• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
Fréttir

Fréttir

07
May

Félagsmenn VLFA fá afslátt af ársmiðum á heimaleiki ÍA í Pepsideildinni

Félagsskírteini VLFA veitir félagsmönnum þess ýmsa afslætti eins og sjá má hér á heimasíðunni. Nú var félagið enn að bæta við þau kjör sem bjóðast félagsmönnum með því að gera samning við Knattspyrnufélag ÍA um kaup á  ársmiðum sem gilda á alla heimaleiki Skagamanna í Pepsideildinni í sumar. Hægt er að velja um þrennskonar ársmiða - Brons, Silfur og Gull. Ársmiðarnir gilda allir á alla heimaleiki í Pepsideild karla en misjafnt er hvað er innifalið þess utan. Innifalinn í öllum ársmiðunum er stuðningsmannafundur með þjálfara liðsins, leikmönnum og stjórn. Þegar komið er yfir í Silfurmiðann bætist til dæmis við kaffi og meðlæti í öllum hálfleikjum en með Gullmiðanum fylgir einnig aðgangur að VIP fundum fyrir leiki þar sem þjálfari liðsins fer yfir leikinn og tölfræðina og núverandi og fyrrverandi leikmenn mæta á svæðið.

Félagsmenn VLFA geta fengið afslátt af ársmiðunum gegn framvísun félagsskírteinis og eru miðarnir til sölu á skrifstofu KFÍA sem og í gegnum netfangið This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. og í síma 4331109.

Afsláttur fyrir félagsmenn er sem hér segir:

 

Brons

Silfur

Gull

Félagsmenn VLFA

9.000

18.000

30.000

Almennt verð

11.000

24.000

40.000

VLFA hvetur félagsmenn sína til að mæta á völlinn í sumar og styðja við bakið á Skagamönnum.

03
May

Endurúthlutun á mánudaginn - síðasti séns að vera með

Í gær var síðasti dagur fyrir þá sem fengu úthlutað orlofshúsi í fyrri úthlutun til að ganga frá greiðslu leigu. Nú er búið að losa allar ógreiddar bókanir og eftir standa 50 lausar vikur. Næstkomandi mánudag fer fram endurúthlutun og þá verður þessum lausu vikum úthlutað til þeirra sem ekki fengu úthlutað í fyrri úthlutun, auk þess sem hægt er að leggja inn nýjar umsóknir í dag og á Félagavefnum um helgina.

Þeir sem ekki fengu úthlutað í fyrri úthlutun eru sjálfkrafa með í endurúthlutuninni á mánudaginn og heimilt er að breyta þeim umsóknum áður en til endurúthlutunar kemur. Þeim sem ætla að sækja um eða breyta umsókn sinni á Félagavefnum er bent á að velja Orlofshús - Bókanir, þær vikur sem eru með í endurúthlutun eru merktar "Laust".

Hér mé sjá lista yfir þær vikur sem gengu af og eru lausar til endurúthlutunar.

03
May

Útskrift úr stóriðjuskólanum í gær

Í kjarasamningum  VLFA við Norðurál árið 2011 var samið við forsvarsmenn fyrirtækisins um stóriðjuskóla fyrir starfsmenn þess en það hafði verið baráttumál starfsmanna um alllanga hríð. Grunnnám stóriðjuskólans er þrjár annir og gefur þeim starfsmönnum sem því ljúka launahækkun upp á 5%. Framhaldsnám skólans mun svo gefa 4% til viðbótar. Í stóriðjuskólanum öðlast starfsmenn aukna færni og þekkingu á lykilferlum við örugga og hagkvæma framleiðslu á áli. Þannig er það bæði hagur starfsmanna og fyrirtækisins að hafa þetta nám innan Norðuráls.

Í gær útskrifaðist fyrsti hópurinn úr stóriðjuskólanum en það var 31 starfsmaður sem lokið hafði grunnnáminu. Af því tilefni var glæsileg útskriftarathöfn haldin í Norðuráli og mega forsvarsmenn fyrirtækisins vera stoltir af allri umgjörð í kringum útskriftina enda skein mikil ánægja úr andlitum ústkriftarnema. Stjórn Verkalýðsfélags Akraness sendir þeim sem útskrifuðust í gær innilegar hamingjuóskir með þennan glæsilega áfanga.

