• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
Fréttir

Fréttir

07
Apr

Starf ráðgjafa á sviði starfsendurhæfingar laust til umsóknar

Stéttarfélög á Akranesi leita að ráðgjafa í fullt starf til að starfa á sviði starfsendurhæfingar. Hlutverk ráðgjafa er að styðja og hvetja einstaklinga til að viðhalda og efla virkni til vinnu. Aðsetur verður á skrifstofu Verkalýðsfélags Akraness, Sunnubraut 13 á Akranesi.

Helstu verkefni ráðgjafans verða:

  • Stuðningur og ráðgjöf fyrir einstaklinga
  • Upplýsingaöflun og mat skv. viðurkenndum aðferðum
  • Umsjón, eftirfylgni og leiðsögn varðandi endurhæfingaráætlanir einstaklinga, í samstarfi við fagaðila
  • Náin samvinna við atvinnurekendur og stéttarfélög með það að markmiðið að auka starfshæfni og varðveita vinnusamband einstaklinga á vinnumarkaði

Kröfur um hæfni

Helstu hæfniskröfur til ráðgjafa eru eftirfarandi:

  • Mjög góð samskiptahæfni og þjónustulund
  • Góð þekking á vinnumarkaði og nærsamfélagi
  • Háskólamenntun á sviði félags-, heilbrigðis- og menntavísinda eða sambærileg menntun
  • Þekking og/eða reynsla á sviði ráðgjafar æskileg
  • Sveigjanleiki og færni til að tileinka sér nýja þekkingu og vinnubrögð
  • Frumkvæði, sjálfstæði og skipulagshæfni
  • Tungumálakunnátta, enska og eitt Norðurlandamál
  • Geta til að koma frá sér efni í ræðu og riti

Starf ráðgjafans er samstarfsverkefni milli stéttarfélaganna og Starfsendurhæfingarsjóðs. Nánari upplýsingar um starf ráðgjafa og starfsemi Starfsendurhæfingarsjóðs er að finna á heimasíðu sjóðsins www.virk.is. Til að tryggja þekkingu og símenntun ráðgjafans mun hann fá sérstaka þjálfun sem skipulögð er af Virk, Starfsendurhæfingarsjóði.

Umsókn um starfið skal skilað fyrir kl 16:00, mánudaginn 11. apríl nk. á skrifstofu Verkalýðsfélags Akraness, Sunnubraut 11 í lokuðu umslagi merktu VIRK – Ráðgjafi í starfsendurhæfingu.

Nánari upplýsingar er hægt að fá á netfanginu This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. og This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.eða á skrifstofu VLFA og VIRK.

06
Apr

Ótrúleg hótun

Það er þyngra en tárum taki að verða vitni að þeim hótunum sem Samtök atvinnulífsins og einstaka forystumenn innan Alþýðusambands Íslands beita þessa dagana vegna þjóðaratkvæðagreiðslunnar um Icesave.

Eins og fram hefur komið í fréttum síðustu sólarhringa hafa þessir aðilar hótað íslenskum launþegum því að ef lögin um Icesave verði ekki staðfest í atkvæðagreiðslunni sem fer fram á laugardaginn þá verði ekki gengið frá kjarasamningum og þar af leiðandi muni kjarabætur til íslenskra launþega dragast enn frekar. 

Þessu til viðbótar hafa Samtök atvinnulífsins einnig hótað því að ekki verði gengið frá kjarasamningum ef ríkisstjórn Íslands gangi ekki frá ágreiningi við útvegsmenn vegna fiskveiðistjórnunarkerfisins. Þessar hótanir, báðar tvær, eru með svo miklum ólíkindum að þær ná ekki nokkurri átt enda er verið að setja fram hluti sem hafa ekkert með kjarasamninga íslenskra launþega að gera. Það er með öllu ábyrgðarlaust að forystumenn innan verkalýðshreyfingarinnar og innan Samtaka atvinnulífsins skuli ætla að misnota aðstöðu sína jafn alvarlega og fréttir síðustu daga sýna.

