• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
12
Aug

Eigendur Norðuráls, vaknið af Þyrnirósarsvefninum!

Starfsmenn Norðuráls sætta sig ekki við þennan gríðarlega launamunStarfsmenn Norðuráls sætta sig ekki við þennan gríðarlega launamunAlla síðustu viku hafa forsvarsmenn Norðuráls fundað með starfsmönnum fyrirtækisins þar sem hin ýmsu mál hafa verið til umræðu. Meðal annars hefur framtíðarstefna fyrirtækisins verið rædd, tryggingamál og síðast en ekki síst kjaramál. Fjölmargir starfsmenn Norðuráls hafa haft samband við formann félagsins eftir þessa fundi og lýst yfir gremju sinni vegna þess að verið sé að láta í veðri vaka að launamunur á milli Norðuráls og annarra stóriðjufyrirtækja sé oft á tíðum sáralítill.

Eins og margoft hefur komið fram hér á heimasíðunni þá hefur skrifstofa Verkalýðsfélags Akraness unnið samanburð á þeim stóriðjum sem eru starfræktar hér á landi en þær eru meðal annars Alcan, Elkem Ísland og Fjarðaál. Í þessum samanburði kemur hvellskýrt fram að launakjör í Norðuráli eru lökust af þessum verksmiðjum og í sumum tilfellum munar tugum prósenta. Launamunur á milli Alcan í Straumsvík og Norðuráls er í dag, án stóriðjuskóla, um 3% en báðar þessar verksmiðjur eiga eftir að ganga frá sínum kjarasamningum. Rétt er að geta þess að ef tekið er tillit til þess sem Alcan býður upp á, sem er svokallaður stóriðjuskóli, þá nemur launamunurinn um 13% en það eru um 200 starfsmenn Alcan af tæpum 300 sem hafa lokið þessu námi sem veitir starfsmönnum um 10,5% launahækkun. Launamunurinn milli Elkem Ísland og Norðuráls er einnig sláandi en þó er rétt að geta þess að Elkem Ísland hefur gengið frá sínum kjarasamningi. Í dag er launamunurinn á milli Elkem Ísland og þeirra starfsmanna sem starfa á vöktum í Norðuráli 12%. Hjá dagvinnumönnum er munurinn hins vegar töluvert meiri og nemur hann allt að 17%.

Eins og einnig hefur komið fram hér á heimasíðunni þá hefur Fjarðaál samið við starfsmenn sína nýverið og var sá samningur verulega góður fyrir hönd starfsmanna. Langflestir starfsmenn voru settir í launaflokk sem nefnist framleiðslumaður 3 en það eru um 84% verkamanna sem tilheyra þessum launaflokki. Að teknu tilliti til þessa launaflokks nemur launamunurinn á milli Fjarðaáls og Norðuráls frá tæpum 16% upp í tæp 22% eða frá 69.000 kr. upp í 83.500 kr. á mánuði. Hjá iðnaðarmönnum er launamunurinn ennþá meiri og fer í sumum tilfellum yfir 30%. Tæp 80% iðnaðarmanna var raðað inn í launaflokk sem nefnist iðnaðarmaður 4 sem gerir það að verkum að launabilið á milli iðnaðarmanna í Fjarðaáli og Norðuráli getur numið allt að 100 þúsund krónum á mánuði.

Á þessari forsendu ríkir gríðarleg gremja á meðal starfsmanna Norðuráls yfir að hlusta á forsvarsmenn fyrirtækisins gefa í skyn að sáralítill launamunur sé á milli Norðuráls og annarra stóriðjufyrirtækja. Það er morgunljóst að hvorki Verkalýðsfélag Akraness né starfsmenn munu sætta sig við þennan gríðarlega launamun öllu lengur og formaður vill koma skýrum skilaboðum til forsvarsmanna Norðuráls og eigenda að krafa félagsins og starfsmanna er sú að þessum launamun verði eytt alfarið í komandi kjarasamningum. Það getur ekki verið að forsvarsmönnum fyrirtækisins finnist það eðlilegt að starfsmenn Norðuráls séu þetta langt á eftir í launakjörum á við starfsbræður þeirra í öðrum stóriðjum.

Næsti fundur í kjaradeilunni verður haldinn þann 22. ágúst í húsakynnum ríkissáttasemjara og bera starfsmenn og formaður félagsins þá von í brjósti að forsvarsmenn fyrirtækisins fari að vakna af þeim Þyrnirósarsvefni sem þeir hafa sofið þegar kemur að þessum mikla launamun. Enda eins og áður sagði munu og ætla starfsmenn Norðuráls og Verkalýðsfélag Akraness ekki að sætta sig við þessa mismunun stundinni lengur. Félagið gekk á sínum tíma frá bókun hjá ríkissáttasemjara sem tryggir að kjarasamningur starfsmanna gildi ávallt frá þeim tíma sem kjarasamningurinn rann út en hann rann út um síðustu áramót sem þýðir að starfsmenn eiga nú þegar orðið 8 mánuði í afturvirkni. Og það er ljóst að starfsmenn eru tilbúnir til að bíða enn lengur ef ekki verður hugarfarsbreyting hjá eigendum fyrirtækisins en þeir hafa hingað til einungis boðið það sama og um var samið í anda hinnar margfrægu samræmdu launastefnu sem er 11,5% í 3 ára samningi eða nánar tiltekið 4,25% á þessu ári, 3,5% árið 2012 og 3,23% árið 2013. Bara þannig að það sé algjörlega á hreinu, þá er ekki verið að fara að ganga frá samningi á þessum nótum enda eru engar forsendur fyrir slíku þar sem um útflutningsfyrirtæki er að ræða sem hefur hagnast gríðarlega vegna gengisfalls íslensku krónunnar og stórhækkaðs álverðs á liðnum misserum.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image