03
May

Gríðarlega jákvæðar fréttir - hvalveiðar hefjast að nýju

Gríðarlega jákvæð tíðindi bárust í dag hvað atvinnumál varðar en forstjóri Hvals hf tilkynnti að hvalveiðar og vinnsla myndu hefjast í sumar eftir 2 ára hlé. Það liggur fyrir að allt að 150 manns muni fá atvinnu tengda þessum veiðum sem skiptir gríðarlega miklu máli fyrir okkur Akurnesinga og nærsveitir og reyndar samfélagið í heild sinni. Það hefur verið slegist um að fá störf hjá Hval þegar vertíðin stendur yfir enda eru tekjumöguleikarnir umtalsverðir í ljósi þess að unnið er á sólarhringsvöktum yfir vertíðina. Sem dæmi voru meðallaun í vinnslunni yfir 700 þúsund krónur á vertíðunum árin 2009 og 2010 og þessar miklu tekjur skila sér svo sannarlega inn í samfélagið bæði hvað varðar útsvarstekjur fyrir sveitarfélögin og ekki síður hvað varðar verslun og þjónustu.

Þetta skiptir reyndar þjóðarbúið allt gríðarlega miklu máli enda er mikilvægt fyrir almenning í þessu landi að átta sig á því að við höldum úti okkar velferðarsamfélagi með því að skapa gjaldeyristekjur og það eru fyrirtæki eins og Hvalur sem svo sannarlega gera okkur kleift að halda hér úti löggæslu og öflugri heilsugæslu. Við þurfum fyrirtæki sem skapa íslenskri þjóð gjaldeyri og af þeirri ástæðu fagnar formaður VLFA því innilega að hvalveiðar muni hefjast að nýju í sumar. Formaður VLFA lítur á hvalveiðarnar sem vistvæna stóriðju enda eru eins og áður sagði uppundir 150 manns sem hafa atvinnu af þessari starfsemi yfir hávertíðina.

02
May

Vel heppnuð hátíðarhöld vegna 1. maí á Akranesi

Um 200 manns tóku þátt í hátíðarhöldum vegna 1. maí á Akranesi í gær. Dagskráin hófst með kröfugöngu kl. 14:00, og annaðist Skólahljómsveit Akraness hljóðfæraleik í göngunni af miklum myndarskap.

Að göngu lokinni safnaðist fólk saman á Kirkjubraut 40, þar sem hátíðar- og baráttufundur var settur. Vilhjálmur Birgisson, fundarstjóri, ávarpaði fundinn og kynnti ræðumann dagsins, Regínu Ásvaldsdóttur bæjarstjóra Akraness. Regína kom víða við í ræðu sinni, rifjaði upp hvað áunnist hefur í verkalýðsbaráttunni hér á landi og minntist þess hversu mikið fólk hefur lagt á sig aukalega frá hruni til að halda öllu gangandi, í þeirri von að það væri tímabundið. Nú, fimm árum síðar, væri komið að þolmörkum hjá mörgum starfsstéttum eftir viðvarandi niðurskurð og aðrar hagræðingar. Góður rómur var gerður að ræðu bæjarstjórans, og er hana að finna í heild sinni hér.

Milli ávarpa sá kvennatríóið Stúkurnar um tónlistarflutning og sungu þær nokkur lög. Að venju sameinuðust fundargestir í fjöldasöng í lok dagskrár og sungu Maístjörnuna og Internasjónalinn. Það var Lionsklúbburinn Eðna sem sá um glæsilegar kaffiveitingar sem fundargestum var boðið upp á að dagskrá lokinni.

Myndir frá hátíðarhöldunum eru komnar á heimasíðuna, og er þær að finna hér.

01
May

Fréttabréf VLFA er komið út

Fréttabréf Verkalýðsfélags Akraness er komið út og verður dreift til allra heimila og fyrirtækja á Akranesi og í nágrenni í vikunni. Þeir félagsmenn sem búa utan póstnúmera 300 og 301 fá fréttabréfið sent heim til sín.

Hægt er að lesa fréttabréfið með því að smella hér. Undir hnappinum "Fréttabréf" hér hægra megin á síðunni má sjá öll Fréttabréf Verkalýðsfélags Akraness frá upphafi

24
Apr

Velferðarráðherra í heimsókn á skrifstofu félagsins

Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra kom í dag í heimsókn á skrifstofu félagsins og átti gott spjall við formann félagsins þar sem æði margt bar á góma. Eðli málsins samkvæmt ræddu þeir mikið um skuldamál heimilanna og verðtrygginguna sem og um stöðu öryrkja og lífeyrisþega. Þeir voru sammála í mörgu, en greindi á í öðrum málum. Guðbjartur hefur verið nokkuð iðinn við að koma á skrifstofu félagsins á liðnum árum og kann félagið honum bestu þakkir fyrir það. Það er ætíð gott að ræða við Guðbjart og skiptast á skoðunum við hann, enda er hann rólegur, yfirvegaður og hreinskiptinn í öllum sínum samskiptum. 

