• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
26
Jul

Launamunurinn í álfyrirtækjunum snýst við þegar kemur að forstjórunum

Almennir starfsmenn Norðuráls vilja sanngirniAlmennir starfsmenn Norðuráls vilja sanngirniEins og fram hefur komið hér á heimasíðunni þá á Verkalýðsfélag Akraness í kjaradeilu vegna launaliðar kjarasamnings starfsmanna Norðuráls en starfsmenn Norðuráls hafa verið án launahækkana frá 1. janúar 2011.  Það hefur einnig komið fram hér á heimasíðunni að gríðarlegur launamunur er nú orðinn á milli starfsmanna Fjarðaáls og Norðuráls eftir að gengið var fá kjarasamningi fyrir starfsmenn Fjarðaáls ekki alls fyrir löngu.  En launamunurinn nemur allt að 30% í sumum tilfellum og nemur hann í krónum talið frá tæpum 70.000 kr. uppí allt að 100.000 kr. fyrir sömu vinnu og sama vinnutíma á mánuði.  Þetta er launamunur sem Verkalýðsfélag Akraness og starfsmenn munu ekki og ætla ekki að sætta sig við, en forsvarsmenn Norðuráls hafa boðið sömu launahækkanir og um var samið á hinum almenna vinnumarkaði eða sem nemur 4,25% á þessu ári og 11,4% á samningstímanum.  Með öðrum orðum þá vilja forsvarsmenn Norðuráls ekki taka tillit til þeirra launahækkana sem um var samið við starfsmenn Fjarðaráls og þeirra góðu rekstrarskilyrða sem áliðnaðurinn býr við um þessar mundir en álverð stendur nú 2.600 dollurum sem er gríðarlega hátt verð.  Einnig er rétt að geta þess að launamunur er einnig á milli Alcan og Norðuráls og þá sér í lagi ef tekið er tillit til þeirrar launauppbótar sem stóriðjuskólinn gefur Alcanmönnum sem ekki stendur starfsmönnum Norðuráls til boða.

Að sjálfsögðu er það hlutverk Verkalýðsfélags Akraness að bera saman launakjör í öðrum álverksmiðjum og gera þá kröfu að félagsmenn VLFA njóti sömu launakjara og starfsbræður þeirra í öðrum álverksmiðjum, annað væri óeðlilegt enda eru engin haldbær rök fyrir að starfsmenn Norðuráls njóti lakari kjara en starfsmenn Alcan og Fjarðaáls.

Þessum rökum hafa forsvarsmenn Norðuráls hafnað alfarið til þessa og telja sig alls ekki þurfa að horfa til annarra álfyrirtækja hvað launakjör varðar m.a. vegna þess að Fjarðaál sé á landsbyggðinni og Alcan á höfuðborgarsvæðinu.   

Það er fróðlegt að sjá að launamunurinn á milli Norðuráls, Alcan og Fjarðaáls snýst við þegar launakjör forstjóranna eru skoðuð.  En ef marka má tekjublöðin þá kemur í ljós að Ragnar Guðmundsson fostjóri Norðuráls er með hæstu launin á meðal þessara þriggja forstjóra með 4,431 milljón á mánuði næst kemur Rannveig Rist forstjóri Alcan í Straumsvík með 4,337 milljónir á mánuði og síðan kemur Tómas Már Sigurðusson forstjóri Fjarðaáls með 4,132 milljón.  Það vekur undrun formanns Verkalýðsfélags Akraness að þurfa að berjast fyrir því sjálfsagða réttlæti að launakjör hins almenna launamanns í Norðuráli verði jöfnuð við launakjör í Fjarðaáli um sem nemur eins og áður sagði allt að 30%, á sama tíma og launakjör forstjóra Norðuráls eru 7,2% hærri en launakjör forstjóra Fjarðaáls ef marka má tekjublöðin.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image