• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
Fréttir

Fréttir

07
Jul

Starfsmenn Klafa fá sömu launahækkanir og starfsmenn Elkem Ísland

Eftir hörð átök vegna kjarasamnings starfsmanna Klafa á Grundartanga tókst að ganga frá nýjum kjarasamningi í húsakynnum Ríkissáttasemjara upp úr hádegi í dag. Það er skemmst frá því að segja að markmið félagsins og starfsmanna um sömu launahækkanir og um var samið hjá Elkem Ísland hafi náðst að fullu. Verða það að teljast afar ánægjuleg tíðindi og í ljósi þeirra hefur formaður VLFA tilkynnt Ríkissáttasemjara og Samtökum atvinnulífsins að boðuðu verkfalli sem taka átti gildi nk. þriðjudag hafi verið aflýst.

Eins og áður hefur komið fram byggist samningurinn í meginatriðum á því sama og um samdist við Elkem. Grunnlaun hækka með sambærilegum hætti og bónusinn hækkar einnig með sambærilegum hætti og hámarkið fer úr 10% í 13,5% og einnig hefur starfsmönnum verið tilkynnt að þeir fái eingreiðslu sem er ígildi fastra mánaðarlauna, en sú eingreiðsla er ekki hluti af kjarasamningnum. Mun sú eingreiðsla vera greidd í tvennu lagi, helmingurinn með næstu útborgun og síðan í desember 2011.

Orlofs- og desemberuppbætur hækka samtals úr 249.000 í 261.400 og í lok samningstímans verða uppbætur komnar upp í tæp 280.000 sem er hækkun um 12,2%. Samningurinn er að gefa starfsmönnum með eingreiðslunni tæp 16% á árinu 2011 og í heildina gefur samningurinn 24% á samningstímanum.

Formaður Verkalýðsfélags Akraness vill þakka trúnaðarmanni Klafa sem og öllum starfsmönnum fyrir órjúfanlega samstöðu sem gerði það að verkum að meginmarkmið félagsins og starfsmanna náðust að fullu. Því án samstöðu er morgunljóst að slíkt hefði ekki náðst. Einnig vill félagið þakka Elkem Ísland fyrir sinn þátt í því að hafa leyst þetta mál án átaka og ber að virða það. En eins og áður hefur komið fram hér á heimasíðunni þá á Elkem Ísland nú 100% hlut í Klafa eftir að Norðurál seldi sinn helmingshlut.

07
Jul

Kjarasamningur undirritaður við Launanefnd sveitarfélaga

Þessa dagana er mikið um vöfflubakstur hjá RíkissáttasemjaraRétt í þessu skrifaði formaður félagsins undir kjarasamning við Launanefnd Sveitarfélaga vegna félagsmanna sinna sem starfa hjá Akraneskaupstað og Hvalfjarðasveit. Samningurinn er að mörgu leyti sambærilegur þeim sem um var samið á hinum almenna vinnumarkaði, en reyndar var verið að breyta launatöflu þar sem lífaldurshækkanir voru lagðar af og í staðinn voru tekin upp svokölluð persónuálög. 

Í hinum nýja samningi eru lágmarkslaun fyrir fullt starf eða 173,33 stundir kr. 196.708,-. Verði samningurinn samþykktur munu starfsmenn fá eingreiðslu að upphæð kr. 50.000 og miðast það við starfsmann í fullu starfi í mánuðunum mars-maí. Einnig mun koma önnur eingreiðsla 1. febrúar 2012 og er sú greiðsla kr. 25.000 m.v. fullt starf.

Þriðjudaginn 19. júlí mun samningurinn verða kynntur fyrir félagsmönnum sem starfa eftir umræddum kjarasamningi og að aflokinni kynningu verður hægt að kjósa um samninginn. Hægt er að sjá samninginn í heild sinni síðar með því að smella hér.

06
Jul

Annríki vegna kjarasamningagerðar

Töluvert annríki hefur verið við kjarasamningagerð undanfarna daga en nú er verið að leggja lokahönd á kjarasamning fyrir starfsmenn sveitarfélaga. Það eina sem eftir á að ganga frá eru sérákvæði sem Verkalýðsfélag Akraness hafði og er allt útlit fyrir að skrifað verði undir kjarasamninginn á morgun. Í framhaldinu mun formaður kynna samninginn þá félagsmenn sem starfa eftir samningi VLFA við launanefnd sveitarfélaga en í þessu tilfelli er bæði um að ræða félagsmenn hjá Akraneskaupstað og Hvalfjarðarsveit.