Formaður nefndi það við Guðbjart að mikilvægt hefði verið að taka strax á skuldavanda heimilanna í kjölfar hrunsins með því að frysta vísitölu neysluverðs, og upplýsti formaður að eitt aðal baráttumál Verkalýðsfélags Akraness hefur verið afnám verðtryggingar og að forsendubrestur heimilanna verði leiðréttur. Nefndi formaður sem dæmi að félagið hefur lagt fram ályktanir og tillögur á þingum ASÍ sem því miður fengu ekki brautargengi.

Það er alveg ljóst að Guðbjartur hefur staðið sig með miklum sóma í sínu starfi sem velferðarráðherra og komið mörgum góðum málum til lykta, þótt alltaf megi gera betur í hinum ýmsu málum. En formaður ítrekaði mikilvægi þess að taka þyrfti á skuldavanda heimilanna og afnema verðtryggingu á húsnæðislán sem væri búin að leika íslensk heimili skelfilega á undanförnum árum. Óskaði formaður Guðbjarti góðs gengis í komandi kosningum, nú þegar aðeins eru þrír dagar í kjördag.

24
Apr

Lífeyrir launafólks á almennum vinnumarkaði er vart verðtryggður

Aðalfundur Festu lífeyrissjóðs var haldinn á Grand hóteli í gær en Festa lífeyrissjóður er sá lífeyrissjóður sem félagsmenn Verkalýðsfélags Akraness eiga aðild að. Eins og margoft hefur komið fram hefur formaður félagsins gagnrýnt lífeyrissjóðina harðlega vegna stöðu þeirra og margoft hefur komið fram að lífeyrissjóðskerfið í heild sinni tapaði gríðarlegum upphæðum í kjölfar hrunsins eða sem nemur yfir 500 milljörðum króna. Tap sem má rekja til glórulausra fjárfestinga í atvinnulífinu en lífeyrissjóðirnir stigu trylltan dans með útrásinni fyrir hrun.

Það hefur komið fram í skýrslu frá Fjármálaeftirlitinu að lífeyrissjóðskerfið á hinum almenna vinnumarkaði hefur skert réttindi sinna sjóðsfélaga um 130 milljarða frá hruni til ársins 2011. Það er ljóst að ef árið 2012 yrði tekið með þá yrði þessi upphæð jafnvel mun hærri.

Á fundinum í gær kom fram að tryggingafræðileg staða Festu lífeyrissjóðs er neikvæð um 7% og vantar sjóðinn yfir 11 milljarða til að geta staðið við sínar framtíðarskuldbindingar. Á þeirri forsendu lagði stjórn sjóðsins fram tillögu um 4% skerðingu á lífeyrisréttindum sjóðsfélaga innan Festu lífeyrissjóðs. Brúttó skerðing sjóðsins er 15,1% frá hruni að teknu tilliti til þessarar 4% skerðingar sem samþykkt var í gær. Formaður sagðist ekki geta stutt þessar skerðingar þegar hann gerði grein fyrir afstöðu sinni en hann sagði jafnframt að það væri með ólíkindum að varðmenn verðtryggingarinnar héldu því hátt á lofti að lífeyrir launafólks á hinum almenna vinnumarkaði væri verðtryggður og svo kæmi fram á aðalfund sjóðsins 4% skerðing á lífeyrisréttindum sem er nánast sama hækkun og lífeyririnn hefði hækkað um á síðustu 12 mánuðum vegna verðtryggingarinnar.

Það er morgunljóst að lífeyrir á hinum almenna vinnumarkaði er ekki verðtryggður í ljósi þeirrar bláköldu staðreyndar að lífeyrissjóðirnir á hinum almenna vinnumarkaði hafa verið að skera réttindi sinna sjóðsfélaga niður eins og enginn sé morgundagurinn enda staðfestir skýrsla FME frá því í fyrra það illilega og er eins og áður sagði búið að skerða réttindi sjóðsfélaga á hinum almenna vinnumarkaði um 130 milljarða og ugglaust er sú tala mun hærri þegar árið 2012 er tekið með.

Stjórn Verkalýðsfélags Akraness hefur margoft fjallað um það að það þarf að endurskoða lífeyrissjóðskerfið í heild sinni, velta við öllum steinum og koma með tillögur til úrbóta í þessu kerfi því þar er alveg ljóst að kerfið er ekki að virka sem skyldi í ljósi áðurnefndra skerðinga sjóðsfélaga.  

