• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
Sigur fyrir allt íslenskt launafólk Þórarinn Björn Steinsson
20
Jan

Sigur fyrir allt íslenskt launafólk

Það er óhætt að segja að íslenskt launafólk hafi fengið frábæran dóm frá Hæstarétti í gær er hæstiréttur sneri dómi héraðsdóms Reykjavíkur algjörlega við. Það mál sem um ræðir er vinnuslys sem varð í Norðuráli þegar Þórarinn Björn Steinsson kom samstarfskonu sinni til hjálpar eftir að bakskautaklemma sem var 620 kg að þyngd, féll ofan á hana. Þórarni ásamt öðrum vinnufélaga sínum tókst með ótrúlegum hætti að lyfta þessu þunga járnstykki ofan af samstarfskonunni en því miður með þeim skelfilegu afleiðingum fyrir Þórarin að hann hefur verið 75% öryrki eftir þessa hetjudáð.

Eins og áður sagði sneri hæstiréttur dómnum algjörlega við en bæði Sjóvá almennar og Norðurál höfðu verið algjörlega sýknuð af allri skaðabótaskyldu gagnvart þessu vinnuslysi í héraðsdómi og er því hér um gríðarlega hagsmuni að ræða, ekki bara fyrir Þórarin heldur alla íslenska launþega eins og áður sagði.

Nú hefur verið tekinn af allur vafi um að íslenskt launafólk þarf ekki að hika við að koma samstarfsfólki sínu til hjálpar og sitja sjálft uppi með tjón sem það hugsanlega getur orðið fyrir við slíka björgun.

Dómurinn er alveg hvellskýr en hann kveður á um að Norðurál sé skaðabótaskylt gagnvart Þórarni þegar hann kom samstarfskonu sinni til hjálpar. Í dómnum segir meðal annars:

Áfrýjandi varð fyrir tjóni sínu er hann kom samstarfsmanni sínum Málfríði Söndru í skyndingu til hjálpar þar sem hún hafði skorðast undir þungu málmstykki. Telja verður að viðbrögð áfrýjanda, og hins starfsmannsins sem lyfti undir klemmuna með honum, hafi verið eðlileg við þær aðstæður sem upp voru komnar. Má fyrirfram gera ráð fyrir að starfsmenn komi samstarfsmönnum, sem verða fyrir slysum, til hjálpar eftir föngum, ekki síst til að aflétta hættu sem að samstarfsmanni steðjar, eins og að losa hann undan fargi svo sem hér var raunin. Viðbrögð áfrýjanda og starfsfélaga hans voru líka til þess fallin að draga úr tjóni samstarfsmannsins sem undir farginu lá og voru þau að því leyti í þágu hagsmuna stefnda Norðuráls Grundartanga ehf. sem vinnuveitanda samstarfsmannsins. Af þessu leiðir að tjónið sem áfrýjandi varð fyrir, er hann lyfti hinu þunga fargi, telst til bótaskyldra afleiðinga af þeirri háttsemi sem fyrr var lýst og talin er valda bótaskyldu stefnda Norðuráls Grundartanga ehf.

Þessu til viðbótar var Norðurál dæmt til að greiða Þórarni málskostnað að upphæð 1.200.000 kr.

Formaður Verkalýðsfélags Akraness er gríðarlega ánægður með þennan dóm en félagið hefur staðið þétt við bakið á Þórarni í þessu máli og sá meðal annars til þess að greiða allan kostnað varðandi áfrýjun til hæstaréttar og var búið að gefa Þórarni fullkomið loforð um það að ef málið myndi tapast þá myndi félagið greiða allan þann málskostnað sem hlytist af þessu máli. Enda er það stefna stjórnar félagsins að standa ávallt þétt við bakið á sínum félagsmönnum þegar brotið er á þeim og hagsmunir þeirra eru í húfi.

Formaður félagsins óskar Þórarni innilega til hamingju með þennan dóm en það er ljóst að með þessum dómi mun hann fá skaða sinn bættan og formanni þótti vænt um að heyra þau hlýju orð sem Þórarinn lét falla víða í fjölmiðlum í gær í garð félagsins er lítur að aðstoð og aðkomu VLFA að þessu máli.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image