• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
100% sögðu já við nýjum kjarasamningi Klafa Klafamenn kjósa
13
Jul

100% sögðu já við nýjum kjarasamningi Klafa

Í gær var nýr kjarasamningur kynntur fyrir starfsmönnum Klafa og kom fram í þeirri kynningu að allar kröfur starfsmanna hafi náðst fram í þessari erfiðu kjaradeilu, en eins og fram hefur komið hér á heimasíðunni þá átti áður boðað verkfall að hefjast sl. þriðjudag. Sem betur fer náðist að leysa þessa deilu án þess að til verkfalls þyrfti að koma. Fram kom í máli formanns að það hafi tekist vegna þeirra gríðarlegu samstöðu og einhugs sem ríkti hjá starfsmönnum í þessari deilu, enda var krafan í sjálfu sér mjög sanngjörn, að launakjör starfsmanna skyldu hækka til jafns við starfsbræður þeirra hjá Elkem Ísland.

Eins og einnig hefur komið fram hér á heimasíðunni þá eignaðist Elkem Ísland Klafa að fullu eftir að þeir keyptu Norðurál út úr fyrirtækinu og formaður spyr sig hvort það hafi verið tilviljun að eftir að Norðurál var farið með sinn eignarhluta úr Klafa þá hafi nánast verið gengið frá samningi örfáum klukkutímum síðar.

Í kynningunni kom fram að starfsmenn munu fá nákvæmlega sömu launahækkanir og um var samið hjá Elkem Ísland og samningurinn mun gilda frá 1. janúar 2011. Einnig hefur starfsmönnum og félaginu verið tilkynnt um að fyrirtækið muni greiða starfsmönnum eingreiðslu ígildi fastra mánaðarlauna. Þannig að starfsmaður sem starfað hefur hjá Klafa á 10 ára taxta mun fá með afturvirkni og umræddri eingreiðslu greiðslu sem nemur 488 þúsund krónur. Grunnlaun munu hækka um 5% og einnig orlofs- og desemberuppbætur en þær fara úr 249.000 í 261.700. Einnig mun hámarkið á bónusnum fara úr 10% í 13,5%.

Starfsmenn voru mjög ánægðir með að kröfur þeirra hafi náðst fram og tekist hafi að afstýra verkfalli og fór svo að samningurinn var samþykktur með öllum greiddum atkvæðum. Af þeim sem voru á kjörskrá greiddu 73,6% atkvæði og voru þeir allir samþykkir. Þetta sýnir svo ekki verður um villst að starfsmenn voru ánægðir með samninginn og vill formaður þakka starfsmönnum og síðan en ekki síst trúnaðarmanninum Hafsteini Þórissyni kærlega fyrir aðstoðina við gerð þessa samnings, en fundað var samtals 13 sinnum hjá Ríkissáttasemjar til að finna lausn á þessari erfiðu deilu sem nú loksins hefur fengið farsæla lausn.

Eftir kynninguna gátu starfsmenn kosið um samninginn og var samningurinn samþykktur með 100% greiddra atkvæða, en eins og áður sagði var kosningaþátttaka 73,6%.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image