• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
Eftirvænting á meðal starfsmanna Norðuráls Frá gríðarlega fjölmennum samstöðufundi sem haldinn var með starfsmönnum Norðuráls í Bíóhöllinni í lok júní
19
Aug

Eftirvænting á meðal starfsmanna Norðuráls

Næsti samningafundur vegna kjarasamnings Norðuráls verður haldinn mánudaginn 22. ágúst kl. 10 og verður fundurinn í húsakynnum ríkissáttasemjara. Síðasti fundur var haldinn þann 4. júlí og var sá fundur algjörlega árangurslaus en eins og fram hefur komið hér á heimasíðunni þá bjóða forsvarsmenn Norðuráls starfsmönnum sínum einungis það sama og um var samið á hinum almenna vinnumarkaði í anda hinnar margfrægu samræmdu launastefnu. Í því tilboði kveður á um launahækkanir upp á 4,25%, 3,5% og 3,25% á þremur árum eða sem nemur rétt um 11%.

Krafa Verkalýðsfélags Akraness er hvellskýr en hún byggist á þeim kjarasamningi sem um var samið hjá starfsmönnum Fjarðaáls ekki alls fyrir löngu. Þar var gengið frá mjög ríflegum samningi til handa starfsmönnum og hefur launasamanburður sem unninn hefur verið sýnt fram á að munur á milli launa í Fjarðaáli og Norðuráli getur í einstaka tilfellum numið yfir 30%. Algengur launamunur er frá 15% og upp í eins og áður sagði 30%. Það er morgunljóst að hvorki Verkalýðsfélag Akraness né starfsmenn Norðuráls munu undir nokkrum kringumstæðum samþykkja annað en að launakjör í þessum tveimur verksmiðjum verði með sambærilegum hætti enda kom það skýrt fram á gríðarlega fjölmennum fundi sem haldinn var í Bíóhöllinni. Þar mættu yfir 250 manns og var samþykkt með dynjandi lófaklappi að hvika hvergi frá þessari sanngjörnu kröfu - sömu laun og greidd eru í Fjarðaáli.

Forsvarsmenn Norðuráls hafa að undanförnu verið að funda með starfsmönnum sínum og hefur komið fram á þeim fundum að þeir telji að launamunur á milli Norðuráls og annarra sambærilegra verksmiðja sé mun minni heldur en Verkalýðsfélag Akraness heldur fram. Þessu vísar formaður félagsins algjörlega á bug og stendur fast við þann launasamanburð sem hann hefur unnið en hann hefur kynnt forsvarsmönnum fyrirtækisins þennan samanburð.

Það er alveg ljóst að mikil eftirvænting ríkir hjá starfsmönnum Norðuráls en einnig er kraumandi reiði yfir því að launakjör í Norðuráli hafa ætíð verið lakari en í öðrum verksmiðjum og sem dæmi þá eru bæði Alcan í Straumsvík og núna Fjarðaál komin með svokallaðan stóriðjuskóla sem veitir starfsmönnum að afloknu námi um og yfir 10% launahækkun. Það má segja að núna sé loftið orðið rafmagnað yfir þeirri spennu sem hefur myndast í þessum kjaraviðræðum og er spurning hvort forsvarsmenn Norðuráls geti ekki farið að nýta þá raforku. Það er ekki að ástæðulausu að andrúmsloftið sé rafmagnað á meðal starfsmanna í ljósi þeirra bláköldu staðreynda að starfsmenn hafa verið án launahækkana frá síðustu áramótum en þá rann launaliður samningsins út.

Það er í raun og veru óskiljanlegt að fyrirtæki eins og Norðurál sem er starfandi í útflutningi skuli ekki vera tilbúið til að koma með sambærilegar hækkanir og um var samið í Fjarðaáli í ljósi þeirra staðreynda að fyrirtækinu hefur gengið gríðarlega vel vegna gengisfalls íslensku krónunnar og hækkaðs heimsmarkaðsverðs á áli. Eins og áður sagði þá mun Verkalýðsfélag Akraness koma þeim skilaboðum skýrt til forsvarsmanna fyrirtækisins á fundinum á mánudaginn að einungis jöfnun kjara við Fjarðaál muni koma til greina í þessum kjarasamningum og frá þeirri kröfu verður ekki kvikað af hálfu félagsins né starfsmanna enda um sanngjarna kröfu að ræða.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image