú þarf að standa við loforðinNú þarf að standa við loforðinEnn og aftur fá skuldsett heimili að finna fyrir þeim skelfilega skaðvaldi sem verðtryggingin er, en samkvæmt fréttum í gær þá hafa verðtryggð lán íslenskra heimila hækkað um sex milljarða króna vegna hækkunar á olíu- og bensínverði á síðustu tveimur vikum. Þessari hækkanir valda 0,5% hækkun á neysluvísitölu sem hefur það sjálfkrafa í för með sér að höfuðstóll verðtryggðra lána hækkar sem því nemur. 

Það alveg hægt að fullyrða að skuldsett heimili eru blóði drifin vegna verðtryggingarinnar í kjölfar efnahagshrunsins. Það er ekki bara að skuldsett heimili þurfi núna að taka við tugmilljarða Icesave-skuld sem sett hefur allt á annan endann í samfélaginu. Á meðan deilt er um Icesave þá liggur fyrir sú blákalda staðreynd að verðtryggðar skuldir heimilanna hafa hækkað um tæpa 300 milljarða frá janúar 2008 til dagsins í dag. Og halda áfram að hækka. Á sama tímabili hafa verðtryggðar innistæður fjármagnseiganda hækkað um fleiri hundruð milljarða.

Það er þyngra en tárum taki að verða vitni að því að núverandi ráðamenn þjóðarinnar bæði Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra og Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra hafa ítrekað talað um að afnema þurfi þann dragbít sem verðtrygging er íslenskum heimilum en ekkert gerist. Það vafðist hins vegar ekki fyrir þessum aðilum að afnema verðtryggingu persónuafsláttar sem samið var umsamhliða kjarasamningum 2006 og 2008. En verðtrygging persónuafsláttar hefur verið eitt af helstu baráttumálum verkalýðshreyfingarinnar í áraraðir.

Svikin loforð

Rétt er að rifja um ummæli sem Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra lét falla 16. febrúar 2009 , en hann sagðist vilja afnema verðtrygginguna þegar að búið væri að ná niður verðbólgunni. Það liggur fyrir að verðbólgumarkmiðum Seðlabankans hefur verið náð og verðbólgan er komin niður fyrir neðri vikmörk Seðlabankans sem eru 2,5%. Hví í ósköpunum leggur fjármálaráðherrann ekki fram frumvarp um afnám verðtryggingar á fjárskuldbindingum í ljósi áðurnefndra loforða? Er ekkert að marka ráðamenn þessarar þjóðar?

Eins og áður hefur komið fram þá er það ekki aðeins fjármálaráðherrann sem hefur ýjað að því að afnema ætti verðtrygginguna, heldur hefur Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, og 12 aðrir þingmenn Samfylkingarinnar, lagt fram nokkur frumvörp um afnám verðtryggingar á fjárskuldbindingum. Það gerðu þau á 128., 130. og 131. löggjafarþingi. Á þessu sést að nú hafa bæði fjármálaráðherra og forsætisráðherra talað digurbarkalega um afnám og ósanngirni verðtryggingarinnar fyrir skuldsett heimili.

Núna er kjörið tækifæri bæði fyrir stjórnarflokkana og stjórnarandstöðuflokkana að sýna í verki að þeir séu að vinna fyrir alþýðu þessa lands og afnema þennan skaðvald sem verðtryggingin er. Enda skuldar Alþingi Íslendinga skuldsettum heimilum það að þessi skefjalausa ósanngirni sem ríkir á milli fjármagnseigenda og skuldsettra heimila verði afnumin í eitt skipti fyrir öll.

Ætlar norræna velferða- og félagshyggju ríkisstjórnin að halda áfram að slá skjaldborg í kringum fjármagnseigendur af fullum þunga á meðan skuldsettum heimilum er fórnað á altari verðtryggingarinnar? Ef ríkisstjórnin hefur hvorki kjark né þor til að afnema verðtrygginguna þá verður verkalýðshreyfingin að tryggja að laun verði einnig verðtryggð. 

02
Mar

Óskiljanlegt framferði

Álfyrirtækin mala gull en mega ekki hækka launÁlfyrirtækin mala gull en mega ekki hækka launHún var afar jákvæð fréttin sem birtist í dag þar sem fram kemur að fari svo að haldist heimsmarkaðsverð á áli út árið eins og það er í dag gætu íslensku álverin hagnast um 38 milljarða kr. aukalega miðað við meðalverðið í fyrra.