Formaður Verkalýðsfélags Akraness skorar á félagsmenn sína að kynna sér allar hliðar á Icesave málinu til hlítar og taka afstöðu útfrá sinni eigin skoðun. Einnig skorar formaður á félagsmenn að nýta lýðræðislegan rétt sinn í komandi þjóðaratkvæðagreiðslu.

05
Apr

Góður fundur með bæjaryfirvöldum

AkraneskaupstaðurAkraneskaupstaðurFormaður félagsins fundaði með Guðmundi Páli Jónssyni formanni bæjarráðs og Árna Múla Jónassyni bæjarstjóra í gær. Þetta var afar góður fundur þar sem farið var yfir hin ýmsu sameiginleg hagsmunamál sveitarfélagsins og Verkalýðsfélags Akraness eins og t.d atvinnulíf og kjaramál. Einnig voru nokkur hagsmunamál er lúta að félagsmönnum Verkalýðsfélags Akraness sem starfa hjá Akraneskaupstað til umræðu.

Eins og áður sagði þá var þetta góður fundur með þeim félögum enda leggur félagið mikla áherslu á að vera í góðu sambandi og samvinnu við bæjaryfirvöld í sameiginlegum hagsmunamálum. 

01
Apr

Leikritinu ætlar seint að ljúka

Leikritinu á milli Samtaka atvinnulífsins og Alþýðusambands Íslands virðist ekki ætla að ljúka á næstu dögum ef marka má fréttir síðasta sólarhring. ASÍ og SA hafa sagt að ekki sé hægt að ganga frá kjarasamningum til þriggja ára nema fyrir liggi aðkoma ríkisvaldsins að komandi kjarasamningum og í gær lagði ríkisstjórnin fram drög að aðgerðapakka til að koma til móts við óskir þessara aðila.

Formaður hefur kynnt sér þessi drög og er margt jákvætt í þeim þó vissulega þurfi meira að koma til.  Hins vegar liggur  það  fyrir að Samtök atvinnulífsins eru afar óhress með að ekki sé tekið á deilu þeirra vegna fiskveiðistjórnunarkerfisins. Það hefur komið fram hér á heimasíðunni áður að það er með hreinustu ólíkindum að þurfa að sitja undir þessu ofbeldi af hálfu SA að neitað sé að ganga frá kjarasamningum vegna áðurnefnds ágreinings um fiskveiðistjórnunarkerfið og um leið halda þessir menn kjarasamningum launafólks í herkví.

Það er í raun og veru ótrúlegt að verða vitni að því að ASÍ og SA skuli krefjast þess að ríkisvaldið opinberi aðgerðapakka sinn til lausnar á kjarasamningi til þriggja ára, en á sama tíma fá launþegar ekkert að vita hvað standi til að semja um er lýtur að launahækkunum í komandi kjarasamningum. Eitt liggur þó fyrir að ASÍ og SA stefna að því að lágmarkslaun verði orðin 200 þúsund í lok samningstímans sem er árið 2014. Þetta er í raun og veru alveg með hreinustu ólíkindum í ljósi þess að nýtt neysluviðmið velferðarráðherra gerir ráð fyrir að einstaklingur þurfi að lágmarki um 214 þúsund krónur í ráðstöfunartekjur eða sem nemur heildarlaunum í kringum 290 þúsund krónur á mánuði til að geta framfleytt sér. Það er ekki mikil reisn eða kraftur yfir slíkri kröfu að ætla sér að láta lágmarkslaun vera orðin 200 þúsund í lok samningstímans.

