• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
22
Aug

Árangurslaus fundur í kjaradeilu Norðuráls

Rétt í þessu var að ljúka samningafundi vegna launaliðar í kjarasamningi Norðuráls í húsakynnum Ríkissáttasemjara. Það er skemmst frá því að segja að fundurinn var því miður árangurslaus, en eins og margoft hefur komið fram hér á heimasíðunni þá gera starfsmenn kröfu um jöfnuð á launakjörum á við starfsmenn Fjarðaáls.

Eins og einnig hefur komið fram hér á síðunni þá hefur skrifstofa Verkalýðsfélags Akraness unnið að launasamanburði milli Fjarðaáls og Norðuráls og eftir að gengið var frá kjarasamningi við starfsmenn Fjarðaáls þá er launamunur milli þessara fyrirtækja frá tæpum 16% upp í rúm 30% eftir því við hvaða launaflokka er miðað. Algengt er að launamunurinn sé í krónum talið frá 70.000 krónum og upp í allt að 100.000 krónur. Þetta er launamunur sem starfsmenn og Verkalýðsfélag Akraness geta ekki undir nokkrum kringumstæðum sætt sig við. Því byggist krafan, eins og áður sagði, á því að farið verði í greiningarvinnu á því hvernig þessum launamuni skuli eytt.

Það er skemmst frá því að segja að þessari kröfu samninganefndarinnar stéttarfélaganna var hafnað alfarið, en hins vegar lögðu forsvarsmenn Norðuráls fram tilboð sem er í anda þess sem um var samið á hinum almenna vinnumarkaði þ.e.a.s. 4,25% grunnkaupshækkun frá 1. september 2011, auk 3% hæfnisálags fyrir starfsmenn sem hafa starfað í 3 ár eða lengur og uppfylla kröfur um frammistöðu og hæfni í starfi, góða öryggishegðun, virðingu fyrir reglum fyrirtækisins og mætingu. Þeir sem uppfylla þessi skilyrði eiga skv. þessu tilboði rétt á að fá 3% hækkun á grunnlaun. Í þessu tilboði eiga síðan laun að hækka um 3,5% 1. jan 2012, 3,25% 1. jan 2013 og 3% 1. jan 2014. Rétt er að geta þess að í þessu tilboði er talað um að launahækkanirnar gildi frá 1. september 2011, þrátt fyrir að til sé bókun hjá Ríkissáttasemjara sem kveður á um að launahækkanir skuli gilda frá 1. janúar 2011. Norðurál býður hins vegar eingreiðslu að andvirði fastra mánaðarlauna í viðkomandi launaflokki til handa þeim sem eru í starfi í september 2011. Þetta eitt og sér myndi þýða það að sumarafleysingamenn og þeir sem látið hafa af störfum á árinu munu ekki fá leiðréttingu aftur í tímann eins og áðurnefnd bókun hjá Ríkissáttasemjara kveður á um.

Einnig kemur fram í þessu tilboði að Norðurál hefur í hyggju að koma á formlegu starfsnámi sem myndi gefa starfsmönnum að afloknu námi 5% grunnlaunahækkun og að loknu framhaldsnámi myndi koma 3% launahækkun. Rétt er að geta þess að bæði Alcan í Straumsvík og Fjarðaál starfrækja nú þegar slíka skóla og gefur stóriðjunámið hjá Alcan í Straumsvík 10% launahækkun og framhaldsnámið gefur 4% til viðbótar. Í Fjarðaáli var samið um að grunnnám stóriðjuskólans skuli gefa 5% og framhaldsskólinn 5% til viðbótar. Á þessu sést að þetta tilboð um stóriðjuskólann af hálfu Norðuráls er lakara en hinar tvær verksmiðjurnar bjóða nú þegar.

Tilboð Norðuráls í heild sinni má sjá hér.

En hvað þýðir þetta tilboð Norðuráls í krónum og aurum? Jú, byrjandi mun hækka um rétt rúmar 15.000 kr. á mánuði og eins árs taxtinn um rúmar 17.000 kr. Þeir starfsmenn sem hafa náð 3ja ára starfsaldri og uppfylla skilyrðin um hæfnisálagið munu hækka frá 30.000 kr. upp í 33.000 eftir því hversu langur starfsaldurinn er. Eins og sést þýðir þetta að það yrði áfram tugþúsunda launamunur á milli Fjarðaáls og Norðuráls og það er alveg morgunljóst að þetta er eitthvað sem er gjörsamlega útilokað og ætla starfsmenn og Verkalýðsfélag Akraness ekki að sætta sig við slíkt enda eru engar forsendur fyrir því.

Í raun og veru hefur nú slitnaði upp úr þessum samningaviðræðum og hefur ekki verið boðað til annars fundar, enda í raun og veru ástæðulaust að setjast niður á meðan himinn og haf ber á milli samningsaðila eins og staðan er núna.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image