• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
Fundað var í gær um starfsemi lífeyrissjóðanna í grasrótarmiðstöðinni Eygló Harðardóttir
17
Feb

Fundað var í gær um starfsemi lífeyrissjóðanna í grasrótarmiðstöðinni

Formanni félagsins var boðið að sitja fund um lífeyrissjóðina í grasrótamiðstöðinni í Reykjavík í gær en fundurinn var haldinn á vegum Hreyfingarinnar.  Þeir sem voru í pallborði voru Eygló Harðardóttir, þingmaður Framsóknarflokksins og Benedikt Sigurðsson frá Akureyri, sem hefur látið mikið til sín taka í málefnum lífeyrissjóðanna og verðtryggingarinnar. Einnig var Margrét Tryggvadóttir, þingmaður Hreyfingarinnar í pallborði sem og Ragnar Þór Ingólfsson, stjórnarmaður í VR.

Þetta var mjög skemmtilegur fundur og stóð hann í rúma tvo klukkutíma en auk framsagna hjá Eygló Harðardóttur og Benedikt Sigurðssyni voru fjölmargar fyrirspurnir úr sal um starfsemi lífeyrissjóðanna og nýútkomna skýrslu þar sem fram kemur að tap lífeyrissjóðanna nam tæpum 500 milljörðum króna. Eygló fór yfir frumvarp sem hún ásamt fleiri þingmönnum eru að leggja fram um rannsókn á lífeyrissjóðunum en rétt er að geta þess að þess konar rannsókn var frestað á sínum tíma vegna þess að lífeyrissjóðirnir sjálfir tóku ákvörðun um að hefja rannsókn á starfsemi lífeyrissjóðanna. Í máli Eyglóar kom fram að Alþingi hafi þá verið búið að samþykkja 63-0 að skipa rannsóknarnefnd um starfsemi lífeyrissjóðanna og hefði sú rannsókn átt að ná allt aftur til 1997. Það kom einnig fram í hennar máli að þessi rannsókn sem lífeyrissjóðirnir stóðu fyrir ætti ekki að verða þess valdandi að Alþingi ætti að hætta við að rannsaka sjóðina eins og búið var að samþykkja. Á þeirri forsendu ætlar hún að leggja áðurnefnt frumvarp fram á Alþingi. Benedikt hélt erindi um það að fækka og breyta lífeyrissjóðunum niður í einn og var þetta afar athyglisvert erindi hjá honum og ljóst að þessar hugmyndir hans er vert að skoða nánar.

Fram kom í máli formanns VLFA að mjög mikilvægt sé að þessi rannsókn verði samþykkt á Alþingi því það er fjölmargt sem enn á eftir að rannsaka til hlítar er lítur að fjárfestingum sjóðanna, boðsferðum og öðru slíku og það kom fram hjá formanni að hann hafi orðið fyrir miklum vonbrigðum í gær þegar hann fylgdist með Alþingi en þá var að heyra á nokkrum þingmönnum að þeir teldu litla ástæðu til þess að fara í slíka rannsókn. Það er mjög mikilvægt að klára þetta mál með afgerandi hætti þar sem kafað verður ofan í starfsemi lífeyrissjóðanna af fullum þunga því þeirri tortryggni og því vantrausti sem nú ríkir gagnvart lífeyrissjóðunum verður að eyða í eitt skipti fyrir öll og mikilvægt er að þessi nefnd sem til stendur að skipa komi með tillögur til úrlausnar á sjóðunum.

Það er undarlegt að sjá og heyra að lífeyrissjóðirnir kappkosta að segja almenningi að lífeyrissjóðirnir eigi 2000 milljarða í eignum en á sama tíma greina þeir ekki frá því að þá vantar samkvæmt ársreikningum 2010 uppundir 700 milljarða til að geta staðið við sínar skuldbindingar. Lífeyrissjóði innan ASÍ vantaði 195 milljarða árið 2009 til að geta staðið við sínar skuldbindingar en eftir að hafa verið búnir að skerða réttindaávinnslu og áunnin réttindi þá náðu þeir að laga tryggingafræðilega stöðu sína niður í tæpa 120 milljarða. Með öðrum orðum, það vantar 120 milljarða til að lífeyrissjóðir innan ASÍ geti staðið við sínar skuldbindingar.

Það er svo náttúrulega alveg kapítuli útaf fyrir sig varðandi opinberu sjóðina en þar vantar hjá LSR rúma 440 milljarða til að þeir geti staðið við sínar skuldbindingar en A deildinni vantar rúma 47 milljarða, B deildinni 351 milljarð og lífeyrissjóð hjúkrunarfræðinga 42 milljarða króna.

Þessu til viðbótar er staða lífeyrissjóða sveitarfélaga og er þá ekki verið að tala um LSS heldur lífeyrissjóði sem voru lokaðir 1998 og virka eins og B deild LSR en þar vantar uppundir 50 milljarða til að þeir geti staðið við sínar skuldbindingar. Það er morgunljóst að þessi gríðarlegi halli á opinberu sjóðunum mun skella af fullum þunga á skattgreiðendum áður en langt um líður. Því verður að taka á þessu kerfi og endurstilla það í eitt skipti fyrir öll og þetta þarf að vera eitt af þeim verkefnum sem þessi rannsóknarnefnd þarf að skoða og koma með tillögur um.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image