Það hefur algjörlega ræst sem formaður félagsins hefur margoft bent á, en forseti ASÍ hefur leynt og ljóst unnið að því að ná samningsumboðinu af stéttarfélögunu hér á landi og nú er það einungis 5-7 manna fámenn valdaklíka innan verkalýðshreyfingarinnar sem fer með allt samningsumboð fyrir íslenskt launafólk. Það er dapurlegt að verða vitni að því að draumar forsetans um að ná samningsumboðinu af stéttarfélögunum skuli hafa náð að rætast eins og raunin hefur orðið.

Í dag eru liðnir 4 mánuðir frá því kjarasamningar runnu út og hafa launþegar þar af leiðandi ekki fengið kjarabætur fyrir sama tíma en hafa samt sem áður þurft að taka við hverri hækkuninni á fætur annarri og nægir að nefna í þessu samhengi hækkun Orkuveitu Reykjavíkur á fráveitugjaldi upp á 45% og á heitu vatni upp á 8% og er þetta til viðbótar þeirri 30% hækkun sem varð ekki alls fyrir löngu frá OR. Og í gær hækkaði bensínverðið um 4 krónur og það heyrist hvorki hósti né stuna frá forystu ASÍ vegna þessara skefjalausu hækkana sem nú dynja á íslenskum launþegum. Þetta eru vinnubrögð sem formanni Verkalýðsfélags Akraness finnast vera til skammar.

Sjálftökuliðinu innan Samtaka atvinnulífsins sem skammtar sér sín laun nánast af eigin geðþótta og nægir að nefna í því samhengi Birnu Einarsdóttur, bankastjóra Íslandsbanka og Höskuld H. Ólafsson, bankastjóra Arion banka en þessir einstaklingar hafa fengið hækkun á sínum launum upp á milljónir króna á ársgrundvelli á sama tíma og launahækkanir til íslenskra launþega eru settar í algjört frost.  En þessir tveir einstaklingar sitja einnig í stjórnum og ráðum innan Samtaka atvinnulífsins og taka þannig þátt í að móta þá samræmdu láglaunastefnu sem unnið er eftir af hálfu SA.

 Eins og áður hefur komið fram hér á heimasíðunni þá er það mat formanns VLFA að nú sé komið að algjörri ögurstundu og skorar enn og aftur á ASÍ að skipuleggja allsherjaverkfall og væri hægt að byrja á einum degi í slíku verkfalli.  Alla vega þarf forysta ASÍ að fara að sýna Samtökum atvinnulífsins tennurnar í þessum kjaraviðræðum, svo mikið er víst.

29
Mar

Eina í stöðunni er allsherjarverkfall

Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsinsÞað er óhætt að segja að kjaraviðræður Samtaka atvinnulífins og Alþýðusambands Íslands séu að verða einn allsherjar skrípaleikur sem launþegar þurfa núna að sjá til þess að ljúki í eitt skipti fyrir öll. Í fréttum í morgun kom fram að Samtök atvinnulífsins hafi greint ríkisstjórninni frá því í gærkvöldi að þau myndu ekki hefja svokallaða lokaatlögu að gerð nýs kjarasamnings á morgun eins og til stóð. Það er öllum ljóst að SA mun ekki ganga frá kjarasamningum fyrr en ágreiningur þeirra við stjórnvöld um sjávarútvegsmál verður til lykta leiddur. Þetta ofbeldi bitnar fyrst og fremst á íslenskum launþegum sem nú hafa beðið eftir kjarabótum í fjóra mánuði og á þessari stundu bendir ekkert til að breyting verði þar á.

