• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
26
Oct

Forstjóri Landsvirkjunar virðist ekki bjartsýnn á framkvæmdir við álver í Helguvík

Hörður Arnarson, forstjóri LandsvirkjunarFormannafundur Alþýðusambands Íslands var haldinn í dag. Fundurinn byrjaði á ávarpi Gylfa Arnbjörnssonar, forseta ASÍ, en forsetinn fór víða í sinni ræðu og m.a. kom fram hjá honum að í ljósi þess að krónan eigi sér ekki viðreisnar von og við blasa gjaldeyrishöft um ókomin ár eigi að ræða milliliðalaust við pólitíska forystumenn helstu ríkja í Evrópu um beina aðstoð þeirra til að treysta stöðu gjaldmiðilsins.

Það má vel vera að það sé rétt hjá forsetanum að gjaldmiðilinn okkar hafi gert okkur erfitt fyrir í gegnum árin vegna óstöðugleika í efnahagsmálum.  Hins vegar er það mat formanns félagsins að krónan sé að hjálpa okkur núna í ljósi þeirrar staðreyndar að mun meira er að fást fyrir okkar útflutningsvörur sökum hruns íslensku krónunnar. Og einnig þeirri staðreynd að íslensk heimili hafa nú þegar tekið skellinn á sig vegna gríðarlegrar lækkunar á gengi íslensku krónunnar.

Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra hélt einnig ávarp og fór hún víða í sínu ávarpi og kom m.a. fram hjá henni að búið væri að verðtryggja persónuafsláttinn og taldi það mikinn áfangasigur, en hún gleymdi hins vegar að geta þess að hún og hennar ríkisstjórn afnámu verðtryggingu persónuafsláttar sem verkalýðshreyfingin gekk frá samhliða kjarasamningum 2006 og 2008, sem hefur gert það að verkum að persónuafslátturinn er nokkrum þúsund krónum lægri en ella ef staðið hefði verið við samkomulagið.

Hins vegar vakti erindi Harðar Arnarsonar, forstjóra Landsvirkjunar, mesta athygli formanns á þessum fundi. Í erindi sínu fór hann yfir hin ýmsu mál er tengjast Landsvirkjun, m.a. virkjunarmál og ekki síður málefni álversins í Helguvík.

Það er mat fomanns VLFA eftir að hafa hlustað á forstjóra Landsvirkjunar að hverfandi líkur séu á að framkvæmdir vegna álversins í Helguvík verði að veruleika. Það kom fram í máli Harðar að Norðurál ætti eftir að fjármagna verkefnið að andvirði 250 milljarða og taldi hann að það yrði gríðarlega erfitt fyrir Norðurál að fjármagna verkefnið sökum ástandsins á alþjóðlegum mörkuðum. Það var í raun og veru undarlegt að hlusta á forstjórann tala um Helguvíkurverkefnið því eins og áður sagði var ekki hægt að skilja forstjórann öðru vísi en að hverfandi líkur séu á því að þetta verkefni verði nokkurn tímann að veruleika. Einnig kom fram í máli hans að ef allt myndi ganga upp varðandi fjármögnun og aðra þætti er lúta að þessari framkvæmd, þá væri í fyrsta lagi hægt að afhenda raforku til álversins eftir 5-6 ár. Aðspurður sagði forstjóri Landsvirkjunar að pólitísk afskipti gagnvart stjórn Landsvirkjunar í þessu máli og öðrum væru alls ekki til staðar. En að sjálfsögðu velta menn því fyrir sér hvort svo geti verið í ljósi þessara tafa sem hin ýmsu stóriðjuverkefni hafa mátt þola á undanförnum mánuðum og árum.

Þessi niðurstaða, ef rétt reynist, hlýtur að vera gríðarleg vonbrigði fyrir Suðurnesjamenn sem og þjóðina alla. Við Akurnesingar þekkjum vel mikilvægi stóriðjunnar og þau sterku áhrif sem stóriðjan hefur á allt samfélagið. Á þeirri forsendu skilur formaður vel áhyggjur Suðurnesjamanna ef af þessum framkvæmdum verður ekki.

Formaður gat ekki klárað að sitja allan fundinn sökum anna, en fleiri áhugaverð erindi voru eftir á dagskrá eins og t.d. erindi frá Runólfi Ágústsyni stjórnarformanni Atvinnuleysistryggingasjóðs.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image