• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
23
Aug

Starfsmenn Norðuráls sárir og reiðir

Það er óhætt að segja að starfsmenn Norðuráls séu sárir og reiðir vegna þeirra tíðinda sem bárust af samningafundinum í gær, en eins og fram kom hér á heimasíðunni þá lögðu forsvarsmenn fyrirtækisins fram tilboð sem gerði ráð fyrir launahækkun í krónum talið frá 15.000 upp í rúmar 30.000 krónur. Þetta er fjarri því að jafna þann gríðarlega launamun sem ríkir nú á milli verksmiðjanna Fjarðaráls og Norðuráls.

Það ríkir ekki aðeins mikill launamunur á milli þessara tveggja fyrirtækja heldur er einnig umtalsverður launamunur á milli Norðuráls og Elkem Íslands og nemur sá launamunur að teknu tilliti til vinnustundafjölda allt að 11%. Einnig ríkir töluverður launamunur á milli Alcan í Straumsvík og Norðuráls og nemur sá launamunur nú hjá almennum starfsmanni sem ekki hefur lokið stóriðjunámi 3%. Að teknu tilliti til stóriðjunámsins er þessi launamunur 13%, en um 200 starfsmenn Alcan hafa lokið stóriðjunámi.

Eins og áður sagði, þá eru starfsmenn sárir og reiðir yfir því skilningsleysi sem forsvarsmenn fyrirtækisins sýna starfsmönnum því það er óþolandi með öllu að Norðurál skuli ávalt vera það fyrirtæki sem býður starfsmönnum sínum hvað lökustu kjörin. Það getur ekki verið neitt eðlilegra en að gera kröfu um jöfnun við álfyrirtæki sem einungis hefur starfað í 4 ár, eins og Fjarðaál, því hvorki formaður Verkalýðsfélags Akraness né starfsmenn skilja hví í ósköpunum starfsmenn Norðuráls eigi að njóta lakari kjara svo nemur tugum þúsunda á mánuði.

Verkalýðsfélag Akraness hefur barist fyrir því í síðustu kjarasamningum að útrýma þessum launamuni á milli Alcan og Norðuráls og hefur orðið nokkuð ágegnt í þeirri baráttu þótt þetta hafi ekki tekist að fullu eins og áður sagði. En það er grátbroslegt að heyra rök forsvarsmanna Norðuráls varðandi kröfu félagsins um jöfnun við Fjarðaál, en rökin byggjast á því að þar sem Fjarðaál sé á landsbyggðinni sé ekki grundvöllur fyrir því að miða við Fjarðaál. Þessi ummæli eru undarleg í ljósi þess að þegar að félagið barðist fyrir jöfnun launa við Alcan í Straumsvík t.d. árið 2005 þá voru rök forsvarsmanna Norðuráls þau að ekki væri hægt að miða við launakjör í höfuðborgarsvæðinu þar sem Norðurál væri á landsbyggðinni, eða nánar tilgetið á Vesturlandi.

Það er alveg ljóst að starfsmenn og VLFA ætla  og munu ekki sætta sig öllu lengur við þessa mismunun og verður hart barist til að knýja fram þessa sanngjörnu kröfu og hafa m.a. heyrst raddir frá starfsmönnum um að best sé að bíða þar til kjarasamningurinn rennur út í heild sinni í lok árs 2014 en þá mun verkfallsrétturinn koma inn. Að sjálfsögðu er það skylda samningsaðila að finna lausn á þessari erfiðu deilu, en það liggur fyrir að það þarf að verða alger hugarfarsbreyting hjá forsvarsmönnum fyrirtækisins til að svo verði. Skyldu forsvarsmenn álfyrirtækja hér á landi bera launakjör sín saman eins og við höfum nú verið að gera gagnvart almennum starfsmönnum? Svar formanns félagsins við þessari spurningu er já, vegna þess að samkvæmt tekjublaði frjálsrar verslunar eru launakjör forstjórna Norðuráls, Alcan og Fjarðaáls öll á svipuðu róli. En það vekur hins vegar athygli formanns að forstjóri Norðuráls trónir á toppnum þótt álverksmiðja Norðuráls sé stödd á Vesturlandi.

Eins og áður hefur komið fram hefur enginn fundur verið ákveðinn en formaður reiknar með því að funda með starfsmönnum fljótlega þar sem farið verður yfir þessa stöðu sem upp er komin enda er málið einfalt. Það verða starfsmennirnir sjálfir sem taka ákvörðun um þær leiðir sem farnar verða.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image