Það er óhætt að segja að íslenskt launafólk hafi verið dregið á asnaeyrunum um alllanga hríð, bæði af hálfu ASÍ og Samtaka atvinnulífsins því ítrekað hafa þessir aðilar komið í fjölmiðla og haldið því fram að stutt sé í gerð nýs kjarasamnings. Nægir að nefna í því samhengi frétt inn á vef ASÍ 11. febrúar síðastliðinn undir fyrirsögninni Kyrrstaðan rofin - kjaraviðræður á fullt skrið eftir helgi. Formaður spyr sig hvort þessi frétt hafi verið sett fram í þeim eina tilgangi að eyðileggja fyrirhugað verkfall síldarbræðslumanna sem átti að hefjast 15. febrúar síðastliðinn. Allavega hafði þessi frétt þau áhrif að síldarbræðslumenn töldu að stutt væri þar til niðurstaða myndi nást um gerð nýs kjarasamnings. En frá því þessi frétt var skrifuð er liðinn einn og hálfur mánuður og það hefur enginn kyrrstaða verið rofin eins og fram kom í fréttinni. 

Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, hefur margoft komið fram í fjölmiðlum og ýjað að því að nú sé stutt þar til gengið verði frá samningum. Nægir að nefna í því samhengi frétt sem birtist 25. febrúar þar sem hann segir að kjaraviðræðum muni ljúka um miðjan mars. Launafólk spyr sig: Hvaða marsmánuð var framkvæmdastjórinn að tala um?

Formaður Verkalýðsfélags Akraness lýsir yfir fullkomnu vantrausti á forystu ASÍ við gerð nýs kjarasamnings en eins og fram hefur komið hér í fréttum þá dró Verkalýðsfélag Akraness umboð sitt til baka því félagið sætti sig ekki við það ofbeldi sem var fólgið í svokallaðri samræmdri launastefnu þar sem ekkert tillit átti að taka til sterkrar stöðu útflutningsfyrirtækja. Hins vegar er staðan þannig að Samtök atvinnulífsins neita alfarið að ganga frá neinum kjarasamningi við félagið fyrr en þeir verða búnir að ganga frá samningum við ASÍ fyrst. Því er staða 3000 manna stéttarfélags afar erfið til aðgerða en þolinmæði félagsins gagnvart Samtökum atvinnulífsins og Alþýðusambandi Íslands er gjörsamlega að þrotum komin.

Verðbólgan er komin á skrið aftur ef marka má fréttir frá því í morgun en vísitala neysluverðs miðað við verðlag í mars hækkaði um 0,95% frá fyrra mánuði. Undanfarna þrjá mánuði hefur vísitala neysluverðs hækkað um 1,2% sem jafngildir 5,1% verðbólgu á ári. Núna berast einnig fréttir af því að Orkuveita Reykjavíkur hafi hug á því að hækka gjaldskrá sína um allt að 8% eða með öðrum orðum enn og aftur á að höggva í sama knérunn og ekki heyrist hósti né stuna frá forystu Alþýðusambands Íslands vegna þessara þátta.

Það er mat formanns Verkalýðsfélags Akraness að nú verði verkalýðshreyfingin í heild sinni að girða sig í brók og stöðva þetta ofbeldi sem SA sýnir íslenskum launþegum og leggur formaður til að Alþýðusamband Íslands skipuleggi allsherjarverkfall í einn dag til að byrja með til að mótmæla þessu ofbeldi Samtaka atvinnulífsins. Ef ekkert gerist af hálfu forystu Alþýðusambands Íslands þá er einsýnt að íslenskir launþegar þurfa að grípa sjálfir til róttækra aðgerða því þetta aðgerðaleysi forystu ASÍ og ofbeldi af hálfu SA er alls ekki hægt að líða lengur.

28
Mar

Rekstur Verkalýðsfélags Akraness gengur vel

Aðalstjórn, orlofs- og sjúkrasjóðsstjórn Verkalýðsfélags Akraness funduðu á fimmtudaginn var þar sem gengið var frá ársreikningum félagsins með endurskoðendum.