Einnig er töluvert að gerast varðandi kjaradeilu Klafa, en Samtök atvinnulífsins og forsvarsmenn Klafa óskuðu eftir formanni og trúnaðarmanni í dag til að undirbúa fundin hjá Ríkissáttasemjara á morgun. En eins og margoft hefur komið fram hér á heimasíðunni þá skellur verkfall á hjá Klafa á hádegi næsta þriðjudag ef ekki verður búið að leysa deiluna fyrir þann tíma.

Krafa félagsins í þessari deilu er hvellskýr, það er að starfsmenn Klafa fái sömu launahækkanir og um var samið fyrir starfsbræður þeirra hjá Elkem Ísland og ríkir alger einhugur og samstaða á meðal starfsmanna um að hvika hvergi frá þeirri sanngjörnu kröfu. 

05
Jul

Engin stefnubreyting á meðal forsvarsmanna Norðuráls

Fundað var vegna launaliðar kjarasamnings Norðuráls í húsakynnum Ríkissáttasemjara í gær, og er skemmst frá því að segja að enginn niðurstaða hafa orðið af þeim fundi.

Það kom fram í máli forsvarsmanna fyrirtækisins að þeir væru að skoða þessi mál, en engin stefnubreyting hafi orðið af þeirra hálfu varðandi það tilboð sem fyrirtækið hafði lagt fram, en það tilboð byggðist alfarið á því sem um var samið á hinum almenna vinnumarkaði, en þar áttu starfsmenn að hækka um 4,25% á þessu ári, 3,5% árið 2012 og 3,25% árið 2013.

Þessu hefur Verkalýðsfélag Akraness algerlega hafnað og mun aldrei koma til greina að samið verði á þessum nótum því eins og áður hefur komið fram hér á heimasíðunni þá eru engar forsendur fyrir því að fyrirtæki í áliðnaði sem hefur notið áhrifa af gengisfalli íslensku krónunnar og stórhækkaðs afurðaverðs sé sett undir sama hatt og fyrirtækis sem eiga í rekstrarerfiðleikum eins og til dæmis í byggingariðnaðinum.

Formaður félagsins kynnti einnig á fundinum í gær fyrir forsvarsmönnum fyrirtækisins þann launasamanburð sem félagið hefur gert vegna þessa kjarasamnings sem gerður var fyrir starfsmenn Fjarðaáls, en sá samanburður sýnir að launamunur á milli Fjarðaáls og Norðuráls getur numið í sumum tilfellum allt að 30% sem gerir það að verkum að það er tug þúsunda launamunur á milli þessa tveggja fyrirtækja fyrir sama vinnustundafjölda enda eru vaktakerfi þessara verksmiðja nánast eins.

Þetta eru niðurstöður sem starfsmenn, trúnaðarmenn og Verkalýðsfélag Akraness munu aldrei sætta sig við og liggur fyrir að krafa félagsins fyrir hönd starfsmanna verður að sömu launahækkanir og um var samið í Fjarðaál munu koma til handa starfsmönnum  Norðuráls. Starfsmenn eru algerlega sammála því að það tilboð sem liggur fyrir mun aldrei verða samþykkt í fyrirtækinu enda gefur þetta tilboð starfsmönnum einungis 15-19 þúsund króna launahækkun á mánuði sem þýðir að starfsmenn munu einungis fá um 10 þúsund krónur í vasann.

Það hefur komið fram á fjölmennum fundum sem VLFA hefur haldið að starfsmenn ætla að standa þétt saman í þessari baráttu og eru frekar tilbúnir að bíða eins lengi og þörf krefur til að ná fram þeirri sjálfsögðu kröfu sem er að þeir njóti sömu launahækkana og um var samið í Fjarðaáli enda eru engar forsendur fyrir öðru.

Næsti fundur hefur ekki verið boðaður fyrr en 22. ágúst og má segja að það sé engin ástæða til að funda meðan ekki verður hugarfarsbreyting á meðal forsvarsmanna Norðuráls. Þennan slag mun Verkalýðsfélag Akraness taka alla leið.

05
Jul

Fundað með Launanefnd sveitarfélaga í dag

Nú klukkan 10 mun formaður félagsins eiga fund í húsakynnum Ríkissáttasemjara með launanefnd sveitarfélaga, en nú liggja fyrir drög að nýjum kjarasamningi fyrir starfsmenn Akraneskaupstaðar sem eru félagsmenn í Verkalýðsfélagi Akraness. Þessi drög veita starfsmönnum Akraneskaupstaðar álíka launahækkanir og um var samið á hinum almenna vinnumarkaði 5. maí sl. og reiknar formaður fastlega með því að skrifað verði undir nýjan kjarasamning í dag.

