• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
17
Jan

Birgir S. Elínbergsson borinn til grafar í dag

Birgir S. ElínbergssonÍ dag verður borinn til grafar Birgir S. Elínbergsson, fyrrverandi formaður orlofsdeildar Verkalýðsfélags Akraness. Birgir var gríðarlega mikill áhugamaður um verkalýðsmál og félagslega baráttu og er skemmst frá því að segja að Birgir tók þátt í mikilli baráttu sem átti sér stað í Verkalýðsfélagi Akraness frá árinu 2001 til ársloka 2004. Sú barátta endaði með því að Alþýðusamband Íslands skipaði starfsstjórn yfir félaginu og efnt var til allsherjarkosninga innan félagsins.

Birgir var einn af þeim sem voru á lista undir forystu núverandi formanns VLFA en sá listi vann kosningarnar árið 2003 og tók við rekstri félagsins en reksturinn var afar slæmur á þessum árum jafnt fjárhagslega sem félagslega. Það var mikið kappsmál hjá Birgi að koma félaginu í samt lag enda var hann með gríðarlega sterka réttlætiskennd og uppgjöf var ekki til í hans orðabók. Hann var ætíð tilbúinn að berjast með kjafti og klóm til að réttlætið myndi ná fram að ganga og fyrir bættum hag íslenskra launþega.

Birgir gerðist síðan verkstjóri og samkvæmt lögum félagsins gat hann ekki setið lengur í stjórn félagsins. En hann var ekki lengi að koma sér aftur í verkalýðsbaráttuna enda var hann orðinn gjaldkeri Verkstjórafélagsins örfáum mánuðum eftir að hann gerðist verkstjóri. Allir sem þekktu Birgi vissu að hér var mikill öðlingur á ferð og var hann ætíð tilbúinn til að rétta fólki hjálparhönd ef það átti í einhverjum vanda.

Stjórn félagsins kveður þennan góða og dygga vin með miklum söknuði og vottar aðstandendum og vinum sína dýpstu samúð.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image