• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
Mál Þórarins Björns Steinssonar vegna vinnuslyss í Norðuráli var tekið fyrir í Hæstarétti í dag Þórarinn Björn Steinsson
10
Jan

Mál Þórarins Björns Steinssonar vegna vinnuslyss í Norðuráli var tekið fyrir í Hæstarétti í dag

Í morgun var tekið fyrir í Hæstarétti mál Þórarins Björns Steinssonar en hann hefur í nokkur ár reynt að sækja bætur frá Norðuráli og Sjóvá eftir að hafa slasast við að koma samstarfskonu sinni til hjálpar. Á þeim tíma er slysið átti sér stað, haustið 2005, starfaði Þórarinn hjá Norðuráli og ásamt fleirum lyfti hann rúmlega 620 kílóa stálbita sem fallið hafði á samstarfskonu hans. Við það gaf sig eitthvað í baki Þórarins og hefur hann átt við þau meiðsli að stríða síðan og er nú 75% öryrki.

Tryggingafélag Norðuráls, Sjóvá, hefur síðan slysið átti sér stað neitað að greiða Þórarni bætur og færa fyrir því þau rök að ekki hafi verið um hefðbundið vinnuslys að ræða. Þórarinn höfðaði mál fyrir héraðsdómi þegar ljóst var að honum yrðu ekki greiddar bætur og tapaði hann því máli í fyrra. Nú hefur hann áfrýjað málinu til Hæstaréttar og eins og áður kom fram var málið tekið fyrir þar í morgun.

Það skiptir gríðarlegu máli hvernig dómur fellur í þessu máli því ef Hæstiréttur staðfestir dóm héraðsdóms er í raun verið að senda þau skelfilegu skilaboð út í samfélagið að það borgi sig ekki að koma samstarfsfólki sínu til hjálpar því hugsanlega geti viðkomandi setið uppi með allt það tjón sem björgunin kann að valda. Á þeim tíma sem Þórarinn lenti í þessu atviki var hann félagsmaður hjá Verkalýðsfélagi Akraness.

Eins og áður hefur komið fram hér á heimasíðunni mun Verkalýðsfélag Akraness standa straum af öllum málskostnaði ef málið tapast fyrir Hæstarétti enda er það stefna stjórnar Verkalýðsfélags Akraness að standa ávallt með sínum félagsmönnum svo ekki sé nú talað um þegar um jafnmikla hagsmuni er að ræða eins og í þessu máli. Væntanlega má reikna með að dómur falli í þessu máli innan nokkurra vikna.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image