• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
04
Nov

Rekstrarafkoma þriggja stærstu fyrirtækja á félagssvæði VLFA mjög góð

Verksmiðjur Elkem Ísland og Norðuráls á GrundartangaVerksmiðjur Elkem Ísland og Norðuráls á GrundartangaÞað er afar ánægjulegt að sjá að þrjú af stærstu fyrirtækjunum á félagssvæði Verkalýðsfélags Akraness skiluðu umtalsverðum hagnaði á árinu 2010 samkvæmt upplýsingum sem fram koma í bókinni 300 stærstu fyrirtæki á Íslandi.

Formaður VLFA hefur verið að rýna í þessar rekstrartölur og kemur meðal annars fram að heildarvelta HB Granda var rúmir 23 milljarðar, eigið fé fyrirtækisins er um 22 milljarðar og hagnaður á árinu 2010 voru rúmir 3 milljarðar króna. Fjölmargir félagsmenn Verkalýðsfélags Akraness starfa hjá fyrirtækinu, bæði í landvinnslu og til sjós.

Hjá Elkem Ísland, þar sem 213 manns starfa, var heildarveltan upp á 23,5 milljarða, eigið fé fyrirtækisins var 22,5 milljarðar og hagnaður ársins fyrir skatta voru 2 milljarðar króna. Á þessu sést að rekstur Elkem Ísland á Grundartanga var mjög góður.

Það fyrirtæki sem skilaði mestum hagnaði á árinu 2010 á félagssvæði Verkalýðsfélags Akraness var Norðurál en það fyrirtæki skilaði fyrir skatta hvorki meira né minna en 10 milljörðum í hagnað en heildarvelta Norðuráls nam 55 milljörðum. Til að sýna sterka stöðu Norðuráls er eigið fé hvorki meira né minna en 60 milljarðar króna.

Það skiptir gríðarlega miklu máli fyrir Verkalýðsfélag Akraness og í raun og veru allt samfélagið hér á Akranesi og í nærsveitum þessi sterka staða þessara kjölfestufyrirækja. Þetta var ein af röksemdarfærslum Verkalýðsfélags Akraness þegar félagið barðist með kjafti og klóm gegn svokallaðri samræmdri launastefnu, þessi sterka staða sem útflutningsfyrirtækin byggju yfir í kjölfar gengisfalls íslensku krónunnar og hækkandi afurðaverðs. Sem betur fer náði félagið að brjóta á bak aftur þessa samræmdu launastefnu sem byggðist á því að allir launþegar áttu að fá sömu launahækkanir, algjörlega óháð getu hverrar atvinnugreinar fyrir sig. Þessar afkomutölur styðja að málflutningur Verkalýðsfélags Akraness fyrir því að útflutningsfyrirtæki ættu að greiða meira heldur en aðrar atvinnugreinar var á rökum reistur. En sem dæmi þá hækkuðu laun starfsmanna Norðuráls um 14,1% á þessu ári og starfsmanna Elkem Ísland álíka sem er langt fyrir ofan það sem um var samið á hinum almenna vinnumarkaði.

Þessi góða staða vekur bjartsýni fyrir því að hægt verði að bæta kjör starfsmanna í stórðiðjum enn frekar í náinni framtíð því eins og segir í orðatiltækinu, betur má ef duga skal.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image