Álverðið stendur nú í 2.612 dollurum á tonnið á málmmarkaðinum í London (LME) miðað við þriggja mánaða framvirka samninga og hefur ekki verið hærra síðan sumarið 2008. Samkvæmt upplýsingum frá LME var meðalverðið á markaðinum 2.197 dollarar á tonnið í fyrra. Mismunurinn þar á milli er því 415 dollarar á tonnið.

Það er því þyngra en tárum taki að þurfa að standa í því að Samtök atvinnulífsins neiti að ganga frá samningum m.a. við starfsmenn álfyrirtækja vegna þess að verið sé að vinna með forystu Alþýðusambands Íslands að samræmdri launastefnu, launastefnu þar sem ekkert tillit á að taka til þeirrar bláköldu staðreyndar að útflutningsfyrirtæki og m.a. álfyrirtæki eru að skila gríðarlegum hagnaði vegna gengisfalls krónunnar og hækkunar á afurðaverði.

Það er eins og áður sagði með ólíkindum að unnið sé að samræmdri launastefnu þar sem ekki má undir nokkrum kringumstæðum taka tillit til góðrar stöðu þessara útflutningsfyrirtækja. Eins og margoft hefur komið fram hér á heimasíðunni þá er VLFA algjörlega tilbúið að sýna skilning þeim atvinnugreinum sem eiga undir högg að sækja vegna efnahagshrunsins. En að sama skapi gerir félagið kröfu um það að þau fyrirtæki sem eru að skila tugum milljarða króna hagnaði skili kaupmáttarskerðingunni til baka til sinna starfsmanna enda eru engar forsendur fyrir því að setja starfsmenn útflutningsfyrirtækja undir sama hatt og fyrirtæki sem berjast í bökkum í núverandi árferði.

02
Mar

Vel á annan tug milljarða bjargað

Formaður kíkti á starfsmenn Síldarbræðslunnar í fyrradag en það er óhætt að segja að það sé gríðarleg törn búin að vera hjá þeim um alllanga hríð. Nú er búið að bræða um eða uppundir 20 þúsund tonn af loðnu og loðnuhrapi.  í gær lönduðu Faxi RE og Ingunn AK og nú er verið að landa úr Lundey, öll skipin voru nánst með fullfermi.  Eftir að sjávarútvegsráðherra jók loðnukvótann um 65 þúsund tonn var ákveðið að gamla aflaskipið Víkingur AK skildi halda til veiða og eftir þeim upplýsingum sem formaður hefur fengið þá hefur Víkingur landað fjórum fullfermistúrum það sem af er þessari vertíð.

Einnig eru staðnar núna sólarhringsvaktir við hrognatöku og eru tugir manna sem vinna á þessum sólarhringsvöktum og er gríðarleg vertíðarstemmning sem myndast við hrognatökuna.

Eins og flestir muna var verkfalli starfsmanna í 9 síldarbræðslum frestað 15. febrúar og er morgunljóst að sú ákvörðun starfsmanna hefur bjargað vel á annan tug milljarða króna fyrir þau fyrirtæki sem hlut eiga að máli sem og allt þjóðarbúið.  Eins og áður hefur komið fram þá telur formaður það hafa verið mistök að draga verkfallsboðuna til baka því staða starfsmanna í síldarbræðlum var gríðarlega sterk í ljósi hagsmuna útgerðarinnar. Enda skynjaði formaður VLFA umtalsverðan vilja hjá forsvarsmönnum síldarbræðlunnar til að leysa deiluna á átaka. Nú er bara að vona að fyrirtæki umræddra síldarbræðslna sýni starfsmönnum sem tóku þá ákvörðun um að nýta ekki sinn verkfallsrétt, þrátt fyrir að Samtök atvinnulífsins hafi hafnað nánast öllum þeirra kröfum, umbun þegar kemur að því að ganga frá kjarasamningum á næstu dögum. Þeir eiga það svo sannarlega skilið í ljósi áðurnefndra staðreynda. 

28
Feb

Ótrúleg skoðanakönnun

Hún var alveg ótrúleg könnunin sem forysta Alþýðusambands Íslands lét gera er laut að samræmdri launastefnu. Formaður félagsins veltir því fyrir sér hver tilgangur forystu ASÍ var með þessari könnun en það er mat formanns að hér hafi ekkert annað legið að baki en að skemma sterka stöðu starfsmanna sem starfa hjá útflutningsfyrirtækjum vegna gríðarsterkrar stöðu þessara fyrirtækja. Spurningin var afar villandi og er þar vægt til orða tekið.

