• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
20
Jan

Lýðræðisofbeldi og einræði innan ASÍ

Það er óhætt að segja að lýðræðisofbeldið og einræðið innan Alþýðusambands Íslands hafi náð nýjum hæðum í gær. En eins og fram hefur komið í fréttum þá var í gær haldinn formannafundur ASÍ þar sem farið var yfir forsenduákvæði kjarasamninga og síendurteknar vanefndir ríkisstjórnar Íslands á liðnum árum.

Á fundinum gerði forseti ASÍ grein fyrir vanefndum ríkisstjórnarinnar á samkomulagi við verkalýðshreyfinguna sem gert var samhliða kjarasamningum á hinum almenna vinnumarkaði 5. maí 2011. En fram kom í máli forsetans að ríkisstjórnin ætlaði ekki að taka fjárlögin upp og koma með þær launahækkanir til handa atvinnulausum, ellilífeyrisþegum og öryrkjum sem um hafði verið samið. Einnig kom fram að ekki yrði breyting á skattlagningu á lífeyrissjóðunum.

Formaður Verkalýðsfélags Akraness tók til máls og sagði að þetta væri grafalvarlegt mál í ljósi þess að atvinnurekendur hefðu staðið við sinn þátt í kjarasamningum, en hins vegar lægi það fyrir að ríkisstjórn Íslands hafi enn og aftur svikið sinn þátt í þríhliða samkomulagi við gerð kjarasamninga. Á þeirri forsendu lagði formaður fram tillögu þar sem þess var krafist að ríkisstjórn Íslands stæði við þau loforð sem fram komu í yfirlýsingu sem ríkisstjórnin gerði við verkalýðshreyfinguna samhliða kjarasamningum 5. maí 2011. Að öðrum kosti myndi formannafundurinn lýsa yfir vantrausti á ríkisstjórn Íslands vegna þessara síendurteknu svika.

Það er óhætt að segja að þessi ályktun hafi gert það að verkum að flokkspólitísk gríma nokkurra af æðstu forystumanna verkalýðshreyfingarinnar hafi fallið. Forseti Alþýðusambandsins tók til máls og neitaði að taka tillöguna til afgreiðslu, á þeirri forsendu að formannafundur ASÍ væri ekki ályktunarhæfur. Formaður VLFA benti forseta ASÍ á að formannafundur Starfsgreinasambands Íslands, sem er stærsta landsamband ASÍ, hafði ályktað deginum áður um vanefndir ríkisstjórnarinnar og að sjálfsögðu var formannafundur SGS ályktunarhæfur, enda datt engum í hug að draga slíkt í efa.

Um það er getið í lögum ASÍ að hægt sé að leggja fram ályktanir á formannafundum, en það þurfi að gerast með þriggja vikna fyrirvara. Í þessu tilfelli lá fyrir að fundurinn var einungis boðaður með 13 daga fyrirvara og því ekki mögulegt að verða við því. Formaður óskaði eftir því að fundurinn myndi greiða um það atkvæði hvort tillagan yrði tekin til afgreiðslu, því í öllum lýðræðislegum félögum geta fundir tekið ákvarðanir um slíkt. Þessi harðneitaði forseti Alþýðusambands Íslands, en lagði hins vegar fram tillögu um að ályktuninni yrði vísað til umfjöllunar hjá samninganefnd ASÍ. Formaður hefur aldrei orðið vitni að öðru eins lýðræðislegu ofbeldi, þótt hann hafi nú marga fjöruna sopið hvað það varðar þegar kemur að forystu ASÍ og nægir að nefna í því samhengi þegar reynt var að slökkva á míkrófóni þegar formaður hélt ræðu á ársfundi Alþýðusambands Íslands 2009..  Það liggur alveg fyrir í huga formanns að sú ályktun sem lá fyrir fundinum þjónaði hvorki flokkspólitískum hagsmunum forsetans né annarra forystumanna innan verkalýðshreyfingarinnar og því var þessu lýðræðislega ofbeldi beitt.

Sem betur fer fékk þessi ályktun stuðning nokkurra aðila, þar á meðal formanns stærsta stéttarfélags á Íslandi í dag sem er VR, auk nokkurra aðila til viðbótar. Þessir aðilar voru því sammála að formannafundur ASÍ væri að sjálfsögðu ályktunarhæfur og þessi ályktun ætti að koma til afgreiðslu. En eins og áður sagði neitaði forseti ASÍ því algerlega, þó svo að miðstjórn ASÍ hafi í janúar 2009 lagt fram vantrauststillögu á þáverandi ríkisstjórn og einnig sent frá sér fréttatilkynningu eftir formannafund einnig í janúar 2009 um að verkalýðshreyfingin lýsti yfir vantrausti á þáverandi ríkisstjórn.

Formaður félagsins sagði á fundinum í gær að forystumenn í verkalýðshreyfingunni eigi ekki undir nokkrum kringumstæðum að vera eyrnamerktir einhverjum einum ákveðnum stjórnmálaflokki, heldur styðja öll góð málefni óháð því frá hvaða flokki slík mál koma. Og að sjálfsögðu á að gagnrýna ríkisstjórnir óháð því hvaða stjórnmálaflokkar sitja í ríkisstjórn hverjum tíma fyrir sig. Það er greinilegt að það skiptir máli hvaða ríkisstjórn er við stjórnartaumana þegar kemur að því að senda frá sér afdráttarlausar ályktanir af hálfu ASÍ. Það skiptir máli hvort ríkisstjórnin er til hægri, vinstri eða miðju. Þessi afgreiðsla forsetans í gær staðfestir það svo ekki verður um villst.

Það liggur fyrir að forseti Alþýðusambandsins hefur unnið leynt og ljóst að því að ná samningsumboði frá stéttarfélögunum við gerð kjarasamninga, sem honum hefur að hluta til tekist eins og sást í síðustu samningum. En það liggur algerlega fyrir að samningsumboðið á að vera hjá stéttarfélögunum sjálfum. Þessu til viðbótar er búið að læða inn forsenduákvæði kjarasamninga, þar sem fámenn elíta innan forystu ASÍ tekur afstöðu til þess hvort forsenduákvæði kjarasamninga eigi að halda eða ekki. Það er ekki í höndum stéttarfélaganna eins og margir halda. Lýðræðislegt ofbeldi af þeim toga sem forseti ASÍ sýndi í gær og þeir einræðistilburðir sem hann hefur ástundað frá því hann tók við sem forseti ASÍ þekkjast ekki nema þá helst hjá forseta Norður-Kóreu og hans líkum.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image