• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
23
Jan

Félagsmenn duglegir að nýta sér þjónustu félagsins

Það er óhætt að segja að félagsmenn nýti þjónustu félagsins vel, en á árinu sem nú er nýliðið voru greiddar út úr sjúkrasjóði félagsins upp undir 35 milljónir króna í formi sjúkradagpeninga og hinna ýmsu styrkja sem félagið býður upp á. Einnig voru félagsmenn duglegir að nýta sér fræðslustyrki úr þeim sjóðum sem félagið á aðild að, en greiðslurnar námu á síðasta ári 7,7 milljónum króna. 208 félagsmenn nýttu sér þessa fræðslustyrki sem gerir að meðaltali um 37.000 kr. á mann.

Félagavefurinn sem opnaður var árið 2010 hefur farið gríðarlega vel af stað, en á síðasta ári voru 1952 innskráningar. Þetta segir okkur að félagsmenn hafa nýtt sér félagavefinn mjög vel og sést umtalsverð aukning frá mánuði til mánaðar. Á félagavefnum er hægt að skoða iðgjaldasögu, punktastöðu, greiðslusögu vegna bóta og styrkja og úthlutunarsögu vegna orlofshúsa. Jafnframt býður félagavefurinn upp á upplýsingar um stöðu orlofshúsa og einnig er hægt að sækja um, bóka og greiða fyrir orlofshús með greiðslukorti.

Nýting á orlofshúsum félagsins hefur einnig verið gríðarlega mikil, en eins og fram hefur komið hér á heimasíðunni þá fjárfesti félagið í nýjum glæsilegum bústað í Kjós í Hvalfirði og það er skemmst að segja frá því að hann er uppbókaður allt fram að sumarúthlutun. Þetta sýnir að félagsmenn eru afar ánægðir með þennan nýja valkost sem félagið býður upp á.

Þrátt fyrir samdrátt á íslenskum vinnumarkaði og minnkandi tekjur þá jukust félagstekjur Verkalýðsfélags Akraness um tæp 7% á milli ára sem sýnir okkur svo ekki verður um villst að félagssvæði Verkalýðsfélags Akraness er sterkt m.a. vegna öflugra útflutningsfyrirtækja sem starfa á svæðinu. Upp undir 70% af félagsmönnum VLFA starfa hjá útflutningsfyrirtækjum. Þessi aukning á félagstekjum skýrist einnig af því að félaginu tókst að ná umtalsvert betri kjarasamningum á liðnu ári, en um var samið á hinum almenna vinnumarkaði í anda svokallaðrar samræmdrar launastefnu.

Sökum sterkar stöðu félagsins þá hefur félagið ákveðið að hækka t.d. fæðingarstyrki um 100% og nemur styrkurinn nú 70.000 kr. til félagsmanns. Ef báðir foreldrarnir eru félagsins þá nemur styrkurinn 140.000 kr. Það er stefna stjórnar að láta félagsmenn ávalt njóta góðs af góðum rekstri og rekstrarafkomu félagsins, enda stefnir stjórnin að því að reyna að þjónusta sína félagsmenn eins vel og kostur er á öllum sviðum.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image