• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
Yfir 100 milljónir í verkfallssjóði verða nýttar ef til verkfalls kemur Klafamenn kjósa um kjarasamning árið 2005
23
Jun

Yfir 100 milljónir í verkfallssjóði verða nýttar ef til verkfalls kemur

Eins og fram kom hér á heimasíðunni í gær þá boðaði ríkissáttasemjari til fundar vegna kjaradeilu félagsins við Samtök atvinnulífsins vegna Klafa ehf og hófst fundurinn kl. 8 í morgun í húsakynnum ríkissáttasemjara. Eins og einnig hefur komið fram hér á heimasíðunni þá hafa starfsmenn kosið um að hefja vinnustöðvun 5. júlí næstkomandi og er skemmst frá því að segja að þessi fundur sem var haldinn í morgun gefi litlar vonir til þess að sátt náist fyrir þann tíma.

Það kom skýrt fram í máli forsvarsmanna Samtaka atvinnulífsins og Klafa að engin stefnubreyting hefur orðið af hálfu eigenda Klafa í þessari deilu en eigendur fyrirtækisins eru Elkem Ísland og Norðurál. Þeir bjóða að starfsmenn Klafa fái sömu launahækkanir og um var samið á hinum almenna vinnumarkaði. Sú sanngjarna krafa félagsins fyrir hönd starfsmanna er hins vegar að þeir fái sömu launahækkanir og eingreiðslu og um var samið handa starfsmönnum Elkem Ísland þann 19. apríl síðastliðinn.

Það er gríðarlega mikilvægt að menn átti sig á því að starfsmenn Klafa eru flestir fyrrverandi starfsmenn Elkem Ísland, borða í sama mötuneyti og starfsmenn Elkem Ísland og eru að vinna á sama starfssvæði. Það er því þyngra en tárum taki að verða vitni að því að starfsmenn við eitt matarborðið í mötuneyti Elkem Íslands er án samnings á meðan 99% starfsmanna í verksmiðjunni hafa fengið sína launahækkun og það allverulega. Verkalýðsfélag Akraness og starfsmenn Klafa geta ekki undir nokkrum kringumstæðum horft upp á þessa ósanngirni og óbilgirni af hálfu eigenda Klafa og á þeirri forsendu mun félagið og starfsmenn Klafa fylgja sínum kröfum eftir af fullum þunga og nýta verkfallsheimildina ef ekki næst samkomulag fyrir 5. júlí.

Það kom einnig fram á fundinum í morgun af hálfu forsvarsmanna Norðuráls, sem er annar eigandi Klafa, að þeir telji að starfsmenn Klafa eigi að taka laun samkvæmt kjarasamningum á hinum almenna vinnumarkaði. Hér er einmitt kjarni málsins á ferð, laun á Grundartangasvæðinu sem tengjast stóriðjunum hafa hingað til verið ívið betri heldur en kjarasamningar á hinum almenna vinnumarkaði hvað varðar hin ýmsu réttindamál og launakjör enda er hér um verksmiðjustörf að ræða sem oft á tíðum geta verið krefjandi og hættuleg. Á þeirri forsendu þarf að verja þessi kjör á stóriðjusvæðinu með kjafti og klóm til að forðast það að þessi störf verði gjaldfelld eins og nú virðist vera gerð tilraun til að gera.

Hins vegar er það orðin staðreynd að launakjör í stóriðjunum á Grundartanga eru alls ekki orðin eins góð og þau voru gagnvart almenna vinnumarkaðnum hér á árum áður þegar störf í stóriðjum voru afar eftirsóknarverð.  Nægir að nefna í því samhengi að grunnlaun byrjanda hjá Norðuráli eru einungis 175.000 kr. hjá Klafa er byrjandinn með 180.031 kr. og hjá Elekm Ísland eru byrjanda grunnlaun 194.611 kr.  Það er hlutverk Verkalýðsfélags Akraness að verja starfskjör á svæðinu með kjafti og klóm og sjá til þess að launakjör annara stóriðja séu ekki langtum hærri.  Því er rétt að geta þess að Fjarðarál gekk frá samningi við sína starfsmenn fyrir nokkrum dögum sem gerir það að verkum að tugþúsunda launamunur er nú á milli Norðuráls og Fjarðaráls. 

Verkalýðsfélag Akraness á yfir 100 milljónir í verkfallssjóði sem munu klárlega koma vel til nota ef verkfallið dregst á langinn enda mun félagið að sjálfsögðu styðja starfsmenn af fullum þunga þannig að þeir verði fyrir eins litlu tjóni og hugsast getur ef til verkfalls kemur. Ríkissáttasemjari hefur boðað til næsta fundar fimmtudaginn 30. júní kl. 9:30 og bera formaður félagsins og starfsmenn Klafa þá von í brjósti sér að forsvarsmenn fyrirtækisins sjái að sér og komi til móts við þá sanngjörnu launakröfu sem starfsmenn hafa sett fram.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image