• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
25
Jul

Félagsmenn duglegir að nýta réttindi sín

Það er óhætt að segja að félagsmenn Verkalýðsfélags Akraness séu duglegir að nýta sér þjónustu félagsins og sækja um þá styrki sem þeim bjóðast úr sjóðum félagsins. Það sem af er þessu ári hafa greiðslur úr sjúkrasjóði aukist um 18,7% miðað við sama tímabil í fyrra. Þessar greiðslur eru t.d. sjúkradagpeningar, heilsueflingarstyrkir, gleraugnastyrkir, fæðingarstyrkir, styrkir vegna sjúkraþjálfunar, heilsufarsskoðana, sálfræðiþjónustu og göngugreiningar.

Mestu munar um aukningu í fæðingarstyrkjum en þeir jukust um 195% á tímabilinu. Þess ber að geta að þann 1. janúar 2012 hækkaði fæðingarstyrkurinn úr kr. 35.000 í kr. 70.000. Þar sem félagsmenn eiga sjálfstæðan rétt til styrksins nemur styrkur vegna fæðingar barns sem á báða foreldra í félaginu kr. 140.000. Einnig eru félagsmenn mun duglegri að sækja um styrk vegna heilsufarsskoðana, en aukningin þar er 91%.

Af öðrum liðum í þjónustu félagsins má nefna að það sem af er sumri hafa selst yfir 250 Veiði- og Útilegukort á skrifstofu félagsins. Verður það að teljast góð ásókn, en hver félagsmaður getur aðeins keypt eitt kort af hvoru. Allt árið í fyrra seldust 215 kort.

Styrkir til félagsmanna úr þeim fræðslusjóðum sem VLFA á aðild að hefur einnig aukist og eru 31,6% hærri fyrstu sex mánuði þessa árs miðað við sama tímabil í fyrra.

Þessi þróun er í takt við fjölgun virkra félagsmanna, aukningu í félagsgjöldum og átak sem félagið hefur gert í kynningu á þjónustu félagsins. Það er mikilvægt að félagsmenn þekki rétt sinn, en allar upplýsingar er að finna hér á heimasíðunni. Verður það að teljast mjög jákvætt að félagsmenn nýti það sem þeim býðst, því það hefur alltaf verið markmið félagsins að láta félagsmenn njóta góðs af því þegar vel gengur og það á svo sannarlega við þessi misserin.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image