Spurningin hljóðaði með eftirfarandi hætti:

Nú standa yfir viðræður um nýja kjarasamninga. Hvort ertu hlynntari því að verkalýðshreyfingin leggi áherslu á sambærilegar launahækkanir fyrir alla, eða meiri launahækkanir til þeirra sem starfa í útflutningsgreinunum, sem njóta nú góðs af gengi krónunnar?

Könnunin var með þeim hætti að 94% svörðuðu þessari spuringu játandi en einungis 6% neitandi. Eins og áður hefur komið fram var þessi spurning afar villandi og nægir að nefna í því samhengi að ekki kemur skýrt fram hvað átt er við með sambærilegum launahækkunum. Eins og samræmd launastefna hefur verið kynnt þá byggist hún á tvennu, annars vegar á prósentuhækkunum og hins vegar á krónutöluhækkunum. Eins og margoft hefur komið hér fram á heimasíðunni þá myndi þessi samræmda launastefna þýða það, miðað við þau drög sem kynnt hafa verið, að lágtekjufólk væri að fá í kringum 9 þúsund króna hækkun á sínum launatöxtum á meðan að þeir sem starfa ekki eftir taxtakerfi væru að fá upp undir 3,5% launahækkun.

Myndu þeir sem tóku þátt í könnuninni sætta sig við að forseti ASÍ fengi 35 þúsund króna hækkun, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins 60 þúsund króna hækkun og margir aðrir miðstjórnarmenn innan ASÍ væru að fá frá 35 þúsund og upp í 50 þúsund króna hækkun á meðan almennir verkamenn, til dæmis fiskvinnslufólk og verkamenn í stóriðjum, væru að fá 9 þúsund króna hækkun. Hefðu þeir sem tóku þátt í könnuninni greitt atkvæði eins og áður hefur komið fram ef þessar staðreyndir hefðu legið fyrir? Svar formanns við því er nei. Er þetta samræmda launastefnan sem ASÍ vill fara, að slegin verði skjaldborg utan um þá tekjuhæstu?

Á fundi með Samtökum atvinnulífsins vegna launaliðar Norðuráls var það fyrsta sem fulltrúar fyrirtækisins höfðu orð á að 94% sem tóku þátt í könnuninni væru hlynntir samræmdri launastefnu og af þeirri ástæðu vildi fyrirtækið að sjálfsögðu semja á slíkum forsendum.

Það er mat formanns að hér sé um gríðarleg skemmdarverk að ræða af hálfu forystu ASÍ enda eru engar forsendur fyrir því að fyrirtæki starfandi í útflutningi komist hjá því að skila kaupmáttarskerðingunni sem starfsmenn hafa orðið fyrir vegna efnahagshrunsins enda eru útflutningsfyrirtæki að hagnast gríðarlega vegna gengisfalls íslensku krónunnar og vegna stórhækkaðs afurðaverðs. Það er nöturlegt að verða vitni að því að slík könnun sé gerð einvörðungu til að veikja stöðu þeirra sem eru að berjast fyrir því að útflutningsfyrirtæki skili ávinningnum til sinna starfsmanna. Að kosta til könnunar sem kostar jafnvel hundruðir þúsunda með þetta að meginmarkmiði er sorglegt.

Það liggur algjörlega fyrir að Verkalýðsfélag Akraness mun ekki láta þetta ofbeldi yfir sig ganga enda verður þessum vinnubrögðum mætt af fullri hörku. En vissulega er við ramman reip að draga þegar bæði þarf að berjast við atvinnurekendur og ekki síður þá láglaunastefnu sem forysta ASÍ vinnur nú ötullega að með Samtökum atvinnulífsins. Nú er mikilvægt að launþegar allir sem einn standi þétt saman og berjist gegn þessari láglaunastefnu.  

25
Feb

Unnið að lausn málsins

Í gær var haldinn samningafundur hjá Ríkissáttasemjara vegna kjaradeilu félagsins við Samtök atvinnulífsins vegna Elkem Ísland. Það er skemmst frá því að segja að fundurinn var algjörlega árangurslaus, nokkurs hroka gætti og alls engan samningsvilja var að finna af hálfu Samtaka atvinnulífsins.