05
Jul

Fundur hjá ríkissáttasemjara á fimmtudaginn vegna Klafa

Í gærmorgun höfðu forsvarsmenn Klafa samband við formann félagsins og óskuðu eftir því að verkfallinu yrði frestað um eina viku vegna þess að eigendaskipti voru að eiga sér stað í fyrirtækinu. Eins og áður hefur komið fram hér á heimasíðunni þá áttu Elkem Ísland og Norðurál 50% hvort í Klafa, en Klafi sér um allar út- og uppskipanir og aðra þjónustu fyrir áðurnefnd fyrirtæki.

Að höfðu samráði við starfsmenn og trúnaðarmann ákvað Verkalýðsfélag Akraness að verða við þessari ósk og fresta verkfallsaðgerðum til hádegis 11. júlí, en ríkissáttasemjari hefur boðað til fundar fimmtudaginn 7. júlí.

Eins og einnig hefur komið fram hér á heimasíðunni þá er krafa starfsmanna Klafa að þeir fái sömu launahækkanir og eingreiðslu og um var samið við starfsbræður þeirra hjá Elkem Ísland, enda eru starfsmenn Klafa fyrrverandi starfsmenn Elkem Ísland og hafa ætíð verið með mjög sambærileg laun og greidd hafa verið í Járnblendiverksmiðjunni. Nú er bara að sjá og vona að hægt verði að ganga frá nýjum kjarasamningi fyrir starfsmenn Klafa sem fyrst og er formaður hóflega bjartsýnn á að það takist áður en til verkfallsaðgerða kemur. En það er morgunljóst að félagið og starfsmenn munu ekki hvika frá sinni sanngjörnu kröfu sem er sú sem hér hefur verið rakin.

01
Jul

Írskir dagar á Akranesi

Hér á Akranesi eru nú að ganga í garð Írskir dagar þar sem boðið verður upp á glæsilega dagskrá alla helgina og hvetur formaður félagsins alla félagsmenn sína til að taka þátt í þessari miklu fjölskylduhátíð.

Það er ljóst að strax eftir helgi mun alvara lífsins taka við á nýjan leik því eins og fram hefur komið hér á heimasíðunni mun boðað verkfall hjá starfsmönnum Klafa hefjast á þriðjudaginn. Strax á mánudaginn verða tveir fundir í húsakynnum ríkissáttasemjara, annars vegar vegna kjarasamnings Klafa og hins vegar vegna launaliðar Norðuráls en mikið ber á milli samningsaðila í báðum þessum deilum. 

Einnig liggur fyrir að fljótlega eftir helgi muni félagið ganga frá kjarasamningi fyrir starfsmenn sveitarfélaga og verður sá samningur kynntur fyrir starfsmönnum um leið og hann hefur verið undirritaður.

Á þessu sést að það er mikið annríki framundan í næstu viku í hinum ýmsu málum er lúta að hagsmunum félagsmanna Verkalýðsfélags Akraness. Á þeirri forsendu er mikilvægt að félagsmenn nýti sér þessa glæsilegu hátíð sem nú er að ganga í garð og geri sér glaðan dag í ljósi þeirra staðreynda að framundan eru hörð átök varðandi áðurnefndar kjaradeilur.

30
Jun

Frábær kynningar- og samstöðufundur í Bíóhöllinni í gær

Það er óhætt að segja að kynningar- og samstöðufundurinn sem Verkalýðsfélag Akraness hélt með starfsmönnum Norðuráls í gær hafi heppnast frábærlega. En um 250 starfsmenn mættu á fundinn, sem er upp undir 50% af starfsmönnum Norðuráls. Það var frábært að finna þann einhug og samstöðu sem ríkti á meðal starfsmanna í þessari kjaradeilu sem félagið á nú í við forsvarsmenn Norðuráls.

Á fundinum rakti formaður félagsins þá stöðu sem nú er upp komin í þessari erfiðu deilu, en eins og áður hefur komið fram hér á heimasíðunni þá rann launaliður samningsins út um síðustu áramót og þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir hafa allar viðræður hingað til verið árangurslausar. Forsvarsmenn fyrirtækisins og Samtök atvinnulífsins sem leiða viðræðurnar fyrir hönd Norðuráls hafa einungis boðið launahækkun í samræmi við hina margfrægu samræmdu launastefnu sem ASÍ og SA gerðu á hinum almenna vinnumarkaði.