Afkoma Verkalýðsfélags Akraness á síðasta ári var mjög góð en rekstrarafgangur af allri samstæðunni nam 83 milljónum sem verður að teljast mjög gott miðað við það efnahagsástand sem nú ríkir á íslenskum vinnumarkaði. Félagstekjur jukust um tæp 17% á milli ára sem að skýrist af fjölgun félagsmanna og einnig þeim styrku stoðum í atvinnulífi á félagssvæði Verkalýðsfélags Akraness. Nægir að nefna í því samhengi stóriðjusvæðið á Grundartanga og þau fjölmörgu fiskvinnslufyrirtæki sem starfa hér á Akranesi.

Stjórn sjúkrasjóðs ákvað í ljósi góðrar stöðu félagsins að hækka heilsueflingarstyrk sem félagið býður upp á úr 15 þúsund krónum upp í 20 þúsund krónur og einnig verður tekinn upp nýr styrkur sem ber nafnið styrkur vegna heilsufarsskoðunar en hann mun nema 15 þúsund krónum. Báðir þessir styrkir munu taka gildi frá og með næstu mánaðarmótum.

Að venju er margt í boði í tengslum við orlofssjóð félagsins og nú er tekið á móti umsóknum vegna sumarleigu orlofshúsa. Umsóknarfrestur er til 11. apríl næstkomandi en auk húsa félagsins í Húsafelli, Svínadal, Hraunborgum, Ölfusborgum og á Akureyri hefur félagið fengið leigð fjögur hús til viðbótar. Þar af eru tvö hús í Biskupstungum, eitt hús í Úthlíð og eitt á Flateyri. Þess utan býðst félagsmönnum að kaupa Veiðikortið og Útilegukortið á afslætti sem og gistimiða á Hótel Eddu og Fosshótel.  

Það verður að segjast alveg eins og er að viðsnúningur Verkalýðsfélags Akraness á þessum 7 árum síðan ný stjórn tók við er gríðarlegur. Félagið hefur verið byggt upp bæði félagslega sem og fjárhagslega og hefur félagið til að mynda bætt við 8 nýjum styrkjum úr sjúkrasjóði auk fjölmargra möguleika úr orlofssjóði eins og áður hefur komið fram. Það er stefna stjórnar Verkalýðsfélags Akraness að láta félagsmenn sína ávallt njóta góðs fjárhagslegs ávinnings félagsins.

25
Mar

Lögmaður félagsins vann mál fyrir félagsmann varðandi atvinnuleysisbætur

Lögmaður Verkalýðsfélags Akraness, Jón Haukur Hauksson, vann mál fyrir félagsmann gegn Vinnumálastofnun en úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða kvað upp úrskurð þar sem Vinnumálastofnun er gert að leiðrétta greiðslur til félagsmanns á atvinnuleysisbótum um 18% af heildar atvinnuleysisbótum frá tímabilinu 21. júlí 2009 til 30. nóvember 2009 annars vegar og hins vegar fyrir tímabilið 1. janúar 2010 til 19. maí 2010.

Málsatvik voru þau að vinnuveitandi skilaði inn röngu vinnuveitendavottorði til Vinnumálastofnunar sem gerði það að verkum að viðkomandi félagsmaður fékk ekki 100% atvinnuleysisbætur heldur einungis 82%. Vinnumálastofnun neitaði að leiðrétta þessa villu sem félagsmaðurinn gat á engan hátt borið ábyrgð á en með aðstoð lögmanns félagsins tókst að hnekkja þessum úrskurði Vinnumálastofnunar eins og áður hefur komið fram. Hér má sjá úrskurð atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða.

Það er gríðarlega mikilvægt fyrir félagsmenn að kynna sér sína réttarstöðu í hvívetna og leita til félagsins ef að þeir hafa grun um að verið sé að brjóta á þeim eins og þetta dæmi klárlega sýnir.

23
Mar

Ólíðandi vinnubrögð

Það er alveg með ólíkindum að verða vitni að því að kjaraviðræður Alþýðusambands Íslands við Samtök atvinnulífsins hreyfast ekki nokkurn skapaðan hlut, en eins og margoft hefur komið fram hér á heimasíðunni þá vinna þessir aðilar að því að ganga frá kjarasamningum þar sem samræmd launastefna er höfð að leiðarljósi.

