• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
Krafan er að Festa lífeyrissjóður fjárfesti ekki í Eimskip Forstjóri Eimskips hefur ástæðu til þess að brosa
07
Jun

Krafan er að Festa lífeyrissjóður fjárfesti ekki í Eimskip

Það er ótrúlegt að nú mætti halda að árið 2007 sé skella aftur á af fullum þunga, en eins og fram kom í fréttum Stöðvar 2 í gær þá var upplýst að lykilstjórnendum Eimskipafélagsins mun bjóðast að eignast hluti í félaginu á umtalsvert lægra gengi en reiknað er með að verði fyrir hendi þegar félagið verður skráð á markað í september. Heildarhlutur þeirra gæti orðið milljarða virði og fram kemur í fréttinni að lykilstjórnendur þurfi ekki  að greiða krónu fyrir kaupréttina og fái hundruð milljóna á silfurfati.

Formaður VLFA verður að viðurkenna að honum er algerlega misboðið og það er morgunljóst að núna verður íslenska þjóðin að segja hingað og ekki lengra gagnvart fyrirtækjum sem haga sér með þessum hætti. Rétt er að rifja upp að kröfuhafar töpuðu í það minnsta 117 milljörðum vegna gjaldþrots Eimskips en varlega áætlað má gera ráð fyrir að lífeyrissjóðir launafólks hafa tapað rúmum 15 milljörðum vegna Eimskips.  Svo ætla þessir snillingar að koma núna og segja að rekstur Eimskips gangi svo vel að mikilvægt sé að lykilstjórnendum verði umbunað með kaupréttarsamningum. Mikilvægt er að hafa í huga að staða Eimskips er ekki góð núna vegna viðskiptasnilli þessara manna heldur er hún tilkomin að hluta til vegna þess að kröfuhafar og þar á meðal íslenskt launafólk tapaði milljörðum vegna gjaldþrots fyrirtækisins.

Formaður félagsins hafði samband við framkvæmdastjóra lífeyrissjóðs Festu áðan, en Festa er sá lífeyrissjóður sem félagsmenn mínir í Verkalýðsfélagi Akraness greiða í.  Formaður tjáði honum að Verkalýðsfélag Akraness geri þá skýlausu kröfu að lífeyrissjóðurinn Festa fjárfesti ekki fyrir eina krónu í þessu fyrirtæki þegar Eimskip fer á markað í september, ef þessi gjörningur um milljarða gjöf til lykilstjórnenda Eimskips verður að veruleika.

Það er þyngra en tárum taki að verða vitni að menn hafi ekki sterkara viðskiptasiðferði í ljósi þeirra staðreynda að Eimskip hefur skilið eftir sig slóð eyðileggingar þegar horft er til þess að kröfuhafar töpuðu 117 milljörðum vegna gjaldþrots fyrirtækisins.  Því til viðbótar hafa sjóðsfélagar þurft að sæta skerðingum á sínum lífeyri vegna 15 milljarða taps sjóðanna á fyrirtækinu.

Það er morgunljóst að formaður Verkalýðsfélags Akraness mun aldrei sætta sig við að fjármunum sinna félagsmanna verði varið í hlutbréfakaup í þessu fyrirtæki ef þetta verður ekki dregið til baka en sjóðsfélagar Festu lífeyrissjóðs töpuðu 500 milljónum vegna gjaldþrots Eimskips. 

Við stjórnendur Eimskips vill formaður félagsins segja: Þið ættuð að skammast ykkar að misbjóða íslenskri þjóð með þessari græðgi ykkar en alþýða þessa lands er blóðug upp fyrir axlir við að reyna að vinna sig útúr þeim vanda sem stjórnendur í mörgum fyrirtækjum innan atvinnulífsins komu almenningi í vegna þeirra græðgivæðingar sem var búin að skjóta rótum í íslensku atvinnulífi.  En núna mun íslenska þjóðin ekki láta ykkur endurtaka leikinn, svo mikið er víst.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image