• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
14
Jun

3,5% hækkun lífeyrisréttinda má alls ekki fara inn í samtrygginguna

Á síðasta föstudag var haldinn formannafundur Starfsgreinasambands Íslands á Akranesi og voru fjölmörg mál þar til umfjöllunar. Eitt stærsta málið sem var til umræðu var stefnumótun ASÍ í lífeyrismálum en það var hlutverk fundarins að fara yfir hver stefna SGS væri í þessu máli. Verkalýðsfélag Akraness fór yfir drög að stefnumótun ASÍ í lífeyrismálum og hefur skilað inn athugasemdum vegna þeirra.

Formaður lét það koma skýrt fram á fundinum að VLFA vill að gerð verði allsherjar skoðanakönnun á meðal félagsmanna innan ASÍ um stefnu ASÍ í lífeyrissjóðsmálum. Því það verða að vera sjóðsfélagarnir sjálfir sem móta þessa stefnu en ekki fámennur hópur forystumanna stéttarfélaganna eins og margt bendir til að verði raunin. Í bréfi frá ASÍ er sagt að það sé almennur vilji á meðal félagsmanna ASÍ að lífeyrissjóðskerfið sé á ábyrgð aðila vinnumarkaðarins eða það er að segja Samtaka atvinnulífsins og verkalýðshreyfingarinnar. En eins og allir vita þá er lífeyrissjóðskerfið byggt upp á kjarasamningum þessara aðila og skipta þeir með sér stjórnarsætum til helminga.

Það var fjölmargt sem VLFA gerði athugasemdir við eins og til dæmis varðandi það að félagið vill að hætt verði með þessi helmingaskipti á stjórnarsætum atvinnurekenda og verkalýðshreyfingarinnar og að atvinnurekendur víki alfarið úr stjórnum sjóðanna. Félagið vill að sjóðsfélagarnir sjálfir kjósi alla stjórnarmennina enda eru lífeyrissjóðirnir eign sjóðsfélaga og það er þeirra að gæta síns eigins fjár. Einnig gerði félagið athugasemdir við það að stefnt er að því í þessum drögum að hækka framlag í lífeyrissjóð úr 12% í 15,5% á næstu árum og vilja menn skýla sér á bakvið þessa hækkun með því að segja að hér sé um jöfnun að ræða á lífeyrisréttindum við opinbera starfsmenn. Formaður sagði að hann myndi berjast með kjafti og klóm fyrir því að þetta yrði ekki að veruleika, einfaldlega vegna þess að ef menn ætla að tala um jöfnun við lífeyrisréttindi opinberra starfsmanna þá þarf að koma ríkisábyrgð á lífeyrisréttindi á hinum almenna vinnumarkaði með sambærilegum hætti og er hjá opinberum starfsmönnum. En slíkt er ekkert verið að tala um, einungis að hækka prósentuna úr 12% í 15,5% og í huga formanns mun þetta leiða til þess að almennu sjóðirnir munu ná niður tryggingafræðilegum halla en það er engin trygging fyrir því að þessi aukahækkun myndi leiða til jöfnunar lífeyrisréttinda. Formaður sagði einnig að ef menn vilja hækka lífeyrisiðgjöld þá sé miklu nær að þessi 3,5% hækkun komi sem séreign en fari alls ekki inn í samtrygginguna enda er það mat formanns að sáralítill stuðningur sé á meðal hins almenna félagsmanns við þá ákvörðun.

Formaður vildi að gerð yrði könnun á meðal hinna almennu sjóðsfélaga innan ASÍ um hvora leiðina sjóðsfélagar myndu vilja fara, það er að segja hvort 3,5% hækkun lífeyrisréttinda eigi að fara í samtrygginguna eða séreignina. Formaður vildi einnig að hinn almenni sjóðsfélagi yrði spurður að því hvernig stjórnarkjörum ætti að vera háttað í lífeyrissjóðskerfinu og hvort menn myndu vilja sjá breytingu með þeim hætti að sjóðsfélagarnir sjálfir kjósi sér alla sína stjórnarmenn. Því miður er æði margt sem bendir til þess að æðsta forysta verkalýðshreyfingarinnar sé ekki tilbúin til að framkvæma slíka skoðanakönnun. Það er gríðarlega mikilvægt að hinn almenni sjóðsfélagi láti sig málefni lífeyrissjóðanna varða og komi í veg fyrir að þessi hækkun sem um er rætt fari inn í samtrygginguna eins og margt bendir til að aðilar vinnumarkaðarins ætli sér að gera.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image