Nú eru liðnir 113 dagar, eða tæpir 4 mánuðir frá því kjarasamningar á hinum almenna vinnumarkaði runnu út og hafa því launþegar ekki fengið launahækkun á því tímabili. Samkvæmt fréttum er ekkert að gerast og hefur m.a. formaður Samtaka atvinnulífsins sagt viku eftir viku að nú séu 2-3 vikur þar til hægt verði að ganga frá kjarasamningum á hinum almenna vinnumarkaði.

Formann setur hljóðan við þessi vinnubrögð, en það er æði margt sem bendir til þess að Samtök atvinnulífsins haldi kjarasamningum á hinum almenna vinnumarkaði í algerri herkví vegna ágreinings samtakanna við ríkisstjórnina í sjávarútvegsmálum. Það er einnig æði margt sem bendir til þess að engin hreyfing muni komast á kjaraviðræður fyrr en frumvarp á fiskveiðistjórnunarkerfinu verði lagt fram. Ef frumvarpið verður með þeim hætti að það þóknist ekki Samtökum atvinnulífsins þá mega íslenskir launþegar búast við því að ekki verði hægt að ganga frá neinum kjarasamningum.

Þetta eru náttúrulega vinnubrögð sem eru þessum aðilum til ævarandi skammar því launþegar geta ekki horft upp á það að vanda ríkis, sveitarfélaga og verslunareigenda sé varpað viðstöðulaust yfir á neytendur á meðan ekki er hægt að ganga frá kjarasamningum við launafólk.

Það er einnig alveg ljóst að Alþýðusamband Íslands hefur brugðist algerlega í þessum kjaraviðræðum á grundvelli þeirrar staðreyndar að þeir hafa samþykkt að vinna samræmdri launastefnu. Þetta gerir það að verkum að stéttarfélög eins og Verkalýðsfélag Akraness nær ekki að ganga frá kjarasamningum við vel stæð fyrirtæki sem eru starfandi í útflutningi.

Það er mat formanns VLFA að nú verði hinn almenni launþegi að fara að rísa upp og mótmæla þessum vinnubrögðum harðlega og krefja verkalýðshreyfinguna um að láta Samtök atvinnulífsins ekki komast upp með að draga kjaraviðræðurnar m.a. út af ágreiningi við ríkisvaldið.

18
Mar

Búið að senda út umsóknareyðublöð vegna orlofshúsa sumarið 2011

Nú hefur félagið sent til allra félagsmanna sinna umsóknareyðublað vegna orlofshúsa sumarið 2011. Allir félagsmenn ættu að fá umsóknareyðublöðin í byrjun næstu viku. Meðfylgjandi er bæklingur sem inniheldur upplýsingar um þá bústaði sem í boði eru í sumar. Bústaðir félagsins í Húsafelli, Svínadal, Ölfusborgum og Hraunborgum eru að sjálfsögðu þar á meðal auk íbúðanna þriggja á Akureyri. Einnig hefur félagið leigt íbúð á Flateyri eins og síðasta sumar en það mæltist vel fyrir hjá félagsmönnum og var íbúðin vel nýtt. Að auki verða í boði þrír bústaðir í Biskupstungum, einn þeirra er í Úthlíð en hinir tveir eru staðsettir rétt ofan við fossinn Faxa í Tungufljóti. Í næstu viku mun einnig opnast fyrir orlofshúsaumsóknir á félagavefnum.

Skilafrestur umsókna er til 11. apríl og verður úthlutað á fimmtudeginum 14. apríl.

17
Mar

Hví í ósköpunum styrkist íslenska krónan ekki?