23
Apr

Hafið þið skömm fyrir

Eins og hér hefur verið fjallað um á heimasíðunni að undanförnu hefur þróun verktakavæðingar Elkem Ísland haft afar neikvæð áhrif, en verktakavæðingin byrjaði árið 2000 með því að stofnuð voru dótturfélög í kringum hluta starfseminnar. Á þessum árum var mötuneytið, ræsting og þvottahús ásamt starfsemi á Grundartangahöfn komið fyrir í dótturfélögunum Klafa og Fangi, en starfsmenn sem þarna störfuðu voru áður í fullu starfi hjá Elkem Ísland.

Á þessum árum snerist baráttan um að tryggja að með þessari úthýsingu myndu þeir starsfmenn sem unnu áðurnefnd störf héldu öllum þeim launakjörum sem þeir höfðu þegar þeir voru starfsmenn Elkem, en í upphafi var Fang og Klafi í 100% eigu Elkem Ísland. Að mörgu leyti tókst að tryggja að launakjör sem starsfmennirnir höfðu áður fylgdu starfsmönnunum yfir, en frá því þessu úthýsing átti sér stað hefur slagurinn við að verja kjör þessa starfsfólks oft  verið blóðugur.

Það er lenska á íslenskum vinnumarkaði að ætíð þegar leita á hagræðingar og sparnaðar þá virðist það fyrsta sem kemur upp í huga stjórnenda að skera niður í ræstingu, mötuneyti og þvottahúsi. Þarna telja stjórnendur að ætíð sé að sækja mikla fjármuni til sparnaðar sem formanni finnst í raun og vera vera grátbroslegt. Það er ugglaust á þessari forsendu að forsvarsmenn Elkem Islands ákváðu þann 1. júlí 2009 að bjóða áðurnefnd störf út og ISS tók yfir rekstur Fangs frá þeim degi. Aftur hófst barátta VLFA við að verja þau kjör sem þessir starfsmenn höfðu áunnið sér og var það m.a. gert með fyrirtækjasamningi við ISS, enda hefur það verið viðurkennt að störf í stóriðjum hafa verið langtum betur borguð heldur en gengur og gerist á hinum almenna vinnumarkaði.

Núna gerðust hins vegar þeir sorglegu atburðir að ISS kveðst ætla að gera skipulagsbreytingar hvað þessi störf varðar, og þá sér í lagi í mötuneytinu. Þessar breytingar hafa þær skelfilegu afleiðingar að 5 starfsmönnum í mötuneytinu var í gær sagt upp störfum og þar af voru t.a.m. tveir starfsmenn með mikla starfsreynslu, en annar starfsmaðurinn var með 14 ára starfsreynslu í mötuneyti Elkem Ísland en hinn í 11 ár. Hinir þrír voru einnig með áralanga starfsreynslu hjá fyrirtækinu. Það er ömurlegt til þess að vita hvernig þessi verktakavæðing hefur leikið starfsmenn fyrirtækisins grátt á undanförnum árum, og er morgunljóst að félagið mun þurfa að beita öllum sínum kröftum til að verja kjör og atvinnuöryggi þeirra sem starfa á þessu svæði. Formaður vill ekki að ætla forsvarsmönnum ISS að reyna að lækka hjá sér launakostnað með því að segja svona reynslumiklum starfsmönnum upp störfum, en þó er rétt að geta þess að með því að segja þessum starfsmönnum upp þá sparar ISS sér allt að 22% vegna þess að umræddir starfsmenn eru komnir á 10 ára launataxta. En að sjálfsögðu velti maður því fyrir sér hvort þetta sé ein af ástæðunum, einfaldlega vegna þess að það á að ráða strax aftur í störf þeirra sem fengu uppsögn í gær.

Formaður Verkalýðsfélags Akraness vill segja við forsvarsmenn Elkem Ísland sem og forsvarsmenn ISS, hafið þið skömm fyrir þessar aðgerðir ykkar. Og það gagnvart fólki sem er búið að eyða sínum bestu starfsárum í þágu þessa fyrirtækis og lagt sig í líma við að þjónusta fyrirtækið eftir sinni bestu getu enda eru hér um úrvalsstarfsmenn að ræða og það geta allir starfsmenn Elkem Íslands sem hafa notið þjónustu þessara kvenna svo sannarlega vitnað um. Svona komum við ekki fram við íslenska launþega.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image