• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
29
Dec

Hagsmunir sjómanna og fiskvinnslufólks verði hafðir að leiðarljósi í nýju fiskveiðistjórnunarkerfi

AkraneshöfnAkraneshöfnÍ gær var haldinn aðalfundur sjómannadeildar Verkalýðsfélags Akraness. Á dagskrá fundarins var meðal annars að kjósa í stjórn sjómannadeildar og ein breyting varð í stjórn deildarinnar en Guðlaugur Elís Jónsson, skipverji á Ingunni AK, kom inn í stjórnina. 

Það sem bar hæst á fundinum var eðli málsins samkvæmt kjaradeila sjómanna við LÍÚ en nú er að verða liðið eitt ár frá því að kjarasamningur sjómanna rann út. Sáralitlar viðræður hafa átt sér stað á milli Sjómannasambands Íslands, sem fer með samningsumboð fyrir hönd félagsins, og LÍÚ. Ástæðan er einföld, Friðrik J. Arngrímsson, framkvæmdastjóri LÍÚ hefur gefið það út að á meðan óvissa ríki um fiskveiðistjórnunarkerfið verði ekki samið við sjómenn. Þetta er að mati fundarmanna algjörlega óásættanlegt, að halda kjarasamningum sjómanna í herkví vegna ágreinings útgerðarmanna við stjórnvöld.  Hins vegar voru fundarmenn sammála um það að það sé ámælisvert af stjórnvöldum hversu lengi það hefur dregist að leggja fram breytingar á fiskveiðistjórnunarkerfinu og lögðu fundarmenn ríka áherslu á það að í fyrirhuguðum breytingum á fiskveiðistjórnunarkerfinu verði hagsmunir sjómanna og fiskvinnslufólks algjörlega hafðir að leiðarljósi við þær breytingar.

Fundarmenn fordæmdu einnig stjórnvöld fyrir að afnema sjómannaafsláttinn í þrepum eins og nú er verið að gera enda er sjómannaafslátturinn búinn að vera hluti af kjörum sjómanna í tugi ára og því munu sjómenn alls ekki sætta sig við að sjómannaafslátturinn verði þurrkaður út án þess að sambærilegar bætur komi í staðinn fyrir hann. Það er með ólíkindum ef sjómenn eiga að vera eina stéttin í þessu landi sem til að mynda á ekki rétt á skattfrjálsum dagpeningum eins og allar aðrar stéttir þessa lands eiga rétt á.

Það kom einnig fram hjá sjómönnum að það verði að finna ásættanlega aðferðafræði við verðlagningu á öllum fiski, þar með talið uppsjávarfiski, en sjómönnum finnst oft á tíðum það afar undarlegt hvernig útgerðin hefur fengið að komast upp með að verðleggja sínar afurðir á hverjum tíma fyrir sig. Það verður ekki gengið frá kjarasamningum nema þessir hlutir verði komnir í ásættanlegt horf.

Það er náttúrulega eins og áður hefur komið fram algjörlega með ólíkindum að sjómenn skuli vera búnir að vera samningslausir í heilt ár. Rétt er samt að geta þess að kauptrygging hækkaði um 4,25% í sumar og er það í raun og veru það eina sem hefur gerst í þessum kjaraviðræðum. En nú er farið að gæta óþreyju hjá sjómönnum um að fara að klára þennan kjarasamning og skorar sjómannadeild Verkalýðsfélags Akraness á LÍÚ að setjast nú niður með sjómönnum og ganga frá nýjum kjarasamningi hratt og vel.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image