• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
08
Feb

Vantar um 200 milljarða til að lífeyrissjóðir innan ASÍ geti staðið við sínar skuldbindingar samkvæmt rannsóknarskýrslunni

Það er óhætt að segja að félagsmönnum innan Verkalýðsfélags Akraness hafi verið verulega brugðið þegar rannsóknarskýrsla um lífeyrissjóðina  kom út í síðustu viku (Festa er í 10. kafla, bls. 81). En flestir félagsmenn Verkalýðsfélags Akraness greiða í lífeyrissjóð Festu en þar nam heildartap sjóðsins tæpum 20 milljörðum og getur hins vegar aukist um tæpa 2,2 milljarða til viðbótar ef gjaldmiðlavarnarsamningar verða gerðir upp á þeim forsendum sem bankarnir vilja að gert verði. En þá fer tapið upp í tæpa 22 milljarða króna.

Samkvæmt rannsóknarskýrslunni þá voru eignir lífeyrissjóðs Festu rúmir 55 milljarðar í lok árs 2007 þannig að 20 milljarða tap samsvarar því að um 36% af eignum sjóðsins hafi tapast í kjölfar hrunsins. Þetta er að mati margra sjóðsfélaga algjörlega óásættanlegt og ríkir reiði á meðal margra sjóðsfélaga hvernig sjóðirnir hafa verið leiknir á undanförnum árum. 

Það er ótrúlegt til þess að vita að ávöxtun lífeyrissjóðanna almennt hefur verið skelfileg og sem dæmi þá liggur fyrir samkvæmt töflu sem er hér að neðan að meðalávöxtun lífeyrissjóðs Festu síðustu 5 ár er neikvæð sem nemur 1,1% en sé skoðað meðaltal síðustu 10 ára þá er ávöxtunin einungis 0,1%. Þetta er árangur sem er ekki undir nokkrum kringumstæðum hægt að sætta sig við. En það er rétt að geta þess að sambærileg staða er nánast í öllum lífeyrissjóðum á landinu. Á þeirri forsendu hefur formaður félagsins sagt á opinberum vettvangi að það sé full ástæða fyrir þá sem bera ábyrgð á þessu skefjalausa tapi að þeir sæti fullri ábyrgð og segi starfi sínu lausu.

 

 

Það liggur einnig fyrir samkvæmt rannsóknarskýrslunni að heildarskuldbindingar lífeyrissjóðs Festu eru neikvæðar sem nemur tæpum 13 milljörðum eða með öðrum orðum eignir umfram skuldbindingar eru neikvæðar um 9,9%. Formaður hefur verið að skoða alla sjóði sem tilheyra Alþýðusambandi Íslands á hinum almenna vinnumarkaði og lítur staðan þannig út að þessum 9 sjóðum sem tilheyra ASÍ vantar tæpa 200 milljarða til að geta staðið við sínar skuldbindingar. Sjá töflu varðandi Festu hér að neðan.

 

 

Það verður innan skamms fundur þar sem forstjóri lífeyrissjóðs Festu mun gera stjórn og trúnaðarráði félagsins grein fyrir þessari skelfilegu stöðu sem upp er komin í sjóði sem félagsmenn Verkalýðsfélags Akraness tilheyra. En eins og áður sagði þá er þetta eitthvað sem hinn almenni sjóðsfélagi getur ekki undir nokkrum kringumstæðum sætt sig við enda hefur félagið margoft gagnrýnt ýmislegt er lítur að lífeyrissjóðunum, meðal annars stjórnarkjör í sjóðunum en félagið hefur lagt fram tillögu á ársfundi ASÍ 2009 um algjöra uppstokkun við stjórnarval þar sem sjóðsfélagarnir sjálfir myndu kjósa alla stjórnarmenn í sjóðina. En á óskiljanlegan hátt var þessi tillaga felld á ársfundinum með 80% atkvæða. Það þarf algjöra uppstokkun á þessu kerfi og því er mikilvægt að Alþingi Íslendinga fari í óháða rannsókn á sjóðunum, skoði meðal annars fjárfestingar og tengsl atvinnulífsins og verkalýðshreyfingarinnar við hinar ýmsu fjárfestingar og komi með tillögur að úrbótum með hagsmuni sjóðsfélaga að leiðarljósi. Það liggur fyrir núna að ávinningur sjóðsfélaga af því að greiða í lífeyrissjóð er sáralítill sökum tekjutengingar við Tryggingastofnun og þetta er eitt af því sem klárlega þarf að skoða og koma með úrbætur á enda var það ekki hlutverk lífeyrissjóðanna að þurrka út greiðslur frá Tryggingastofnun.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image