• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
18
Nov

Atvinnuöryggi starfsmanna Elkem Ísland stefnt í voða vegna nýs skatts

Lífsviðurværi starfsmanna stefnt í voðaLífsviðurværi starfsmanna stefnt í voðaÞað er óhætt að segja það að það séu váleg tíðindi sem nú dynja á atvinnulífinu hér á Akranesi. En nú mun fjármálaráðherra leggja fram frumvarp fyrir jól til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum sem kveður á um að tekinn verður upp nýr afar íþyngjandi kolefnisskattur á stóriðjufyrirtækin. Þessi nýi skattur mun verða þess valdandi að atvinnuöryggi starfsmanna Elkem Íslands, sem eru nú um 300 talsins, verður ógnað allverulega. Einnig er morgunljóst að þessi nýi skattur mun verða þess valdandi að framleiðsla á sementi hér á landi mun heyra sögunni til og mun þessi skattur, ef af verður, verða síðasti naglinn í kistu Sementsverksmiðjunnar hér á Akranesi.

Sem dæmi þá liggur fyrir að þessi nýi skattur mun þýða aukakostnað fyrir Elkem Ísland sem nemur 430 milljónum á árinu 2013 en þessi nýi skattur mun fara stighækkandi næstu tvö ár á eftir og á árinu 2014 verður þessi kolefnisskattur kominn upp í 645 milljónir og á árinu 2015 er hann kominn upp í 860 milljónir króna. Þessu til viðbótar þarf Elkem síðan að greiða kaup á kolefnisheimildum fyrir kísil-, málm- og járnblendiiðnað en sá kostnaður mun nema um 200 milljónum króna á ári til viðbótar. Til að sýna fáránleikann í þessu máli þá var heildarlaunakostnaður Elkem Ísland á árinu 2010 1,3 milljarðar þannig að þessir nýju skattar Steingríms eru ígildi 50% af heildarlaunakostnaði fyrirtækisins. Og á árinu 2015 verður þessi skattur farinn að nálgast 85% af heildarlaunakostnaði fyrirtækisins. Á þessu sést hversu fáránleg þessi útfærsla er.

Það liggur fyrir að rekstur járnblendiverksmiðjunnar á Grundartanga er mjög sveiflukenndur og svona íþyngjandi skattheimta mun klárlega stefna fyrirtækinu og þeim störfum sem þar eru í stórhættu. Það er þyngra en tárum taki að fyrirtæki sem hefur barist fyrir rekstrarafkomu sinni vegna aðstæðna á heimsmarkaði undanfarna áratugi ætli jafnvel að lúta í lægra haldi vegna skattastefnu Steingríms J. Sigfússonar og ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur. En árin 1992 og 1995 vantaði einungis hársbreidd upp á að verksmiðjunni hefði verið lokað vegna aðstæðna á heimsmarkaði en nú gæti hins vegar raunin orðið sú að verksmiðjan þyrfti að lúta í lægra haldi vegna skattastefnu fjármálaráðherra.

Það er morgunljóst að þetta mál er dauðans alvara fyrir atvinnulífið hér á Akranesi því ef þessi skattur verður að veruleika eru í það minnsta 300 störf ásamt þúsund afleiddum störfum í verulegri hættu. Það er einnig ljóst að þessi skattur mun hafa veruleg áhrif á hið nýja kísilver sem fyrirhugað er að reisa í Reykjanesbæ og einnig fyrir norðan. En þessi nýi skattur mun nema vel á þriðja hundrað milljóna strax á árinu 2013 fyrir þessi nýju kísilver. Vart hafa þessir erlendu fjárfestar kísilveranna átt von á hundruð milljóna nýrri skattheimtu þegar þeir tóku ákvörðun um að fjárfesta hér á landi.

Formaður félagsins veltir því fyrir sér á hvaða vegferð ríkisstjórnin er í ljósi þess að þessi skattlagning mun klárlega setja lífsviðurværi hundruð fjölskylda í algert uppnám og væntanlega setja framkvæmdir kísilveranna í óvissu.  Hvernig eiga erlendir fjárfestar að hafa áhuga á að fjárfesta hér á landi og skapa atvinnu hér þegar svona vinnubrögð eru ástunduð af hálfu stjórnvalda.

Það er orðið löngu tímabært að fjármálaráðherrann átti sig á því að velferðakerfi okkar Íslendinga byggist á því að búa til gjaldeyristekjur, þannig vinnum við okkur út úr vandanum. Það verður ekki gert með því að skattleggja útflutningsfyrirtækin út úr landinu með íþyngjandi álögum.

Af hverju skyldi móðurfélag til dæmis Elkem Ísland hafa hætt starfsemi á nokkrum ofnum í Noregi? Jú, það var vegna þess að rekstrarskilyrði hér á landi fyrir stóriðju hafa verið ívið betri heldur en erlendis og einnig eru stóriðjurnar með langtíma raforkusamninga fram í tímann sem gerir það að verkum að þeir þurfa að kaupa raforkuna óháð því hvort þeir nota hana eða ekki. Þetta gerðist einnig með móðurfélag Norðuráls en móðurfélagið lokaði álveri í Vestur-Virginíu árið 2009. Vilja menn skapa þannig rekstrarskilyrði fyrir stóriðjurnar hér á landi að þegar kreppir að á heimsmarkaði þá séu meiri líkur til þess að verksmiðjum verði lokað hér á landi? Mat formanns er einfalt, að sjálfsögðu eigum við að skapa þannig rekstrarskilyrði að þessir erlendu fjárfestar hafi áhuga á að starfa og fjárfesta hér á landi.

Það er algerlega óþolandi að verða vitni af því heillaga stríði sem flokkur Steingríms J Sigfússonar á við stóriðjuna hér á landi og er stóriðjunni nánast fundið allt til foráttu.  Við Akurnesingar vitum mæta vel þau jákvæðu áhrif sem stóriðjan hefur á okkar samfélag.  Sem dæmi þá starfa yfir 3000 manns á Grundartangasvæðinu með afleiddum störfum.  Það liggur fyrir að útsvars- og tekjuskattur af starfsmönnum Norðuráls nam um 1 milljarði króna að teknu tilliti til frádráttar persónuafsláttar starfsmanna. Þessu til viðbótar greiðir Norðurál uppundir 400 milljónir í tryggingagjald og um 250 milljónir vegna fasteignagjalda. Elkem Ísland skilar í útsvar og tekjuskatt um 400 milljónum að teknu tilliti til frádráttar persónuafsláttar og um 140 milljónum í tryggingagjald. Á þessu sést að þessi stóriðjufyrirtæki eru svo sannarlega að skila umtalsverðum fjármunum til þjóðarbúsins sem notaðir eru í velferðarkerfið hér á landi.

Í ljósi þess hversu málið er grafalvarlegt þá hefur Verkalýðsfélag Akraness ásamt bæjarstjóra Akranesskaupstaðar óskað eftir fundi með þingmönnum Norðvestur kjördæmis og fulltrúum þeirra fyrirtæka sem málið varðar og er líklegt að sá fundur verði strax í næstu viku sökum alvarleika málsins. Það er skýlaus stefna stjórnar Verkalýðsfélags Akraness að þegar atvinnuöryggi okkar félagsmanna er ógnað jafn illilega og þessar nýju skattatillögur kveða á um þá verður því mætt af fullri hörku. Því það síðasta sem við megum við núna er að störf í útflutningsgeiranum fari að tapast sökum skattpíningar stjórnvalda.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image