• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
16
Jun

Kosið verður um verkfall hjá Klafa eftir helgi

Klafi sér um upp- og útskipun á GrundartangasvæðinuKlafi sér um upp- og útskipun á GrundartangasvæðinuRétt í þessu var að ljúka fundi hjá ríkissáttasemjara vegna kjaradeilu starfsmanna Klafa við Samtök atvinnulífsins. En Klafi er fyrirtæki sem sér um upp- og útskipanir og önnur þjónustuverk fyrir eigendur sína sem eru Norðurál og Elkem Ísland en hvort fyrirtæki á 50% í Klafa.

Kjarasamningur starfsmanna Klafa rann út um síðustu áramót og hafa verið haldnir 8 fundir hjá riksisáttasemjara og allir algjörlega án árangurs. Síðasti fundur fyrir utan þann sem haldinn var áðan var haldinn 20. maí og tilkynntu forsvarsmenn Klafa og Samtaka atvinnulífsins að engin stefnubreyting væri af hálfu fyrirtækisins varðandi þessa deilu en fyrirtækið hefur boðið sömu launahækkanir og um var samið á hinum almenna vinnumarkaði sem er 11,4% í þriggja ára samningi. Þessu hefur Verkalýðsfélag Akraness algjörlega hafnað enda er Klafi í eigu tveggja stórra útflutningsfyrirtækja og þessu til viðbótar hefur Elkem Ísland gengið frá kjarasamningi fyrir sína starfsmenn upp á umtalsverðar launahækkanir. Krafa félagsins fyrir hönd starfsmanna Klafa er að starfsmenn fái sömu launahækkanir og um var samið hjá Elkem Ísland enda eru starfsmenn Klafa fyrrverandi starfsmenn Elkem Ísland og það lá ljóst fyrir að þegar Klafi var stofnaður að það ætti ekki að hafa áhrif á þeirra launakjör, hvorki í nútíð né framtíð.

Nú liggur orðið fyrir að deilan er komin í algjöran hnút og á þeirri forsendu hefur samninganefnd Klafa ákveðið að boða starfsmenn til fundar á þriðjudaginn næstkomandi þar sem kosið verður um verkfallsheimild. Það liggur hins vegar fyrir að ekki verður hægt að beita verkfallsvopninu gagnvart Norðuráli þar sem gengið var frá samkomulagi árið 2000 um friðarskyldu gagnvart framleiðslu Norðuráls. Það er reyndar umhugsunarefni hví í ósköpunum Norðurál hefur ætíð fengið þessa sérmeðferð í gegnum tíðina en svona er staðan og það er í raun og veru grátlegt að þurfa að beina aðgerðum sínum að fyrirtæki sem er búið að hækka laun sinna starfsmanna, það er að segja Elkem Ísland, og félagið skynjar að Elkem sé tilbúið til að leysa þessa deilu með sambærilegum hætti og gert var fyrir starfsmenn Elkem Ísland.

Það vakti undrun formanns af hverju enginn fulltrúi frá Elkem Ísland sat fundinn hjá ríkissáttasemjara áðan en þeir sem sátu fundinn voru Hannes Sigurðsson fyrir hönd Samtaka atvinnulífsins og Ágúst Hafberg fyrir hönd Norðuráls en samkvæmt upplýsingum formanns þá er það Elkem Ísland sem fer með stjórnarformennsku í Klafa um þessar mundir og því hefði verið eðlilegt að það hefði verið fulltrúi frá þeim á þessum fundi og sérstaklega í ljósi þeirrar bláköldu staðreyndar að fyrirhugaðar aðgerðir munu fyrst og fremst beinast að Elkem Ísland. Þetta vakti eins og áður sagði mikla undrun hjá trúnaðarmanni Klafa og formanni félagsins. En nú er þolinmæði starfsmanna algörlega tæmd enda eru liðnir upp undir 6 mánuðir frá því að kjarasamningurinn rann út og einnig hafa þeir horft upp á starfsbræður sína hjá Elkem fá umtalsverða launahækkun á sama tíma og þeim er boðið sama launahækkun og fyrirtæki sem eiga í bullandi erfiðleikum. Slíkt munu starfsmenn og félagið aldrei sætta sig við.  

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image