• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
20
Jun

Verkalýðsfélag Akraness skorar á HB Granda

Eins og fram hefur komið í fjölmiðlum að undanförnu þá hafa nokkur sjávarútvegsfyrirtæki, eins og til dæmis Samherji og Brim, ákveðið að tvöfalda þær eingreiðslur sem um var samið í kjarasamningunum á hinum almenna vinnumarkaði. Það er ekki bara að þessi tvö fyrirtæki hafi tekið þessa jákvæðu ákvörðun fyrir starfsfólk sitt heldur greiddu þau einnig út eingreiðslu í desember sem nam 260 þúsund krónum á hvern starfsmann. Samtals virðast því þessi fyrirtæki hafa greitt sínum starfsmönnum á fjórða hundrað þúsund krónur umfram það sem samið hefur verið um í kjarasamningum. Þessu fagnar formaður Verkalýðsfélags Akraness innilega.

Á þessari forsendu sendu trúnaðarmenn HB Granda hér á Akranesi, í Reykjavík og fyrir austan forstjóra fyrirtækisins, Eggerti Guðmundssyni, bréf þar sem þess var farið á leit að HB Grandi myndi greiða sambærilegar greiðslur og áðurnefnd sjávarútvegsfyrirtæki. Því miður hafnaði forstjóri fyrirtækisins þessari beiðni trúnaðarmannanna og kom fram hjá honum að fyrirtækið umbuni sínu starfsfólki með launum sem þeir geri ráð fyrir að séu samkeppnishæf. Einnig kom fram í svari forstjórans að fyrirtækið fari eftir þeim kjarasamningum sem eru í gildi á hverjum tíma.

Formanni Verkalýðsfélags Akraness er kunnugt um að margir starfsmenn séu sárir og svekktir yfir þessu svari enda er HB Grandi eitt sterkasta og öflugasta sjávarútvegsfyrirtækið hér á landi og starfsmönnum finnst það grátlegt að verið sé að greiða slíkar greiðslur umfram kjarasamninga hjá öðrum sjávarútvegsfyrirtækjum eins og til dæmis Samherja og Brim en því sé alfarið hafnað af hálfu HB Granda.

Á þeirri forsendu skorar Verkalýðsfélag Akraness á HB Granda að endurskoða ákvörðun sína og greiða sínu frábæra starfsfólki sambærilegar eingreiðslur og önnur öflug sjávarútvegsfyrirtæki hafa verið að gera.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image