• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
25
May

Forsvarsmenn Norðuráls bera fyrir sig bókun

Á mánudaginn var fundað vegna launaliðar Norðuráls í húsakynnum ríkissáttasemjara. Það er skemmst frá því að segja að árangurinn af þessum fundi var akkúrat enginn. Það sem forsvarsmenn fyrirtækisins bjóða starfsmönnum er sá samningur sem samið var um á hinum almenna vinnumarkaði eða sem nemur 11,4% til þriggja ára.

Þetta tilboð er algjörlega óásættanlegt með öllu ef tilboð skyldi kalla. Sérstaklega í ljósi þess að hér er um gríðarlega sterkt útflutningsfyrirtæki að ræða sem hefur hagnast um 50-60 milljarða frá því það hóf starfsemi á Grundartanga árið 1998. Þessu til viðbótar hefur fyrirtækið hagnast verulega vegna gengis íslensku krónunnar sem og hækkandi afurðaverðs en nú er álverðið í 2.500 dollurum og hefur hækkað umtalsvert á liðnum misserum.

Það er einnig alveg með ólíkindum að Norðurál skuli ekki vilja fylgja í fótspor Elkem Ísland sem gekk frá kjarasamningi við sína starfsmenn ekki alls fyrir löngu, kjarasamningi sem gefur starfsmönnum 9,6% í beina launahækkun á þessu ári en heildarhækkunin nemur 26% á þremur árum að teknu tilliti til eingreiðslu sem um var samið.

Ragnar Guðmundsson, forstjóri Norðuráls, og Hannes Sigurðsson, aðstoðarframkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, margítrekuðu það á fundinum á mánudaginn að verkalýðshreyfingin að undanskildu Verkalýðsfélagi Akraness, væri búin að skuldbinda sig í bókun til að ganga frá kjarasamningi upp á 11,4% eins og samið var í nýgerðum kjarasamningi.   En þar segir m.a. um Sameiginlega launastefnu ASÍ og SA:

"Almennar launahækkanir verða samtals 11,40% á samningstímanum. Sérstök hækkun kauptaxta er láglaunaaðgerð sem hækkar launakostnað misjafnlega eftir því hve margir taka laun skv. kauptöxtum. Framangreind niðurstaða kjarasamninga felur í sér að mótuð hefur verið sameiginleg og samræmd launastefna gagnvart þeim fjölmörgu samningum sem enn eru ógerðir á samningssviði aðila. Samningsaðilar skuldbinda sig til þess að framfylgja framangreindri launastefnu í framhaldinu"

Formaður spyr sig hvaða heimild hefur verkalýðshreyfingin til að taka aðra ógerða kjarasamninga í slíka láglaunagíslingu og það t.d. gagnvart fyrirtæki sem malar gull og er með launakostnað í kringum 10% af heildarveltu.  Það er alveg ljóst að þessi vinnubrögð verkalýðshreyfingarinnar eru ekkert annað en stórfelld skemmdarverk enda hefur það svo sannarlega sannað sig þegar forstjóri Norðuráls ber fyrir sig þessa bókun.

Það er alveg hægt að segja að útlitið í þessum viðræðum sé afar dökkt og sér formaður VLFA alls enga ástæðu til að boða til annars fundar meðan þetta er afstaða fyrirtækisins enda mun félagið ekki skrifa undir slíkan samning gagnvart útflutningsfyrirtæki.  Rétt er að geta þess að fiskvinnslufyrirtækin eru að hækka laun um rúm 9% á þessu ári í nýjum samningi á hinum almenna vinnumarkaði og er það gert vegna sterkrar stöðu útflutningsfyrirtækja.  Í ljósi þess er þessi afstaða forsvarsmenna Norðuráls ótrúleg og í raun og veru dapurlegt að fyrirtækið skuli ekki leyfa starfsmönnum að njóta ávinnings af afar góðum rekstrarskilyrðum.

Eins og fram kom áðan þá er staðan ekki góð og mun formaður boða starfsmenn Norðuráls til fundar í Bíóhöllinni í næstu viku þar sem farið verður yfir þessa skelfilegu stöðu sem upp er komin.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image