• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
Verkfall hefst 5. júlí hjá starfsmönnum Klafa Mynd frá vinnusvæði Klafa
21
Jun

Verkfall hefst 5. júlí hjá starfsmönnum Klafa

Rétt í þessu var að ljúka kosningu um verkfall hjá starfsmönnum Klafa og er skemmst frá því að segja að það ríkti mikill einhugur hjá starfsmönnum enda var verkfallsboðunin samþykkt með 100% greiddra atkvæða, en kosningaþátttaka var 79%.

Verkfallið mun hefjast 5. júlí næstkomandi kl. 12 á hádegi og standa í ótilgreindan tíma. Það er alveg ljóst að verkfall þetta mun geta haft mjög alvarlegar afleiðingar í för með sér fyrir Elkem Ísland en því miður er ekki hægt að beita verkfallsvopninu gegn Norðuráli þar sem undanþága í kjarasamningi frá árinu 2000 kveður á um að ekki megi raska framleiðslu Norðuráls.

Rétt er að geta þess að Klafi er þjónustufyrirtæki sem sér um alla upp- og útskipun á Grundartangasvæðinu, bæði fyrir Norðurál og Elkem Ísland enda er Klafi í 100% eigu þessara tveggja fyrirtækja. Það er þyngra en tárum taki að þurfa að beina aðgerðum sínum gegn Elkem Ísland einvörðungu vegna þess að starfsmenn og félagið skynja vilja hjá forsvarsmönnum Elkem um að ganga frá kjarasamningi fyrir starfsmenn Klafa. Það er rétt að geta þess að starfsmenn Klafa eru fyrrverandi starfsmenn Elkem Ísland en árið 2000 var þetta þjónustufyrirtæki stofnað í eigu áðurnefndra aðila og þegar fyrirtækið Klafi var stofnað var starfsmönnum lofað því að það myndi hvorki hafa áhrif á launakjör þeirra í nútíð né framtíð.

Einnig er rétt að rifja upp að Elkem Ísland gekk frá mjög góðum samningi fyrir sína starfsmenn þann 19. apríl síðastliðinn, samningi sem gaf starfsmönnum allt að 26% launahækkun.

Því er krafa starfsmanna Klafa sú að þær launahækkanir og eingreiðslur sem um var samið hjá Elkem verði með sambærilegum hætti enda stenst annað ekki nokkra skoðun. En því miður virðist það vera með þeim hætti að Norðurál sé ekki tilbúið að ganga frá samningi á þessum nótum og á þeirri forsendu er málið komið í þann farveg sem hér hefur verið rakinn.

Til upplýsinga þá eru grunnlaun starfsmanna Klafa einungis 180.031 kr. og heildarlaun byrjanda losa rétt 260.000 kr. þannig að það er ljóst að hér er ekki um hálaunastörf að ræða. Því miður er verkfallsvopnið eina vopnið sem starfsmenn hafa eftir að hafa reynt samningaleiðina árangurlaust í 6 mánuði og því verður beitt af fullum þunga ef þörf krefur.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image