Það hefur margoft komið fram í máli formanns að það eru engar forsendur fyrir því að álfyrirtæki eins og Norðurál sem hefur hagnast gríðarlega á undanförnum árum vegna góðra rekstrarskilyrða m.a. vegna gengisfalls íslensku krónunnar sem og stórhækkaðs afurðaverðs komi með kjarabætur í anda samræmdrar launastefnu, enda er ekki hægt að setja álfyrirtæki í sömu stöðu og t.a.m. fyrirtæki í byggingariðnaði sem eiga í bullandi rekstrarerfiðleikum um þessar mundir. Það hefur verið krafa félagsins að þessum ávinningi útflutningsfyrirtækja verði skilað með afgerandi hætti til starfsmanna umræddra fyrirtækja.

Á fundinum í gær fór formaður yfir nýgerðan kjarasamning sem gerður var fyrir starfsmenn Alcoa Fjarðaáls, en sá samningur veitti starfsmönnum umtalsverðar launahækkanir og kynnti formaður á fundinum hver launamunurinn á milli starfsmanna Norðuráls og Fjarðaáls er núna eftir að Fjarðaál gekk frá sínum samningi. En sá launamunur er sláandi. Rétt er að geta þess að vinnutími og vaktafyrirkomulag eru nánast með sama hætti í báðum verksmiðjunum. Með öðrum orðum þá var verið að bera saman epli og epli, ekki epli og appelsínur.

Í kynningunni kom fram að launamunur verkamanna á vöktum er frá 70.000 kr. upp í 80.000 kr. á mánuði eða sem nemur frá 16% upp í tæp 22%, sé miðað við þann launaflokk sem stórum hluta starfsmanna Fjarðaáls var raðað í í nýgerðum samningi, en það er launaflokkur sem kallast Framleiðslumaður 3. Launamunur iðnaðarmanna á vöktum er frá kr. 99.000 upp í 108.000, eða sem 17,5%-18,5%. En flestir iðnaðarmenn röðuðust inn sem iðnaðarmaður 4 í nýgerðum kjarasamningi Fjarðaáls. Launamunur verkamanna í dagvinnu nemur frá tæpum kr. 79.000 upp í 85.000 kr. á mánuði eða frá 26,4% upp í 32,7%. Launamunur iðnaðarmanna í dagvinnu er frá kr. 99.000 upp í 106.000 kr., eða frá 28,4% upp í 29,6%.

Einnig var samið um stóriðjuskóla sem mun hefja starfsemi sína í haust en þar mun starfsmönnum gefast kostur á að fara í nám sem gefur kost á allt að 10% launahækkun til viðbótar að námi loknu. Og sem dæmi þá munu starfsmenn Fjarðaáls, að afloknum stóriðjuskólanum, vera með kr. 111.000 upp í 120.000 kr. hærri laun en verkamenn í Norðuráli á vöktum.

Á þessu sést að hér er um sláandi launamun að ræða, en það ber að fagna þessum samningi sem gerður var í Fjarðaáli þar sem skín í gegn að eigendur Alcoa hafa greinilega verið tilbúnir til að skila þeim mikla ávinningi og sínu góða rekstrarumhverfi sem ríkir um þessar mundir hjá álfyrirtækjum með afgerandi hætti til sinna starfsmanna. Á fundinum í gær var algjör einhugur og samstaða um það að það séu ekki nokkrar forsendur fyrir því að starfsmenn Norðuráls njóti lakari kjara en starfsbræður og -systur í Alcoa Fjarðaáli. Krafan á fundinum var skýr: sömu laun fyrir sömu vinnu. Við annað verður ekki unað að mati Verkalýðsfélags Akraness og allra þeirra starfsmanna sem sátu fundinn í gær.

Reyndar vekur það undrun formanns hvað hafi orðið um samræmdu launastefnuna sem öll stéttarfélög innan ASÍ stóðu að nema Verkalýðsfélag Akraness í þessum samningi í Fjarðaáli. Einfaldlega vegna þess að þarna var í sumum tilfellum samið um tugi prósenta, en formaður félagsins vill ítreka það að hann fagnar þessum samningi innilega og óskar starfsmönnum og forsvarsmönnum Alcoa til hamingju með þennan samning sem er algjörlega í anda þess sem formaður VLFA hefur ætíð sagt: að fyrirtæki í útflutningi eigi að skila ávinningnum til sinna starfsmanna með afgerandi hætti. Það hefur gerst hjá Fjarðaáli svo ekki verður um villst.

Boðað hefur verið til fundar í húsakynnum Ríkissáttasemjara á mánudaginn kl. 16:30 og það er alveg ljóst að þessi mikli launamunur sem er orðinn á milli þessara tveggja fyrirtækja verður svo sannarlega til umræðu enda mun krafan byggjast á þessum samningi sem Fjarðaál gerði, eða eins og áður sagði: sömu laun fyrir sömu vinnu. Enda ber formaður þá von í brjósti sér að eigendur Norðuráls vilji meta sína starfsmenn í sömu verðleikum í launakjörum séð eins og er nú að gerast í Fjarðaáli.