Afhverju styrkist krónan ekki?Afhverju styrkist krónan ekki?Hví í ósköpunum stendur á því að íslenska krónan styrkist ekki í ljósi þeirrar bláköldu staðreyndar að vöruskiptajöfnuður hefur verið gríðarlega jákvæður á síðustu tveimur árum? Árið 2009 var vöruskiptajöfnuður 87 milljarðar og bráðabirgðatölur fyrir árið 2010 sýna að vöruskiptajöfnuður er allt að 119  milljarðar. Og einnig hafa borist af því fréttir að vöruskiptajöfnuður fyrstu mánuði þessa árs sé umtalsverður.

Samt sem áður hefur íslenska krónan veikst um tæp 5% frá því hún var hvað sterkust í nóvember síðastliðnum. Hver skyldi ástæðan vera fyrir þessu? Það hlýtur að vera krafa íslenskra launþega og neytenda að fá skýringar á því hví íslenska krónan styrkist ekki í ljósi áðurnefndra staðreynda.

Nú liggur fyrir að það eru gjaldeyrishöft hér á landi og því er skilaskylda útflutningsfyrirtækja á gjaldeyri. Getur það verið að ástæðan fyrir því að íslenska krónan styrkist ekki sé að útflutningsfyrirtæki, til dæmis sjávarútvegsfyrirtæki, skipti ekki þeim erlenda gjaldeyri sem þeir fá fyrir sínar afurðir í íslenskar krónur heldur liggi með þá inn á IG reikningum í Seðlabankanum sem verður þess valdandi að íslenska krónan styrkist ekkert þess í stað heldur hún áfram að falla. Getur einnig verið að eigendur útflutningsfyrirtækja sjái sér leik á borði með því að skipta ekki erlendum gjaldeyri í íslenskar krónur til að halda gengi krónunnar veiku til að fá meira fyrir sínar afurðir og vilji bíða eftir afnámi gjaldeyrishafta til að hagnast enn meira eftir að íslenska krónan hefur fallið í kjölfar afnáms gjaldeyrishafta.

Ef þetta er raunin að útflutningsfyrirtæki eru ekki að skipta sínum erlenda gjaldmiðli yfir í íslenskar krónur, sem verður þess valdandi að íslenska krónan nær ekki að rétta úr kútnum, þá er það grafalvarlegt mál, sérstaklega í ljósi þess að Samtök atvinnulífsins eru að krefja íslenska launþega um að ganga frá hófstilltum kjarasamningum til að tryggja hér stöðugleika sem eigi að leiða til þess að íslenska krónan styrkist.

 

Almenningur vill svör.

Formaður Verkalýðsfélags Akraness krefst þess að Seðlabankinn, fjármálaráðuneytið og Samtök atvinnulífsins skýri það út fyrir almenningi á mannamáli á hvaða forsendu íslenska krónan styrkist ekki í ljósi þess gríðarlega vöruskiptajafnaðar sem hér hefur verið á undanförnum tveimur árum.

Formaður VLFA kaupir það alls ekki að Már Guðmundsson Seðlabankastjóri viti ekki ástæðuna fyrir því að íslenska krónan hefur fallið um 5% á síðastliðnum fimm mánuðum þrátt fyrir gríðarlega hagstæðan vöruskiptajöfnuð eins og fram kom í fréttum í gær..

Það er hins vegar morgunljóst að það hjálpar ekki íslensku krónunni þegar ráðamenn þjóðarinnar, eins og til dæmis efnahagsmálaráðherra, Seðlabankastjóri, forseti ASÍ og Samtök atvinnulífsins segja jafnt á innlendum sem erlendum vettvangi að íslenska krónan sé nánast ónýtur gjaldmiðil.   Hví tala ráðamenn með slíkum hætti þegar liggur fyrir að slíkur málflutningur getur haft skaðleg áhrif á gjaldmiðil okkar íslendinga?

Almenningur á rétt á að fá skýr svör við þessum spurningum enda liggja gríðarlegir hagsmunir fyrir íslenska neytendur að krónan styrkist.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image