• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
22
Jun

Kjarasamningsbrot og svört atvinnustarfsemi algeng í ferðaþjónustunni

Í fréttum í gær kom fram að nú stefnir í metár í ferðaþjónustu á Íslandi og í fyrsta sinn gæti ferðaþjónusta staðið jafnfætis sjávarútvegi og orkufrekum iðnaði í gjaldeyristekjum og hlutfalli af landsframleiðslu.

Það er óhætt að segja að þetta séu afar jákvæð tíðindi að ferðaþjónustan sé farin að skila jafn miklum gjaldeyristekjum og sjávarútvegurinn og stóriðjan enda byggjum við Íslendingar okkar velferðarkerfi upp á því að skapa gjaldeyristekjur.

Það er hins vegar dapurlegt til þess að vita að þessi mikli uppgangur í þessari atvinnugrein hefur ekki verið að skila sér til þeirra sem starfa í greininni, enda er það bláköld staðreynd að launakjörin í þessari grein eru umtalsvert lakari en í orkufrekum iðnaði og í sjávarútvegi. Það er ekki bara að launakjörin séu lakari heldur eru kjarasamningsbrot gagnvart starfsfólki hvergi algengari en í þessari atvinnugrein.  Á formannafundi Starfsgreinasambands Íslands sem haldinn var á Akranesi fyrir skemmstu voru málefni ferðþjónustunnar til umfjöllunar og komu fram á fundinum áhyggjur formanna af því hversu algengt það er að verið sé að svíkja starfsfólk í greininni hvað varðar kjör og önnur kjarasamningsbundin réttindi. 

Það er einnig rétt að rifja upp átaksverkefnið sem Ríkisskattstjóri, ASÍ og SA stóðu að vegna svartrar atvinnustarfsemi fyrir nokkru síðan. Niðurstöður úr þessu átaksverkefni sýndu ákveðnar vísbendingar um að ástandið sé einna verst í hótel- og veitingaþjónustu hvað varðar svarta atvinnustarfsemi. Tap þjóðarbúsins vegna svartrar atvinnustarfssemi nemur 13,8 milljörðum á ári.

Það er morgunljóst að þetta ástand í ferðaþjónustunni er algjörlega ólíðandi, að ekki sé verið að fara eftir þeim leikreglum sem gilda á íslenskum vinnumarkaði og gildir það bæði hvað varðar svarta atvinnustarfsemi og kjarasamningsbrot gagnvart starfsmönnum.

Að sjálfsögðu gildir þetta alls ekki um alla sem starfa í ferðaþjónustunni og margir koma vel fram við sína starfsmenn.  Þessi svarta atvinnustarfsemi og kjarasamningsbrot grafa undan samkeppni þeirra sem starfa heiðarlega og fara eftir þeim leikreglum sem gilda á íslenskum vinnumarkaði.

Það er hlutverk skattayfirvalda og verkalýðshreyfingarinnar að sjá til þess að þessi atvinnugrein skili því til samfélagsins sem henni ber. Það er gríðarlega mikilvægt að ferðaþjónustan sem hagnast um þessar mundir eins og enginn sé morgundagurinn skili þeim ávinningi til þeirra starfsmanna sem starfa í þessari einni mikilvægustu atvinnugrein okkar Íslendinga, en það er hún ekki að gera um þessar mundir alla vega ekki í öllum tilfellum, því miður.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image