• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
24
Jun

Tugþúsunda launamunur á milli starfsmanna Fjarðaráls og Norðuráls

Nú er komið að ykkur að fá launahækkanirNú er komið að ykkur að fá launahækkanirVerkalýðsfélag Akraness hefur boðað félagsmenn sína sem starfa hjá Norðuráli til kynningar- og samstöðufundar í Bíóhöllinni á Akranesi, miðvikudaginn 29. júní kl. 20:30 vegna þeirrar alvarlegu kjaradeilu sem nú er uppi við forsvarsmenn Norðuráls. Er þetta annar kynningarfundurinn sem er haldinn á stuttum tíma með félagsmönnum VLFA. Um 100 manns mættu á síðasta fund en nú er algjör skyldumæting og er því krafa formanns félagsins að Bíóhöllin verði kjaftfull á þessum fundi.

Á þessum fundi mun formaður fara yfir nýgerðan kjarasamning sem gerður var við starfsmenn Fjarðaráls en samkvæmt skoðun formanns á þessum samningi er orðið ljóst að þetta nýja fyrirtæki sem einungis hefur verið starfrækt í fjögur ár er komið fleiri tugum þúsunda fram úr launakjörum starfsmanna Norðuráls og mun formaður sýna nákvæmlega á fundinum hver hinn raunverulegi launamunur er í krónum talið en skrifstofa félagsins hefur lagt töluverða vinnu í að reikna út þennan launamun.

Það er ótrúlegt til þess að vita að álfyrirtæki sem hóf starfsemi fyrir einungis fjórum árum síðan skuli vera búið að umbuna sínum starfsmönnum með jafn afgerandi hætti og gert var í þessum samningi sem samþykktur var í Fjarðaráli í gær í ljósi þess að starfsemi Norðuráls er búin að vera við lýði frá árinu 1998 eða í ein 13 ár. Sem dæmi þá hefur barátta Verkalýðsfélags Akraness verið í síðustu samningum að ná inn stóriðjuskóla sem veitir starfsmönnum umtalsverða umbun að afloknu námi. Það hefur ekki tekist hingað til þó vissulega hafi verið samþykkt bókun um starfsnám í síðustu samningum sem ekki hefur verið uppfyllt eins og samningurinn kvað á um. En rétt er að geta þess að í samningnum við Fjarðarál var samþykkt að setja á laggirnar stóriðjuskóla sem mun veita starfsmönnum allt að 10% launahækkun að afloknu námi og einnig hefur verið starfræktur skóli í Alcan í Straumsvík í áraraðir sem hefur skilað starfsmönnum umtalsverðum ávinningi.

Verkalýðsfélag Akraness er eitt félaga hér á landi sem hefur hafnað samræmdri launastefnu og bent á að það séu engar forsendur fyrir því að álfyrirtækin séu sett undir sama hatt er lítur að launahækkunum og önnur fyrirtæki sem eiga í rekstrarerfiðleikum. Reyndar spyr formaður sig að því hvað hafi orðið um samræmdu launastefnuna þegar samið var við Fjarðarál. En rétt er að geta þess að Fjarðarál er að hluta til í Samtökum atvinnulífsins og reyndar eru þau félög sem eiga aðild að þessum samningi innan ASÍ og hafa þau stutt samræmda launastefnu í gegnum ASÍ. Því vekur þessi samningur Fjarðaráls undrun formanns í ljósi þessara staðreynda en að sjálfsögðu fagnar Verkalýðsfélag Akraness þessum samningi innilega, samningi sem gefur starfsmönnum launahækkun upp á allt að 80 þúsund krónum á mánuði, samningi sem er metinn á tugi prósenta. Þetta er ákkurat málið sem Verkalýðsfélag Akraness hefur verið að benda á, það eru þessi fyrirtæki sem geta svo sannarlega skilað ávinningnum til sinna starfsmanna eins og þarna var gert.

Viðræður við forsvarsmenn Norðuráls hafa engan árangur borið enda hafa þeir einungis boðið það sama og um var samð á hinum almenna vinnumarkaði sem er algjörlega út í hött í ljósi þeirra staðreynda að álfyrirtækin hafa hagnast gríðarlega vegna gengisfalls íslensku krónunnar og stórhækkaðs álverðs. Forsvarsmenn Fjarðaráls voru hins vegar tilbúnir til að skila þessum ávinningi til sinna starfsmanna og er það virðingarvert. Á þeirri forsendu trúir formaður Verkalýðsfélags Akraness því ekki að það sama muni ekki gilda fyrir það frábæra starfsfólk sem leggur sig fram af alúð og eljusemi fyrir Norðurál.

Einnig mun verða á fundinum á miðvikudaginn lögð fram tillaga að nýrri kröfugerð, kröfugerð sem byggist á sömu launahækkunum og um var samið hjá Fjarðaráli enda mun Verkalýðsfélag Akraness og reyndar starfsmenn Norðuráls allir, ekki sætta sig við þessa mismunun öllu lengur. Það er ekki hægt að láta það átölulaust að bæði Alcan í Straumsvík og Fjarðarál borgi umtalsvert hærri laun heldur en Norðurál. Við Íslendingar eigum að skoða það gaumgæfilega þegar að erlendir eignaraðilar að álfyrirtækjum óska eftir að hefja starfsemi sína hér á landi hvað þeir eru tilbúnir til að borga starfsmönnum í laun og þau stóriðjufyrirtæki sem eru tilbúin til að skila hér á landi sem mestum ávinningi í formi launagreiðslna til sinna starfsmanna eiga að hafa forgang að þeirri raforku sem við Íslendingar eigum öll saman.

Það er alveg ljóst að það er harður slagur framundan í þessari kjaradeilu en sem betur fer ríkir gríðarlegur einhugur á meðal starfsmanna um að launamunur á milli Norðuráls og annarra stóriðjufyrirtæki verði jafnaður og það í eitt skipti fyrir öll.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image