• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
Hvernig er hægt að tapa 4,4 milljörðum á einu olíufélagi Tafarlausa rannsókn strax.
15
Aug

Hvernig er hægt að tapa 4,4 milljörðum á einu olíufélagi

Formaður spyr hvernig það megi vera að lífeyrissjóðir launafólks nái að tapa 4.400 milljónum og það á einu olíufélagi. Hvaða tryggingar og veð lágu eiginlega á bakvið þessar gríðarlegu skuldir N1 við lífeyrissjóðina? Er það tilfellið að tryggingar hafi verið litlar sem engar?

Það er ekki bara að lífeyrissjóðirnir hafi tapað 4,4 milljörðum á N1 heldur liggur í loftinu einnig tap lífeyrissjóðanna á skuldabréfum í Símanum og hef ég tryggar heimildir fyrir því að alla vega einn lífeyrissjóður er byrjaður að færa skuldir Símans niður hjá sér. Rétt er að rifja það upp að á árinu 2006 fór fram skuldbréfaútboð hjá Símanum uppá 15 milljarða og gera má ráð fyrir að lífeyrissjóðir launafólks hafi verið stórkaupendur í því útboði og því verður fróðlegt að fylgjast með því hvort næsti skellur hjá íslensku launafólki liggi í afskriftum á skuldabréfum í Símanum.

Ekki stendur á stjórnendum lífeyrissjóðanna að krefja sjóðsfélaga sem taka lán hjá sjóðunum um tryggingar í bak og fyrir og eru sjóðsfélagar girtir upp yfir haus með greiðslumati, tryggu veði, verðtryggingu og sjálfskuldarábyrgð. En á sama tíma var verið að kaupa skuldabréf af fyrirtækjum með engri tryggingu annarri en útblásnum efnahagsreikningum fyrirtækjanna, efnahagsreikningum sem voru stútfullir að lofti eins og sagan hefur sýnt okkur.

800 milljarða tap

Hvað hefur Guðmundur Ólafsson, hagfræðingur við Háskóla Íslands ekki sagt, jú hann telur að lífeyrissjóðirnir hafi tapað allt 800 hundruð milljörðum í kjölfarið á hruninu.

Á þeirri forsendu einni saman er með ólíkindum að ekki hafi farið fram rannsókn á starfssemi og fjárfestingastefnu lífeyrissjóðanna og þá óháð rannsókn, ekki rannsókn sem lífeyrissjóðirnir sjálfir stjórna og kosta. Hvað sagði ekki í Rannsóknarskýrslu Alþingis bindi 8 á bls. 77 „Margt er óljóst um stöðu lífeyrissjóðanna og starfshætti þeirra en málefni þeirra kalla á sérstaka rannsókn sem ekki er unnt að gera af rannsóknarnefnd Alþingis“

Formaður félagsins trúir því ekki að íslenskt launafólk sem á og greiðir í þessa lífeyrissjóði ætli að sætta sig við að ekki fari fram óháð rannsókn og ég hreinlega krefst þess að farið verði í ítarlega rannsókn á starfsemi lífeyrissjóðanna.

Hvað kom ekki fram í skýrslutöku Gunnars Páls Pálssonar fyrrverandi formanns VR, stjórnarmanns í lífeyrissjóði Verslunarmanna og í stjórn Kaupþings hjá rannsóknarnefnd Alþingis:

...að lífeyrissjóðirnir hafi í raun ekkert haft í hinar stóru fjármálastofnanir og þeir hefðu þurft að reisa sér miklu betri varnarmúr, að byggja um fagþekkingu, byggja upp skoðanaskipti innan hópsins, til þess að standast þetta svaka mótvægi sem fjármálalífið var.“ 

Einnig kemur fram í skýrslunni að:

„Gunnari Páli Pálssyni finnst eftir á að hyggja of mikil þjónkun hafa verið hjá lífeyrissjóðunum við viðskiptalífið, ekki síst vegna þátttöku atvinnurekenda í stjórnun sjóðanna. Fyrirtækjasamsteypurnar hafi gjarnan verið sterkar í samtökum atvinnurekenda og Gunnar Páll segist hafa haft á tilfinningunni að þær hnipptu í sína fulltrúa.“

Formaður VLFA hefur í gegnum tíðina ítrekað bent á hví í ósköpunum atvinnurekendur séu í stjórnum lífeyrissjóðanna. Nægir þessi staðfesting frá Gunnari Páli Pálssyni ekki til að þess að sjá að atvinnurekendur eru fyrst og fremst að hugsa um eigin hag og vilja hafa gott aðgengi að fjármagni úr sjóðum lífeyrissjóðanna eins og sagan hefur nú sýnt okkur. Hvað er Gunnar Páll að meina þegar hann segir við rannsóknarnefndina að Fyrirtækjasamsteypurnar hafi gjarnan verið sterkar í samtökum atvinnurekenda og Gunnar Páll segist hafa haft á tilfinningunni að þær hnipptu í sína fulltrúa.

Formaður félagsins telur að allflestir sjóðsfélagar í lífeyrissjóðum landsmanna séu sammála því að það verði að hefja tafarlaust rannsókn á starfsemi lífeyrissjóðanna og það óháð eins og rannsóknarnefnd Alþingis hefur bent á að þurfi að framkvæma.

Þetta er lífeyrir launafólks sem verið er að sýsla með og það eru sjóðsfélagar sem eiga þessa fjármuni og á þeirri forsendu krefst ég þess að Alþingi Íslendinga sjái til þess eins og þeir hafa lofað að fram fari óháð rannsókn á lífeyrissjóðunum og hagsmunir launafólks verði einu sinni hafðir að leiðaljósi.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image