30
Jun

Stefnir í hörð átök

Það er óhætt að segja að fundurinn hjá ríksisáttasemjara vegna kjaradeilu Klafa hafi verið árangurslaus enda stóð fundurinn einungis yfir í tæpan hálftíma þó afar stutt sé nú í boðað verkfall starfsmanna. Það hefst eins og áður hefur komið fram á þriðjudaginn næstkomandi.

Aðstoðarríkissáttasemjari sem stýrði þessum fundi kallaði eftir því frá samningsaðilum hvort einhver breyting hefði orðið á deilunni frá síðasta fundi. Kom skýrt fram af hálfu forsvarsmanna Samtaka atvinnulífsins, sem leiða viðræðurnar fyrir hönd Klafa, að engin stefnubreyting væri af hálfu fyrirtækisins varðandi þessa deilu. Þeir hafa boðið eins og áður hefur komið fram að starfsmenn Klafa fái sömu launahækkanir og samið var um á hinum almenna vinnumarkaði í anda hinnar frægu samræmdu launastefnu. Krafa félagsins fyrir hönd stafsmanna er hvellskýr en hún byggist á því að starfsmenn Klafa fái sömu launahækkanir og um var samið við starfsbræður þeirra hjá Elkem Ísland.

Það er algjörlega óásættanlegt að samið sé við starfsmenn Elkem Ísland upp á mjög góðar launahækkanir og eingreiðslu og ætlast til þess að starfsmenn Klafa sem starfa á nákvæmlega sama svæði og borða í sama mötuneyti sé boðið einungis lítið brot af því sem um var samið fyrir áðurnefnda starfsmenn. Þetta er eitthvað sem Verkalýðsfélag Akraness og starfsmenn Klafa geta ekki undir nokkrum kringumstæðum sætt sig við og munu ekki sætta sig við.

Á þeirri forsendu hafa starfsmenn og stéttarfélagið nú hafið fullan undirbúning að þeirri vinnustöðvun sem mun hefjast á þriðjudaginn næstkomandi en það eru fjölmargir verkþættir sem munu stöðvast samdægurs þegar verkfallið skellur á. Það eru undanþágur í samningnum um að halda ofnum í Elkem heitum í allt að þrjár vikur og að sjálfsögðu munu starfsmenn og stéttarfélagið uppfylla þessar undanþágur en það kom fram á fundinum í morgun að fyrirtækið muni óska eftir þessari undanþágu. Þó svo að þessi undanþága sé til staðar þá mun þetta hafa gríðarleg áhrif á starfsemi Elkem Ísland ef verkfallið verður að veruleika sem fátt virðist í raun geta komið í veg fyrir.

Ríkissáttasemjari boðaði til næsta sáttafundar á mánudaginn kl. 16 en þá verður einungis tæpur sólarhringur þar til þessi vinnustöðvun skellur á af fullum þunga. Það er morgunljóst að það er engan bilbug að finna á starfsmönnum né Verkalýðsfélagi Akraness í þessari deilu og mun verkfallssjóður styðja sína félagsmenn í hvívetna ef til átaka mun koma.

30
Jun

Fundað hjá ríkissáttasemjara vegna Klafa

GrundartangasvæðiðGrundartangasvæðiðRíkissáttasemjari hefur boðað til fundar í kjaradeilu félagsins við Samtök atvinnulífsins vegna kjarasamnings Klafa ehf. og fundurinn hefst kl. 9:30 í dag. Klafi er eins og áður hefur komið fram þjónustufyrirtæki á Grundartanga sem sér um allar út- og uppskipanir á Grundartangasvæðinu. Klafi er í eigu tveggja stórra og öflugra útflutningsfyrirtækja, Norðuráls og Elkem Ísland.

Eins og kom fram hér á heimasíðunni þá hafa starfsmenn Klafa boðað til verkfalls sem hefst þriðjudaginn 5. júlí kl. 12 á hádegi. Það er alveg ljóst að tíminn er að renna út til að leysa þessa deilu en á þessari stundu ber mikið í milli hjá deiluaðilum. Krafa starfsmanna er að þeir njóti sömu launahækkana og um var samið við starfsbræður þeirra í verksmiðjunni Elkem Ísland en rétt er að geta þess enn og aftur að starfsmenn Klafa eru fyrrverandi starfsmenn Elkem á Grundartanga.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image