Félagið vinnur áfram ötullega að því að finna lausn á þessu grafalvarlega máli, en það er alveg morgunljóst að ástandið nú er afar eldfimt. Samninganefndin í heild sinni leggur sig í líma við að forða þessari deilu frá alvarlegum átökum.

Verkalýðsfélag Akraness fundaði með öllum starfsmönnum Elkem Ísland á mánudaginn var og á þeim fundi var formanni félagsins veitt fullt umboð til að finna farsæla lausn þar sem hagsmunir starfsmanna yrði hafðir að leiðarljósi. Einnig var honum veitt heimild til að gefa sér þann tíma sem hann þyrfti til að finna farsæla lausn á deilunni. Nú er staðan þannig að hugsanlega þarf félagið ögn lengri tíma til að ná niðurstöðu í þessari alvarlegu kjaradeilu enda eru gríðarlegir hagsmunir í húfi ekki bara fyrir starfsmenn heldur í raun og veru fyrir allt þjóðarbúið. 

Það er einnig ljóst að það ofbeldi sem Samtök atvinnulífsins hafa sýnt í þessu máli þar sem rótgrónum stöðugleika á Grundartangasvæðinu er stefnt í algjöra tvísýnu er með hreinustu ólíkindum. Þetta ofbeldi mun Verkalýðsfélag Akraness ekki láta yfir sig ganga enda mun félagið ávalt hafa hagsmuni sinna félagsmanna að leiðarljósi.

24
Feb

Ríkissáttasemjari boðaði aftur til fundar í dag

Húsakynni ríkissáttasemjaraHúsakynni ríkissáttasemjaraÍ gær fundaði formaður félagsins ásamt trúnaðarmönnum Elkem Ísland með forsvarsmönnum Samtaka atvinnulífsins og fyrirtækisins hjá ríkissáttasemjara vegna þeirrar alvarlegu deilu sem nú er uppi vegna kjarasamnings starfsmanna við Samtök atvinnulífsins.

Samninganefndin lagði fram hugmyndir að lausn á deilunni í gær sem er núna til skoðunar hjá okkar viðsemjendum en þetta er lokaatlagan sem Verkalýðsfélag Akraness mun gera til að leysa þessa deilu og ef það ekki tekst þá er nánast óhjákvæmilegt að það muni koma til alvarlegra átaka á Grundartangasvæðinu í kjölfarið.

Ríkissáttasemjari boðaði aftur til fundar í dag vegna þessarar deilu og hefst sá fundur kl. 15 og þá mun samninganefnd félagsins væntanlega fá svör við þeim hugmyndum sem lagðar voru fram í gær. Eins og staðan er núna er formaður hóflega bjartsýnn á að deilan leysist þannig að hægt verði að komast hjá alvarlegum átökum. En samninganefndin hefur svo sannarlega sýnt það í verki að hún er tilbúin til að leggja sitt af mörkum til að forða þessari deilu frá vinnustöðvun.

22
Feb

Samstaða og einhugur á fundi starfsmanna Elkem og Klafa

Járnblendiverksmiðjan á GrundartangaJárnblendiverksmiðjan á GrundartangaFormaður Verkalýðsfélags Akraness hélt tvo fundi með starfsmönnum Elkem Ísland og Klafa í gær og voru fundirnir haldnir á Gamla kaupfélaginu. Fyrri fundurinn var haldinn kl. 13 og mættu á þann fund um 60 manns en síðari fundurinn var haldinn kl. 19 og voru nálægt 70 manns sem mættu á þann fund.

Eins og flestir vita þá er kjaradeila vegna stóriðjusamninganna á Grundartanga komin í algjöran hnút og vinnur félagið nú að því að reyna að koma í veg fyrir hörð átök á þessu svæði. Eins og staðan er núna er því miður fátt sem getur komið í veg fyrir slíkt. Það ríkti gríðarleg samstaða og einhugur á fundinum í gær og kom fram í máli fundarmanna að afstaða forystu ASÍ til þess að sækja meira á fyrirtæki sem hafa hagnast gríðarlega vegna gengisfalls krónunnar og hækkandi afurðaverðs sé óskiljanleg á grundvelli þess að menn berjast hatrammlega fyrir því að þessi fyrirtæki skili ekki þeim ávinningi til sinna starfsmanna.

