• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
12
May

Árangurslaus fundur

Fundað var vegna launaliðar Norðuráls í húsakynnum ríkissáttasemjara í gær. Það er skemmst frá því að segja að árangurinn af þessum fundi var lítill sem enginn. Fram kom í máli Ragnars Guðmundssonar, forstjóra Norðuráls, að fyrirtækið sé tilbúið til að koma með þær launahækkanir sem um var samið á hinum almenna vinnumarkaði en þar var samið til þriggja ára og nam heildarkostnaðarhækkun 11,4%.

Formaður Verkalýðsfélags Akraness lét það koma skýrt fram að þessu tilboði Norðuráls væri hafnað alfarið enda engar forsendur fyrir því að fyrirtæki starfandi í útflutningi sem hefur hagnast gríðarlega á gengisfalli íslensku krónunnar og einnig á stórhækkuðu afurðaverði, en nú er álverðið í 2.700 dollurum tæpum, skili ekki þeim ávinningi að einhverju leyti til sinna starfsmanna.

Það er alveg ljóst að Verkalýðsfélag Akraness mun ekki undir nokkrum kringumstæðum skrifa undir kjarasamning sem ekki verður í anda þess sem gerðist á Grundartangasvæðinu, nánar tiltekið við Elkem Ísland. Þar var samið upp á 9,6% launahækkun á fyrsta ári ásamt eingreiðslu sem nam föstum mánaðarlaunum og var því heildarhækkun á fyrsta ári 17,6% en samningurinn gildir til þriggja ára og gefur starfsmönnum 25% launahækkun sé tekið tillit til eingreiðslunnar.

Eins og áður hefur komið fram þá mun félagið ekki ganga frá kjarasamningi undir þessum tölum og þessu til viðbótar vantar 3% til að jafna þann launamun sem ríkir á milli Elkem og Alcan í Straumsvík annars vegar og Norðuráls hins vegar.

Lagt var fram tilboð til forsvarsmanna Norðuráls í anda þess sem samið var um við Elkem Ísland ásamt þriggja prósenta viðbótinni sem nefnd var hér að ofan. Væntanlega mun svar koma við þessu tilboði eftir helgi en það skal segjast alveg eins og er að formaður er ekki ýkja bjartsýnn á jákvæða niðurstöðu hvað það varðar.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image