• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
29
Jun

Hagsmunagæsla VLFA hefur skilað uppundir 50 milljónum á síðustu mánuðum

Það er óhætt að segja að hagsmunagæsla Verkalýðsfélags Akraness sé búin að skila hluta starfsmanna Norðuráls umtalsverðum ávinningi á síðustu mánuðum. Eins og fram kom hér á heimasíðunni í desember á síðasta ári þá gekk félagið frá samkomulagi við forsvarsmenn Norðuráls vegna ágreinings er laut að bónusgreiðslum til afleysingastarfsmanna. 230 starfsmenn sem um ræðir fengu leiðréttingu vegna þess máls og nam sú leiðrétting tæpum 13 milljónum króna.

Fyrir skemmstu kom Verkalýðsfélag Akraness með ábendingu til forsvarsmanna Norðuráls vegna orlofsmála afleysingamanna en það var mat félagsins eftir að hafa skoðað málið ítarlega að ekki væri verið að uppfylla þann kjarasamning sem í gildi er. Forsvarsmenn Norðuráls skoðuðu málið og í fyrstu hafnaði lögmaður Norðuráls ábendingum Verkalýðsfélags Akraness. Síðan breyttu þeir þeirri ákvörðun sinni og féllust á öll rök félagsins sem leiðir til þess að fyrirtækið mun endurgreiða þeim starfsmönnum sem um ræðir leiðréttingu vegna svokallaðra rauðra daga fjögur ár aftur í tímann. Þessi leiðrétting gildir fyrir þá sem hafa verið lausráðnir og einnig sumarstarfsfólk. Samkvæmt upplýsingum sem félagið hefur fengið þá er áætlað að þessi leiðrétting verði ekki undir 30 milljónum króna þannig að hagsmunagæsla VLFA hefur skilað starfsmönnum Norðuráls vel á fimmta tug milljóna á liðnum mánuðum. Verið er að vinna í leiðréttingunni vegna orlofsmála afleysingamanna og vonast formaður til að leiðréttingin muni skila sér til þeirra sem hlut eiga að máli innan nokkurra vikna. En ljóst er að það liggur fyrir mikil vinna hjá launadeildinni við að reikna og finna út hverjir eiga rétt á leiðréttingu og einnig hversu mikil leiðréttingin er.  

Það er stefna Verkalýðsfélags Akraness að verja og fylgjast vel með að öll þau réttindi sem félagsmenn félagsins eiga skili sér til þeirra og það er hvergi hvikað í þeirri mikilvægu baráttu.  

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image