Það ríkir gremja og reiði á meðal starfsmanna yfir því hvernig forysta ASÍ hefur tekið stöðu gegn starfsmönnum útflutningsfyrirtækja og komu fram hugmyndir á fundinum í gær hvort ekki væri orðið tímabært að Verkalýðsfélag Akraness segði skilið við slík samtök sem vinna gegn hagsmunum starfsmanna útflutningsfyrirtækja. Formaður sagði að vissulega væri sú staða komin upp að menn þyrftu að fara að skoða það alvarlega hvort við ættum samleið með slíkum hagsmunasamtökum launafólks ef hagsmunasamtök skyldi yfir höfuð kalla.

Ríkissáttasemjari hefur boðað til fundar kl. 14 á morgun og er alls ekki ólíklegt að á þeim fundi muni koma í ljós hvort hér stefni til átaka eða ekki. Rétt er að það komi fram að samninganefndin hefur lagt fram ýmsar hugmyndir að lausn á þessu máli á undanförnum fundum án þess að finna fyrir miklum samningsvilja af hálfu Samtaka atvinnulífsins.

Að sjálfsögðu er gríðarlega erfitt að ná saman samningum þegar Samtök atvinnulífsins og ASÍ hafa tekið höndum saman um það að ekki skuli vera tekið tillit til sterkrar stöðu útflutningsfyrirtækja. En það kom skýrt fram á fundinum í gær að starfsmenn munu ekki sætta sig við slíkt ofbeldi af hálfu ofangreindra aðila.

22
Feb

Samningsumboðið fært til þriðja aðila

Samninganefnd starfsmanna Norðuráls fundaði með fulltrúum fyrirtækisins og Samtaka atvinnulífsins hjá ríksisáttasemjara í gær. Skemmst er frá því að segja að árangurinn var afskaplega takmarkaður. Það kom skýrt fram í máli fulltrúa Samtaka atvinnulífsins að verið er að semja um launalið samningsins á öðrum stað heldur en á því samningsborði sem það ætti að vera gert eða með öðrum orðum, það er verið að semja við Alþýðusambandið um samræmda launastefnu og það er það sem að á að gilda fyrir starfsmenn Norðuráls.

Það er sorglegt að verða vitni að því að það er búið að taka kjarasamningsbundinn rétt af samninganefnd starfsmanna og færa hann til þriðja aðila sem í þessu tilfelli er forysta ASÍ. En eins og kom fram í fréttum í gær þá vinnur ASÍ að því af fullri hörku að hér verði samið við alla launþega innan ASÍ með sambærilegum launahækkunum þar sem ekkert tillit verður tekið til sterkrar stöðu útflutningsfyrirtækja. Þessu mótmælti formaður Verkalýðsfélags Akraness harðlega á fundinum í gær og fordæmir þessi vinnubrögð enda er það með ólíkindum að það sé verið að taka samningsumboð af samninganefnd starfsmanna og færa það til áðurnefndra aðila.

Formaður lítur á þetta sem forysta ASÍ er að gera sem gríðarlegt skemmdarverk gagnvart þeim starfsmönnum sem starfa í útflutningsfyrirtækjum. Formaður hefur fært rök fyrir því af hverju á að sækja meira á útflutningsfyrirtækin og nægir í þessu samhengi að nefna að álverð heldur áfram að hækka stórkostlega og er það nú komið upp í 2.535 dollara og hækkar nú nánast dag hvern. Þessu til viðbótar hefur gengi dollarans styrkst gagnvart íslensku krónunni sem nemur yfir 90% frá hruni. Því spyr formaður sig að því hví í ósköpunum eigi að setja starfsmenn þessara fyrirtækja undir sömu láglaunastefnuna sem forysta ASÍ berst nú hatrammlega fyrir að farin verði.

Það er líka rétt að geta þess að starfsmenn stóriðjunnar á Grundartanga nutu ekki þess gríðarlega launaskriðs sem varð í kjölfar efnahagsbólunnar en launaskriðið á höfuðborgarsvæðinu á þessu tímabili var allt að 20 - 30%. Starfsmenn stóriðjunnar fá einungis þær launahækkanir sem um semst í kjarasamningum sökum þeirra fastlaunasamninga sem samningarnir byggjast á. Nú er komið að þeim tímapunkti að starfsmenn stóriðjufyrirtækja fari að mótmæla þessum skemmdarverkum sem aðildarfélögin sem eiga aðild að samningnum ástunda undir dyggri aðstoð forystu ASÍ.  

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image