• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
Grunnlaun uppá 175.000 kr. eru aðhlátursefni og ekki sæmandi álfyrirtæki Frá fundinum í gær
10
Jun

Grunnlaun uppá 175.000 kr. eru aðhlátursefni og ekki sæmandi álfyrirtæki

Í gær stóð Verkalýðsfélag Akraness fyrir fundi í Bíóhöllinni með starfsmönnum Norðuráls vegna þeirrar grafalvarlegu stöðu sem upp er komin í kjaraviðræðum við forsvarsmenn Norðuráls, en nú eru að verða liðnir sex mánuðir frá því launaliður samnings starfsmanna rann út. Á fundinum kom skýrt fram hjá starfsmönnum að þeir eru sárir og reiðir yfir þessu framferði forsvarsmanna Norðuráls.

Á fundinum fór formaður félagsins yfir stöðuna og greindi starfsmönnum frá því að forsvarsmenn Norðuráls hafa algerlega hafnað því að semja við félagið með sambærilegum hætti og félagið samdi við Elkem Ísland en sá samningur var mjög góður.  Forsvarsmenn Norðuráls hafa boðið að semja á sömu nótum og á hinum almenna vinnumarkaði eða sem nemur 11,4% til þriggja ára.

Það kom skýrt fram hjá fundarmönnum í gær að þessu tilboði er algerlega hafnað enda engar forsendur fyrir því að fyrirtæki sem hefur hagnast gríðarlega vegna gengisfalls íslensku krónunar og hækkaðs álverð eða sem nemur tugum prósetna á liðnum misserum fái afslátt í þessum kjaraviðræðum. 

Það er í raun og veru þyngra en tárum taki að fyrirtæki eins og Norðurál sem hefur hagnast um 40 til 50 milljarða frá því það hóf starfssemi hér á landi árið 1998 skuli ekki vera tilbúið að láta starfsmenn njóta ávinnings af góðri afkomu.  Rétt er að geta þess að Norðurál á Grundartanga er skuldlaust fyrirtæki með eigið fé uppá 73 milljarða og launakostnaður er innan við 10% af heildarveltu og einnig rétt að geta þess að grunnlaun byrjanda hjá Norðuráli eru heilar 175.000 kr.  Slík grunnlaun eru aðhláturefni um allt land. 

Að taka tillit til þessara staðreynda um frábæra afkomu sem hefur skapast í gengum gott starfsfólk kemur ekki til greina. Svo skýla forsvarsmenn Norðuráls sér á bakvið samræmda launastefnu sem ASÍ og SA gerðu samkomu lag um, en þar er ekkert tillit tekið til sterkrar stöðu útflutningsfyrirtækja og sem dæmi þá liggur fyrir að það vellur hagnaður uppúr öllum kerjum álfyrirtækja þessi misserin.  Hin samræmda láglaunastefna ASÍ og SA gerir ráð fyrir því að allir fái lítið og ekki megi taka tillit til sterkrar stöðu útflutningsfyrirtækja.

Eins og áður sagði þá hafnaði fundurinn umræddu tilboði frá forsvarsmönnum Norðuráls og þær heyrðust raddir á fundinum að fyrst ekki væri borin meiri virðing fyrir þeim störfum sem þarna væru unnin þá væri ekkert annað í stöðunni en bíða með að semja til loka árs 2014 en þá kemur verkfallsréttur starfsmanna inn.  Rétt er að geta þess að Verkalýðsfélag Akraness náði inn bókun hjá ríkissáttasemjara í síðasta samningi um að kjarasamningur Norðuráls skuli ávalt miðast við þann tíma sem hann rann út, með öðrum orðum starfsmenn Norðuráls munu aldrei tapa þótt samningar dragist um all langa hríð vegna þess að afturvirkni hans er tryggð.

Eins og áður hefur komið fram skein í gegn á fundinum reiði og undrun í garð fyrirtækisins fyrir að það sýni ekki vilja til að skila þeim mikla ávinningi sem fyrirtækið hefur haft vegna hagstæðra ytri skilyrða til starfsmanna. Sérstaklega í ljósi þess að starfsmenn hafa orðið fyrir umtalsverðri kaupmáttarskerðingu, stökkbreyttingu á lánum og öðrum útgjöldum í kjölfar bankahrunsins. Þessa reiði má sjá í ályktun sem starfsmenn sömdu sjálfir og lögðu fram á fundinum. Var ályktunin samþykkt með dynjandi lófaklappi fundarmanna.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image